• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2018 í máli nr. S-720/2017:

Ákæruvaldið

(Kári Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Lukasz Janusz Procyk

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar 2018, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. desember 2017 á hendur:

 

            „Lukasz Janusz Procyk kt. 000000-0000,

            [...], Reykjavík,

 

fyrir líkamsárás, hótanir og vopnalagabrot, með því að hafa [...] 2016 utandyra við [...] í Reykjavík, veist með ofbeldi að A, kt. 000000-0000, slegið hann einu höggi í andlitið, síðan dregið upp hníf og ógnað A með hnífnum, allt með þeim afleiðingum að A hlaut ótilfært brot í kjálka og mar í andliti.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

Einkaréttarkröfur:

Í málinu gerir Styrmir Gunnarsson hdl., kröfu fyrir hönd A að ákærði greiði honum 1.277.895 kr. auk vaxta af 165.000 kr. samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og af 1.112.295 kr. skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá [...] 2016 til [...] 2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.277.895 kr. frá þeim degi til greiðsludags.“

 

            Við þingfestingu málsins 17. janúar sl. voru mál nr. S-27/2018, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 17. janúar 2018, og mál nr. S-743/2017, sem var höfðað á hendur ákærða með ákæru héraðssaksóknara útgefinni 23. maí 2017, sameinuð þessu máli.

 

            Með fyrrnefndu ákærunni var ákærða gefin að sök líkamsárás, „með því að hafa, [...] 2016, við [...] í Reykjavík, veist að B, kt. 000000-0000, slegið hann einu höggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli yfir kinnbeini vinstra megin.

(Mál nr. 007-2016-50672)

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Með síðarnefndu ákærunni var ákærða gefið að sök brot gegn valdstjórninni

„með því að hafa að [...] 2016 fyrir utan [...] í Reykjavík, ógnað lögreglumanninum C með hníf, en ákærði sveiflaði hnífnum fram og tilbaka að C en hörfaði er hann beitti varnarúða.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur [...]. Hann var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember sl. fyrir auðgunarbrot, brot gegn áfengislögum, lögreglulögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Fullnustu refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu þess dóms og verður honum því dæmdur hegningarauki er samsvarar þeirri þyngingu hegningarinnar sem kynni að hafa orðið ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brotin voru öll framin í [...], eitt þeirra áður en hann varð fullra 18 ára en tvö á [...]. Þó svo að brot ákærða hafi verið framin í ölæði eða undir áhrifum annarra nautnalyfja réttlætir það ekki hegðun hans, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði kvaðst hafa farið í óminnisástand og þá gripið til ofbeldis sem hann iðrist mjög. Fram kom að ákærði stundaði nú sjómennsku úti á landi og hygðist koma lífi sínu á réttan kjöl. Við ákvörðun refsingar er með hliðsjón af framangreindu litið til 4. og 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

            Brot ákærða eru litin alvarlegum augum og eru þau öll þrjú framin að tilefnislausu. Olli hann brotaþolanum A talsverðu líkamstjóni. Þá notaði ákærði í tveimur tilvikum hníf og er hann í tveimur tilvikum sakfelldur fyrir að hafa ógnað brotaþolanum. Vísast í þessu sambandi til 1. og 2. tl. almennra hegningarlaga.

           

            Samkvæmt framansögðu ber að taka refsingu ákærða upp, sbr. 60. og 78. gr. almennra hegningarlaga, og þykir hæfileg refsing vera fimm mánaða fangelsi. Í ljósi ungs aldurs ákærða er brotin voru framin, þess að nokkur tími hefur liðið frá atvikum og dráttur orðið af ástæðum er rekja má til ákæruvaldsins, telur dómurinn skilyrði til þess að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

            Í málinu gerir Styrmir Gunnarsson lögmaður kröfu um skaðabætur fyrir hönd brotaþolans A og krefst þess að ákærði greiði honum 1.277.895 kr. auk vaxta. Ákærði hefur, eins og áður greinir, samþykkt bótaskyldu sína og fer fram á að fjárhæð bótanna verði lækkuð. Gerð er krafa um þjáningarbætur vegna veikinda án þess að vera rúmliggjandi í þrjá daga auk miskabóta.

            Brotaþoli kjálkabrotnaði eftir árás ákærða á hann og hlaut mar í andliti eins og staðfest er með læknisvottorði. Segir í bótakröfu að auk líkamstjóns hafi hann upplifað raunverulegan ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð auk andlegrar vanlíðunar. Fram kemur í gögnum málsins að brotaþoli hafi átt erfitt með að opna munn og tyggja og honum hafi verið ráðlagt að vera á fljótandi fæði í tvær vikur.

            Krafa um þjáningarbætur er byggð á áætlun um ætlaðan veikindatíma. Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um veikindi brotaþola í 90 daga. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfu um þjáningarbætur.

            Með broti sínu olli ákærði brotaþola miska, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og ber krafan vexti og dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafsdagur dráttarvaxta er mánuði eftir að bótakrafan var birt.

            Þá ber ákærða að greiða brotaþola 189.720 krónur vegna lögmannskostnaðar við að halda kröfu sinni fram en til hliðsjónar er höfð framlögð tímaskýrsla lögmannsins.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 231.880. krónur, og 32.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Lukasz Janusz Procyk, sæti fangelsi í fimm mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði A 500.000 kr. auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá [...] 2016 til [...] 2017 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og 189.720 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 231.880 krónur, og 32.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)

            ---------------------          ---------------------          ----------------------

Rétt endurrit staðfestir:

Héraðsdómi Reykjavíkur 14. febrúar 2018