• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Lögvarðir hagsmunir

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2018 í máli nr. E-3870/2017:

Jón Þór Ólafsson og

VR

(Ragnar Aðalsteinsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(María Thejll lögmaður)

 

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 7. júní sl., er höfðað 7. desember 2017 af Jóni Þór Ólafssyni, […] í Reykjavík, og VR, Kringlunni 7 í Reykjavík, gegn íslenska ríkinu.

Stefnendur krefjast þess aðallega, hvor fyrir sig, að ákvörðun kjararáðs frá 29. október 2016 um þingfararkaup alþingismanna og launakjör ráðherra til hækkunar verði ógilt með dómi. Til vara krefjast stefnendur þess, hvor fyrir sig, að viðurkennt verði með dómi að fyrrgreind ákvörðun kjararáðs hafi verið ólögmæt. Þá krefjast stefnendur, hvor fyrir sig, málskostnaður úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu. Þá krefst hann málskostnaðar.

Málið var flutt um frávísunarkröfu stefndu 7. júní sl. og er einungis sú krafa til umfjöllunar í úrskurði þessum. Í þessum þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að þeim verði ákveðinn málskostnaður úr hendi stefnda.

I

Mál þetta verður rakið til þess að 29. október 2016 tók kjararáð ákvörðun um laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og launakjör ráðherra á grundvelli þágildandi laga nr. 47/2006 um kjararáð. Dómkröfur stefnenda lúta að ákvörðun kjararáðs um þingfararkaup og launakjör ráðherra, en beinast ekki að launakjörum forseta Íslands sem leiðir af sömu ákvörðun.

Ákvörðunin var byggð á 3. gr. laga nr. 47/2006 þar sem kemur fram að fullskipað kjararáð ákveði laun forseta Íslands samkvæmt 1. gr. laga nr. 10/1990, þingfararkaup samkvæmt lögum nr. 88/1995 og launakjör ráðherra. Í ákvörðun kjararáðs var meðal annars fjallað um hlutverk forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra og forsendur fyrir ákvörðun um launakjör þeirra. Ákveðið var að þingfararkaup skyldi vera 1.101.194 krónur á mánuði. Þá skyldu laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi vera 2.021.825 krónur á mánuði, en laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi nema 1.826.273 krónum á mánuði. Tekið var fram að með vísan til 2. málsliðar 1. gr. laga nr. 88/1995 skyldu laun alþingismanna og ráðherra breytast frá og með 30. október 2016.

Stefnendur byggja kröfur sínar á því að ákvörðun kjararáðs, sem sé stjórnvald, sé háð slíkum annmörkum að formi og efni til að það beri að fella hana úr gildi. Einkum er byggt á því að kjararáð hafi brotið gegn 2. mgr. 8. gr. áðurgildandi laga nr. 47/2006 þar sem fram komi að ráðið skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Þá hafi verið brotið gegn 3. mgr. 10. gr. laganna þar sem viðeigandi rökstuðningur hafi ekki fylgt ákvörðuninni. Til nánari stuðnings kröfum sínum vísa stefnendur meðal annars til þess að hvorki hafi verið gætt að jafnræðisreglunni, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 47/2006, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar, né rannsóknarskyldu kjararáðs, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 47/2006 og 10. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi verið brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, meðalhófsreglunni og meginreglunni um vandaða stjórnsýsluhætti. Þá er byggt á því að það framsal fjárveitingarvalds sem felist í lögum um kjararáð sé andstætt 41. gr. stjórnarskrárinnar.

II

Röksemdir stefnda

Stefndi byggir á því að vísa beri aðalkröfu stefnenda frá dómi þar sem stefnandinn VR geti aðeins höfðað viðurkenningarmál fyrir hönd félagsmanna sinna á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamálaog séu skilyrði samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna ekki uppfyllt. Þá verði ráðið af stefnu að lögvarðir hagsmunir stefnandans Jóns Þórs og félagsmanna stefnandans VR séu ekki þeir sömu, en það sé ófrávíkjanlegt skilyrði samlagsaðildar að því er varðar aðalkröfu og varakröfu.

Jafnframt er byggt á því að með málsókninni sé krafist túlkunar á tilteknum ákvæðum laga nr. 47/2006 án þess að raunverulegum réttarágreiningi sé til að dreifa og sé leitað lögfræðilegs álits dómstóla í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Séu hugsanlegir hagsmunir stefnandans Jóns Þórs og félagsmanna VR af dómsniðurstöðu svo fjarlægir að kröfunum verði jafnað til beiðni um lögfræðilegt álit. Þá breyti úrlausn um dómkröfur stefnenda hvorki réttarstöðu þeirra né skeri úr um rétt þeirra eða skyldu á nokkurn hátt, enda yrði það eftir sem áður í höndum kjararáðs að ákveða launakjör alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands samkvæmt núgildandi lögum nr. 130/2016 um kjararáð. Þá stoði ekki að halda því fram að hagsmunum ótiltekinna félagsmanna stefnandans VR hafi verið stefnt í hættu með ákvörðun kjararáðs án þess að slík fullyrðing sé studd sönnunargögnum, en skilja megi þetta svo að hagsmunir félagsmanna hafi í raun ekki skaðast en kunni að gera það síðar. Sé ekki unnt að leita úrlausnar dómstóla á máli án þess að réttmætt tilefni sé til, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Byggt er á því að hvorugur stefnenda hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Í stefnu sé vísað til almennra hagsmuna og séu meintir hagsmunir stefnenda ekki þeir sömu. Þá séu skilyrði þess að VR sæki málið á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt. Það sé grundvallarskilyrði beitingar ákvæðisins að félagsmenn hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og að þeir séu beinir, einstaklegir og sérstakir. Af hálfu stefnandans VR sé aftur á móti vísað til þeirra almennu hagsmuna að stöðugleiki haldist bæði almennt í efnahagslífinu og á vinnumarkaði. Sé í því sambandi vísað til rýrnunar á kaupmætti félagsmanna og hækkunar á húsnæðisskuldum þeirra félagsmanna sem hafi tekið verðtryggð lán vegna íbúðarkaupa. Stefndi bendir á að hagsmunir sem varði almennt efnahagsástand í landinu snúi að landsmönnum öllum, launþegum og skuldurum húsnæðislána og hafi félagsmenn VR ekki lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins umfram það sem almennt geti talist og eigi við um nánast alla landsmenn. Þá verði ekki séð að málsóknin snúist um að auka réttindi eða bæta kjör félagsmanna og samræmist hún því vart tilgangi stefnandans VR samkvæmt 2. gr. samþykkta félagsins. Þar sem málið sé ekki rekið til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna VR þeim til handa umfram aðra hafi dómsniðurstaða ekkert raunhæft gildi fyrir þá.

Þá hafi stefnandinn Jón Þór ekki heldur lögvarða hagmuni af úrlausn málsins og séu meintir hagsmunir hans verulega vanreifaðir. Í fyrsta lagi sé byggt á því að það þjóni almannahagsmunum að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og stöðugleika á vinnumarkaði, en slíkir hagsmunir varði stefnandann ekki með einstaklegum og beinum hætti. Þá geti þeir hagsmunir að úrslit málsins varði stefnandann miklu vegna framtíðar hans sem stjórnmálamanns ekki uppfyllt skilyrðið um lögvarða hagsmuni. Jafnframt geti staðhæfing stefnandans um að hann gæti með málsókninni hagsmuna alþingismanna ekki haft þýðingu. Um sé að ræða óumbeðna hagsmunagæslu og með málsókninni sé leitast við að breyta launakjörum ákveðins hóps til hins verra. Þá liggi í augum uppi að þar sem stefnandinn hafi ekki verið þingmaður þegar unnið var að setningu laga nr. 47/2006 geti ekki komið til þess að stjórnmálaferill hans verði metinn út frá þeirri lagasetningu eða ákvörðunum kjararáðs sem hann hafi ekki komið að. Þar að auki fjalli dómstólar ekki um kröfur sem byggist á hagsmunum tengdum meintu almenningsáliti á stjórnmálaferli stefnandans, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt sé það skilyrði samlagsaðildar að hvor stefnenda hefði getað rekið málið upp á sitt eindæmi og bresti á að annar aðilinn geti borið málið undir dómstóla séu skilyrði fyrir samlagsaðild samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 ekki uppfyllt.

Þá er byggt á því að málatilbúnaður stefnenda sé vanreifaður, þar með talið um aðild stefnenda, þýðingu ákvörðunar kjararáðs fyrir hagsmuni þeirra og um þá meintu annmarka sem þeir telja vera á ákvörðun kjararáðs. Uppfylli málatilbúnaðurinn að þessu leyti ekki kröfur d-, e- og g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

III

Röksemdir stefnenda

Stefnendur byggja á því að hafna beri frávísunarkröfu stefnda. Lögð er áhersla á stjórnarskrárvarinn rétt stefnenda til aðgangs að dómstólum og eftirlitsskyldu dómstóla, sbr. 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar, og að þeir hafi leitt nægar líkur að því að úrlausn um dómkröfurnar skipti þá máli. Þá hafi úrlausn um lögmæti ákvarðana kjararáðs ekki verið tekin undan valdsviði dómstóla og beri að taka afstöðu til málsóknar um þetta atriði sem byggist á því að efnis- og formannmarkar séu á ákvörðun ráðsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sem og 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt séu dómkröfur stefnenda glöggar og sakarefnið nægilega afmarkað til að unnt sé að leysa úr þeim raunverulega ágreiningi sem sé til staðar.

Eins og hér er ástatt verði ekki útilokað að stefnendur geti átt sjálfstæða lögvarða hagsmuni af viðurkenningu á ógildi eða ólögmæti ákvörðunar kjararáðs. Stefnandinn Jón Þór sé alþingismaður og hafi hin umdeilda ákvörðun kjararáðs því bein og milliliðalaus áhrif á hagsmuni hans. Þá hafi hann sem alþingismaður í samræmi við 47. gr. stjórnarskrárinnar unnið drengskaparheit að stjórnarskránni og sé því bundinn af þeim gildum sem þar birtist, sem og þeim gildum sem hún sé byggð á. Meðal þeirra skyldna sem hvíli á stefnandanum sem þingmanni sé að gæta almannahagsmuna og stuðla í störfum sínum sem þingmaður að almannaheill. Þar sem Alþingi hafi með lögum um kjararáð framselt vald sitt til að ákveða laun forseta, þingmanna og ráðherra og þar með einnig hluta af fjárstjórnarvaldi sínu, hafi stefnandinn ekki átt þess kost að ræða þetta mikilvæga mál og hafa áhrif á úrslit þess á þingfundum og í þingnefndum. Við þær aðstæður sem nú ríki og ríktu árið 2016 þjóni það tvímælalaust almannahagsmunum að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og stöðugleika á vinnumarkaði. Með þeirri stórfelldu hækkun launa alþingismanna og ráðherra sem ekki sé í neinu samræmi við almenna þróun kjaramála á almennum vinnumarkaði sé vegið að greindum stöðugleika og þar með unnið gegn almannahagsmunum. Þá sé það niðurlægjandi fyrir stefnandann, bæði í eigin augum og í augum kjósenda, að vera ákvörðuð meiri hækkun launa en nokkrum öðrum á vinnumarkaði. Dragi þessi ýkta launahækkun úr trausti almennings á þingmanninum sem kjörnum fulltrúa og eins handhafa löggjafarvalds og gefi þeim skilningi almennings byr undir báða vængi að þingmenn, þar með talinn stefnandinn, einbeiti sér fyrst og fremst að því að skara eld að sinni köku í stað þess að sinna almannahagsmunum. Hafi stefnandinn því lögvarða hagsmuni af því að ákvörðun kjararáðs verði ógilt með dómi, enda varði úrslit málsins miklu um framtíð hans sem stjórnmálamanns. Þá sé stefnandinn í máli þessu að gæta hagsmuna alþingismanna, einnig þeirra sem séu jafnframt ráðherrar, sbr. fordæmisgefandi dóm Hæstaréttar frá 17. janúar 1951 í máli nr. 13/1950. Styðjist það meðal annars við vilja þingmanna og ráðherra, sem samþykktu að kostnaðargreiðslur til þeirra skyldu skertar þar sem þeir gátu ekki skert þingfararkaupið og launin.

Hvað varðar hagsmuni félagsmanna stefnandans VR er vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og þess að hagsmunagæslan eigi nægilega stoð í samþykktum félagsins. Tekið er fram að félagsmenn séu um 34.800 og semji félagið um laun þeirra og kjör við samtök atvinnurekenda. Samkvæmt 2. gr. samþykkta félagsins sé tilgangur þess að „efla og styðja hag verslunar-, þjónustu- og skrifstofufólks á félagssvæðinu með því að vinna að framgangi allra þeirra mála, er verða mega til aukinna réttinda, menningar og bættra kjara launafólks í landinu“. Á þeim grunni geri félagið „kjarasamninga fyrir félagsmenn sína og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum og öðrum, að því er varðar hagsmuni félagsmanna“. Samkvæmt þessu ákvæði og 1. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur falli það undir tilgang félagsins að höfða og reka mál þetta, enda sé það gert til að vinna að framgangi mála til að auka réttindi og bæta kjör launafólks og vinna að hagmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka. Samkvæmt undirstöðurökum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 47/2006 séu hagsmunir stefnandans VR af því að fá efnisdóm í málinu lögvarðir bæði út frá sjónarmiði félagsins og félagsmanna. Þá sé félaginu heimilt að höfða málið við hlið stefnandans Jóns Þórs samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og geti það jafnframt rekið ógildingarmál samkvæmt 3. mgr. 25. gr. sömu laga. Það séu hagsmunir VR fyrir hönd félagsmanna að stöðugleiki haldist bæði almennt í efnahagslífinu og á vinnumarkaði, en óstöðugleiki leiði til aukinnar verðbólgu og valdi rýrnun kaupmáttar félagsmanna. Jafnframt hækki húsnæðisskuldir þeirra félagsmanna sem tekið hafi verðtryggð lán vegna íbúðarkaupa, en ætla megi að það sé meirihluti félagsmanna. Hafi þessum hagsmunum félagsmanna verið stefnt í hættu með ákvörðun kjararáðs og hafi stefnandinn VR því lögvarða hagsmuni af því að ákvörðun kjararáðs verði ógilt með dómi.

Af hálfu stefnenda er lögð áhersla á að túlka verði meginregluna um lögvarða hagsmuni með hliðsjón af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verði að sýna varfærni við beitingu reglunnar í samræmi við sjónarmið um réttláta málsmeðferð og þá þróun að félagasamtök, líkt og stefnandinn VR, líti sífellt meira á hlutverk sitt sem eftirlitsaðila eða varðhund á tilteknum samfélagssviðum gagnvart opinberu valdi. Þá eigi stefnandi ekki annarra kosta völ til að vernda eða láta reyna á réttindi félagsmanna en að höfða mál þetta. Jafnframt beri að líta til þess að eftirlitsskyldu dómstóla með athöfnum stjórnvalda verði ekki sinnt sé skilyrði um lögvarða hagsmuni beitt með of ströngum hætti.

 

 

IV

Dómkröfur stefnenda lúta aðallega að því að ákvörðun kjararáðs frá 29. október 2016, að því marki sem hún tekur til þingfararkaups og launakjara ráðherra, verði ógilt með dómi. Ráðið verður af málatilbúnaði stefnenda að þeir telji ákvörðunina haldna svo verulegum annmörkum, bæði að formi og efni til, að það beri að fella hana úr gildi. Þá er til vara krafist viðurkenningar á því að ákvörðunin hafi verið ólögmæt og er sú krafa byggð á sömu röksemdum. Stefnandinn Jón Þór byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn um dómkröfurnar, en stefnandinn VR byggir aðild sína á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og telur félagsmenn sína hafa lögvarða hagsmuni af því að dómstólar leysi úr kröfunum.

Meðal meginskilyrða þess að dómstólar leysi úr sakarefni er að dómsúrlausn skipti máli fyrir stöðu stefnanda að lögum. Í þessu felst að það verður að skipta máli lagalega fyrir málsaðila að fá niðurstöðu um sakarefnið. Þessi regla tengist þeirri reglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr um réttindi manna sem ráðast af öðrum reglum en réttarreglum, sem og þeirri reglu að dómstólar verða ekki krafðir lögfræðilegs álits sem tengist ekki úrlausn um ákveðna kröfu, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna. Í ljósi réttar manna til aðgangs að dómstólum og eftirlitsskyldu dómstóla með framkvæmdarvaldinu ber að gæta varfærni við að vísa máli frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ber því að meta hvort það geti á einhvern hátt haft raunhæft gildi fyrir réttarstöðu stefnenda að fá leyst úr dómkröfum sínum að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem gerð er grein fyrir í stefnu og voru nánar skýrðir við munnlegan málflutning.

Stefnandinn Jón Þór þiggur laun samkvæmt umræddri ákvörðun kjararáðs og hefur hún í þeim skilningi þýðingu fyrir fjárhagslega stöðu hans. Aftur á móti eru hagsmunir stefnandans af úrlausn um dómkröfur sínar ekki studdir við slíkt. Eins og rakið hefur verið að framan telur stefnandinn lögvarða hagsmuni sína leiða af þeirri skyldu sinni sem alþingismanns að gæta almannahagsmuna. Þá varði úrslit málsins miklu um framtíð hans sem stjórnmálamanns þar sem ákvörðunin dragi úr trausti almennings á þingmanninum. Jafnframt er tekið fram að stefnandinn gæti hagsmuna allra alþingismanna, þar með talið þeirra sem séu jafnframt ráðherrar. Að teknu tilliti til þessa verður ekki séð að stefnandinn hafi beinna og sérstakra hagsmuna að gæta af því að efnisdómur gangi um kröfur hans. Er þar litið til þess að ekki verður séð að það skipti máli fyrir stöðu hans að lögum að leyst verði úr kröfum hans eða að það hafi raunhæft gildi fyrir réttarstöðu hans. Samkvæmt því skortir stefnandann lögvarða hagsmuni af því að dómstólar leysi úr kröfum hans. Þá er rétt að taka fram að aðalkrafan, eins og hún er fram sett, lýtur að því að ákvörðun kjararáðs verði ógilt að því er varðar kjör allra alþingismanna og allra ráðherra. Ákvörðunin tekur því til fjölda annarra manna auk stefnandans Jóns Þórs, auk þess sem ákvörðun um launakjör ráðherra varðar hóp manna sem stefnandinn tilheyrir ekki. Samkvæmt þessu hefur stefnandinn, hvað sem öðru líður, ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ákvörðunina ógilta með þeim hætti sem greinir í kröfugerð hans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 27. maí 2015 í máli nr. 284/2015.

Stefnandinn VR styður aðild sína við 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram kemur að félög eða samtök manna geti í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra ef það samrýmist tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Meðal skilyrða fyrir beitingu þessa ákvæðis er að félagsmenn sem eiga aðild að stefnandanum VR hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um sakarefnið og geta hagsmunir þeirra þá færst til stefnandans sé nægileg stoð fyrir slíkri hagsmunagæslu í samþykktum félagsins. Ráðið verður af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 91/1991 að úrræðinu, sem var þá nýmæli, væri ætlað að mæta þörfum í tilvikum þar sem afla þyrfti úrlausnar dómstóla um lögvarða hagsmuni einhvers hóps manna og var áréttað að ekki væri ætlunin að breyta áskilnaði réttarfarsreglna um lögvarða hagsmuni. Hagsmunir félagsmanna VR af málsókninni eru studdir við mikilvægi þess að stöðugleiki haldist í efnahagslífinu og á vinnumarkaði. Hefur stefnandinn bent á að húsnæðisskuldir meirihluta félagsmanna, sem séu um 34.800 talsins, hækki vegna óstöðugleika sem leiði til aukinnar verðbólgu og valdi rýrnun kaupmáttar félagsmanna. Sú ákvörðun kjararáðs sem mál þetta varðar snýr ekki að félagsmönnum stefnandans VR og varðar ekki réttindi þeirra eða skyldur. Ákvörðunin hefur því ekki bein áhrif á hagsmuni félagsmanna, en stefnandinn vísar til þess að hún hafi óbein áhrif þar sem hún sé til þess fallin að valda óstöðugleika í efnahagslífi og á vinnumarkaði. Slíkir hagsmunir, sem varða ekki félagsmenn stefnandans sérstaklega umfram aðra landsmenn, eru almennir og fullnægja ekki þeim áskilnaði að úrlausn um dómkröfurnar hafi þýðingu fyrir stöðu félagsmanna stefnandans að lögum. Að sama skapi verður ekki séð að málssóknin varði tiltekin réttindi félagsmanna í skilningi 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Aðild stefnandans til sóknar getur þegar af þessari ástæðu ekki stuðst við ákvæðið.

Samkvæmt þessu er það mat dómsins að úrlausn um dómkröfur stefnenda fæli aðeins í sér álit á því lögfræðilega álitaefni hvort hin umdeilda ákvörðun kjararáðs sé haldin annmörkum án þess að leyst sé úr réttarstöðu eða kveðið á um réttindi stefnandans Jóns Þórs eða félagsmanna stefnandans VR, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Ber þvi að vísa máli þessu frá dómi. Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

       Máli þessu er vísað frá dómi.

       Málskostnaður fellur niður.

      

                                                Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)