• Lykilorð:
  • Dráttarvextir
  • Gjaldþrotaskipti
  • Greiðsla
  • Riftun
  • Riftunarmál þrotabúa

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 20. desember 2018 í máli nr. E-359/2018:

Þb. Stefáns Stefánssonar

(Börkur Ingi Jónsson lögmaður)

gegn

Byko ehf.

(Hannes Júlíus Hafstein lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember sl., er höfðað 5. apríl 2018.

Stefnandi er þrotabú Stefáns Stefánssonar, […], […].

Stefndi er Byko ehf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að rift verði greiðslum Stefáns Stefánssonar til stefnda að fjárhæð 158.831 króna þann 30. október 2017 og 826.811 krónur þann 2. nóvember 2017 og að stefnda verði gert að greiða stefnanda 985.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. desember 2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

I

Atvik málsins eru óumdeild, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2017 var bú Stefáns Stefánssonar tekið til gjaldþrotaskipta að ósk þrotamanns 14. september 2017. Sama dag óskaði maki þrotamanns, A, eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi. Var Börkur I. Jónsson lögmaður skipaður skiptastjóri í báðum búunum. 

Dagana 30. október og 2. nóvember 217 voru greiddar samtals 985.642 krónur til stefnda með tveimur greiðslum. Annars vegar var um að ræða greiðslu á gjaldföllnum afborgunum af skuldabréfum samkvæmt skuldbreytingu, útgefinni 11. febrúar 2010, á tveimur skuldabréfum og hins vegar uppgreiðslu sömu skuldabréfa. Upphaflegu skuldabréfin tvö voru útgefin 22. september 2008 af þrotamanni, upphaflega að fjárhæð 1.478.522 krónur og skuldabréf, útgefið 15. mars 2009 af A, maka þrotamanns, upphaflega að fjárhæð 676.335 krónur. Voru bæði þrotamaður og maki hans skráðir lántakendur á hinni sameinuðu skuld. Skuldin var að höfuðstól 2.324.044 krónur og skyldi greiðast með 72 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2010. Til tryggingar skilvísum greiðslum gengust B og C við sjálfskuldarábyrgð á skuldinni. Þann 21. október 2010 var gerð skilmálabreyting á skuldinni með þeim hætti að eftirstöðvar, þá að uppgreiðsluverðmæti 2.250.611 krónur, skyldu greiðast með 120 gjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 1. desember 2010.

Þegar skuldin var greidd upp fyrrnefnda daga, 30. október og 2. nóvember 2017, stóðu eftir 32 gjalddagar, þar af 27 ógjaldfallnir en fimm gjalddagar voru þá gjaldfallnir en ógreiddir. Sem fyrr segir var bú þrotamanns og maka hans tekið til gjaldþrotaskipta 3. nóvember 2017.

Með bréfi 9. nóvember 2017 lýsti skiptastjóri þrotabúsins yfir riftun á fyrrnefndum greiðslum og krafðist þess að þær yrðu greiddar til búsins. Yfirlýsingu skiptastjóra um riftun og endurgreiðslu var hafnað með bréfi 14. nóvember 2017 á þeim grundvelli að skilyrði riftunar væru ekki fyrir hendi.

Skiptastjóri fann engar engir í búi þrotamanns við hefðbundna eignaleit. Frestur til að lýsa kröfum í búið rann út 13. janúar 2018 og námu lýstar kröfur í búið samtals 9.014.784 krónum. Skiptastjóri tók skýrslu af þrotamanni og maka hans 21. febrúar 2018. Spurður af skiptastjóra af hverju stefnda hefði verið greitt en ekki öðrum kröfuhöfum kvaðst þrotamaður ekki vita það en ef til vill hefði verið meiri þrýstingur frá stefnda en öðrum. Maki þrotamanns upplýsti á hinn bóginn að greitt hefði verið í því skyni að forða ábyrgðarmönnum frá því að þurfa að greiða skuldina. Þá kom fram í skýrslu maka þrotamanns að hún hefði haft milligöngu um greiðsluna og hefði haft prókúru fyrir reikning þrotamanns.

II

Af hálfu stefnanda er á því byggt að greiðslur sem stefndi móttók 30. október og 2. nóvember 2017 séu riftunarbærar á grundvelli 134. gr., 1. mgr. 139. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 sé heimilt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt hefur verið með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt hafi verið eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Stefnandi kveðst byggja á því að ákvæðinu verði beitt jöfnum höndum um greiðslur sem séu inntar af hendi fyrir frestdag og eftir það tímamark. Tilgangur riftunarreglna sé almennt að hnekkja ráðstöfunum þrotamanns sem leiði til óréttmætrar skerðingar á rétti kröfuhafa við þrotabússkiptin. Það leiði því af eðli riftunarreglna að ekki verði gerðar ríkari kröfur til riftunar krafna eftir frestdag heldur en fyrir það tímamark. Að þessu virtu telji stefnandi framangreint tímaskilyrði ákvæðisins uppfyllt. Hvað varði önnur skilyrði ákvæðisins sé vísað til þess að greiðslurnar hafi bæði í senn verið framkvæmdar fyrr en eðlilegt hafi verið og að þær hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega.

Með uppgreiðslu lánsins hafi verið greiddar 27 ógjaldfallnar greiðslur og uppgreiðslan því fyrr en eðlilegt hafi verið. Áður hafi gjaldfallnar greiðslur nánast undantekningarlaust verið greiddar nokkrum mánuðum eftir á. Við eignakönnun í búi þrotamanns hafi engar eignir fundist. Greiðslurnar hafi því skert með verulegum hætti greiðslugetu þrotamanns.

Verði ekki fallist á riftun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 sé byggt á því að greiðslunum skuli rift á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laganna. Engar eignir hafi fundist í þrotabúinu og því ljóst að framangreind skuld hefði ekki verið greidd við skiptin samkvæmt XVII. kafla. Þá verði ekki séð að greiðslan hafi verið framkvæmd til að komast hjá tjóni. Hvað varði skilyrði laganna um að sá sem greiðslu hafi notið hafi hvorki vitað né mátt vita að fram hafi komið beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti sé vísað til þess að krafan hafi nánast frá upphafi verið í vanskilum og stefndi hafi verið vel upplýstur um að þrotamaður væri í fjárhagskröggum. Þá liggi enn fremur fyrir að Landsbankinn, sem hafi annast innheimtu skuldarinnar, hafi birt greiðsluáskorun gagnvart þrotamanni 19. október 2017 vegna alvarlegra vanskila. Umfram það sé byggt á því að stefndi beri sjálfur sönnunarbyrði um eigið grandleysi. Þá sé vísað til þess af hálfu stefnanda að eiginkona þrotamanns, A, hafi notið framangreindra greiðslna í skilningi 139. gr., enda hafi hún verið samskuldari á skuldabréfinu. Hjónin hafi lagt fram gjaldþrotabeiðni sína samhliða og því sé ljóst að þau hafi vitað um beiðni hvort annars. Enn fremur sé ljóst að framangreindir ábyrgðarmenn, B og C, hafi einnig notið góðs af greiðslunum en óljóst sé um grandleysi þeirra.

Verði ekki fallist á riftun á grundvelli framangreindra málsástæðna sé á því byggt að greiðslurnar séu riftanlegar á grundvelli 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Um sé að ræða greiðslur sem séu á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins. Stefndi hafi vitað eða að minnsta kosti mátt vita um bága fjárhagsstöðu þrotamanns miðað við greiðslusögu lánsins. Eftir að greiðslur hafi verið inntar af hendi megi vera ljóst að sama fjárhæð hafi þá ekki lengur verið til skiptanna gagnvart öðrum kröfuhöfum. Þá sé á því byggt að þrotamaður hafi augljóslega verið ógjaldfær á þeim tíma sem greiðslurnar áttu sér stað, enda hafði hann þá sjálfur lagt inn beiðni um gjaldþrotaskipti á eigin búi.

Verði fallist á riftun samkvæmt framangreindu sé enn byggt á því af hálfu stefnanda að hann eigi fjárkröfu á hendur stefnda sem byggist á 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og reglum íslensks réttar um skaðabætur utan samninga, þar á meðal almennu sakarreglunni en einnig sé byggt á almennum reglum íslensks fjármunaréttar um greiðslu skulda.

