• Lykilorð:
  • Andmælaréttur
  • Fordæmi
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Málskostnaður
  • Miskabætur
  • Rannsóknarregla
  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Stjórnsýsla
  • Sveitarfélög
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Uppsagnarfrestur
  • Uppsögn
  • Veikindaforföll
  • Sýkna
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 5. júlí 2018 í máli nr. E-2995/2017:

Grímur Snorrason

(Guðni Ásþór Haraldsson lögmaður)

gegn

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs.

(Anton Björn Markússon lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 20. september 2017 og dómtekið 12. júní 2018. Stefnandi er Grímur Snorrason, [...], Kópavogi. Stefndi er Slökkvilið höfuðborgar­svæðis­­ins, byggðasamlag, Skógarhlíð 14, Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.     Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjár­hæð 6.713.508 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.118.918 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

2.     Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 900.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

3.     Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjald­­skrá lögmanns hans.

Stefndi krefst þess að vera sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu sam­kvæmt mati réttarins. 

Dómara var úthlutað málinu 10. janúar 2018 en fram að þeim tíma hafði hann ekki komið að meðferð þess.

 

 

 II.

Málavextir:

Í ársbyrjun 2017 auglýsti stefndi eftir starfsmönnum til þess að vinna slökkviliðs- og sjúkraflutningastörf. Tekið var fram í auglýsingu að um framtíðar- eða sumarstarf gæti verið að ræða og að umsækjendur þyrftu að gangast undir inntökupróf. Inntöku­próf fólust í hlaupaprófi, könnun á lofthræðslu og inni­lokunar­kennd, skriflegu prófi, þrek- og styrktarprófi, gönguprófi, akstursprófi og læknisskoðun. Þessu til viðbótar voru við­töl við umsækjendur sem voru hluti af inntökuprófi.

Stefnandi var meðal umsækjenda um starf hjá stefnda og gekkst hann undir inn­töku­­­próf, þar með talið viðtal hjá mannauðsstjóra o.fl. Stefnandi var að lokum meðal þeirra 23 um­sækjenda sem ráðnir voru til starfa hjá stefnda. Að sögn stefnda hófst þjálfun stefnanda 20. mars 2017 og níu vikum síðar hófst starfs­­­­­­þjálfun. Stefnandi hlaut axlar­meiðsli 14. maí 2017 vegna atviks sem var ótengt starfinu hjá stefnda. Stefnandi var skráður í veikindaleyfi frá 27. maí 2017 til 3. ágúst sama ár. Stefn­­­­andi tilkynnti stefnda 21. júlí 2017 um fyrirhugað fæðingarorlof í þrjá mán­uði, nánar tiltekið skipt á þrjú tímabil, hið fyrsta í einn mánuð frá fyrirhuguðum fæð­­ingar­degi barns 25. sept­­emb­er 2017, síðan mánaðartíma frá 10. desember sama ár til 10. janúar 2018 og því næst í mán­aðar­tíma í júlí sama ár. Tilkynningin var móttekin af stefnda án athuga­­­semda. Stefn­andi kom til vinnu 4. ágúst 2017 og vann í þeim mánuði að eigin sögn fjór­­­tán vaktir sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður, auk þjálfunar á vakt á sjúkra­­­­­bifreið.

Á fundi með varaslökkviliðsstjóra, mannauðsstjóra o.fl. 30. ágúst 2017 var stefn­anda sagt upp störfum frá og með þeim degi og var ekki óskað eftir vinnu­framlagi hans á uppsagnarfresti. Að sögn stefnanda var fundurinn boð­­aður með tveggja daga fyrir­­­vara og án skýringa á tilefni. Á fundinum var stefnanda afhent uppsagnar­bréf dag­­­­­sett sama dag og hann upplýstur um að niðurstöður samræmds mats á starfs­hæfni hans hefðu verið honum óhagstæðar. Að sögn stefnanda óskaði hann eftir frekari skýr­­­ing­um á fundinum en þá hefði hann verið upplýstur um að hann þætti ekki nógu áhuga­­­­samur um starfið o.fl.  

Að sögn stefnanda mun lögmaður hans í framhaldi af uppsögninni hafa óskað eftir endurskoðun á afstöðu stefnda en þeirri beiðni verið hafnað. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 1. september 2017 var óskað eftir við­hlít­­andi rökstuðningi vegna upp­­­sagnar­­innar, sbr. 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í rökstuðningi stefnda 7. sama mánaðar var meðal annars vísað til greinar 11.1.3.2 í kjara­samn­ingi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands slökkvi­liðs- og sjúkra­­flutn­­ingamanna (LSS) um uppsagnarfrest nýliða á fyrstu sex mánuðum í starfi. Tekið var fram í rökstuðn­ingnum að reynslutími stefnanda hefði runnið út 1. september 2017 og að honum hefði verið afhent upp­sagnar­­­bréf fyrir þann tíma. Þá var auk þess upplýst að á reynslu­tíma ný­liða hefði stefndi almennt haft þann háttinn á að kalla eftir mati allra varð­stjóra og aðstoðar­varðstjóra á nýliðum. Slíkt mat væri sam­ræmt þar sem óskað væri eftir sömu upp­­­lýs­ingum um alla nýliða og niðurstöður matsins hefðu verið óhagstæðar fyrir stefn­­­­­­­­anda og því hefði verið tekin sú ákvörðun að rifta ráðningarsambandinu.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið ólög­mæt og valdið honum bóta­­­skyldu tjóni og miska. Uppsögnin hafi verið andstæð ákvæðum laga nr. 37/1993 og 11. kafla kjarasamnings LSS. Um kjör stefnanda fari eftir fyrrgreindum kjara­­samn­ingi enda hafi hann verið félags­­maður LSS. Upp­sögnin hafi auk þess verið brot gegn ákvæðum laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

Stefnandi byggir á því að hann hafi sótt um framtíðarstarf. Stefnandi hafnar því að hann hafi verið ráðinn til reynslu og verið á reynslutíma. Hann hafi að fullu staðið sig í starf­­inu og gegnt því athugasemdalaust fram að þeim tíma sem honum var tilkynnt að hann hefði ekki staðist mat yfirstjórnenda stefnda sem stefnandi telji að hafi verið hug­­­­­­­lægt og ógagnsætt. Stefnandi hafi engar áminningar fengið í starfi né heldur hafi honum verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en til uppsagnar kom.

Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi ekki gengið frá ráðningarsamningi við hann en það hafi verið andstætt skyld­um stefnda samkvæmt grein 11.1.3.1 í fyrrgreindum kjara­­­­­­­­­samningi og til­skipun ráðs­ins nr. 91/533/EBE. Allan vafa um innihald ráðningar­samn­­ings eigi því að túlka stefnda í óhag.

Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi átt rót sína að rekja til þess hvernig hann gegndi starfinu hjá stefnda. Í því sambandi vísar stefnandi til fyrrgreinds rökstuðnings stefnda 7. september 2017, auk skýringa sem gefnar voru á fyrrgreindum fundi 30. ágúst sama ár. Stefnandi telur að hann hafi átt að njóta andmælaréttar áður en endan­leg íþyngjandi ákvörðun var tekin um að segja honum upp starfi. Máli sínu til stuðn­ings vísar stefn­andi til greinar 11.1.6.1 (5. mgr.) í kjarasamningi LSS þar sem sér­staklega sé kveðið á um andmælarétt í tengsl­um við frávikningu úr starfi. Þessa hafi ekki verið gætt og honum einungis verið til­kynnt um að samræmt mat, sem hann hafi aldrei fengið að sjá, hefði verið honum óhag­stætt og uppsögnin verið reist á þeim grund­velli. Stefn­­­andi vísar til þess að stefndi hafi verið bundinn af fyrrgreindu ákvæði kjara­samn­ings­­ins. Á stefnda hafi því hvílt skylda til að virða andmælarétt stefnanda og gefa honum kost á því að sjá um­rætt mat, veita honum upplýsingar um hverjir hefðu unnið það og á hvaða forsendum og þar með gefa honum kost á því að koma að and­mælum gegn því hug­læga mati sem reynst hafi for­senda upp­sagnar­innar. Stefn­andi vísar í þessu sam­bandi einnig til óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttar um and­mæla­rétt, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi sem stjórnvald ekki rannsakað málið nægjan­lega vel. Telur stefnandi að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttar, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Stefnandi hafi verið frá vinnu tímabilið 14. maí 2017 til 4. ágúst sama ár vegna slyss. Að því virtu hafi ekki verið unnt að leggja fag­legt mat á færni hans til þess að gegna starfinu. Hann hafi því ekki náð að vinna jafn lengi og þeir aðrir starfsmenn sem fengu starf hjá stefnda. Að því virtu hafi stefnandi ekki fengið færi á því að sanna sig. Stefnandi hafi á þeim tíma sem hann var við störf hjá stefnda lagt sig allan fram um að gegna starfinu óaðfinnanlega. Ákvörðun stefnda um uppsögn hafi því komið honum á óvart.

Stefnandi byggir jafnframt á því að uppsögnin hafi þurft að vera málefnaleg eins og kveðið sé á um í grein 11.1.6.1 (1. mgr.) í kjarasamningi LSS. Stefnandi telur að það geti vart talist málefnaleg ástæða að leggja til grundvallar mat stjórnenda sem stefn­­andi hafi aldrei verið í neinum samskiptum við. Þá hafi það ekki heldur verið mál­­efna­legt að leggja slíkt hug­lægt mat til grundvallar uppsögn án þess að veita and­mæla­rétt. Stefn­­­­­­­­­­andi telur að hinn stutti tími sem hann gegndi starfinu hefði átt að leiða til þess að hann fengi lengri tíma til að sanna sig í því eða sama tíma og aðrir sem á endanum fengu starf hjá stefnda. Veik­indi stefnanda hafi þannig skert möguleika hans og sett hann skör neðar í því huglæga mati sem fram fór og stefndi hafi þannig ekki gætt að meðal­­hófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.

Stefnandi vísar til þess að ákvæði í fyrrgreindum kjarasamningi séu lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyris­rétt­inda. Að því virtu gildi ákvæði kjarasamnings LSS um samskipti aðila og stefndi sé þar með bundinn af þeim ákvörðunum sem hann taki og falli undir 11. kafla kjara­samn­ings­­­­ins.

Þá byggir stefnandi enn fremur á því að stefndi hafi ekki viðhaft vönduð vinnu­brögð sem sam­­­rýmst hafi skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Stefn­andi vísar til þess að gera verði ríkar kröfur til opinberra stofnana um að vandað sé til máls­­­­­meðferðar við töku íþyngjandi ákvarðana vegna starfsmanna þeirra. Að mati stefn­­­­­­­­­anda sé ljóst að mikið skorti á að svo hafi verið þegar honum var sagt upp störf­­um. Í því sambandi tekur stefnandi fram að ekki hafi verið fundið að störf­um hans áður en til uppsagnarinnar kom.

Til viðbótar byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið ákvæði laga nr. 95/2000 og það hafi leitt til bótaskyldu gagnvart honum. Stefn­andi hafi áður en til uppsagnar kom tilkynnt stefnda um töku fæðingarorlofs með hæfi­­­­­legum fyrirvara til samræmis við 9. gr. laganna. Stefndi hafi móttekið til­kynn­­­­inguna fyrirvaralaust. Stefn­andi byggir á því að uppsögnin hafi verið í andstöðu við 30. gr. sömu laga um tilgreiningu á ástæðum uppsagnar og rökstuðning fyrir upp­sögn en við túlkun ákvæðisins eigi að líta til athugasemda í greinar­­­­gerð með frum­varpi sem varð að fyrrgreindum lögum.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi í uppsagnarbréfinu ekki tilgreint ástæður upp­­­­­­­sagnarinnar skriflega eins og honum hafi borið skylda til samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000. Stefnandi telur að stefndi hafi séð sér hag í því að losna við stefn­anda þar sem vinnuframlag hans væri óvíst vegna töku fæðingarorlofs. Þá vísar stefnandi til þess að ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000 hafi verið túlkað með þeim hætti að sönnunar­byrði um gildar ástæður hafi verið lögð á vinnuveitanda. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið gildar ástæður fyrir upp­sögninni með vísan til þess sem áður greinir. Að því virtu hafi stefnda ekki tekist að sanna að uppsögnin hefði ekki átt rót sína að rekja til fyrrgreindra veikinda og fyrrgreindrar tilkynningar um töku fæð­ingarorlofs.

Um sérstakar málsástæður varðandi skaðabótakröfur, aðal- og varakröfu, þá vísar stefn­andi til meints ólög­mætis ákvörðunar um uppsögn. Stefnandi vísar til saknæmis stefnda, ásetnings og, til vara, gáleysis. Stefnandi vísar til almennu sakar­reglunnar og 31. gr. laga nr. 95/2000 og tekur fram að tjónið sé bein og sennileg af­­leiðing af ólög­mæt­um athöfn­um stefnda. Þá fjallar stefnandi nánar um grundvöll og umfang tjóns og tölu­legar forsendur með vísan til fyrri launa­greiðslna, uppsagnarréttar og ætlaðs áfram­hald­andi starfstíma, þar með talið að teknu tilliti til fæð­ingarorlofs, upp­sagnar­frests og launa í uppsagnarfresti. Þá tekur stefnandi fram að hann byggi skaðabóta­kröfu varð­andi meint brot gegn lögum nr. 95/2000 á sama tímabili og sömu fjárhæð. Með hlið­sjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og laga­rök­um stefnanda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Stefnandi byggir miskabótakröfu á 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og dóm­­­­venju sem Hæstiréttur Íslands hafi mótað þess efnis að meiðandi framganga við upp­­­sögn skapi þolanda uppsagnar rétt til miskabóta. Stefnandi vísar til þess að þær skýr­ingar sem hann hafi fengið á uppsögninni hafi varðað persónu hans. Stefn­andi hafi heils hugar sótt um starfið á sínum tíma og lagt sig allan fram um að gegna starf­inu eins vel og unnt var. Honum hafi á engan hátt verið gefinn kostur á að tala máli sínu heldur hafi stefndi lagt til grundvallar uppsögninni ógagn­sætt og huglægt mat ótilgreindra yfirmanna, sem stefnandi hafi suma aldrei hitt. Stefnandi hafi þannig ekki verið talinn hæfur til að gegna starfinu og persónuleiki hans til að gegna því verið dreg­inn í efa. Stefnandi byggir á því að slík aðferð í upp­hafi starfsferils hans hafi verið meið­andi og varðað æru hans og starfs­frama. Stefn­andi hafi ekki unnið til neins sem leiða hafi átt til þess að komið væri fram við hann af slíkri óvirðingu. Að þessu virtu telur stefnandi að hann eigi rétt á miska­bótum og að þær séu hæfilegar 900.000 krónur.

Að öðru leyti vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir á því að rétt hafi verið staðið að uppsögn stefnanda í skilningi vinnu­­réttar og kjarasamnings. Ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp starfi hafi verið í samræmi við lög og kjarasamning og þar af leiðandi fyllilega lögmæt. Stefndi byggir á því að þar sem hvorki séu efni né ástæður til að fallast á dómkröfur stefn­anda þá beri að sýkna hann af þeim öllum.

Stefndi byggir á því að ákvörðun hans um að segja stefnanda upp starfi hafi grund­­­vallast á grein 11.1.3.2 (1. mgr.) kjarasamnings LSS, svohljóðandi: Gagn­kvæmur upp­sagnarfrestur er þrír mánuðir. Uppsagnarfrestur fyrir nýliða á fyrstu sex mán­­uðum í starfi er þó einn mánuður. Stefndi leggur höfuðáherslu á það að fyrstu sex mánuðir í starfi teljist vera reynslutími. Almennt sé reynslutími þrír mánuðir, en vegna eðlis starfa slökkvi­liðs- og sjúkraflutningamanna, sem oft á tíðum geti verið afar krefjandi, jafnt líkamlega sem andlega, þá hafi verið talið nauðsynlegt að hafa lengri reynslu­tíma. Stefndi telur að á því leiki enginn vafi að skilgreina beri fyrstu sex mánuð­ina í starfi sem reynslutíma, sbr. umfjöllun í grein 11.1.3.3 í sama kjara­samn­ingi.

Þá telur stefndi nauðsynlegt að árétta að engu breyti hvort um sé að ræða fram­tíðar- eða sumarafleysingastarf. Reynslutími í starfi sé alltaf sex mánuðir. Að því virtu telji stefndi að umfjöllun í stefnu um rétt stefnanda til skaða- og miskabóta vegna um­sóknar um framtíðarstarf hafi enga þýðingu fyrir úrlausn máls­ins.

Stefndi tekur fram að við upphaf ráðningar í mars 2017 hafi réttarstaða stefnanda verið sú að hann hafi verið nýliði í skilningi kjarasamnings LSS á sex mánaða reynslu­tíma, líkt og þeir tuttugu og tveir aðrir einstaklingar sem ráðnir hafi verið til starfa hjá stefnda á sama tíma. Stefndi bendir á að reynslutími hjá stefnda lúti allt öðrum og strangari lög­málum en almennt gangi og gerist. Stefndi vísar til þess að sú ófrávíkjan­lega verklags­regla gildi hjá stefnda að allt frá því að nýliðar þreyta inntökupróf, undir­gangast þjálfun, starfs­þjálfun á vöktum og eftir að þeir eru skráðir á vaktir, þá starfi þeir undir hand­leiðslu kennara, þjálfara og stjórnenda stefnda. Á reynslutíma sé þannig stöðugt verið að fylgjast með frammi­stöðu nýliðanna og veita þeim nauðsyn­legan stuðning og að­stoð svo þeir geti mætt ströngum hæfisskilyrðum um starfið. Í því samhengi sé leit­ast við að bæta úr veikleikum á einstökum sviðum, auk þess sem unnið sé frekar með styrkleika svo þeir megi nýtast sem best í starfi.

Frammistöðumat nýliða hefjist strax í inntökuferlinu. Þar taki valinn hópur sjö starfs­­­­­­­­­­manna á móti umsækjendum og fylgi þeim í gegnum öll inntökuprófin. Í próf­­un­um sé leitast við að greina styrk- og veikleika viðkomandi umsækjanda í þeim þátt­­­­um sem snúi að starfinu og meta persónuleikann að því marki sem unnt sé. Þegar um­­­sækjendur hafi verið ráðnir til starfa taki við níu vikna fræðsla og verkleg þjálfun á veg­­um stefnda, sem reyndir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafi umsjón með. Á þeim tíma sé áfram verið að meta hvort viðkomandi henti í starfið að teknu tilliti til ýmissa þátta.

Stefndi vísar til þess að nýliðar fái afhent eyðublað með auðkenninu upphafs­þjálfun nýliða, en það sé liður í frammistöðumati. Á blaðinu séu upptalin ýmis atriði sem nýliðar þurfi að fá upplýsingar og/eða leiðbeiningar um á reynslutíma. Lögð sé áhersla á að nýliðarnir beri sjálfir ábyrgð á því að leita til varðstjóra o.fl. til að fá upp­lýsingar og uppáskrift um að þjálfun á einstökum þáttum sé lokið. Með því móti kynnist varð­­stjórar o.fl. nýlið­un­um á reynslu­tímanum.

Stefndi vísar til þess að þrjátíu stjórnendum, nánar tiltekið varðstjórum og aðstoðar­­varðstjórum, sem hafi að meðaltali 28 ára starfs­reynslu, hafi verið falið að meta frammi­stöðu stefnda og annarra ný­liða áður en reynslu­­tíma lauk sex mánuðum eftir ráðn­­ingu. Um hafi verið að ræða sams konar ferli og viðhaft hafi verið í öðrum hlið­­stæðum ráðn­ingum hjá stefnda. Mat stjórn­endanna hafi verið hug­lægt og byggt á ára­­tuga reynslu og inn­sýn í starf sem nýliðar séu ráðnir til. Stjórnendurnir þekki vel til starfsins og þeirra hæfis­skilyrða sem það krefjist. Stefndi telur að það liggi alveg ljóst fyrir að um­ræddir stjórnendur hafi verið hæfastir til að meta frammi­stöðu ný­liðanna á reynslu­tímanum og til að vera ráðgefandi fyrir yfir­stjórnendur stefnda við ákvörðun um það hvort bjóða ætti hlut­aðeigandi nýliðum áfram­hald­andi störf innan slökkviliðs­ins að loknum reynslu­­tíma.

Stefndi vísar til þess að lagt hafi verið mat á frammistöðu stefnanda áður en sex mán­aða reynslutíma lauk. Hið sama hafi gilt um aðra nýliða á sama tíma. Stefnandi hafi komið illa út úr matinu. Horft hafi verið til heildarfjölda stiga úr öll­um mats­þátt­um og tekið tillit til athugasemda sem bárust. Það hafi verið álit stjórn­enda sem komu að matsvinnunni að stefnandi væri ekki nægilega áhugasamur og að hann virtist oft vera annars hugar og kærulaus ásamt því að taka illa leiðbeiningum og fyrirmælum. Hefði því ekki orðið sú framför hjá stefnanda í starfi sem gera verði kröfu um að náist á reynslutíma. Raunar hefði það verið mat stjórnenda að stefnandi hefði átt langt í land með að uppfylla þau hæfnisskilyrði sem starfið krefðist. Stjórn­endur stefnda hefðu ekki séð framtíðarstarfsmann í stefnanda og því hefði verið ákveðið að segja honum upp störfum. Stefnanda hefði verið tilkynnt um ákvörðun­ina á fundi 30. ágúst 2017 í viður­vist tveggja trúnaðarmanna þegar sex mánaða reynslu­­­­tíma var að ljúka.

Stefndi byggir á því að honum hafi verið fyllilega stætt á því að segja stefnanda upp starfi enda hafi ákvörðunin verið lögmæt jafnt að formi sem efni til. Stefndi telur að misskilnings gæti hjá stefnanda um að stefnda hefði borið að veita honum and­mæla­­­­rétt áður en ákvörðun var tekin. Stefndi tekur fram í því sambandi að tilvísun stefn­­­anda til greinar 11.1.6.1 (5. mgr.) í kjarasamningi LSS eigi aðeins við um það þegar til standi að víkja starfs­manni fyrirvaralaust úr starfi enda hafi hann játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi eða orðið uppvís að grófu broti í starfi. Stefndi byggir á því að útilokað sé að styðjast við umrætt kjarasamningsákvæði þar sem skil­yrði séu ekki uppfyllt til að beita því. Mestu máli skipti í því sambandi að engin áform hafi verið uppi hjá stefnda um að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr starfi á slíkum grund­velli sem fyrr­­greint ákvæði kjara­­­samningsins taki til. Þá hafi aldrei komið til greina að veita hon­um áminningu í starfi enda það með öllu þýðingarlaust að teknu tilliti til þess að um reynslutíma var að ræða. Nánar til­tekið byggir stefndi á því að eðli málsins sam­kvæmt sé hvorum aðila um sig heimilt að segja upp með samnings­bundnum upp­sagnar­fresti án þess að til­greina ástæður. Stefndi vísar til þess að dóm­stólar hafi leitt það af eðli máls að svigrúm aðila til uppsagnar sé rýmra á reynslutíma en ella. Þar af leiðandi sé ekki þörf á að gefa starfsmanni kost á að tjá sig áður en til uppsagnar kemur. Andmælaréttur stefn­anda hafi því verið ber­sýni­lega þarflaus eins og aðstæður voru í máli hans. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 296/1999, 131/2001 og 378/2004.

