• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 7. mars 2019 í máli nr. S-647/2018:

 

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Herði B. Bjarnasyni

 

            Mál þetta, sem var tekið til dóms 1. mars 2019, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 18. desember 2018 á hendur Herði B. Bjarnasyni, kt. 000000-0000, [...];

,,fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa sunnudaginn 20. maí 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti suður Lækjargötu og gegn rauðu ljósi á gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

Við þingfestingu málsins 1. mars 2019 kom ákærði fyrir dóm og játaði sök. Í ljósi játningar ákærða var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið því tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu. Að mati dómsins samrýmist játning hans framkomnum gögnum. Brot ákærða teljast því sönnuð og eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur [...] og á samkvæmt framlögðu sakavottorði að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 1967. Við ákvörðun refsingar í máli þessu hefur eftirfarandi áhrif; Ákærði gekkst undir sektargerð lögreglustjóra 11. júní 2014 þess efnis að ákærði samþykkti greiðslu sektar að fjárhæð 300.000 krónur og að sæta sviptingu ökuréttar í fjögur ár fyrir akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis. Með dómi 29. apríl 2016 var ákærði dæmdur í 45 daga fangelsi og var sviptur ökurétti ævilangt fyrir akstur undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Með dómi 2. nóvember sama ár var ákærði sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti 10. ágúst 2015 en með dómnum var ákærða gerður hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við fyrrnefndan dóm frá 29. apríl 2016. Ákærða var ekki gerð frekari refsing í málinu.

Samkvæmt því sem að framan greinir um sakaferil ákærða og að brotum hans virtum, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing hans samkvæmt dómvenju réttilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn málsins eða meðferð þess fyrir dómi.

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Ákærði, Hörður B. Bjarnason, sæti fangelsi í 30 daga.

 

Margrét Halldóra Hallgrímsdóttir