Verði viðurkennd riftun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 kveðst stefnandi byggja fjárkröfu sína á 1. mgr. 142. gr. laganna. Tjón stefnanda nemi 985.642 krónum, eða sömu fjárhæð og þrotamaður hafi greitt til stefnda. Verði viðurkennd riftun á grundvelli 139. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 byggi stefnandi fjárkröfu sína á 3. mgr. 142. gr. nefndra laga. Þannig beri stefnda að greiða bætur eftir almennum reglum. Tjón stefnanda nemi 985.642 krónum eða sömu fjárhæð og þrotamaður hafi greitt stefnda, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi vísar um dráttarvaxtakröfu sína til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Reikna beri dráttarvexti frá 9. desember eða mánuði frá kröfubréfi skiptastjóra, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi byggir á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sérstaklega 134., 139., 141., 142. og 148. gr. Þá er byggt á meginreglum um skaðabætur utan samninga, almennu sakarreglunni, almennum reglum íslensks fjármunaréttar um greiðslu skulda og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 6. og 8.  gr. Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 og um málshöfðunarfrest er vísað til 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

III

Stefndi kveður þær greiðslur sem um ræði hafa verið án aðkomu stefnda, en innheimtuaðili skuldabréfanna, Landsbankinn hf., hafi móttekið greiðslurnar fyrir hönd stefnda og ráðstafað til að greiða upp vanskil skuldabréfsins og síðar eftirstöðvar höfuðstólsins. Um hafi verið að ræða uppgreiðslu á skuldabréfi sem hafi verið útgefið af stefnanda og A. Þau hafi bæði verið lántakar og borið ábyrgð á greiðslu skuldabréfsins. Stefndi hafi því hvorki verið í beinum samskiptum við stefnanda né hafi haft upplýsingar um fjárhagsmálefni stefnanda. Hafi greiðslurnar verið í eðlilegum tengslum við viðskiptasamband aðila og án þess að stefndi hafi veitt sérstakt samþykki fyrir þeim. Stefnda hafi verið ókunnugt um að skuldarar bréfsins stefndu í gjaldþrot eða hefðu sett fram kröfu um gjaldþrotaskipti á búum sínum. Jafnvel þótt stefndi hefði skoðað færslur á vanskilaskrá hafi ekkert verið sem hafi gefið stefnda tilefni til að ætla að gjaldþrot væri yfirvofandi.

Krafa stefnda um sýknu er meðal annars byggð á því að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi innt af hendi þær greiðslur sem um ræði. Aðeins liggi fyrir kvittanir úr tölvukerfum en engar upplýsingar séu um að greiðslur hafi í raun komið frá stefnanda eða af bankareikningi í hans eigu. Í kvittun fyrir greiðslu 2. nóvember 2017 sé tekið fram að greiðslan hafi verið tekin út af reikningi […], eigandi […]. Athygli veki að kennitalan sé skráð hjá Landsbankanum í Reykjanesbæ. Það gefi vísbendingu um að greiðslan hafi í raun ekki borist frá stefnanda. Í skýrslu, sem tekin hafi verið af A eftir að bú hennar hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, komi eftirfarandi fram í svari við spurningu um í hvað peningarnir hafi farið: „Við greiddum upp lán hjá Byko.“ Einnig svari hún játandi spurningu um hvort hún hafi greitt upp skuld við Byko og hvort hún hafi greitt þær greiðslur sem riftun sú sem málið varði beinist að. Ljóst sé að hafi greiðslur ekki borist frá stefnanda sé enginn grundvöllur fyrir riftun af hálfu þrotabús hans og hafi það ekki lögvarða hagsmuni af höfðun málsins.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína einnig á því að skilyrði 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. varðandi riftun á ráðstöfunum þrotamanns séu ekki uppfyllt. Hvað varði skilyrði þess að unnt sé að rifta greiðslu skuldar á grundvelli 134. gr. laganna sé bent á að þær greiðslur sem málið varði hafi verið greiddar eftir frestdag, sem hafi verið 14. september 2017. Því komi ekki til greina að rifta greiðslunum á grundvelli þessa ákvæðis. Verði talið að ákvæðinu verði beitt um greiðslurnar sé ljóst að skilyrði þau sem greinin setur fyrir riftun krafna séu ekki uppfyllt. Greiðslur hafi átt sér stað með peningum til þess aðila sem hafi séð um innheimtu kröfunnar. Greiðslur sem fólust annars vegar í greiðslu á gjaldföllnum afborgunum og hins vegar uppgreiðslu skuldabréfs verði ekki taldar hafa átt sé stað fyrr en eðlilegt hafi verið. Greiðslurnar hafi á engan hátt verið ólíkar þeim sem stefndi hafi móttekið reglulega frá viðskiptavinum sínum. Greiðslurnar hafi því verið venjulegar eftir atvikum og komi því riftun á grundvelli þessa ákvæðis ekki til álita.

Þá kveður stefndi ljóst að til að skilyrði 139. gr. laga nr. 21/1991 sé uppfyllt verði stefndi að hafa vitað eða mátt vita að stefnandi hefði krafist gjaldþrotaskipta á búi sínu. Þegar greiðslurnar hafi átt sér stað hafi stefndi ekki haft neina ástæðu til að athuga sérstaklega stöðu stefnanda, enda hafi verið greitt í þeim banka sem séð hafi um innheimtu skuldabréfsins. Jafnvel þó að stefndi hefði kannað opinbera skráningu, til dæmis vanskilaskrá, þá hafi á þeim tíma engar skráðar upplýsingar verið um að krafa um gjaldþrotaskipti hefði komið fram eða að árangurslaust fjárnám hefði verið gert. Það að greiðsluáskorun frá Landsbankanum hf. hafi verið skráð 19. október 2017 gefi ekki vísbendingu um að gjaldþrot sé yfirvofandi. Rétt sé að ítreka að 139. gr. laganna setji það sem skilyrði að vitneskja um að krafa um gjaldþrotaskipti hafi komið fram liggi fyrir en engar vísbendingar hafi legið fyrir um yfirvofandi gjaldþrot útgefenda skuldabréfsins.

Loks kveður stefndi að greiðsla skuldabréfs með peningum geti ekki talist ótilhlýðileg ráðstöfun í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi hafi innheimt skuldabréfið með þeim hætti sem almennt tíðkist með milligöngu viðskiptabanka. Landsbankinn hf. hafi farið með innheimtu skuldabréfsins og hafi haft öll samskipti um uppgjör skuldarinnar án sérstakrar aðkomu stefnda. Þá hafi stefndi, eins og fram er komið, hvorki vitað né mátt vita um ógjaldfærni stefnanda. Því sé ljóst að skilyrði þau sem 141. gr. laganna setji fyrir riftun séu ekki uppfyllt.

Stefndi telji ljóst að enginn grundvöllur sé fyrir endurgreiðslukröfu samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991. Hafni stefndi því að skilyrði riftunar á grundvelli tilvitnaðra ákvæða séu fyrir hendi. Verði ekki fallist á riftun komi ákvæði 142. gr. ekki til álita. Jafnvel þó að fallist yrði á riftun þeirra ráðstafana sem um ræði telji stefndi að endurgreiðslukrafan komi ekki til álita. Þannig sé ósannað að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni eða að grundvöllur sé til greiðslu skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Verði fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda sé mótmælt kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega hafi krafið skuldara með réttu um greiðslu.

Krafa stefnda um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   

IV

Bú þrotamanns, Stefáns Stefánssonar, og maka hans, A, voru tekin til gjaldþrotaskipta 3. nóvember 2017. Frestdagur var 14. september sama ár.

Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á tveimur greiðslum af skuldabréfi sem greitt var upp af þrotamanni eftir frestdag. Voru greiðslurnar inntar af hendi 30. október og 2. nóvember 2017, samtals 985.642 krónur. Bæði var um að ræða greiðslu gjaldfallinna afborgana og uppgreiðslu skuldabréfsins. Krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum fyrrnefnda fjárhæð að viðbættum dráttarvöxtum.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé heimilt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag að uppfylltum skilyrðum þeim sem greinin setur. Vísar stefnandi til þess að nefndu ákvæði laganna verði beitt jöfnum höndum um greiðslur sem inntar eru af hendi fyrir og eftir frestdag. Stefndi hafnar sjónarmiðum stefnanda og krefst sýknu. Krafa stefnda er einkum byggð á því að skilyrði 134. gr. séu ekki uppfyllt. Greitt hafi verið eftir frestdag. Þá hafi verið greitt með peningum til þess sem séð hafi um að innheimta kröfuna. Þá byggir stefndi öðrum þræði á því að ekkert liggi fyrir um það að þrotamaður hafi innt greiðslurnar af hendi, enda liggi aðeins fyrir kvittanir úr tölvukerfi sem staðfesti ekki að greiðslurnar hafi komið frá þrotamanni eða af reikningi í hans eigu.

Samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Eins og fram kemur í skýrum forsendum í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 442/1998 verður ákvæði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. beitt jöfnum höndum um greiðslur sem inntar eru af hendi fyrir frestdag og eftir þann dag. Verður því ekki fallist á það með stefnda að skilyrði 134. gr. sé ekki uppfyllt að þessu leyti þar sem greitt hafi verið eftir frestdag.

