• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Hluti refsingar skilorðsbundinn og hluti óskilorðsbundinn
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 12. september 2018 í máli nr. S-205/2018:

 

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ragnari Haraldssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var tekið til dóms 15. ágúst 2018, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 30. apríl 2018, á hendur Ragnari Haraldssyni, kt. 000000-0000, [...]: ,,fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa að kvöldi laugardagsins 3. febrúar 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti um Víkurveg við Fjallkonuveg uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar. Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærum. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur árið 1981 og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2010. Við úrlausn þessa máls hefur áhrif að með sektargerð lögreglustjóra 19. september 2016 samþykkti ákærði greiðslu sektar og að sæta tveggja ára sviptingu ökuréttar vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2017 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (sviptur ökurétti), en með sama dómi var ákærða jafnframt gert að greiða sekt að fjárhæð 100.000 krónur. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 1. febrúar 2018 var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (sviptur ökurétti), en með dómnum var skilorðsdómurinn frá 28. september 2017 dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi. Ákærði var dæmdur í fimm mánaða fangelsi, en fjórum mánuðum refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára.

Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður skilorðshluti áðurnefnds dóms frá 1. febrúar 2018 tekinn upp og dæmdur með í máli þessu. Að því gættu og með vísan til þess sem áður segir um sakaferil ákærða þykir refsing hans samkvæmt fyrirmælum 77. gr. sömu laga hæfilega ákveðin sex mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir mega fresta fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 84.320 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Ragnar Haraldsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu fjögurra mánaða refsingarinnar og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði 84.320 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir