• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2019 í máli nr. S-304/2019:

Ákæruvaldið

(Kári Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sigurði Fannari Þórssyni

            Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 2. apríl 2019, á hendur Sigurði Fannari Þórssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa mánudaginn 29. október 2018 haft í vörslum sínum, annars vegar í atvinnuhúsnæði að [...] í Reykjavík, 121 kannabisplöntu og 147,80 grömm af maríjúana, og hins vegar á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, 40,87 grömm af maríjúana og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur en allt framangreint var haldlagt við leit lögreglu hjá ákærða.

            Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á 121 kannabisplöntu, 147,80 g af maríjúana, 40,87 g af maríjúana, 5 loftsíum, 11 lömpum, 7 spennubreytum, 11 viftum, vatnsdælu, 5 tímarofum og plastkari sem haldlagt var við leit lögreglu hjá ákærða skv. 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

            Ákærði krefst í málinu vægustu refsingar sem lög leyfa en farið var með það samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það dómtekið án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 28. mars 2019, var ákærði dæmdur í tæplega fjögurra ára fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjaness hinn 8. mars 2007 fyrir stórfelldan innflutning fíkniefna. Ákærði hefur að öðru leyti ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi.

            Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls, og greiðri játningu ákærða á öllum stigum málsins, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er gerð upptæk til ríkissjóðs 121 kannabisplanta, 188,67 g af maríjúana, 5 loftsíur, 11 lampar, 7 spennubreytar, 11 viftur, vatnsdæla, 5 tímarofar og plastkar, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

            Ákærði greiði 86.815 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi fyrir hönd Kára Ólafssonar aðstoðarsaksóknara.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                   D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Sigurður Fannar Þórsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Upptæk er gerð til ríkissjóðs 121 kannabisplanta, 188,67 g af maríjúana, 5 loftsíur, 11 lampar, 7 spennubreytar, 11 viftur, vatnsdæla, 5 tímarofar og plastkar.

            Ákærði greiði 86.815 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal