• Lykilorð:
  • Fjöleignarhús
  • Fyrning
  • Galli
  • Matsgerð
  • Skaðabætur

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 24. október 2018 í máli nr. E-766/2017:

Berjavellir 2, húsfélag

(Sigurgeir Valsson lögmaður)

gegn

Guðlaugi Adolfssyni

(Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

Sigurði Þorvarðarsyni

(Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður)

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Gestur Óskar Magnússon lögmaður)

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ingvar Sveinbjörnsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., er höfðað 22. ágúst 2017.

Stefnandi er Húsfélagið Berjavöllum 2, Hafnarfirði.

Stefndu eru Guðlaugur Adolfsson, […], Hafnarfirði, Sigurður Þorvarðarson, […], Hafnarfirði, Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík, og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.      Að stefndu Guðlaugi Adolfssyni, Sigurði Þorvarðarsyni, Trygginga-miðstöðinni hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 3.190.149 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2013 til 14. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

2.      Að stefndu Guðlaugi Adolfssyni og Tryggingamiðstöðinni hf. verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 12.070.511 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2013 til 14. júlí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

3.      Að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi Guðlaugur Adolfsson krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Stefndu Sigurður Þorvarðarson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi Tryggingamiðstöðin hf. krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á dómkröfu stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Leyst var úr frávísunarkröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. með úrskurði 7. mars 2018. Var kröfunni hafnað.

I

Málsatvik

Fjöleignarhúsið að Berjavöllum 2 í Hafnarfirði var byggt á árunum 2002 og 2003. Byggingu hússins annaðist Fagtak ehf. Byggingarstjóri var stefndi Guðlaugur Adolfsson sem var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Hönnuður hússins var stefndi Sigurður Þorvarðarson sem var með ábyrgðartryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Um er að ræða fimm hæða hús með 36 íbúðum sem munu allar hafa verið seldar á árinu 2004. Lokaúttekt skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði fór fram 4. desember 2012.

Á árinu 2013 varð vart við leka í bílageymslu hússins sem olli tjóni. Fagtak ehf. greiddi efniskostnað við úrbætur vegna lekans. Í maí 2014 urðu íbúar hússins varir við frekari leka í bílageymslu. Í kjölfarið var ráðist í viðgerðir sem að stærstum hluta voru greiddar af stefnanda þar sem Vá­trygg­inga­fé­lag Íslands hf. hafnaði bótaskyldu úr húseigendatryggingu stefnanda.

Stefnandi óskaði eftir mati Ástráðs Guðmundssonar, húsasmíðameistara og matsfræðings, á ætluðum göllum á húsinu og kostnaði við úrbætur. Í niðurstöðu Ástráðs kemur fram að loftun á milli steinullar og bárujárnsklæðningar sé of lítil og að kostnaður við úrbætur nemi 18.100.580 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti miðað við verðlag í september 2014. Með bréfi 28. október 2014 krafði stefnandi Fagtak ehf. Guðlaug Adolfsson og Tryggingamiðstöðina hf. um metinn kostnað og annan kostnað stefnanda vegna málsins, samtals að fjárhæð 19.627.798 krónur. Svör munu ekki hafa borist frá Fagtaki ehf. og Guðlaugi Adolfssyni, en Tryggingamiðstöðin hf. hafnaði bótaskyldu með bréfi 6. mars 2015.

Þann 2. september 2015 óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta umfang, orsakir, mögulegar úrbætur og kostnað sem rekja má til annmarka á fasteigninni að Berjavöllum 2 samkvæmt nánari tilgreiningu í matsbeiðninni. Þann 1. október 2015 var Auðunn Elíson, byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari, dómkvaddur til að framkvæma umbeðið mat.

            Matsgerð hins dómkvadda matsmanns lá fyrir 14. júní 2016. Með matsgerðinni voru staðfestir ýmsir ætlaðir gallar á húsinu. Þeir helstu vörðuðu frágang á klæðningu útveggja, loftun milli steinullar og bárujárnsklæðningar, frágang lagna, frágang stoðveggjar á austurhlið hússins, ytra byrði glugga og raka undir gluggum. Kostnaður við úrbætur miðað við verðlag í júní 2016 var metinn samtals á 15.966.185 krónur, eða 14.499.482 krónur, að teknu tilliti til 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað.

            Með bréfi 19. janúar 2017 krafði stefnandi stefnda Guðlaug Adolfsson um skaðabætur á grundvelli matsgerðarinnar og sendi Tryggingamiðstöðinni hf. afrit af bréfinu. Stefndi Guðlaugur hafnaði kröfunni með bréfi 2. febrúar 2017. Með bréfi Tryggingamiðstöðvarinnar hf. 17. febrúar 2017 var hafnað kröfu stefnanda í starfsábyrgðartryggingu stefnda Guðlaugs Adolfssonar hjá félaginu, enda væru meira en 10 ár liðin frá framkvæmdum þeirra liða sem krafan tók til. Með bréfi 4. júlí 2017 krafði stefnandi stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. um greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefna Sigurðar Þorvarðarsonar vegna ætlaðra galla á verki hönnuðar hússins að Berjavöllum 2. 

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst telja að stefndu Guðlaugur Adolfsson sem byggingarstjóri og Sigurður Þorvarðarson sem hönnuður hússins beri ábyrgð á þeim göllum sem fram hafi komið á fjöleignarhúsinu og staðfestir séu með matsgerð dómkvadds matsmanns, dagsettri 14. júní 2016.

Í niðurstöðu matsgerðarinnar séu staðfestir ýmsir gallar á fjöleignarhúsinu. Telji stefnandi að þá galla megi rekja til vanrækslu stefnda Guðlaugs á starfsskyldum sínum sem byggingarstjóra, nánar tiltekið með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi frágangur klæðningar. Í matsgerðinni komi fram að áfellur og frágangur áfella við steypta veggi sé ekki alls staðar fullnægjandi. Áfellur í kringum glugga séu ekki réttar með tilliti til þess að vatn hafi greiða leið út undan klæðingunni. Þá sé það mat matsmanns að þar sem frárennslisrör frá svölum fari í gegnum klæðningu útveggja sé ófullnægjandi frágangur. Loks kemst matsmaður að þeirri niðurstöðu að ekki sé samræmi milli samþykktra uppdrátta og þeirrar framkvæmdar sem gerð hafi verið með hliðsjón af útliti klæðningar. Af uppdrætti sem matsmaður vísi til virðist sem að flötum sé skipt upp bæði ofan við glugga og út frá þeim en hins vegar hafi framkvæmdin verið önnur. Stefnandi telji ljóst að ófullnægjandi frágangur klæðningar hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Í öðru lagi loftun milli steinullar og bárujárnsklæðningar. Samkvæmt skoðun matsmanns hafi einangrun verið lítið fest við veggi og nánast á öllum stöðum legið nánast upp að bárujárnsklæðningunni. Sé það niðurstaða matsmanns að uppbygging klæðningar sé ekki í samræmi við séruppdrætti arkitekts og frágangur steinullar-einangrunar ekki fullnægjandi þar sem nauðsynlegt sé að steinull liggi þétt að steyptum veggjum. Stefnandi telji ljóst að uppbygging klæðningar og frágangur steinullareinangrunar hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabóta-ábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Í þriðja lagi frágangur lagna. Í niðurstöðu matsmanns komi fram að vegna hönnunar og útfærslu á klæðningu hússins hafi regnvatn komist í umtalsverðu magni inn fyrir klæðningu og inn að steyptum veggjum hússins. Ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að verja hitalagnir sem séu innan við einangrun gegn vatni. Sé það niðurstaða matsmanns að hönnun og útfærsla klæðningar sé ekki í samræmi við byggingarreglugerð. Þá sé það mat matsmanns, með hliðsjón af hönnun og frágangi klæðingar hússins, að frágangur hitalagna utan við steypta veggi sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við byggingarreglugerð. Stefnandi telji ljóst að frágangur lagna hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið í samræmi við byggingarreglugerð.

Í fjórða lagi frágangur stoðveggja á austurhlið. Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að sprungur séu í steyptum stoðvegg austan við húsið. Orsök fyrir sprungum megi meðal annars rekja til frágangs á takkadúk sunnan við vegginn, steypuskila eða þensluhreyfingar. Stefnandi telji ljóst að frágangur stoðveggja á austurhlið hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið tæknilega og faglega fullnægjandi.

Í fimmta lagi ytra byrði glugga. Í niðurstöðu matsmanns komi fram varðandi ytra byrði glugga að óeðlilegt sé að samsetning á opnanlegum fögum sé að losna í sundur. Stefnandi telji ljóst að frágangur á ytri byrði glugga hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið tæknilega og faglega fullnægjandi.

Í sjötta lagi raki undir gluggum. Matsmaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að rakaskemmdir séu í tilteknum íbúðum í fjöleignarhúsinu. Þær skemmdir megi rekja til þess að regnvatn hafi komist að steyptum vegg þrátt fyrir veðrunarkápu utan á húsinu og sé vísað til fyrri matsliða hvað það varði. Stefnandi telji ljóst að raki undir gluggum hafi valdið honum tjóni. Stefndi Guðlaugur beri skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, enda hafi frágangur ekki verið í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Ábyrgð samkvæmt 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 29. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sé hefðbundin sakarábyrgð á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga. Stefnda Guðlaugi hafi borið sem byggingarstjóra að sjá til þess að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. Einnig að hafa eftirlit með því að framkvæmdin væri tæknilega og faglega fullnægjandi. Þessum starfsskyldum sínum hafi stefndi Guðlaugur brugðist og sú vanræksla hafi valdið stefnanda tjóni.

Dómkvaddur matsmaður telji að ágallar hafi verið á verki stefnda Sigurðar Þorvarðarsonar, hönnuðar fjöleignarhússins, og að því hafi verið ábótavant. Í niðurstöðu matsgerðarinnar komi fram að þegar hönnun og útfærsla klæðningar sé skoðuð sé ljóst að gert sé ráð fyrir að vatn eigi nokkuð greiða leið inn undir klæðninguna. Í slíkum tilvikum skuli gera ráðstafanir í hönnun og framkvæmd til að vatn skili sér aftur út. Engar slíkar ráðstafanir hafi verið gerðar, hvorki með drenun ofan við glugga eða við neðri brún klæðningar. Sé það niðurstaða matsmanns að hönnun á klæðningu utan á útveggi hússins sé hvorki í samræmi við leiðbeiningar né almennar kröfur um frágang slíkrar klæðningar. Þá komi einnig fram sú niðurstaða matsmanns að þar sem hitalagnir séu utan við steypta veggi og á bak við klæðninguna hafi hönnun klæðningar átt að vera í samræmi við það og með þeim hætti að hugsað sé fyrir að koma í veg fyrir að vatn komist inn á bak við einangrun.

Stefnandi telji ljóst að vanræksla stefnda Sigurðar á að að hanna klæðningu utan á útveggi hússins í samræmi við leiðbeiningar og almennar kröfur hafi valdið honum tjóni. Stefndi Sigurður beri því skaðabótaábyrgð á þessum göllum í samræmi við 1. mgr. 47. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. núgildandi 22. og 23. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ábyrgð samkvæmt lögunum sé hefðbundin sakarábyrgð á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga. Stefndi beri ábyrgð á að hönnun sé faglega unnin og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál, sbr. 1. mgr. 47. gr. Þessum starfsskyldum sínum hafi stefndi Sigurður brugðist og sú vanræksla sé bótaskyld.

Tryggingamiðstöðinni hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sé stefnt í málinu en fyrir liggi að stefndi Guðlaugur hafi verið með lögboðna ábyrgðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og stefndi Sigurður með lögboðna ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Vísi stefnandi til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga varðandi heimild til að krefjast skaðabóta beint frá félögunum. Stefnandi telji ljóst að tryggingarnar taki til þeirra tjónsatvika sem lýst sé að framan og rakin séu í matsgerð hins dómkvadda matsmanns. Þannig liggi fyrir að lokaúttekt skipulags- og byggingarfulltrúa á fasteigninni hafi farið fram í desember 2012. Samkvæmt ákvæði 33. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þá skuli ábyrgðartrygging byggingarstjóra gilda í að minnsta kosti fimm ár frá því tímamarki. Samkvæmt 26. gr. gildi hið sama um ábyrgðartryggingu hönnuða.

Kostnaður við úrbætur á þeim ágöllum sem staðfestir séu í matsgerð nemi samtals 14.499.482 krónum með virðisaukaskatti. Fjárhæðir og útreikningur bótakrafna miðist við kostnaðarmat matsmanns samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Þess sé krafist að öllum stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 3.190.149 krónur en um sé að ræða tjón sem rekja megi til hönnunar og frágangs lagna. Nánar tiltekið sé um að ræða matsliði 3-5 í matsgerðinni. Búið sé að draga endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað frá þeirri upphæð sem komi fram í matsgerð.

Þá sé þess krafist að stefndu Guðlaugi og Tryggingamiðstöðinni hf. verði sameiginlega gert að greiða stefnanda 12.070.511 krónur vegna galla sem raktir séu að framan. Nánar tiltekið sé um að ræða matsliði 1-2 og 6-8 í matsgerð. Upphæðin miðist við kostnaðarmat matsgerðar auk reiknings frá Vatnsvirkjun 31. maí 2014 sem stefnandi hafi greitt, alls 761.178 krónur, en um sé að ræða reikning fyrir viðgerðum á lögnum sem matsmaður hafi talið eðlilegan. Hafi verið ráðist í viðgerðina til að skipta um hluta lagna sem höfðu ryðgað og skemmst vegna fyrrgreinds leka og til að takmarka tjón stefnanda.

Krafist sé vaxta frá 22. ágúst 2013 og dráttarvaxta frá 14. júlí 2016, enda hafi þá verið liðinn mánuður frá því að matsgerð hins dómkvadda matsmanns lá fyrir.

Stefndu Guðlaugur og Tryggingamiðstöðin hf. hafi hafnað bótaskyldu á þeim grundvelli að krafa stefnanda sé fyrnd. Í bréfi stefnda Guðlaugs 2. febrúar 2017 sé vísað til þess að húsin hafi verið reist á árunum 2002 til 2003 og því séu um 14 ár liðin frá því að þau verk hafi verið unnin sem matsgerðin lúti að. Þá komi fram að allar kröfur sem byggist á því að hann hafi gerst sekur um vanrækslu við störf sín sem byggingarstjóri hússins séu því löngu fyrndar samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í bréfi stefndu Tryggingamið-stöðvarinnar hf. 17. febrúar 2017 sé bótaskyldu hafnað á sama grundvelli.

Stefnandi kveðst hafna þessari málsástæðu. Fyrir liggi að þeir annmarkar sem matsgerð hins dómkvadda matsmanns lúti að hafi fyrst komið fram árið 2013. Af dómaframkvæmd megi ráða að fyrningarfrestur skaðabótakröfu vegna atvika sem urðu í gildistíð laga nr. 14/1905 hafi ekki byrjað að líða fyrr en tjónþola urðu ljósar þær ástæður sem leiða kunna til bótaskyldu. Í 9. gr. núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007 komi fram að kröfur um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi þegar tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón og þann sem ábyrgð ber á því. Þá liggi fyrir að Fagtak ehf., sem hafi annast byggingu hússins, hafi greitt kostnað við úrbætur í kjölfar leka í bílakjallara hússins árið 2013. Stefnandi telji ljóst að hafi fyrningarfrestur kröfunnar verið byrjaður að líða á þeim tímapunkti sé ljóst að úrbætur Fagtaks ehf. hafi rofið fyrningarfrest kröfunnar.

Stefnandi kveðst einnig vísa til þess að lokaúttekt skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar á fjöleignarhúsinu hafi farið fram í desember 2012. Samkvæmt 26. og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem hafi verið í gildi þegar framangreind lokaúttekt hafi farið fram, skyldi ábyrgðartrygging hönnuða og byggingarstjóra gilda í að minnsta kosti fimm ár frá dagsetningu lokaúttektar.

Loks vísi stefnandi til þess að hann hafi reynt að hraða úrlausn þessa máls eins og kostur sé. Þannig hafi verið leitað til Árstráðs Guðmundssonar, húsasmíðameistara og matsfræðings, á fyrri hluta árs 2014. Niðurstaða hans hafi legið fyrir í september sama ár. Í kjölfarið hafi stefnandi óskað eftir afstöðu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. með bréfi 28. október 2014. Svar hafi borist frá Tryggingamiðstöðinni hf. 6. mars 2015, eða rúmum fimm mánuðum síðar, þar sem bótaskyldu hafi verið hafnað. Þá hafi stefnandi verið knúinn til að óska eftir dómkvaðningu matsmanns, sem hafi skilað niðurstöðu sinni í júní 2016. Þá hafi Tryggingamiðstöðin hf. hafnað bótaskyldu á grundvelli matsgerðarinnar fyrr á þessu ári. Þessi dráttur á úrlausn málsins verði ekki rakinn til atvika er varði stefnanda. Samkvæmt því sem nú hafi verið rakið hafni stefnandi þeirri málsástæðu stefndu að krafan sé fyrnd.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 47. og 51. gr. Einnig til laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá vísar stefnandi til almennra reglna samninga-, kröfu- og skaðabótaréttar. Um heimild til að krefjast skaðabóta beint frá stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Samaðild er byggð á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

III

Málsástæður og lagarök stefnda Guðlaugs Adolfssonar

            Stefndi Guðlaugur Adolfsson kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ábyrgð hans sem byggingarstjóra á meintu tjóni vegna galla eða skemmda á fasteigninni Berjavöllum 2 sé fyrir löngu fallin niður og allar hugsanlegar kröfur stefnanda á hendur honum, ef einhverjar hafi verið, séu fyrndar.

            Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar stofnist skaðabótakrafa þegar hin bótaskylda háttsemi eigi sér stað og miðist gjalddagi kröfunnar við sama tímamark, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stefnandi byggi kröfu sína á hendur stefnda á ákvæðum 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem sé hefðbundin sakarábyrgð á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga. Byggingu hússins að Berjavöllum 2 hafi verið lokið 2003. Öllum verkum sem stefnandi byggi á að hafi verið gölluð eða unnin í andstöðu við uppdrætti eða fyrirmæli byggingarreglugerðar hafi þá verið löngu lokið. Ljóst sé því að fyrningarfrestur krafna stefnanda vegna meintra galla hafi í síðasta lagi byrjað að líða 2003. Kröfurnar fyrnist á 10 árum, sbr. 2. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905, og hafi því verið fyrndar þegar stefnandi hafi höfðað mál þetta. Stefndi hafni því að þátttaka Fagtaks ehf. í kostnaði við viðgerðir 2013 hafi rofið fyrningu gagnvart stefnda. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 rýfur viðurkenning skuldara fyrningu gagnvart honum og nýr frestur byrjar að líða. Greiðsla frá þriðja manni feli ekki í sér viðurkenningu skuldar af hálfu skuldara og rýfur því ekki fyrningarfrest gagnvart honum. Þá skipti ekki máli um fyrningu ábyrgðar stefnda, sem byggist á reglum skaðabótaréttarins, þótt ábyrgðartrygging hans vegna slíkrar meintrar ábyrgðar sé enn í gildi. Ef skaðabótakrafan er fyrnd þá reyni ekki á trygginguna.

            Sýknukrafa stefnda byggist einnig á því að umrædd eign sé ekki haldin neinum göllum sem hann gæti borið ábyrgð á sem byggingarstjóri. Fyrir liggur að hitalagnirnar, sem liggja utan við steinsteypta veggi hússins og innan við eða í einangrun, séu víða skemmdar. Byggi stefndi á því að það stafi ekki af ástæðum sem hann beri ábyrgð á, heldur eingöngu af því að lagnaefnið hafi ekki hentað við þessar aðstæður. Lagnaefnið hafi hins vegar verið viðurkennt á þessum tíma og talið fullnægjandi. Lagnirnar liggi ekki í vatni sem komi utan frá og komist ekki út. Ástæða þess að frárennslislagnirnar tærist sé sú að þær séu ekki nægilega heitar og því þéttist á þeim raki. Hvorki frágangur né hönnun klæðningar eða frágangur einangrunar séu áhrifavaldar um þetta.

            Þegar húsið hafi verið skoðað á matsfundi hafi það verið nærri fimmtán ára gamalt. Hefði rigningarvatn átt greiðan aðgang inn fyrir klæðningu, og einangrun staðið í bleytu allan þennan tíma vegna þess að vatnið hefði ekki komist út, hefði það ekki farið á milli mála við skoðun. Í fyrsta lagi skuli á það bent að timburgrindin undir klæðningu og undir flasningum sé úr ófúavörðu efni. Slíkt grindarefni hefði fyrir löngu verið orðið grautfúið ef ástandið hefði verið búið að vera í líkingu við það sem lagt sé til grundvallar í matsgerð. Það hefði væntanlega ekki tekið nema eitt til tvö ár að eyðileggjast. Grindurnar hafi hins vegar verið ófúnar og í raun ekkert séð á þeim. Ef ástæða tæringarinnar hefði verið ónóg loftun, eins og einnig sé lagt til grundvallar í matsgerð, hefði grindin verið fúin og ullin mygluð. Hvorki hafi vottað fyrir fúa né myglu við skoðun.

