• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 5. mars 2019 í máli nr. S-625/2018:

 

Ákæruvaldið

(Sonja Hjördís Berndsen saksóknarfulltrúi)

gegn

Vilhjálmi Jakobi Jónssyni

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 1. mars 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu á hendur Vilhjálmi Jakobi Jónssyni, kt. 000000-0000, [...];

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 11. nóvember 2017 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 0,58‰) um Fjarðarhraun í Hafnarfirði, til móts við Hjallahraun, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

Við þingfestingu málsins 1. mars 2019 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða telst því sannað og er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur [...] og hefur tvívegis sætt refsingu samkvæmt framlögðu sakavottorði. Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 7. janúar 2011 þess efnis að ákærði samþykkti greiðslu 100.000 króna sektar og að sæta sviptingu ökuréttar í átta mánuði vegna aksturs undir áhrifum áfengis 5. desember 2010. Ákærði samþykkti greiðslu sektar að fjárhæð 220.000 krónur og að sæta sviptingu ökuréttar í þrjú ár og sex mánuði með sektargerð lögreglustjóra 5. mars 2014 fyrir akstur undir áhrifum áfengis og lyfja.

Að framangreindum sakaferli og broti ákærða virtu þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin 30 daga fangelsi.

Með vísan til framangreinds ber, í samræmi við kröfugerð ákæruvalds og með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins sem, samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda um slíkan kostnað og með stoð í öðrum gögnum málsins, nemur samtals 24.255 krónum.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Vilhjálmur Jakob Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 24.255 krónur í sakarkostnað.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir