• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 21. september 2018 í máli nr. S-369/2018:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Magnúsi Jónssyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 17. september 2018, höfðaði héraðssaksóknari á hendur Magnúsi Jónssyni, kt. 000000-0000, Hverfisgötu 32, Hafnarfirði, með ákæru 9. ágúst 2018 

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 1. júlí 2017, við N1 hjólbarða-, smur- og bílaþjónustu, Reykjavíkurvegi 56, í Hafnarfirði, bitið í vinstra handarbak lögreglumannsins A og hótað honum og lögreglumanninum B, þar sem þau voru við skyldustörf, lífláti, með þeim afleiðingum að A hlaut vægan roða yfir beini á vinstri hendi og punktblæðingu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

II

Ákærði kom fyrir dóminn, játaði skýlaust sök og krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Kvaðst hann mjög iðrast brotsins og tók fram að hann hafi í umrætt sinn verið ofurölvi og muni ekkert eftir atvikum. Fær játning ákærða stoð í gögnum málsins og er ekki ástæða til að draga í efa að hún sé sannleikanum samkvæm. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæðis. Með vísan til 164. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, verður dómur lagður á málið án frekari sönnunarfærslu.

Ákærði er fæddur í [...] og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað.  Við ákvörðun refsingar verður til þess horft að ákærði beit í handarbak lögreglumanns og hótaði lögreglumönnum við skyldustörf lífláti. Til málsbóta horfir hins vegar að ákærði er ungur að árum og játaði skýlaust brot sitt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá kvaðst hann mjög iðrast árásar sinnar. Í ljósi þessa þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt yfirliti lögreglunnar nemur sakarkostnaður málsins 43.900 krónum, og er þar um að ræða kostnað vegna áverkavottorðs frá Landspítala vegna þess áverka sem hlaust af biti ákærða. Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til greiðslu þess kostnaðar.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Magnús Jónsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 43.900 krónur í sakarkostnað. 

 

Ingimundur Einarsson