• Lykilorð:
  • Samningur
  • Sönnunarbyrði

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur, mánudaginn 11. mars 2019 í máli nr. E-4095/2017:

Hönnun og eftirlit ehf.

(Flosi Hrafn Sigurðsson lögmaður.)

gegn

Elsu Soffíu Jónsdóttur

(Andri Andrason lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað með birtingu stefnu 14. desember 2017, var dómtekið 11. febrúar sl. Stefnandi er Hönnun og eftirlit ehf. Bæjarlind 14-16 í Kópavogi og stefnda er Elsa Soffía Jónsdóttir, Vesturhúsum 12 í Reykjavík. Útivist varð af hálfu stefnanda og var stefnan árituð um aðfararhæfi 22. janúar 2018. Að beiðni stefndu var mál þetta endurupptekið 13. apríl sl.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða honum 725.214 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 25. maí 2017 til greiðsludags auk málskostnaðar.

 

Stefnda krefst aðallega frávísunar málsins frá dómi en til vara að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Frávísunarkröfu stefndu var hafnað með úrskurði dómsins 5. október sl.

 

I.

Helstu atvik máls eru þau að í nóvember 2016 tók forsvarsmaður stefnanda, Gunnar Fannberg Gunnarsson, að sér byggingarstjórn við nýbyggingu einbýlishúss stefndu að Gulaþingi 25 í Kópavogi. Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila um það verk.

 

Í stefnu segir að samið hafi verið um það milli aðila að stefnda skyldi greiða honum 558.000 krónur auk virðisaukaskatts. Sú greiðsla skyldi vera fyrir grunnvinnu sem ávallt felist í starfi byggingarstjóra og greiðsla fyrir þá ábyrgð sem hvílir á byggingarstjóra samkvæmt lögum. Óumdeilt er að í nóvember 2016 innti stefnda af hendi greiðslu þessarar fjárhæðar til PS verks ehf.

 

Í stefnu segir að í upphafi samningssambands aðila hafi verið gert ráð fyrir að stefnda innti af hendi greiðslu vegna vinnu Gunnars Fannbergs til SP verks ehf. en síðar hafi verið ákveðið að stefnandi skyldi innheimta ógreidd verklaun sjálfur. Fyrir liggur ódagsett yfirlýsing frá fyrirsvarsmanni SP verks ehf., Sverri Björgvinssyni, um framsal allra krafna á hendur stefndu vegna vinnu Gunnars Fannbergs til stefnanda. Þar er jafnframt yfirlýsing um að SP verk ehf. hafi tekið við grunngjaldi byggingarstjóra úr hendi stefndu án þess að fjárhæð sé tilgreind.

 

Stefnandi greinir frá því í stefnu að þegar hann hafi komið að verkinu hafi stefnda verið búin að semja við alla verktaka og iðnmeistara sem áttu að koma að byggingu hússins. Þá þegar hafi komið í ljós að vinna við byggingarstjórn hafi verið umfangsmeiri og tafsamari en ætlað hafi verið í upphafi. Skýringarnar á því kveður stefnandi m.a. vera þær að teikningum hafi verið ábótavant og framkvæmdir ekki í samræmi við teikningar. Af þeim sökum hafi úttektir verið tafsamar og stefnda hafi ákveðið án samráðs við sig að gera breytingar á verkinu án þess að teikningum væri breytt til samræmis við þær ákvarðanir. Auk þessa hafi stefnda ítrekað óskað eftir því að stefnandi innti af hendi vinnu sem ekki hafi verið á verksviði byggingarstjóra, s.s. að yfirfara reikninga og samninga frá verktökum og gera samninga við þá. Í tölvupósti frá stefnanda til stefndu 13. janúar 2017 tekur stefnandi fram að rukkað verði sérstaklega fyrir öll viðvik sem ekki lúta beint að uppsteypu hússins.

 

Af gögnum málsins má sjá að nokkur ágreiningur hefur komið upp á milli aðila máls vorið 2017. Þann 2. maí 2017 er send tilkynning til byggingarfulltrúans í Kópavogi um að nýr aðili hafi tekið við byggingarstjórn. Kveður stefnandi að það hafi verið gert án samráðs við sig.

 

Í þessu máli krefur stefnandi stefndu um greiðslu 725.214 króna sem hann kveður vera greiðslu vegna allra annarra viðvika og verka stefnanda sem stefndu beri að greiða honum til viðbótar þeirri greiðslu sem óumdeilt er að hún hafi innt af hendi. Til grundvallar þessari kröfu er reikningur dagsettur 25. maí 2017. Á þeim reikningi kemur fram að hann sé vegna vinnu við Gulaþing 25, samtals 44,5 klst., tímagjaldið er 12.500 krónur auk virðisaukaskatts og aksturskostnaður 28.600 krónur auk virðisaukaskatts. Í tímaskýrslu sem stefnandi hefur lagt fram er tiltekið að þau verkefni sem liggja að baki þessum reikningi felist í úttekt á botni fyrir uppsteypu, sökklum, burðarsúlum, grunnlögnum og samskiptum við byggingarfulltrúa tengdum þeim úttektum, auk funda og annarra samskipta við iðnaðarmenn og stefndu.

 

Stefnda hefur ekki greitt þennan reikning þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnanda en stefnda voru sendar þrjár innheimtuviðvaranir í júní 2017 og ódagsett innheimtubréf í kjölfar þess.

 

Gunnar Fannberg Gunnarsson og Elsa Soffía Jónsdóttir gáfu aðilaskýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Auk þess gáfu skýrslu vitnin Sverrir Björgvinsson húsasmiður, Svava Björk Jónsdóttir arkitekt og Jón Bjarki Halldórsson pípulagningameistari. Framburður þeirra er rakinn í niðurstöðukafla dómsins eftir því sem tilefni er til.

 

II.

Stefnandi reisir kröfu sína á því að hann hafi unnið fyrir stefndu þá vinnu sem greint er frá í framlagðri tímaskýrslu. Þau hafi samið svo um að hún greiddi honum fyrir það verk samkvæmt tímagjaldi til viðbótar við þá föstu greiðslu sem hún þegar hefur innt af hendi.

 

Að baki reikningi sem stefnandi hafi gert stefndu sé tímaskýrsla vegna vinnu forsvarsmanns stefnanda. Í öllum tilvikum sé um að ræða verk sem tengjast vinnu byggingarstjóra eða vinnu sem stefnda hafi óskað sérstaklega eftir að stefnandi innti af hendi. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

 

Stefnda beri sönnunarbyrði fyrir því að fjárhæð reiknings fyrir þjónustu sé of há, vinna gölluð eða önnur atvik eigi að leiða til þess að krafan nái ekki fram að ganga. Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga, sem m.a. eigi sér stoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Kveður hann gjalddaga kröfunnar vera útgáfudag reikningsins og vísar í því efni til meginreglu 49. gr. sömu laga. Til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni, frá sama degi, vísar stefnandi til III. og V. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

 

III.

Stefnda reisir sýknukröfu sína á því að hún hafi þegar greitt fyrir vinnu stefnanda. Samið hafi verið um fasta fjárhæð sem hún hafi þegar innt af hendi til þriðja aðila, þ.e. til SP verks ehf. í nóvember 2016 í samræmi við samkomulag aðila.

 

Meðan á vinnu stefnanda stóð hafi hann hvorki sent stefnanda reikninga né tímaskýrslu fyrir unnin verk og hafði stefnda ekki ástæðu til að ætla annað en stefnandi hefði þegar fengið greitt fyrir verkið í samræmi við ofangreindan skilning hennar á samningi aðila.

 

Stefnda mótmælir því að samið hafi verið um tiltekið grunngjald fyrir þjónustu stefnanda vegna „uppáskriftar byggingarstjóra“ og því sé með öllu óljóst og órökstutt hvers vegna þau viðvik og verk, sem stefnukrafan byggi á teljist ekki til þeirra grunnvinnu sem þegar hafi verið greitt fyrir. Krafa stefnanda sé órökstudd og eigi sér hvorki stoð í lögum né samningi aðila eða styðjist við aðrar heimildir.

 

Þá byggir stefnda á því að greiðslan sem hún hafi þegar innt af hendi sé sanngjarnt verð fyrir þá þjónustu sem stefnandi hafi veitt, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og stefnandi eigi ekki kröfu um frekari greiðslu.

 

IV.

Kjarni ágreinings aðila í þessu máli er efni þess samnings sem aðilar gerðu þegar forsvarsmaður stefnanda, Gunnar Fannberg Gunnarsson, hóf störf fyrir stefndu. Óumdeilt er að Gunnar Fannberg tók að sér að vera byggingarstjóri við byggingu einbýlishúss stefndu að Gulaþingi 25 í október 2016 og var skráður byggingarstjóri þar til byggingarfulltrúa Kópavogs var tilkynnt um byggingarstjóraskipti í byrjun maí 2017. Þá verður að líta svo á, með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda í stefnu, að óumdeilt sé að stefnda hafi innt af hendi greiðslu að fjárhæð 558.000 krónur auk virðisaukaskatts til SP verks ehf. vegna vinnu Gunnars Fannbergs en framburður Gunnars og Sverris Brynjólfssonar, forsvarsmanns SP verks ehf., fyrir dómi var nokkuð á reiki hvað varðar þessa greiðslu. Gunnar sagði fyrir dómi að hann vissi ekki hvort stefnda hefði greitt Sverri þessa fjárhæð en ákveðið að hirða ekki frekar um það. Sverrir bar fyrir dómi að hann hefði í upphafi gert stefndu fast tilboð í byggingarvinnu þar sem gert hefði verið ráð fyrir að innifalin væri þóknun til byggingarstjóra. Hann kvaðst hafa fengið hluta af umsaminni fjárhæð greidda.

 

Stefnandi reisir kröfu sína á því að samið hafi verið um að stefnda greiddi honum fyrir unnar vinnustundir til viðbótar við fast gjald fyrir byggingarstjórnina. Í skýrslu fyrir dómi bar hann að fasta greiðslan væri grunngjald vegna þeirrar ábyrgðar sem byggingarstjóri ber samkvæmt lögum en ekki væri innifalin í því nein vinna.

 

Stefnda byggir hins vegar á því að samið hafi verið um fast gjald sem hún hafi þegar innt af hendi og því skuldi hún stefnanda ekki neitt. Þá mótmælir hún staðhæfingum stefnanda um að vinna byggingarstjórans hafi verið umfangsmeiri en gera má ráð fyrir um vinnu byggingarstjóra.

 

Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum um efni samnings aðila. Ekki var gerður skriflegur samningur milli aðila í upphafi vinnu stefnanda en í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um það að byggingarstjóri, sem sé faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð, starfi í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi. Umboð byggingarstjóra, verksvið og ábyrgð afmarkast af ákvæðum framangreindra laga og reglugerða settra á grundvelli þeirra og efni samnings við eiganda eignarinnar, svo sem segi í sömu málsgrein 27. gr. laganna. Það stóð stefnanda nær en stefndu að hlutast til um það í upphafi vinnu að samningur um verksvið og verklaun væri skriflegur og skýr, enda er stefnandi fyrirtæki sem sinnir ýmsum verkefnum tengdum mannvirkjagerð og forsvarsmaður þess sérfræðingur á því sviði en stefnda er neytandi í skilningi laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.

 

Að mati dómsins hefur stefnandi ekki axlað sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að samið hafi verið um fast grunngjald óháð vinnuframlagi auk greiðslna samkvæmt tímaskýrslu. Staðhæfingin fær ekki stoð í gögnum málsins og ekki er fallist á það með stefnanda að tölvupóstssamskipti aðila sé sönnun þeirrar staðhæfingar. Stefnandi vísar í þessu efni einkum til tölvuskeyta milli aðila 13. janúar 2017 þar sem stefnandi segir á einum stað að rukkað verði sérstaklega fyrir viðvik sem ekki koma beint að uppsteypu og annars staðar að rukkað sé fyrir allt sem framkvæmt er. Í þessum samskiptum er ekki vikið að greiðslunni sem stefnda hafði þegar innt af hendi og virðist hún ekki hafa borið á góma fyrr en í tölvuskeytum milli aðila í apríl 2017. Má sjá að aðilar eru þá ekki sammála um hvort hún hafi verið innt af hendi fyrir þjónustu stefnanda. Samskipti þessi, sem áttu sér stað alllöngu eftir að vinna stefnanda hófst og þau síðarnefndu eftir að ágreiningur milli aðila hófst, varpa ekki frekara ljósi á það hvað aðilum fór á milli eða samið var um í upphafi verks. Auk þess veitir framburður vitnisins Sverris Björgvinssonar, sem stefnandi leiddi fyrir dóminn, frekar vísbendingar um að staðhæfing stefndu um að samið hafi verið um fast verð fyrir byggingarstjórn eigi við rök að styðjast, sbr. það sem rakið er að framan úr vitnisburði hans. Þá verður af vinnuskýrslu stefnanda ekki annað ráðið en að þau verk sem krafist er greiðslu fyrir rúmist öll innan lögbundins verksviðs byggingarstjóra, sbr. einkum 29. gr. laga nr. 160/2010. Loks hefur stefnandi ekki sýnt fram á að greiðslan sem óumdeilt er að stefnda innti af hendi hafi verið í ósamræmi við vinnuframlag stefnda eða umkrafið tímagjald en krafa stefnanda er um það bil sömu fjárhæðar og greiðsla stefndu sem hún greiddi í nóvember 2016. Standa því engin rök til þess að taka kröfu stefnanda til greina á grundvelli undirstöðuraka 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á það með stefndu að stefnandi eigi ekki frekari kröfu á hendur henni á grundvelli framlagðra gagna. Verður stefnda því sýknuð af kröfum stefnanda. Með vísan til niðurstöðu málsins, og á grundvelli 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.

 

Flosi Hrafn Sigurðsson lögmaður flutti málið fyrir stefnanda og Andri Andrason lögmaður fyrir stefndu. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

Dómsorð

Stefnda, Elsa Soffía Jónsdóttir, er sýkn af kröfu stefnanda, Hönnunar og eftirlits ehf. Stefnandi greiði stefndu 750.000 krónur í málskostnað.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir