• Lykilorð:
  • Fjárnám
  • Veðréttindi
  • Krafa um óg. aðfarargerð í heild

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 16. janúar 2019, í máli nr. Y-4/2018:

Ístraktor ehf.

og

Páll Gíslason

(Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. janúar 2019, barst Héraðsdómi Reykjaness með bréfi sóknaraðila þann 31. júlí 2018.

Sóknaraðilar eru Ístraktor ehf., kt. 000000-0000, Smiðsbúð 2, Garðabæ, og Páll Gíslason, Miðskógum 19, Garðabæ.

Varnaraðili er Landsbankinn hf., kt., 000000-0000, Austurstræti 11, Reykjavík.

Sóknaraðilar krefjast þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, í aðfararmáli nr. [...], sem fram fór á skrifstofu sýslumanns að Hlíðarsmára 1 í Kópavogi þann 5. júní 2019, þar sem gert var fjárnám fyrir kröfum varnaraðila í „fasteignunum Smiðsbúð 2, Garðabæ, fnr. 207-2266 og 207-2268 í réttindum skv. tryggingarbréfi nr. [...]“, verði ógilt með úrskurði héraðsdóms. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, og að framangreind fjárnámsgerð sem gerð var í Smiðsbúð 2, fastanúmer 207-2266 verði staðfest, og að sóknaraðilum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins, að því tilteknu að málshöfðun þessi sé með öllu tilhæfulaus.

I

Með aðfararbeiðni, dags. 28. mars 2018, sem send var embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, krafðist varnaraðili þess að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðilanum Ístraktor ehf., á grundvelli dóms Hæstaréttar nr. 279/2017 frá 22. mars 2018. Fjárhæð kröfu var tilgreind 68.499.375 krónur með vöxtum og kostnaði. Boðun til fjárnámsfyrirtöku var birt þann 2. maí 2018 fyrir maka sóknaraðilans Páls Gíslasonar fyrirsvarsmanns sóknaraðilans, Ístraktors ehf.

Þann 5. júní 2018 var aðfararbeiðnin tekin fyrir, þar sem mættir voru lögmenn fyrir hönd varnaraðila og sóknaraðilans Ístraktors ehf. Lögmaður sóknaraðila kvaðst þekkja til kröfu varnaraðila en ekki yrði orðið við kröfu um að greiða hana. Benti lögmaður sóknaraðila þess í stað á fasteignirnar „Smiðsbúð 2, Garðabæ fnr. 207-2266 og 207-2268 í réttindum skv. tryggingarbréfi nr. [...]“ til fjárnáms fyrir kröfunni, og lauk gerðinni með því að gert var fjárnám í nefndum réttindum.

II

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að krafan sé byggð á því að sóknaraðila, Páli Gíslasyni hafi ekki verið kunngjört sem eiganda að Smiðsbúð 2, fanr. 207-2268 um að fyrirhugað væri að gera fjárnám í tryggingarbréfi áhvílandi á eign hans, fyrir skuld Ístraktors ehf., og að honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að bjóða fram greiðslu. Hafi Páll ekki fengið stöðu gerðarþola við aðförina sem hafi því farið fram án boðunar til hans, og ekki hafi verið mætt af hans hálfu við gerðina.

Byggt er á því um kröfu sóknaraðilans Ístraktor ehf. að birting hafi ekki tekist, þótt mætt hafi verið við fjárnámið fyrir hann. Birtingarvottorðið beri ekki með sér áritun þess að birting hafi átt sér stað né beri það áritun birtingarmann um að synjað hafi verið undirritunar. Þá hafi sýslumaður látið fjárnám fram fara á grundvelli ljósrits af staðfestu endurriti dóms Hæstaréttar en ekki staðfestu endurriti. Hefði sýslumanni borið að vísa beiðni varnaraðila frá eða endursenda hana.

Sóknaraðilar vísa einkum til aðfararlaga nr. 90/1989. Krafan um málskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Varnaraðili upplýsir í sinni greinargerð að við móttöku á kröfu um úrslausn héraðsdóms um umrædda aðfarargerð hafi ekki verið annað að sjá en að sóknaraðili hafi dregið til baka ábendingu sína í eignarhluta sóknaraðilans Páls í Smiðsbúð, fnr. 207-2268. Hafi varnaraðili í framhaldi af því afturkallað nauðungarsölubeiðni á þann eignarhluta, og tilkynnt lögmanni sóknaraðila að fallið hefði verið frá fjárnáminu í eignarhluta Páls, þrátt fyrir að bent hefði verið á þann eignarhluta af lögmanni sóknaraðila. Hafi þetta átt að flýta fyrir lausn málsins, en það hafi ekki reynst raunin. Um nefna afturköllun vísar varnaraðili til 2. töluliðar 66. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Í greinargerð með því ákvæði segi meðal annars: „Almennt þarf ekki endurupptöku, þótt gerðarbeiðandi vilji falla frá fjárnámi í eign, því í flestu tilliti er nægilegt að gerðarþoli fái yfirlýsingu þess efni í hendur ...“

Varnaraðili kveðst hafna öllum kröfum og málsástæðum sóknaraðila eins og þær séu settar fram í greinargerð hans. Þar sem búið sé að falla frá fjárnámi á hendur sóknaraðilans Páli, þurfi tæplega að fjölyrða um það frekar, en aðrar málsástæður er snúi að sóknaraðila Ístraktor ehf., séu haldlausar. Birting fjárnámsboðunar hafi farið fram þann 2. maí 2018 á lögheimili fyrirsvarsmanns Ístraktors ehf. Því sé hafnað að nauðsynlegt sé að sá sem birt sé fyrir skrifi á birtingarvottorðið. Sé birtingarvottorðið rétt þar til hið gagnstæða sé leitt í ljós, sbr. 87. gr. laga nr. 91/1991. Að auki hafi verið mætt af hálfu sóknaraðila Ístraktors ehf. við gerðina, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, þar sem fram komi að engu máli skipti hvort og hvenær var birt fyrir stefnda ef hann mæti við þingfestingu máls.

Varnaraðili kveður að umrætt fjárnám hafi verið gert á grundvelli endurrits af dómi Hæstaréttar í máli nr. 279/2017, og sé það í samræmi við áratuga venjur og verklagsreglur og valdi ekki ógildingu aðfararinnar, enda séu ekki gerðar neinar athugasemdir um það við framkvæmd gerðarinnar sjálfrar. Dómurinn sé enda birtur á heimasíðu Hæstaréttar, og engin skylda í lögum að leggja þurfi fram frumrit dóma.

Varnaraðili kveðst mótmæla kröfum sóknaraðila um greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað, enda sé sóknaraðilinn Ístraktor ehf., virðisaukaskattskyldur. Um lagarök vísar sóknaraðili til framsettra lagatilvísana í lögum nr. 90/1989 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og málskostnaðarkrafa varnaraðila reist á XXI. kafla þeirra laga.

IV

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að felld verði úr gildi fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. [...], sem fór fram 5. júní 2018 í réttindum samkvæmt tryggingarbréfi sem hvílir á fasteignunum Smiðsbúð 2 í Garðabæ, annars vegar eignarhluta 207-2266 sem mun vera í eigi sóknaraðilans Ístraktors ehf., og hins vegar eignarhluta 207-2268 sem mun vera í eigi sóknaraðilans Páls Gíslasonar. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er málsaðilum heimilt, þar á meðal þriðja manni sem hagsmuni hefur af gerðinni, að krefjast úrslausnar héraðsdómara um aðfarargerð. Telja verður þessu skilyrði fullnægt með því að gert var fjárnám í eignum beggja sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 verður úrskurður í málinu byggður á því sem fram kemur í málflutningi, og framkomnum skjölum, þar sem kveðið verður á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðarinnar eða um breytingu hennar.

Byggt er á því af hálfu sóknaraðilans Ístraktors ehf. sérstaklega, að birting hafi ekki tekist, og athugasemdir eru um undirritanir á birtingarvottorði. Þá er á því byggt að frumrit dóms Hæstaréttar hafi ekki fylgt beiðni.

Á birtingarvottorðinu kemur fram að það hafi verið birt fyrir maka fyrirsvarsmanns Ístraktors ehf., á heimili hans, og ritar Guðmundur Tr. Ólafsson stefnuvottur undir. Fór birting því fram skv. ákvæðum 21. gr. laga nr. 90/1989, óháð því hvort ritað var undir vottorðið af hálfu gerðarþola. Birtingunni hefur ekki verið hnekkt. Þá mætti lögmaður Ístraktors ehf. við gerðina, án athugasemda um birtingu, og tók afstöðu til fyrirliggjandi beiðni sem gat því farið fram.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, er aðför heimil samkvæmt dómum. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga skulu skilríki fylgja aðfararbeiðni, „til dæmis endurrit dóms,“ sbr. athugasemdir í greinargerð með ákvæðinu.