            Matsmaður segir að það sé „eins og áfellur séu lausar“ á einstökum stöðum frá klæðningu og að festa á milli klæðningar og áfellna „virðist“ hafa gefið sig. Hann slái engu föstu um þetta og gangi ekki úr skugga um það hvort um sé að ræða þann hluta klæðningar sem starfsmenn vátryggingafélags hafi rifið frá fjórum árum fyrr. Byggi stefndi einmitt á því að hér sé um að ræða þann hluta klæðningarinnar og að ástæða þess að áfellur eru lausar sé lélegur frágangur eftir þá viðgerð. Þá segir matsmaður að ekki séu drengöt á áfellu yfir gluggum þannig að það vatn sem skili sér inn fyrir klæðningu liggi á áfellunni og „einangrun geti staðið í vatni.“ Ljóst sé að hluti af þessu vatni skili sér til hliðar við glugga og áfram niður útvegginn og að hluta bak við einangrunina. Svo virðist sem matsmaður hafi ekki kannað hvort einangrunin stæði í raun og veru í vatni eða hefði gert það einhvern tíma. Það hefði ekki leynt sér. Þess í stað beri hann á borð getgátur sem engin sönnun sé fyrir að eigi sér einhverja stoð. Matsmaður slái því einnig fram að ekki sé samræmi á milli þess sem gert hafi verið, það er frágangi áfellna við glugga og séruppdrátta. Enginn rökstuðningur fylgi þessari fullyrðingu og er henni mótmælt sem rangri.

            Í matsgerðinni fjalli matsmaður um áfellu sem sé á neðstu brún klæðningar og nái frá ytri brún klæðningar og nánast inn að steyptum útvegg og segir að ef halli á áfellunni sé ekki réttur þá liggi vatn ofan á áfellunni langtímum saman sem valdi skemmdum á henni, bæði á ullinni og grindarefni. Matsmaðurinn hafi ekki athugað hvort hallinn á áfellunni sé rangur og heldur ekki hvort vatn liggi ofan á henni langtímum saman og þá ekki hvort grindin sé skemmd eða ullin. Hann gangi ranglega út frá því að ástandið sé með þessum hætti.

            Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína varðandi matslið 2 á öllum sömu sjónarmiðum og að framan séu rakin. Bárujárnsklæðning sé í sjálfu sér loftræst og þyrfti sérstakar hindranir til að koma í veg fyrir að hún væri nægileg. Ekki hafi verið sýnt fram á neitt slíkt. Þvert á móti liggi fyrir að trégrindin sé ófúin og einangrunin ómygluð. Sú væri ekki raunin ef loftun klæðningarinnar hefði verið illa loftræst í 15 ár. Það færi ekki á milli mála við skoðun. Því sé  ósannað að loftun sé ófullnægjandi eða illa frágengin.

            Lagnakerfið hafi verið hannað af Sigurði Þorleifssyni. Hann sé ekki aðili þessa máls. Uppdrættir hans og útfærsla á kerfinu hafi verið samþykkt af byggingar-yfirvöldum í Hafnarfirði og lagnaefnið hafi á þeim tíma verið talið standast kröfur byggingarreglugerðar. Stefndi verði því aldrei gerður ábyrgur fyrir því ef hönnun kerfisins teljist ófullnægjandi í dag og heldur ekki fyrir þeim afleiðingum sem það kunni að hafa haft í för með sér. Hann hafi verið í góðri trú þegar hann hafi stuðst við hönnun Sigurðar á kerfinu.

            Þá fallist stefndi ekki á að stoðveggur við austurhlið hússins sé meira sprunginn en eðlilegt megi teljast miðað við að um kaldan vegg sé að ræða og að hann sé orðinn 15 ára gamall. Steinsteypa springi. Eðlilegt viðhald á slíkum vegg sé að þrífa steiningu reglulega og sílanbera vegginn. Stoðveggurinn hafi ekki fengið neitt viðhald síðan húsið hafi verið byggt og sé það meginástæða þess að sprungur sjáist í veggnum. Hvað varði gluggaumbúnað þá sé það niðurstaða matsmanns að hann sé hefðbundinn og hið sama sé að segja um gluggana sjálfa. Það sé niðurstaða matsmanns að uppsetning og ísetning sé í samræmi við almennar kröfur sem gerðar séu til glugga og gluggaumbúnaðar. Húsið hafi verið tæplega 15 ára gamalt þegar matsmaður hafi skoðað það. Á þeim tíma hafi gluggarnir aðeins einu sinni verið málaðir og kom ekkert fram um að þeir hefðu fengið annað viðhald á þessum tíma. Af umfjöllun matsmanns megi ráða að orsök þess að örfá opnanleg fög leki, og að samsetning þeirra sé að gliðna, sé ófullnægjandi viðhald auk þess sem um galla í framleiðslu geti verið að ræða, en byggingarstjóri beri ábyrgð á hvorugu.

            Hluti af ætluðum göllum varði séreignir í húsinu. Stefnandi eigi ekki aðild að þessari kröfugerð og því beri að sýkna stefnda af þessum kröfum, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá beri niðurstaða matsmanns ekki með sér að meintur raki í íbúðunum stafi af göllum á byggingunni sem stefndi beri ábyrgð á. 

            Varakrafa stefnda um lækkun krafna stefnanda byggist á sömu sjónarmiðum og að framan séu rakin. Byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á vali hönnuðar á efni og hann beri heldur ekki ábyrgð á því ef verksmiðjuframleiddir byggingarhlutar gefi sig. Þar sé um galla í efni að ræða en ekki handvömm á byggingarstað. Stefnandi, eða íbúðaeigendur, verði að snúa sér til seljanda eignarinnar með kröfur sínar vegna slíks tjóns. Þá sé ljóst að ýmsir þeir meintu gallar, sem kröfur stefnanda byggist á, stafi af ófullnægjandi viðhaldi en ekki handvömm sem stefndi beri ábyrgð á sem byggingarstjóri. Megi þar einkum vísa til krafna vegna stoðveggjar og glugga-umbúnaðar.

            Stefndi kveðst mótmæla kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti. Stefnandi gerir kröfu um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2013 til 14. júlí 2016. Fyrir liggur að matsgerð miðist við byggingarkostnað í júní 2016. Sé um mótmæli stefnda við þessari kröfu vísað til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti frá 14. júlí 2016 til greiðsludags. Vísar stefnandi til þess að þann dag hafi verið liðinn mánuður frá því að matsgerð hins dómkvadda matsmanns hafi legið fyrir. Krafa stefnanda á grundvelli matsgerðarinnar hafi ekki komið fram fyrr en með bréfi 19. janúar 2017. Því hafi krafa stefnanda ekki getað borið dráttarvexti fyrr en mánuði síðar, eða 19. febrúar 2017, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

            Stefndi vísar til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi voru þegar byggingin var reist. Stefndi vísar einnig til byggingarreglugerðar nr. 441/1998, svo og til laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 4. og 5. gr. Enn fremur vísar stefndi til reglna skaðabótaréttarins um sönnun tjóns, sönnun fjárhæðar og gjalddaga kröfu. Þá vísar stefndi til 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnda um máls­kostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála.

IV

Málsástæður og lagarök stefndu Sigurðar og Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Af hálfu  stefndu Sigurðar Þorvarðarsonar og Sjóvár-Almennra trygginga hf. er í fyrsta lagi krafist sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skýrt sé samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 að hönnuður beri eingöngu ábyrgð gagnvart byggingaryfirvöldum og eftir atvikum gagnvart eiganda byggingarframkvæmda, sbr. nú 23. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki verði ráðið af þágildandi skipulags- og byggingarlögum að hönnuður geti borið ábyrgð gagnvart síðari eigendum. Til þess að svo geti verið þurfi skýra lagaheimild. Ákvæði 26. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem gert er ráð fyrir ábyrgð gagnvart þriðja aðila, hafi ekki lagastoð að öðru leyti en því sem við geti átt gagnvart byggingaryfirvöldum og eiganda framkvæmda. Beri því þegar af þessari ástæðu að sýkna þessa stefndu. Einnig sé bent á það í þessu sambandi að stefndi Sigurður Þorvarðarson hafi ekki verið hönnuður lagna og sé það óumdeilt í málinu. Leiðir það og til sýknu vegna aðildarskorts.

Af hálfu stefnda Sigurðar er í öðru lagi krafist sýknu með vísan til þess að hönnunarvinna sú sem hann framkvæmdi vegna Berjavalla 2 hafi í alla staði verið faglega unnin og í samræmi við lög og reglugerðir um byggingarmál, sbr. 47. grein þágildandi laga nr. 73/1997, sbr. nú 23. grein laga nr. 160/2010. Af hálfu byggingaryfirvalda hafi á byggingartíma og síðar ekki verið gerðar neinar athugasemdir við hönnunarvinnu þessa stefnda. Ekki komi fram með beinum hætti í matsgerð dómkvadds matsmanns að hönnunarvinna stefnda, hvað varði veðurkápu og einangrunarkerfi, hafi verið í ósamræmi eða í andstöðu við gildandi lög og reglugerðir. Gagngert sé tekið fram í matsgerðinni að verulegir ágallar hafi verið á uppsetningu og frágangi. Meðal annars segi í matsgerðinni að það sé mat matsmanns að áfellur og frágangur áfella við steypta veggi sé ekki alls staðar fullnægjandi. Einnig segi að það sé mat matsmanns að áfellur sem séu kringum glugga séu ekki réttar. Þá komi fram það mat matsmanns að þar sem frárennslisrör frá svölum fari í gegnum klæðingu útveggja sé ófullnægjandi frágangur. Loks segir að á flestum stöðum sem klæðing hafi verið opnuð við vettvangsskoðun hafi komið í ljós að einangrun var lítið fest við veggi. Öll þessi atriði sýni svo ekki verði um villst að hönnunarvinna stefnda Sigurðar hafi verið í góðu lagi og telji stefndu óþarft að nefna fleiri atriði úr matsgerðinni.

Í þriðja lagi sé áréttað að hönnun lagna, staðsetning lagna og efnisval á lagnaefni í framhaldi af hönnun stefnda Sigurðar sé ekki eitt og hið sama. Stefndi hafi gert aðaluppdrætti og þeir séu samþykktir eins og fram hafi komið. Hafi stefndi gert fjölmarga sams konar aðaluppdrætti þar sem veðurkápa og einangrunarkerfi sé hannað með sama hætti og hafi af hálfu byggingaryfirvalda ekki verið gerðar neinar athugasemdir við í áranna rás hvað þetta varði. Það hafi verið ljóst frá upphafi að rigningarvatn hafi getað komist inn fyrir bárujárnsklæðninguna í einhverju en litlu magni, enda ekki gert ráð fyrir því að hún sé loftþétt eða rigningarheld. Hönnuður lagna hafi ákveðið staðsetningu hitalagna og hafi valið efnið í hitalagnirnar og haft undir höndum teikningar stefnda. Honum hafi því verið kunnugt um gerð veðurkápunnar og einangrunarkerfisins og hafi borið að taka mið af því við val á efni í hinar utanáliggjandi hitalagnir. Hafi hann ekki gert það geti hönnuður aðaluppdrátta ekki borið ábyrgð á því. Stefndi Sigurður hafði og gat ekki haft neina aðkomu að hönnunarvinnu vegna laga. Það verði einnig að benda á það að á þeim tíma sem hönnun lagnanna hafi verið gerð hafi ekki verið talið óeðlilegt að notast við svart stál í hitalögnum sem þessum.

Í fjórða lagi sé óhjákvæmilegt að benda á að ályktanir matsmanns um orsakir ryðmyndunar í hitalögnum séu hæpnar. Líklegasta skýringin á ryðmyndun sé ekki utanaðkomandi rigningarvatn, heldur saggamyndun utan á bakrásarlögnum. Hitastig í bakrásarlögnum sé lágt og utanáliggjandi lagnir úr svörtu stáli geti auðveldlega ryðgað af þeim ástæðum einum. Það sem bendi til að rigningarvatn sé ekki orsökin sé augljóslega sú staðreynd að timburvirkið í burðargrind einangrunar sé ófúið eftir um 15 ára notkun. Húsið standi áveðurs og því líklegt að rigning og vindar næði um húsið. Líklegt megi telja af þeim ástæðum að eitthvað af rigningarvatni komist inn fyrir veðurkápuna. Ljóst megi vera að það rigningarvatn nái að drenast eða þorna þar sem það hafi ekki valdið fúa í timbrinu. Langvarandi bleyta valdi fúa og sveppamyndun í timbri á tiltölulega stuttum tíma. Það sé því að mati stefndu fráleitt að halda því fram að hitalagnir hafi ryðgað vegna rigningarvatns.

Í fimmta lagi verði að benda á röksemdavillu í framsetningu og ályktunum matsmanns. Í fyrirliggjandi matsgerð komi eftirfarandi fram: „... hefur verið gert ráð fyrir í hönnun og framkvæmd að rigningarvatn komist að nokkru marki undir klæðninguna og einangrun þar undir.“ Þessari ályktun eða fullyrðingu verði að andmæla hvað varði hönnun stefnda Sigurðar. Það hafi ekki verið gert ráð fyrir að regnvatn kæmist undir klæðningu og einangrun í hönnun umfram það sem leiði af eðli hönnunarinnar. Það megi ljóst vera að regnvatn geti komist að einhverju marki undir veðurkápuna. Jafnframt verði að benda á að hönnuður veðurkápu og einangrunarkerfis hafi ekkert haft með uppsetningu og framkvæmd að gera eins og áður segi. Ef það hafi verið ljóst, eins og matsmaður haldi fram, að regnvatn hafi að einhverju marki getað komist inn fyrir veðurkápu og einangrun þá ætti að vera ljóst að það hafi verið hönnuður lagna sem hafi átt að taka mið af því við val á efni á lögnum og staðsetningu hitalaga. Hönnuður veðurkápu og einangrunar hafi ekki getað það þar sem hann hafði lokið hönnun sinni áður en hönnun lagna hafi átt sér stað og hönnun lagna hafi verið á hendi annars aðila. Þessar ályktanir matsmanns séu sérkennilegar svo vægt sé til orða tekið og vera megi að matsmaður hafi haldið að stefndi Sigurður Þorvarðarson og Sigurður Þorleifsson sé einn og sami maðurinn. 

Í sjötta lagi haldi stefndu því fram að mál þetta sé hönnuði aðaluppdrátta með öllu óviðkomandi og varði meinta galla á seldri fasteign eins og skýrt sé tekið fram í fyrirliggjandi matsgerð. Það sé afar langsótt að aðalhönnuður geti borið ábyrgð á galla í fasteign sem komi fram mörgum árum eftir að hús hafi verið reist.

Í sjöunda lagi sé færð fram sú málsástæða að allar hugsanlegar bótakröfur á hönnuð aðaluppdrátta séu löngu fyrndar. Atvik málsins urðu í gildistíð laga nr. 14/1905. Teikningar þær og hönnun sú sem málið varði hafi verið framkvæmd á árinu 2002 og teikningar samþykktar á því ári og verði því að líta svo á að upphaf fyrningarfrests í máli þessu sé lok árs 2002. Það hafi ekki verið fyrr en á árinu 2015 sem stefndi Sigurður hafi fengið að vita um mál þetta. Stefndi Sjóvá-Almennar hafi hins vegar ekki fengið vitneskju um málið fyrr en á árinu 2017. Kröfur vegna vinnu fyrnist á fjórum árum samkvæmt 1. tölulið. 3. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt  2. tölulið 4. gr. sömu laga sé 10 ára fyrning hið lengsta á kröfum vegna máls þessa  og séu kröfur stefnenda því löngu fyrndar. Sé því haldið fram að fyrning byrji ekki að líða fyrr en húsið hafi verið tekið í notkun séu kröfur allt að einu fyrndar.

Stefnandi beri því við að fyrningarfrestur í máli þessu sé ekki liðinn. Þær mótbárur stefnanda haldi ekki. Fyrning bótakröfu hefjist þegar krafan sé gjaldkræf og það tímamark sé skaðaverkið sem slíkt. Það tímamark sé að mati stefndu samþykkt teikninga eða í síðasta lagi það tímamark þegar hús hafi verið tekið í notkun. Engu máli skipti vitneskja tjónþola eða það að lokaúttekt hafi ekki farið fram fyrr en seint og um síðir. Um það vitni skýrt fordæmi Hæstaréttar Íslands í málinu númer 571/2016 þar sem segi að lokaúttekt skipti engu máli um upphaf fyrningarfrests. Þá sé fráleitt að því sé haldið fram að framkvæmdir byggingaraðila eftir afhendingu geti rofið fyrningu gagnvart þessum stefndu.

Loks sé því haldið fram að kröfur á þessa stefndu hafi fallið niður fyrir tómlæti. Það virðist sem svo að gallar í húsinu hafi þegar komið fram stuttu eftir að húsið hafi verið tekið í notkun. Fram hafi komið að lagnakerfi hússins hafi verið gallað og hafi það leitt til þess að eitt vátryggingarfélag hafi sagt upp tryggingum hússins. Ljóst sé að þegar á árinu 2013 hafi verið komið í ljós að lagnir hafi verið gallaðar. Stefndi Sigurður fái ekki að vita um mál þetta fyrr en á árinu 2015 og stefna hafi verið birt honum á árinu 2017.  Að mati stefndu komi tómlætisáhrif til sem leiði til þess að sýkna beri stefndu.

Hvað varði stefnufjárhæð og tjónið sem slíkt sé bent á að stefnufjárhæð og kröfugerð taki ekki tillit til þess að nýtt komi í stað gamals. Ekki liggi fyrir upplýsingar um meðalendingartíma hitalagna utan húss hér á landi en gera megi ráð fyrir að hann sé að hámarki 30-40 ár. Kerfið sé í dag 15 ára gamalt og ef nýjar hitalagnir verði settar í húsið beri að taka tillit til þess og lækka dæmdar bætur komi til þess að tjónið verði talið bótaskylt af hálfu hönnuðar. Ekki liggi fyrir hvort inni í bótakröfum á þessa stefndu séu sérlagnir einstakra íbúðareigenda en húsfélagið verði að taka mið af því við kröfugerð í málinu.

Hvað lagarök varðar vísa stefndu til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 47. gr., til þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Enn fremur til laga nr. 160/2010 um mannvirki, einkum 23. greinar, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, almennra reglna kröfuréttar og almennra reglna skaðabótaréttar, bæði innan og utan samninga. Þá er vísað til reglugerðar nr. 431/1994 um viðskipti með byggingarvörur og laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, einkum 18.-29. gr.

V

Málsástæður og lagarök stefndu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Stefnda Tryggingamiðstöðin hf. kveður óumdeilt að bygging hússins að Berjavöllum 2 hafi farið fram á árunum 2002-2003 og að húsið hafi verið tekið í notkun 2004. Í réttarframkvæmd, er varði þau lög sem í gildi voru þegar framkvæmdir vegna hússins fóru fram (skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997), hafi því verið slegið föstu að á byggingarstjóra hvíli ekki aðeins að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur einnig skylda til að hafa yfirumsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum sem hann stýri, þar á meðal að iðnmeistarar, sem koma að verkinu fyrir hans atbeina, sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi, sbr. 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga. Felli byggingarstjóri á sig skaðabótaábyrgð með saknæmri vanrækslu á þessum skyldum. Af framansögðu leiði að meint vanræksla byggingarstjóra sem komi til skoðunar í máli þessu varði þá atvik á áðurnefndum byggingartíma hússins. 

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að dómkrafan á hendur honum sé fyrnd samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sem gildi um hana. Starfsábyrgðartrygging byggingarstjóra taki til skaðabótakröfu utan samninga en samkvæmt 2. tölul. 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist slíkar kröfur á 10 árum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga teljist fyrningarfrestur frá þeim degi sem krafa hafi orðið gjaldkræf. Gjalddagi skaðabótakröfu sé þegar hún stofnist en skaðabóta-krafa hafi stofnast þegar hin meinta bótaskylda háttsemi átti sér stað. Af síðastgreindu leiði í fyrsta lagi að um fyrningu kröfu málsins fari samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í öðru lagi liggi þá fyrir að krafa málsins hafi þegar verið fyrnd þegar stefnandi hafi höfðað mál þetta í ágúst 2017, enda hafi þá verið liðin meira en 10 ár frá því að byggingu hússins hafi lokið. Sé öðrum skilningi stefnanda mótmælt, enda ekki í samræmi við áðurnefndar fyrningarreglur, reglur skaðabótaréttar eða dómafordæmi Hæstaréttar Íslands. 

Stefndi mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda um að fyrningarfrestur hafi verið rofinn þegar Fagtak ehf., sem annaðist byggingu hússins, greiddi kostnað við tilteknar úrbætur á árinu 2013. Í slíkri greiðslu felst ekki slit á fyrningarfresti samkvæmt lögum nr. 14/1905 eða, ef svo væri, geti sú háttsemi Fagtaks ehf. ekki falið í sér slit á fyrningarfresti gagnvart stefnda. Þá mótmæli stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að framkvæmd lokaúttektar á árinu 2012 og 26. og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 leiði til þess að krafan sé ófyrnd eins og virðist byggt á í stefnu. Á engan hátt verði séð hvernig háttsemi byggingarstjóra við framkvæmd lokaúttektar hafi valdið stefnanda tjóni. Þá sé sitthvað fyrning bótakröfu í ábyrgðartryggingu og hversu lengi sömu vátryggingu sé ætlað að gilda, eins og 33. gr. mæli fyrir um í tilviki byggingarstjóra. Krafa geti með öðrum orðum fyrnst og fyrnist óháð því hvort ábyrgðartrygging, sem krafan getur fallið undir, er í gildi eður ei. 

Þá sé þýðingarlaus sú málsástæða stefnanda að hann hafi hraðað málinu og beri ekki ábyrgð á drætti málsins og það hafi þannig á einhvern hátt áhrif á fyrningu kröfu hans. Stefnandi hafi notið fulltingis lögmanna frá því að hann hafi fyrst gert stefnda viðvart um kröfur sínar á árinu 2014 og að enn fremur hafi liðið um hálft ár frá því að afstaða stefnda hafi fyrst legið fyrir og þar til stefnandi óskaði mats dómkvadds matsmanns, og aðrir sex mánuðir hafi liðið frá því að matsgerð lá fyrir og þar til matsgerð var kunngerð stefnda. Það sé kröfuhafa að gæta þess að krafa hans fyrnist ekki. Þar sem krafa stefnanda sé fyrnd beri að sýkna stefnda.