Krafa stefnda um sýknu er einnig byggð á því að ekki liggi fyrir að greiðslurnar hafi komið frá þrotamanni sjálfum og þá hafi þær verið greiddar til Landsbankans hf. sem annaðist innheimtu kröfunnar, en hafi ekki verið greiddar til stefnda. Í skýrslum þeim sem skiptastjóri í búi þrotamanns og maka hans tók af þeim kemur fram hjá þrotamanni sú skýring á greiðslunum að stefndi kunni að hafa beitt meiri þrýstingi um að fá greitt en aðrir kröfuhafar, en það er þó ekki fullyrt af þrotmanni að svo hafi verið. Greindi þrotamaður skiptastjóra frá því að maki hans hefði „séð um uppgreiðsluna“. Maki þrotamanns skýrði frá því í skýrslu hjá skiptastjóra að skuldin við stefnda hefði verið greidd upp til að forða ábyrgðamönnum frá því að greiða ábyrgð sína. Þá kom fram í svari maka þrotamanns að hún hefði haft heimild til að greiða út af reikningum. Samkvæmt þessu liggur fyrir að þær greiðslur til stefnda voru inntar af hendi í þeim tilgangi að forða ábyrgðarmönnum skuldarinnar frá því að þurfa að greiða skuldina.

Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að greiddar voru gjaldfallnar afborganir þann 30. október 2017, alls fimm gjalddagar, sem þá voru í vanskilum. Stóðu þá eftir 27 ógjaldfallnir gjalddagar sem greiddir voru með eingreiðslu 2. nóvember 2017 samtals að fjárhæð 826.811 krónur. Því er ómótmælt að afborganir af skuldinni hafi ekki verið greiddar á réttum gjalddögum. Er þannig uppfyllt það skilyrði fyrir riftun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt hafi verið og að greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega og var á engan hátt venjuleg eftir atvikum. Þrotamanni, sem óskaði sjálfur eftir gjaldþrotaskiptum á búi sínu, var vel kunnugt um bága fjárhagsstöðu sína. Þá liggur fyrir að Landsbankinn hf., sem annaðist innheimtu kröfunnar fyrir stefnda, gerði árangurslaust fjárnám hjá þrotamanni 19. október 2017.

Að því virtu sem nú er fram komið verður fallist á dómkröfu stefnanda um að rift verði samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. tveimur greiðslum til stefnda, annars vegar að upphæð 158.831 krónur, sem greidd var 30. október 2017 og hins vegnar 826.811 krónur, sem greidd var 2. nóvember 2017. Það hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins þó að þrotamaður hafi ekki sjálfur innt greiðsluna af hendi heldur maki hans, og ekki heldur þó að greiðslan hafi borist með millifærslu til stefnda frá þeim banka sem annaðist innheimtu kröfunnar. Sú ráðstöfun að greiða stefnda samtals 985.642 krónur var til hagsbóta fyrir stefnda að því leyti að þrotamaður og maki hans voru þá skuldlaus við félagið. Leiðir riftun samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til þess að þeim sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun ber að greiða þrotabúinu þá fjárhæð sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns kom honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en nemur tjóni þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Í samræmi við þessa niðurstöðu dómsins um riftun verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda sömu fjárhæð og þá sem stefndi hagnaðist um með ráðstöfuninni, eða 985.642 krónur. Með því að fallist er á kröfu stefnanda um riftun greiðslnanna samkvæmt 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins að fjalla um málsástæður aðila sem varða riftun á grundvelli 139. eða 141. gr. laganna.

Stefnandi krefst dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á endurgreiðslukröfuna og byggir á því að reikna beri dráttarvexti frá 9. desember 2017, eða mánuði frá kröfubréfi skiptastjóra, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti verði fallist á endurgreiðslukröfuna. Fallist hefur verið á riftun þeirra greiðslna sem um ræðir á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og endurgreiðslu samkvæmt kröfu stefnanda. Byggist sú niðurstaða á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Fallist er á kröfu stefnanda um að greiðslan beri dráttarvexti þannig að upphafstími dráttarvaxta verði 9. desember 2017 þegar mánuður var liðinn frá því að skiptastjóri þrotabúsins beindi fyrst endurgreiðslukröfu að stefnda með bréfi 9. nóvember 2017, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.   

Eftir framangreindum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari að gættum fyrirmælum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Rift er greiðslum Stefáns Stefánssonar til stefnda, Byko ehf., að fjárhæð 158.831 króna þann 30. október 2017 og 826.811 krónur þann 2. nóvember 2017.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Stefáns Stefánssonar, 985.642 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. desember 2017 til greiðsludags og 800.000 krónur í málskostnað.

 

Jón Höskuldsson