Aðfararbeiðni varnaraðila snýr samkvæmt efni hennar eingöngu að Ístraktor ehf., enda Ístraktor ehf. einn tilgreindur sem gerðarþoli. Sóknaraðilinn Ístraktor ehf. var samkvæmt framangreindu boðaður til fjárnámsfyrirtöku þar sem lögmaður hans mætti og lýsti því yfir fyrir hans hönd að krafan yrði ekki greidd. Í framhaldi af því benti lögmaður Ístraktors ehf. á eignir til tryggingar skuldinni, þar á meðal í eign sóknaraðilans Páls Gíslasonar, fyrirsvarsmanns Ístraktors ehf., án þess að fyrir liggi hvort lögmanni sóknaraðila hafi verið það heimilt eða ekki. Ósannað er að annað hafi farið fram við nefnda fyrirtöku en beinlínis kemur fram í endurriti úr gerðarbók, og ritar lögmaður Ístraktors ehf. undir að gerðin hafi farið fram með framangreindum hætti.

Eftir að varnaraðila varð ljóst að lögmaður sóknaraðilans Ístraktors ehf. hafði bent á eign Páls, sendi lögmaður varnaraðila tölvupóst til lögmanns sóknaraðila þar sem fram kemur að til að einfalda málið þá falli varnaraðili frá fjárnámi í eignarhluta Páls, og afturkalli nauðungarsölubeiðni. Krefst varnaraðili því einungis staðfestingar á fjárnámi í eign sóknaraðilans Ístraktors ehf.

Samkvæmt athugasemdum í greinargerð með 2. tölulið 66. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 þá er óþarft að endurupptaka aðfarargerð hafi gerðarbeiðandi fallið frá fjárnámi, og gerðarþola fengið í hendur yfirlýsingu þess efni. Hefur sóknaraðili Páll að mati dómsins ekki sýnt fram á að yfirlýsing varnaraðila nægi ekki til að tryggja rétt hans eða að honum sé nauðsyn á ógildingu aðfarargerðarinnar.

 

Samkvæmt framangreindu er ljóst að umþrætt aðfararbeiðni þessa máls var aldrei beint að sóknaraðilanum Páli, og innkoma hans í málið sem þriðja manns var fyrir tilstuðlan lögmanns hans sjálfs þegar hann nýtti sér ábendingarrétt skv. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989. Ekki er því hægt að fallast á þá málsástæðu að ógilda beri gerðina þar sem Páll hafi ekki boðaður til fjárnámsgerðarinnar og ekki gefinn kostur á því að bjóða fram greiðslu. Þá einnig ljóst af þessu að það var ekki ákvörðun sýslumanns að fjárnám var gert í eignum Páls, auk þess sem ákvörðun verður aldrei ógild með vísan til 95. gr. laga nr. 90/1989, eins og krafa sóknaraðila virðist standa til.  

Með vísan til framangreinds er kröfum sóknaraðila, Ístraktors ehf. og Páls Gíslasonar um ógildingu á aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. [...], þar sem gert var fjárnám í tilgreindum eigum þeirra, hafnað.

Ekki er krafist breytingar á aðfarargerðinni. Með vísan til kröfugerðar varnaraðila verður fjárnám staðfest í eign Ístraktors ehf., Smiðsbúð 2 Garðabæ, fnr. 207-2266, í réttindum skv. tryggingarbréfi nr. [...].

 

Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 89/1990 um aðför, verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir með hliðsjón framangreindu hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Bogi Hjálmtýsson héraðsómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu nr. [...], sem fram fór þann 5. júní 2018, í Smiðsbúð 2, Garðabæ, fnr. 207-2266 í réttindum skv. tryggingarbréfi nr. [...].

Sóknaraðilar, Ístraktor og Páll Gíslason greiði varnaraðila, Landsbankanum 350.000 krónur í málskostnað.

 

Bogi Hjálmtýsson