Varakrafa stefnda um lækkun dómkröfu styðst við tvær málsástæður. Sú fyrri sé af skaðabótaréttarlegum toga, en sú síðari sé vátryggingarréttarlegs eðlis og komi aðeins til skoðunar fallist dómurinn á að krafa stefnanda á hendur hinum stefnda byggingarstjóra nemi hærri fjárhæð en sem nemi hámarksbótum starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra.

Stefndi kveður að ráða megi af þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, að á byggingarstjóra hafi hvílt ýmsar starfsskyldur og vanræksla hans á þeim skyldum gæti, að öðrum skilyrðum skaðabótaréttar uppfylltum, bakað honum skaðabótaábyrgð. Af þessum sömu réttarheimildum leiði einnig að byggingarstjóri beri ekki ábyrgð á ágöllum, sem raktir verði til ófullnægjandi hönnunar, ef byggt hafi verið í samræmi við samþykkta uppdrætti, enda hafi byggingarstjóri ekki mátt gera sér grein fyrir þessum annmörkum við verkið. Þá sé heldur ekki talið að byggingarstjóri beri ábyrgð á göllum í aðkeyptum einingum eða byggingarhlutum nema annmarkar hafi verið raktir til uppsetningar á byggingarstað eða að byggingarstjóri hafi mátt gera sér grein fyrir því að einingarnar eða byggingarhlutar hentuðu ekki eða væru gallaðir.

Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns hafi meðal annars orðið skemmdir og tjón á hitalögnum hússins sem staðsettar séu innan við utanhúss-klæðningu þess. Orsökina sé að rekja til þess að regnvatn eigi greiða leið inn undir klæðninguna og að sama vatn eigi ekki greiða leið út aftur. Í matsgerðinni sé tiltekið að þegar hönnun og útfærsla klæðningar sé skoðuð sé ljóst að gert sé ráð fyrir að vatn eigi nokkuð greiða leið inn undir klæðninguna. Af umfjöllun matsmanns megi ráða að það þurfi ekki í sjálfu sér að teljast óforsvaranlegt eða óeðlilegt en hins vegar sé þá nauðsynlegt að gerðar séu ráðstafanir sem tryggi að ekki komi til skemmda á þeim byggingarefnum sem séu innan klæðningar eða geti valdið leka inn í húsið. Á það hafi skort að gert hafi verið ráð fyrir slíkum ráðstöfunum við hönnun utanhúsklæðningar-innar, það er að vatnið komist aftur undan klæðningunni. Í samþykktum hönnunar-gögnum séu ekki gerðar ráðstafanir sem tryggja að vatn komist undan klæðningu, hvorki með drenun ofan við glugga eða við neðri brún klæðningar. 

Hönnun utanhúsklæðningarinnar gangi þannig út frá því að vatn komist undir hana. Ástæður þess að vatn komist hins vegar ekki út og það valdi svo aftur tjóni á hitalögnum séu þær að hönnun geri ekki ráð fyrir því að vatnið komist út með því að gera ráð fyrir drenun ofan við glugga og neðst á klæðningunni en sjálf framkvæmdin víki að þessu leyti ekki frá samþykktum hönnunargögnum. Þá geri hönnun ekki heldur ráð fyrir, miðað við hvernig utanhúsklæðing sé hönnuð, að hitalagnir, sem séu fyrir innan hana, séu á einhvern hátt varðar gagnvart þeirri áraun sem regnvatn hafi sem tæringarvaldur gagnvart þeim. Í því sambandi megi sérstaklega nefna að matsmaður leggi til að sérstakur dúkur verði settur yfir einangrun til að verja hitalagnir fyrir því regnvatni sem komist inn fyrir klæðningu, þá sem viðbótarvatnsvörn. Kostnaður við uppsetningu dúksins sé því til að mynda einn og sér nauðsynlegur byggingarkostnaður sem legið hefði fyrir í upphafi hefði klæðning og lagnakerfi þá verið hönnuð með viðunandi hætti.

Framkvæmd utanhúsklæðingar sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, þó ekki að því leyti sem stefnandi nefni, að útlit hennar sé öðruvísi í framkvæmd en gert sé ráð fyrir á uppdráttum þannig að flötum sé skipt upp bæði ofan við glugga og út frá þeim á uppdráttum en ekki í framkvæmd. Þetta sé hins vegar eingöngu útlitslegt atriði og engin orsakatengsl séu milli þessa fráviks og þess tjóns sem staðreynt sé í matsgerð. Tjón á hitalögnum og ráðstafanir til að fyrirbyggja framtíðartjón á þeim sé að rekja til ófullnægjandi hönnunar en verði ekki rakin til starfa byggingarstjóra.

Í umföllun sinni um glugga og gluggabúnað komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að uppsetning og ísetning þeirra sé í samræmi við almennar kröfur en óeðlilegt sé að samsetning á opnanlegum fögum sé að losna í sundur. Því þurfi að taka upp opnanleg fög, fara yfir samsetningar og endurgera ásamt því að yfirfara þéttilista. Taka þurfi gler úr gluggum, þar sem leki hafi komið fram með gleri, og endurgera þéttingar ásamt því að „bólusetja“ gluggasamsetningar. Opnanleg fög hafi komið glerjuð á byggingarstað og gluggar samsettir.  Eins og áður segi geti byggingarstjóri ekki borið ábyrgð á galla í aðkeyptum einingum eða byggingarhlutum nema annmarka sé að rekja til uppsetningar á byggingarstað eða hann hafi mátt gera sér grein fyrir annmörkunum en svo hátti ekki til hér.     

Í 1. mgr. 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 hafi verið kveðið á um þá skyldu að byggingarstjóri skyldi hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem geti leitt af gáleysi í starfi hans. Tryggingin skyldi nema minnst 5.000.000 króna vegna hvers einstaks tjónsatviks en fjárhæðin skyldi miðast við byggingarvísitölu, 229,8 stig, og breytast 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni, sbr. 2. mgr. 33. gr. reglugerðarinnar. Þá verði ráðið af réttarframkvæmd að miða verði greiðsluskyldu vátryggingarfélags við fjárhæð vátryggingarinnar sem í gildi hafi verið þegar ætluð vanræksla byggingarstjóra við eftirlit og umsjón með verkinu hafi átt sér stað, í þessu tilviki samkvæmt framlögðu vátryggingarskírteini sem gilti á byggingartíma hússins, þegar framkvæmdum hafi lokið 2004. Sé vátryggingarfjárhæðin  6.262.000 krónur. Ef fallast eigi að einhverju eða öllu leyti á kröfur stefnanda í málinu megi því ljóst vera að gagnvart stefnda sé aldrei hægt að viðurkenna meira fjártjón en nemi fyrrgreindri fjárhæð.

Stefnandi geri kröfu um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2013 til 14. júlí 2016. Stefndi mótmæli kröfunni á grundvelli 2. mgr. 8. gr. áðurnefndra laga. Fyrir liggi að dómkrafan byggist á kostnaðarmati dómkvadds matsmanns, en það kostnaðarmat sé byggt á verðlagi í júní 2016. Þá geri stefnandi, með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, kröfu um dráttarvexti frá 14. júlí 2016 að telja, enda hafi þá verið liðinn mánuður frá því að matsgerð hins dómkvadda matsmanns lá fyrir. Matsgerðina lagði stefnandi hins vegar ekki fyrir stefnda fyrr en með bréfi 19. janúar 2017 og í samræmi við tilvísað lagaákvæði sé upphafstími dráttarvaxtakröfu þá 19. febrúar 2017.

Hvað varðar lagarök vísar stefndi til áðurgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um ábyrgð byggingarstjóra. Þá er vísað til laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 4. og 5 gr., reglna skaðabótaréttar um gjalddaga kröfu, 8. gr. laga nr. 32/2001 um vexti og verðtryggingu og til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

VI

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu skaðabóta vegna galla í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup sem hann telur að komið hafi fram á fjöleignarhúsinu að Berjavöllum 2 í Hafnarfirði og staðfestir hafi verið með matsgerð dómkvadds matsmanns 14. júní 2016. Krefst stefnandi þess að allir stefndu greiði in solidum 3.190.149 krónur auk vaxta og að stefndu Guðlaugur og Tryggingamiðstöðin hf. greiði stefnanda in solidum 12.070.511 krónur auk vaxta. Málatilbúnaður og kröfur stefnanda eru byggðar á því að stefndu Guðlaugur Adolfsson og Sigurður Þorvarðarson, sem byggingarstjóri og hönnuður hússins, beri ábyrgð á göllunum. Þá vísar stefnandi til þess að stefndi Guðlaugur hafi verið með lögboðna ábyrgðar-tryggingu hjá stefndu Tryggingamiðstöðinni hf. og stefndi Sigurður með slíka tryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Þeir ágallar sem um ræðir varða frágang klæðningar á útveggjum sem eru klæddir báruðum málmplötum, loftun á milli steinullar og bárujárnsklæðningar, frágang á hitalögnum utan við steyptan útvegg bak við og í einangrun útveggja, frágang á stoðvegg á austurhlið hússins, ytra byrði glugga og loks raka undir gluggum í einstökum íbúðum.

Stefndu byggja sýknukröfu sína meðal annars á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Vísa stefndu í því sambandi til 2. töluliðar 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Stefndu Sigurður og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vísa sérstaklega til þess að málið sé hönnuði aðaluppdrátta óviðkomandi og varði meinta galla á seldri fasteign. Langsótt sé að aðalhönnuður geti borið ábyrgð á galla á fasteign sem komi fram mörgum árum eftir að húsið hafi verið reist. Teikningar og eða hönnun sú sem málið varði hafi verið framkvæmd á árinu 2002 og teikningar samþykktar á því ári og því verði að líta svo á að upphaf fyrningarfrest í málinu sé í lok árs 2002.

Stefnandi hafnar þeirri málsástæðu stefndu að krafan sé fyrnd. Vísar stefnandi til þess að þeir annmarkar sem matsgerð hins dómkvadda matsmanns lúti að hafi fyrst komið fram árið 2013. Ráða megi af dómaframkvæmd að fyrningarfrestur skaðabótakröfu vegna atvika í gildistíð laga nr. 14/1905 hafi ekki byrjað að líða fyrr en tjónþola urðu ljósar þær ástæður sem kunni að leiða til bótaskyldu. Í 9. gr. laga nr. 150/2007 komi fram að kröfur um skaðabætur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi að tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón og þann sem ábyrgð ber. Þá hafi Fagtak ehf., sem hafi annast byggingu hússins, greitt kostnað við úrbætur í kjölfar leka í bílakjallara hússins árið 2013. Hafi úrbætur Fagtaks ehf. rofið fyrningarfrestinn hafi hann verið byrjaður að líða á þeim tíma. Stefnandi vísar einnig til þess að lokaúttekt skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hafi farið fram í desember 2012 og að ábyrgðartrygging byggingarstjóra og hönnuða gildi í að minnsta kosti fimm ár frá dagsetningu lokaúttektar, sbr. 26. og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Svo sem fram er komið var fjöleignarhúsið að Berjavöllum 2 byggt á árunum 2002 og 2003 og voru allar íbúðir í húsinu seldar 2004. Er þetta óumdeilt í málinu. Kröfur stefnanda um skaðabætur eru vegna ætlaðra galla á tilteknum verkþáttum sem lokið var við í síðasta lagi í lok árs 2004. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnist skaðabótakrafa af þeim toga sem um ræðir á 10 árum. Samkvæmt meginreglu skaðabótaréttar stofnast skaðabótakrafa þegar bótaskyld háttsemi á sér stað og miðast gjalddagi kröfunnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. nefndra laga nr. 14/1905, við sama tímamark. Að mati dómsins stofnaðist krafa stefnanda á hendur stefndu vegna þess tjóns sem hann telur að stefndu hafi valdið í síðasta lagi í lok árs 2004 og fyrndist 10 árum síðar. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 22. ágúst 2017. Fyrir það tímamark hafði stefnandi ekkert það gert í málinu sem rofið gat fyrningu kröfu hans lögum samkvæmt. Engu breytir í þessu sambandi þótt stefnanda hafi verið ókunnugt um þær ástæður sem hann telur að hafi leitt til bótaskyldu í málinu. Ekki stoðar fyrir stefnanda að vísa til laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, enda gilda þau lög eingöngu um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna, sbr. 28. gr. Þá verður það ekki talið breyta neinu um bótaskyldu stefndu í málinu þótt Fagtak ehf. hafi kostað úrbætur vegna leka í bílageymslu hússins á árinu 2013. Slítur það ekki fyrningu gagnvart stefndu.

Eins og fram er komið vísar stefnandi til þess um ábyrgð stefndu á ætluðum göllum á eigninni að ábyrgðartrygging hönnuðar samkvæmt 26. gr. byggingar-reglugerðar nr. 441/1998 gildi í að minnsta kosti fimm ár frá lokaúttekt og ábyrgðartrygging byggingarstjóra samkvæmt 33. gr. sömu reglugerðar gildi í að minnsta kosti fimm ár frá lokaúttekt. Í síðarnefnda ákvæðinu er tekið fram að slík trygging byggingarstjóra gildi í að minnsta kosti fimm ár frá lokum framkvæmda sem byggingarstjóri hefur stýrt, en lok framkvæmda miðist við „dagsetningu lokaúttektar skv. gr. 53.“ Fyrrnefnd ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar um gildi ábyrgðar-trygginga og lokaúttekt fá ekki breytt ákvæðum laga nr. 14/1905 sem gilda um fyrningu skaðabótakröfu og er því ekki fallist á sjónarmið stefnanda í þá veru.

Samkvæmt því sem nú er fram komið var krafa stefnanda fyrnd þegar mál þetta var höfðað og verða stefndu því sýknaðir af kröfum stefnanda í málinu.

Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum til hvors stefndu, Guðmundar Adolfssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar hf., og 600.000 krónur til hvors stefndu, Sigurðar Þorvarðarsonar og Sjóvá-Almennrar trygginga hf.

Jón Höskuldsson héraðsdómari, dómsformaður, dæmir mál þetta ásamt meðdómsmönnunum Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara og Vífli Oddssyni byggingarverkfræðingi. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Guðlaugur Adolfsson, Sigurður Þorvarðarson, Tryggingamiðstöðin hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Húsfélagsins Berjavöllum 2.

Stefnandi greiði stefndu, Guðlaugi Adolfssyni og Tryggingamiðstöðinni hf., hvorum fyrir sig, 900.000 krónur í málskostnað og stefndu Sigurði Þorvarðarsyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., hvorum fyrir sig, 600.000 krónur.

 

Jón Höskuldsson

Sandra Baldvinsdóttir

Vífill Oddsson