• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 25. október 2018 í máli nr. S-298/2018:

Ákæruvaldið

(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Margréti Mjöll Sverrisdóttur

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

Mál þetta er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 24. maí 2018, á hendur  Margréti Mjöll Sverrisdóttur, kt. [...], „fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 27. október 2016, staðið að innflutningi á samtals 239,75 g af MDMA (ecstasy) dufti, með 73% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin sem unnt er að framleiða úr um 1.902 MDMA töflur, flutti ákærða til Íslands sem farþegi með flugi [...] frá Kaupmannahöfn í Danmörku til Keflavíkurflugvallar, falin innvortis í líkama sínum.

Telst brot þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.

Þess er krafist að [ákærða] verði [dæmd] til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Krafist er upptöku á 239.75 g af MDMA, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Ákærða kom fyrir dóm og játaði þar sök samkvæmt ákæru. Með játningu sinni, sem fær næga stoð í gögnum málsins, er ákærða sönn að sök samkvæmt ákæru og hefur unnið sér til refsingar. Með broti sínu flutti hún til landsins hættulegt fíkniefni sem ætlað var til sölu og dreifingar. Við ákvörðun refsingar verður horft til skýlausrar játningar ákærðu og þess að henni hefur, samkvæmt sakavottorði, ekki verið gerð refsing áður. Ákærða hefur frá upphafi borið að hún hafi flutt fíkniefnin til landsins en ekki komið að skipulagningu og fjármögnun innflutningsins að öðru leyti. Hefur ákæruvaldið ekki borið brigður á þetta og verður við þetta miðað. Brotið framdi ákærða í október 2016 en ákæra var gefin út í maí 2018. Þegar á allt er horft verður refsing ákærðu ákveðin fangelsi í átján mánuði en jafnframt ákveðið að fullnustu fimmtán mánaða af refsingunni verði frestað og niður falli hún að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins. Frá refsingunni skal draga með fullri dagatölu gæzluvarðhald sem ákærða sætti frá 28. október til 9. nóvember 2016. Fallast ber á upptökukröfu. Ákærða verður dæmd til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 252.960 krónur með virðisaukaskatti, þóknun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, sem gætti hagsmuna ákærðu á rannsóknarstigi, 210.800 krónur með virðisaukaskatti, og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti saksóknara nemur 348.290 krónum.

Af hálfu ákæruvalds fór Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari með málið. Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærða, Margrét Mjöll Sverrisdóttir, sæti fangelsi í átján mánuði. Fullnustu fimmtán mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Frá refsingunni skal draga gæzluvarðhald sem ákærða sætti frá 28. október til 9. nóvember 2016.

Upptæk eru gerð 239,75 g af MDMA dufti sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 252.960 krónur, þóknun Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, sem gætti hagsmuna ákærðu á rannsóknarstigi, 210.800 krónur, og annan sakarkostnað, 348.290 krónur.

 

Þorsteinn Davíðsson