Stefndi byggir jafnframt á því að þar sem hann hafi ekki brotið neinar reglur stjórn­­­­sýsluréttar við uppsögn stefnanda þá hafi hann ekki heldur brotið reglur laga nr. 95/2000 með uppsögninni. Stefndi tekur fram að hann lýsi yfir sárum von­brigð­um með málatilbúnað stefnanda í þá veru. Stefndi byggir á því að ástæður upp­­sagnarinnar hafi alfarið verið þær að stefnandi hafi ekki þótt standa undir þeim vænt­ing­­um sem gera verði til starfs slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það hafi verið álit þeirra mörgu stjórnenda og starfsmanna stefnda sem séð hafi um að meta frammi­­­­­­stöðu nýlið­anna á reynslutíma að litlar líkur stæðu til þess, hvorki á reynslu­tíma né í náinni fram­tíð, að stefnandi næði þeim tökum á starfinu að hann uppfyllti kröfur sem gera yrði til starfsins. Engu máli hefði skipt í því sambandi þótt stefnandi hefði verið frá vinnu hluta reynslutímans vegna meiðsla. Þar sem stefndi hefði ekki séð framtíðar­starfs­mann í stefnanda þá hefði verið ákveðið að segja honum upp starfi. Stefndi byggir á því að þar sem uppsögnin hafi átt sér stað innan reynslutímans þá hafi stefnandi ekki notið verndar samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000. Í dómaframkvæmd hafi þeirri reglu ítrekað verið slegið fastri að á reynslutíma sé aðilum ráðningar­sambands, það er vinnu­veitanda og starfsmanni, hvorum fyrir sig, heimilt að segja upp slíku sambandi með samningsbundnum uppsagnarfresti án þess að tilgreina ástæður. Reglan sé sett í þágu beggja samningsaðila og henni ætlað það hlutverk að binda enda á ráðningar­samband með lágmarksskuldbindingum fyrir báða aðila áður en til fast­ráðn­ingar stofnast með tilheyrandi réttaráhrifum. Að mati stefnda sé augljóst að reglan þjóni ekki tilgangi sínum ef starfsmenn geta á yfirstandandi reynslu­tíma búið svo um hnút­ana að ráðningarsambandið breytist sjálfkrafa í fast­ráðningu að loknum reynslu­­­tíma án þess að vinnuveitandi hafi nokkuð um það að segja.

Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að jafnvel þótt talið yrði að 30. gr. laga nr. 95/2000 ætti við í málinu þá séu skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins ekki uppfyllt enda hafi gildar ástæður legið að baki uppsögninni. Ákvörðunin hafi að öllu leyti grund­vallast á því að stefnandi hafi verið metinn vanhæfur til að gegna starfinu. Tilkynning stefn­­anda um töku fæðingarorlofs hafi engu máli skipt varðandi uppsögnina. Að þessu virtu telur stefndi að úti­lokað sé að upp­­sögnin hafi verið andstæð 30. gr. laga nr. 95/2000.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar telur stefndi sig hafa sýnt fram á það að umrædd ákvörðun um að segja upp ráðningarsambandi við stefnda á reynslutíma hafi verið mál­­efnaleg og lögmæt. Þá hafi ákvörðunin með engu móti brotið í bága við reglur laga nr. 95/2000. Að því virtu telur stefndi að skilyrði sakarreglunnar séu ekki upp­fyllt í mál­inu og því sé útilokað að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um miskabætur. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt í málinu. Stefndi byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér þann ásetning að brjóta rétt á stefnanda eða beita hann meingerð. Að því virtu eigi að hafna kröfu hans um greiðslu miskabóta.

Stefndi tekur fram og áréttar að ákvörðun um að segja upp ráðningarsambandi stefn­­­anda hafi ekki verið léttvæg heldur tekin að vel ígrunduðu máli. Stefndi vísar einnig til kostnaðarsjónarmiða við þjálfun nýliða. Stefndi tekur fram að uppsögn ný­liða sé óalgeng hjá honum en það komi þó fyrir að slíkt gerist. Til marks um það vísar stefn­di til þess að stef­n­andi hafi verið annar af tveimur nýliðum sem ekki fengu fast­ráðningu í umrætt sinn.

Stefndi vísar til meginreglna vinnuréttar um skilyrði fastráðningar og lok ráðn­ingar­­­­­­sambands. Einnig vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum almennu sakar­reglunnar og 26. gr. laga nr. 50/1993, auk laga nr. 95/2000, einkum 13. og 30. gr. þeirra laga. Þá vísar stefndi til fyrrgreinds kjarasamnings, einkum 11. kafla samnings­ins. Um málskostnað vísar stefndi til laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. þeirra laga.

 

IV.

Reifun á framburði fyrir dómi o.fl.:

Í aðilaskýrslu Birgis Finnssonar varaslökkviliðsstjóra kom meðal annars fram að stefn­andi hefði komið vel út úr líkamlegum og skriflegum prófum í inntökuprófi en hann hefði hins vegar staðið sig lakar í viðtali. Stefnandi hefði í fyrstu ekki verið meðal þeirra sem stefndi hefði ætlað að ráða að loknu inntökuprófi en frá því hefði verið horfið síðar og stefnandi verið ráðinn til starfa. Stefnandi hefði í framhaldi af inn­tökuprófi sótt nám­skeið, sem væri að jafnaði átta vikur, annars vegar fyrrgreint for­nám hjá stefnda og hins vegar grunnnám í sjúkra­flutn­ingum sem hefði verið námskeið á vegum Sjúkraflutningaskólans en haldið hjá stefnda. Röskun hefði orðið á þjálfunar­tíma stefnanda vegna meiðsla sem hann hlaut og hann hefði ekki verið allan þjálf­­unar­­tímann í verklegum æfingum. Þá hefði hann einnig af þeim ástæð­um þurft að koma seinna inn í tveggja vikna starfsþjálfun sem væri nauð­­synlegur undanfari fyrir ný­­liða áður en hann byrjaði störf á vöktum í umsjón og eftir­­­liti reyndra starfs­manna. Við störf á vöktum væri ný­liði undir handleiðslu varðstjóra o.fl. sem hefðu það hlut­verk að leiðbeina nýliðum og meta þá á reynslutímanum og veita um­sagnir um þá undir lok reynslutímans. Yfirmenn sem veittu umsagnir um nýliða hefðu mikla starfs­reynslu innan slökkviliðsins en því til viðbótar hefðu þeir fengið fræðslu í starfs­manna­­stjórnun á verkstjóranámskeiðum o.fl. Stefndi hefði ekkert út á fag­legu hlið­­ina að setja hjá stefnanda. Það sem hefði ráðið því að honum var sagt upp störfum hefðu verið nei­kvæðar umsagnir sjö yfirmanna af ellefu sem gáfu stefnanda umsagnir og lutu að félags­legum þáttum hjá hon­um, meðal annars því að hann hefði verið áhuga­laus, ekki sýnt frum­kvæði, tekið illa leið­sögn o.fl. Birgir kannaðist við að fjar­vera stefn­­­anda vegna veikinda hefði skert möguleika stefnda á því að meta hann. Birgir tók hins vegar fram að kjarasamningur LSS um sex mánaða reynslutíma væri skýr og því hefði verið lagt til grundvallar að stefnda væri ekki stætt á öðru en að meta stefnanda á grundvelli þeirra starfa sem hann hefði unnið hjá stefn­anda. Þá hefði ekki komið til greina að gefa stefnanda kost á því að starfa áfram hjá stefnda og mögulega segja honum upp störfum síðar, ef hann uppfyllti ekki væntingar, þar sem matið sem þó fékkst á störf stefnanda á þessum stutta tíma, sem hefði verið af neikvæðum toga, hefði verið skýrt.

Í skýrslu vitnisins Ingibjargar Óðinsdóttur mannauðsstjóra kom meðal annars fram að hópur þrjá­tíu yfir­manna hjá stefnda með mikla starfsreynslu, varð­stjórar og að­­­­­­stoðar­­­­­­­varð­stjórar, hefði verið fenginn til að meta nýliða undir lok sex mánaða reynslu­­­­­­­­tíma og hefði það verið í samræmi við það sem áður hefði verið gert með ný­liða. Áherslan í matinu hefði verið á mann­­­­lega þáttinn sem væri mjög mikil­vægur í starfi slökkviliðs- og sjúkraflutninga­manna þar sem þeir þurfi alltaf að vera hluti af hópi og geta unnið með öðrum í hópi, tekið tillit til samstarfsmanna, sýnt frum­­kvæði í starfi, þolað álag o.fl. Faglegi þátturinn hefði verið metinn af sérstök­um fag­­leg­um leið­­­beinendum og í fornámi. Yfirmanna­hópurinn hefði skil­­að skriflegum um­sögn­um til mannauðsstjóra um nýliða með áherslu á mann­lega þáttinn og byggt hefði verið á stöðl­­uð­­um og samræmdum spurningalista. Þá hefðu yfirmennirnir ýmist verið sjálfir í samskiptum við stefnanda eða leitað til sinna undir­­­manna sem hefðu verið í slíkum samskiptum áður en spurninga­listanum var svarað. Sá háttur væri almennt viðhafður hjá stefnda að ekki væri gert neitt með eina til þrjár neikvæðar um­sagnir um nýliða en ef þær væru fleiri þá væri ávallt kallað eftir frekari upplýsingum til frekari skýr­ingar. Horft væri á heildarmyndina og unnið út frá því. Þá væri farið með umsagnir og frek­­ari svör frá um­sagnaraðilum, þar með talin skrifleg gögn, sem trún­aðarmál gagn­vart þeim sem veittu umsagnir. Að öðrum kosti væri ekki unnt að fá áreiðan­­leg svör sem hægt væri að byggja á. Svar­hlut­­­fallið hefði verið með þeim hætti að tuttugu og níu af þrjá­tíu yfirmönnum hefðu gefið svör. Af þeim tuttugu og þremur ný­lið­um sem hefðu verið metnir þá hefðu þrír þeirra fengið neikvætt mat og tveimur þeirra síðan verið sagt upp störfum, og annar þeirra verið stefn­andi, en sá þriðji hefði fengið strangt til­tal. Hvað varðaði stefnanda þá hefðu aðeins ellefu yfir­menn í hópnum veitt um­sagnir vegna hans. Þá hefðu sjö af fyrr­greind­­um ellefu yfir­mönnum gefið stefnanda nei­kvæða um­sögn. Aðrir yfirmenn í hópn­­­­um hefðu ekki treyst sér til að meta stefn­anda þar sem þeir þekktu ekki til starfa hans vegna fjarveru út af veikindum á reynslu­tíma. Hlut­fall nei­­kvæðra um­sagna um stefnanda hefði verið óvenju­lega hátt miðað við það sem almennt tíð­kað­ist um nýliða hjá stefnda. Sam­hljómur hefði verið í hin­um nei­kvæðu um­­­­­sögnum, aðallega í þá veru að stefn­andi hefði verið áhugalaus og kæru­laus um starfið. Þá hefðu viðbrögð hans við leið­­sögn verið neikvæð og borið hefði á því að hann hefði talið sig vita betur en aðrir. Einnig hefði komið fram að hann hefði átt það til að beina nei­kvæðum athugasemdum að fólki í kringum sig. Matið á stefnanda eftir þennan stutta reynslutíma hefði verið með þessum hætti og ekki hefði neinu breytt þótt svar­hlut­fallið hefði verið lágt. Matið hefði verið svo afgerandi að alltaf hefði verið tekið tillit til þess og unnið út frá því, óháð því hversu margir mátu stefnanda. Við­­­horf og kæru­leysi stefnanda samkvæmt matinu hefði verið sérstakt áhyggju­­efni og svo hefði virst sem hann hefði ekki áhuga á starf­­­­­­inu. Stefnandi hefði ekki verið talinn passa inn í hóp­inn og hann ekki verið talinn lík­­legur til að verða fram­­­tíðar­starfs­maður hjá stefnda í þeirri liðsheild sem var verið að reyna að ná fram.

Meðal gagna máls­­­ins, sem stefndi hefur lagt fram, er útprentað tölvuskeyti Ingi­bjargar Óðinsdóttur mann­­­auðsstjóra, dagsett 13. júlí 2017, með efnisfyrirsögninni Mat á N17 hópnum og ber með sér að hafa verið sent til varðstjóra og aðstoðarvarðstjóra á vökt­um o.fl. hjá stefnda. Þá hafi myndaspjald af nýliðum fylgt tölvuskeytinu auk eyðu­­blaðs með skráar­­­heitinu MAT á nýliðum. Í tölvuskeytinu greinir meðal annars að Ingi­björg hafi óskað eftir svörum frá við­tak­endum fyrir 10. ágúst sama ár þar sem gert hafi verið ráð fyrir að útfylltu eyðublaði væri skilað inn varðandi nýliðahópinn. Þá var sér­­stak­­­lega tekið fram í tölvuskeytinu að tilgangurinn væri fyrst og fremst sá að kanna hvort ein­hver af nýliðunum fengi lágt skor frá fleiri en einum stjórnanda, sem væri þá vís­­­bend­ing um að viðkomandi nýliði uppfyllti ekki kröfur liðsins. Þá var mið­að við að niðurstöðurnar yrðu kynntar fyrir yfirstjórnendum án þess að til­greina nöfn svar­enda eða að unnt væri að rekja svör til einstaklinga. Auk framan­greinds skjals liggur fyrir óútfyllt eyðublað, sem stefndi hefur lagt fram, og ber heitið MAT Á N17 HÓPNUM og fylgdi fyrrgreindu tölvuskeyti þar sem gert er ráð fyrir út­fyllingu eða nei í töflu fyrir hvern og einn nýliða við atriðin Samskipti í lagi, Áhugi á starfinu, Fellur í hópinn, Viltu sjá hann í fram­tíðarliðinu?

 

V.

Niðurstöður:

Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda og fór um kjör hans samkvæmt kjarasamningi LSS, með gildistíma frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019, sem lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980. Ágreiningslaust er að ákvæði kjara­­samningsins, sem aðilar vísa til við meðferð þessa máls, eru samhljóða ákvæðum í eldri kjara­samningi, sem stefnandi hefur lagt fram, með gildistíma frá 1. maí 2011 til 30. sept­ember 2014. Þá er númeraröð greina í eldri og núgildandi kjarasamningi óbreytt í framan­greindu tilliti. Vinnan hjá stefnanda fólst í því að sinna slökkvi­­­starfi og sjúkra­flutningum á starfs­­­svæði stefnda á höfuðborgarsvæðinu. Um var að ræða fullt launað starf. Stefndi starf­­rækir atvinnuslökkvilið sem annast brunavarnir, slökkvi­störf o.fl., auk sjúkra­flutn­inga. Stefn­­­andi byggir á því að hann hafi ráðið sig ótíma­bundið til fram­­­tíðar­starfa hjá stefnda og hann hafi ekki verið á reynslutíma þegar honum var sagt upp störfum. Af hálfu stefnda er á því byggt að stefn­andi hafi haft stöðu nýliða og verið á sex mánaða reynslu­tíma en starf slökkviliðs- og sjúkra­­­­flutningamanna sé sér­staks eðlis og geti verið afar krefjandi, jafnt líkamlega sem andlega. Stefndi vísar til ákvæðis í grein 11.1.3.2 (2. málsl. 1. mgr.) í kjarasamningi LSS um að upp­­­­sagnar­frestur ný­liða á fyrstu sex mánuðum í starfi sé einn mánuður. Þá vísar stefndi einnig til ákvæða í grein 11.1.3.3 (1. mgr.) í sama kjarasamningi um að heimilt sé að ráða starfsmann tíma­­bundið og unnt sé að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálf­­­krafa úr gildi við lok samn­ings­­tíma og sé samið um slíkt fari um reynslutíma og upp­sagnarfrest sam­kvæmt grein 11.1.3.2 í kjarasamningnum. Fyrir liggur að skrif­legur ráðningar­samn­ingur var ekki gerður við stefnanda, and­stætt áskilnaði í grein 11.1.3.1 (1. mgr.) í um­­ræddum kjara­samn­­ingi og andstætt tilskipun 91/533/EBE, sbr. aug­lýs­ingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samnings­skilmálum eða ráðningar­fyrirkomulagi. Að því virtu verður stefndi látinn bera hallann af því og er ósannað að stefn­andi hafi verið ráð­­­inn tíma­bundið til starfa hjá stefnda í skiln­­­ingi greinar 11.1.3.3 (1. mgr.) í kjara­samningnum. Verður þannig við það miðað að stefn­andi hafi verið með ótíma­bundna ráðn­ingu hjá stefnda. Fyrir liggur að í grein 11.1.3.2 í eldri kjara­samningi LSS, með gildis­­tíma frá 1. desember 2008 til 31. ágúst 2009, var miðað við eins mánaðar upp­sagnarfrest á þriggja mánaða reynslutíma en þar var ekki vikið að starfs­heitinu nýliði. Í grein 11.1.3.2 (2. málsl. 1. mgr.) í síðari kjarasamningi LSS, með gildis­tíma frá 1. maí 2011 til 30. sept­ember 2014, sem er óbreytt í núgildandi kjara­­samningi, var orðið ný­liði tekið upp í greinina og kveðið á um eins mánaðar upp­sagnarfrest nýliða á fyrstu sex mánuðum í starfi. Við mat á því hvort stefnandi hafi haft stöðu nýliða hjá stefnda í skilningi greinar 11.1.3.2 (2. málsl. 1. mgr.) í kjara­samn­ingnum og hvort fyrstu sex mánuðir í starfi hafi verið reynslu­tími er nauð­synlegt að skýra kjara­­samnings­­ákvæðið út frá því laga­­­umhverfi sem gildir almennt um störf slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna.

Um störf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna gilda meðal annars lagareglur alls­herjarréttar sem ætlað er að standa vörð um opinbera hagsmuni vegna eðlis þeirra starfa. Í 1. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir, er kveðið á um að markmið laganna sé að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi, meðal annars með því að tryggja full­­­­­­­­­­­­­­nægjandi við­búnað við eldsvoðum o.fl. Í 9. gr. laganna er meðal annars gert ráð fyrir að bókleg og verkleg menntun slökkviliðsmanna geti verið á vegum slökkvi­­liðs. Þá er í 17. gr. laganna gert ráð fyrir að slökkviliðsmanni í fullu starfi sé unnt að sækja um löggildingu til að starfa sem slíkur að loknu námi og eftir að hafa auk þess gegnt slökkvi­­­­­­­starfi að lágmarki í eitt ár samfellt. Nánar er kveðið á um nám slökkvi­liðs­­­­­manna í reglugerð nr. 792/2001, um Bruna­mála­­­­­skólann og réttindi og skyldur slökkvi­­­­liðs­manna, en reglugerðin er sett með stoð í 9. og 17. gr. laga nr. 75/2000. Í III. kafla reglugerðarinnar er meðal annars fjallað um bók­legt nám og verklega starfs­þjálfun, reynslu­ráðningu og fornám fyrir nýliða, atvinnu­slökkvi­­liðs­menn o.fl. Í 10. gr., sem skip­að er í III. kafla reglugerðarinnar og varðar nám fyrir slökkviliðsmenn í aðalstarfi, er kveðið á um að fornám nýliða sé í um­sjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs. Þar greinir meðal annars að nýliði skuli hafa lokið 80 klukkustunda for­námi áður en hann hefji störf sem byrjandi í atvinnuslökkviliði. Nám fyrir atvinnuslökkvi­liðs­­­mann sé 540 kennslustundir og þátttakandi í því námi skuli hafa lokið fyrrgreindu for­námi og starf­að í atvinnu­slökkvi­­­­­­liði í sex mán­uði, auk áskiln­­­­­­­­­­­­­­­­aðar um að ljúka námi atvinnu­slökkvi­liðs­manns innan þriggja ára frá upp­hafi starfs.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, teljast sjúkraflutningar til heilbrigðisstarfsemi í skilningi laganna. Þá er heilbrigðis­starfs­­­­­­­­­­­­­­­maður samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar einstaklingur sem starfar við heil­­brigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi land­­læknis til að nota starfsheiti löggiltrar heil­­­­­brigðisstéttar. Sjúkraflutningamenn teljast til löggiltrar heilbrigðisstéttar sam­kvæmt 23. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2012. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 34/2012 er mark­­­­­­­mið laganna að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skil­­­­­­greina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Nánar er kveðið á um menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna í reglugerð nr. 1110/2012, um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi, en reglugerðin er meðal annars sett með stoð í 5. gr. laga nr. 34/2012. Í 3. gr. reglugerðarinnar er meðal annars gert ráð fyrir námi í sjúkra­flutn­­ingum samkvæmt námskrá sem landlæknir viðurkenni, auk starfsþjálfunar sem upp­­­fylli viðmið sem sett séu af fagráði sjúkraflutninga. Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar gert ráð fyrir að sjúkraflutningamaður og bráðatæknir beri ábyrgð á því að nemar, sem þeim er falið að veita leiðsögn, hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leið­­­­­­beiningar og tilsögn til að inna af hendi störf sem þeir fela þeim. Nánar er kveðið á um sjúkra­flutninga, þar með talið skipulag, rekstur og fyrrgreint fagráð, í reglugerð nr. 262/2011, um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga, sem sett er með stoð í 33. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu.

Að öllu þessu virtu og með vísan til framan­greindra laga­reglna um störf slökkvi­­­liðs- og sjúkra­flutningamanna, sem lúta meðal annars að vernd almannahagsmuna, þá verður lagt til grund­­vallar að stefn­­­andi hafi ráðið sig til fram­­­­­tíðar­starfa hjá stefnda og að starfsstig hans og þjálfun á meðan hann starfaði fyrir stefnda hafi miðast við að hann væri í upphafi ný­liði og síðar byrjandi í atvinnuslökkviliði að loknu fornámi. Að mati dóms­ins er ekki merkingarmunur á orðunum nýliði og byrjandi samkvæmt almennri mál­venju og verður merking orð­anna lögð að jöfnu. Af þessu leiðir einnig að reglur sem giltu um starfið, að því er varðar námið og þjálfunina, gerðu almennt ráð fyrir kafla­­skilum hjá stefnanda eftir sex mán­uði í starfi og þjálfun hjá stefnda og að fram­­­undan hjá honum hefði að öll­um lík­­­ind­um verið frek­ara launað nám og þjálfun í starfi hjá stefnda ef hann hefði verið met­inn hæfur til þess og ef ekki hefði komið til um­­­ræddrar upp­­sagnar. Skal þá einnig haft í huga eðli starfsins og sú ábyrgð sem því fylgir gagnvart almenningi. Frek­­ara nám og þjálfun í starfi hjá stefnda hefði þá mið­ast við að stefnandi þróaðist í starfi úr því að vera ný­liði eða byrjandi yfir í það að verða atvinnu­­­­­slökkvi­­­­liðs­maður og að hann lyki námi og þjálfun sem slíkur innan þriggja ára, að upp­­­fyllt­um skil­­­­­­­yrðum og kröfum þess náms og þjálf­unar, auk náms og þjálf­­unar til rétt­inda á sviði sjúkra­­­­flutninga. Þessu til viðbótar þá hlýtur tilgangurinn með því að hafa mislangan uppsagnarfrest skilgreindan í grein 11.1.3.2 (1. og 2. málsl. 1. mgr.) í kjara­­­­­samningnum að vera sá að skemmri uppsagnarfresturinn, einn mánuður, taki til starfs­­manna á reynslu­tíma en hinn almenni þriggja mánaða uppsagnarfrestur taki til annarra starfs­manna sem lokið hafi reynslutíma. Að öllu þessu virtu verður lagt til grund­­vallar að fyrstu sex mánuðir í starfi stefnanda hjá stefnda hafi verið reynslutími og hinn skemmri eins mánaðar uppsagnarfrestur samkvæmt fyrrgreindri grein í kjara­samn­ingnum hafi átt við um umrædda uppsögn. Fyrir liggur að stefn­anda var sagt upp störfum með eins mánaðar upp­sagnarfresti til sam­­ræmis við framan­­­­­greint ákvæði kjara­­­­­samningsins. Þá er óumdeilt að stefnandi fékk greidd full laun frá stefnda í eins mánaðar upp­­sagnar­fresti án þess að óskað væri eftir vinnuframlagi á móti.

Ágreiningslaust er að uppsögnin átti rót sína að rekja til þess hvernig stefnandi gegndi starfinu. Stefnandi byggir á því að hann hefði átt að njóta and­mæla­réttar þegar honum var sagt upp störfum. Um andmælarétt vísar stefnandi annars vegar til greinar 11.1.6.1 (5. mgr.) í fyrrgreindum kjara­samningi og hins vegar til óskráðrar megin­­­­­­reglu stjórn­sýslu­réttar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Stefndi byggir á því að honum hafi ekki verið skylt að gæta and­mælaréttar, hvorki samkvæmt kjarasamnings­ákvæðinu né heldur sam­­kvæmt stjórnsýslureglum, þar sem um var að ræða uppsögn starfs­­­­­manns á reynslu­­tíma. Við mat á hinu fyrrgreinda atriði, sem stefnandi byggir á, þá er til þess að líta að í grein 11.1.6.1 (5. mgr.) í kjarasamningnum er kveðið á um and­­­­mælarétt starfs­manns við frá­vikn­­­­­ingu úr starfi en að mati dómsins er ljóst af almennri orðskýringu, auk saman­burðar­skýringar við önnur ákvæði sömu greinar (2.–4. mgr.), að andmæla­réttur samkvæmt fyrr­greindu kjara­­­­­­samnings­ákvæði á aðeins við ef starfs­manni er vikið úr starfi vegna alvar­­­­­­legra brota o.fl., sem hafa áhrif á starfið og leiða til frá­vikn­ingar. Ekkert slíkt átti við um stefn­­­­anda en um var að ræða uppsögn í skilningi greinar 11.1.6.1 (1. mgr.) í kjarasamningnum en ekki frá­vikn­­ingu úr starfi í skiln­ingi sömu greinar (2.–4. mgr.). Þá verður ekki fallist á það með stefnanda, sem fyrst kom fram við munnlegan málflutning, að skýra verði grein 11.1.6.1 (5. mgr.) í kjara­samningnum með hliðsjón af grein 11.1.6.2 (4. mgr.) í sama kjarasamningi. Að mati dóms­­ins er ljóst að ákvæði um andmæla­rétt í grein 11.1.6.2 (4. mgr.) tekur til upp­sagnarferlis vegna endurtekinna áminninga sökum ávirðinga í starfi, sbr. önnur ákvæði sömu greinar í kjara­­samningi (1.–3. mgr.), en tengist ekki frávikningu í skilningi greinar 11.1.6.1 (5. mgr.). Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefn­anda að sér­ákvæði kjara­­­­­samnings­ins um and­mæla­­rétt hafi gilt um uppsögn hans.

Um síðara atriðið, það er hvort stefnandi hafi átt að njóta andmælaréttar á grund­velli óskráðrar megin­reglu stjórnsýsluréttar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993, þá liggur fyrir að stefndi er lög­aðili á vegum byggða­samlags sveitar­­­félaga á höfuðborgar­svæðinu sem starf­­­­­­­­­rækir slökkvi­­lið o.fl. Starfsemin er á ábyrgð byggða­­samlagsins, sbr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr. og 14. gr. laga nr. 75/2000 og 1. mgr. 94. gr. sveitar­stjórnar­laga nr. 138/2011. Sveitarfélög eru opinber stjórnvöld en af því leiðir að þau þurfa almennt að fylgja grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. Hið sama á almennt við um undir­stofn­anir sveitar­félaga. Þó að réttar­staða starfsmanna stefnda ráðist að mestu leyti af ákvæðum kjara­samninga og ráðningarsamningum, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 138/2011, þá leiðir af framan­greindri stöðu sveitarfélaga og undirstofnana þeirra í stjórn­­­­­­kerfinu að starfsemi þeirra af stjórn­sýslu­­­­­­­­­legum toga, meðal annars vegna starfs­manna­­­­­­halds, fellur almennt undir gildis­svið 1. gr. laga nr. 37/1993. Ákvæði 13. gr. sömu laga um and­mæla­rétt, sem byggir á óskráðri megin­­reglu, felur það í sér að máls­aðili á rétt á því að gæta réttar síns og hags­­­­­­muna með því að kynna sér gögn málsins, tjá sig um efni máls og fram­­­komnar upp­­­­­­lýsingar í því og koma að frekari upplýsingum um máls­atvik áður en stjórn­­­­­­­­vald tekur ákvörðun í máli hans. Í máli þessu háttar hins vegar svo til að stefnandi hafði stöðu nýliða hjá stefnda og hafði starfað hjá honum í rétt tæpa sex mánuði á reynslutíma þegar honum var sagt upp störfum. Með vísan til þess sem áður greinir um eðli starfsins og upp­­­byggingu náms og þjálf­unar vegna þess, auk sérstaks ákvæðis um mánaðar upp­sagnar­­­­­frest fyrir ný­liða á fyrstu sex mán­uðum í starfi, sbr. grein 11.1.3.2 (2. málsl. 1. mgr.) í kjara­­­samningi LSS, þá mátti stefn­­anda vera ljóst að hann væri ráðinn til reynslu fyrstu sex mánuðina í starfi hjá stefnda og ef til uppsagnar kæmi þá væri uppsagnar­frestur hjá honum einn mán­uður. Í dómi Hæsta­réttar Íslands 16. desember 1999, í máli nr. 296/1999, var meðal annars lagt til grund­vallar að eðli málsins samkvæmt væri svig­rúm aðila við upp­­­­­­sögn opinbers starfs­­­manns rýmra á reynslu­tíma en ella. Þá var í dómi Hæsta­­réttar Íslands 10. mars 2005, í máli nr. 378/2004, þar sem meðal annars var vísað til hins eldri dóms, tekið fram að reynslu­­­­tími væri notaður, hvort heldur sem er af vinnu­­­­­­­veitanda eða starfs­­manni, til þess að athuga alla þætti starfs, faglega þætti sem og aðra. Í dóm­inum var því slegið föstu að eðli málsins samkvæmt væri hvorum aðila um sig heimilt á reynslu­tíma að segja upp ráðn­­ingarsamningi opinbers starfs­manns með samnings­bundnum upp­sagnar­­­­fresti án þess að tilgreina ástæður upp­sagnar og án tillits til þess þótt upp­sögn væri af ástæð­um sem féllu undir 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkis­ins, og vörðuðu það hvernig starfs­­maður gegndi starfinu. Þá var því enn­fremur slegið föstu í dóm­inum að ekki væri skylt, þegar þannig stæði á, að gefa starfs­­­­­­manni á reynslutíma kost á að tjá sig áður en til upp­­­sagnar kæmi, sbr. síðari málslið 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Að öllu þessu virtu, þar með töldum framangreindum hæsta­réttar­dómum, og með vísan til þess að um var að ræða upp­­­sögn stefnanda innan reynslu­­tíma og til­komna af ástæðum þess hvernig hann gegndi starfinu, þá er það mat dóms­ins að leggja verði til grundvallar að stefnda hafi við um­rædda upp­sögn ekki verið skylt að gæta and­­­­­­­­­­mæla­­réttar samkvæmt megin­reglu stjórnsýsluréttar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Upp­sögnin hafi því ekki verið ólög­­­mæt af þeim ástæðum að þess réttar hafi ekki verið gætt. Af þessu leiðir einnig að stefnda var ekki skylt að kynna stefn­­­­­anda umrætt mat og veita honum upplýsingar um hverjir hefðu unnið það og á hvaða for­sendum áður en til upp­sagnar­­innar kom.

Í málinu er ágreiningur um hvort uppsögnin hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Stefn­­andi vísar í því sambandi sérstaklega til þess að hann hafi verið frá vinnu vegna slyss og því hefði ekki verið unnt að leggja faglegt mat á störf hans og hann ekki fengið að sanna sig. Við mat á þessu atriði er til þess að líta að vitnið Ingibjörg Óðinsdóttir mann­­­auðs­stjóri bar um að stefndi hefði leitast við að afla upplýsinga um stefnanda, eins og aðra nýliða í sömu stöðu, samkvæmt samræmdu spurningaformi, sbr. framan­greint tölvu­skeyti og fylgiskjal. Einnig liggur fyrir sam­kvæmt framburði Ingi­bjargar að sér­stak­lega var farið ofan í saum­ana á fram­komnum umsögnum og kallað eftir frek­­­ari skýr­ing­um frá um­sagnaraðilum áður en ákvörðun um uppsögn var tekin. Til grund­­­­vallar upp­­­­sögninni voru um­­sagnir ellefu yfir­­­­­manna hjá stefn­da, þar af sjö nei­kvæðar um­sagnir. Þá var samkvæmt fram­burði Ingi­­bjargar samhljómur í nei­kvæðu um­­­­­sögnunum og matið á stefn­anda svo af­ger­­andi að alltaf hefði verið tekið tillit til þess og unnið út frá því óháð því þótt svar­hlut­­fallið hefði verið lágt. Að mati Ingi­bjargar hefði ekki haft þýðingu í þessu sambandi þótt stefnandi hefði verið frá vinnu vegna veikinda­leyfis. Um­­­sagnir sem bárust vegna stefnanda hefðu verið þess eðlis að ljóst þótti að starfið hent­­aði honum ekki. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn eða leitt vitni sem stað­festa eða færa líkur að þeirri staðhæf­ingu hans að hann hafi gegnt starf­inu óaðfinnan­lega. Að mati dómsins er sú staðhæfing ósönnuð gegn fram­burði Ingi­bjargar og verður stefn­andi látinn bera hall­ann af því. Að þessu virtu verður lagt til grund­­­­vallar að stefndi hafi rannsakað mál stefnanda nægjanlega vel áður en til um­ræddrar uppsagnar kom svo uppfyllt hafi verið rann­sóknarregla stjórnsýsluréttar. 

Í málinu er ágreiningur um hvort uppsögnin hafi verið málefnaleg í skilningi greinar 11.1.6.1 (1. mgr.) í kjarasamningi LSS. Í rökstuðningi stefnda frá 7. september 2017 greinir meðal annars að uppsögnin hafi verið reist á fyrrgreindu mati sem hefði verið óhagstætt stefn­­­­­anda. Í skýrslu vitnisins Ingibjargar, mannauðsstjóra, fyrir dómi kom fram að uppsögnin hefði verið reist á því að fyrrgreindar sjö umsagnir af ellefu, sem lutu að mann­­leg­um þátt­­­­­­u­m í fari stefn­­­anda, hefðu verið á þá leið að þeir þættir hefðu ekki verið í lagi hjá honum. Þá kom jafn­­framt fram hjá Ingibjörgu að við­kom­andi um­sagnar­­­­­­aðilar hefðu ýmist verið sjálfir í samskiptum við stefnanda eða leitað til sinna undir­­­­manna sem hefðu verið í slíkum samskiptum áður en spurninga­listanum var svarað. Að þessu virtu þá liggur fyrir að umræddar umsagnir byggðust á raunveru­leg­um samskiptum um­­sagnar­­­aðila við stefn­anda, beinum eða óbeinum. Staðhæfing stefn­­anda um hið gagn­­stæða er órökstudd og ósönnuð. Alkunna er að slökkviliðs- og sjúkra­­­­­­­flutn­inga­­menn vinna störf sín í hóp­um, mis­stór­­um eftir eðli og umfangi verk­efna. Einnig er alkunna að starfið gengur meðal annars út á það að standa vaktir með öðrum starfs­­mönnum, bregðast við út­köll­­um þegar hætta steðjar að, vinna sem hluti af liðs­­­­heild, slökkva elda, veita bráða­hjálp, gæta að eigin öryggi og samstarfsmanna, taka þátt í þjálfun með öðrum starfsmönnum, taka við leiðbeiningum og fyrirmælum frá yfir­mönnum eða öðrum sam­starfs­mönnum o.fl. Eðli málsins samkvæmt hentar starfið ekki öllum. Að þessu virtu verður það talið málefna­legt að stefndi hafi kallað eftir um­sögn­­um og tekið til sér­stakrar athugunar þá mann­­­legu þætti sem um ræðir og skipta máli í framan­­­­greindu tilliti, þar með talið hvort sam­skipti við stefnanda hefðu verið í lagi, hvort hann hefði áhuga á starf­­inu, hvort hann félli inn í hóp­inn, tæki tilsögn o.fl. Þá liggur auk þess fyrir að fyrr­greind atriði eru af sama toga og komu fram í aug­lýs­ingu stefnda varð­­­andi hæfnis­kröfur um fram­tíðar­­starf og því eðlilegt að farið væri frekar ofan í saum­­­­­ana á því undir lok reynslu­­tímans. Haggar það ekki mat­­i dóms­ins að þessu leyti þótt stefn­andi hafi að öðru leyti komið vel út úr faglegum þátt­um á inn­töku­­­prófi og í námi og þjálfun hjá stefnda, sbr. aðilaskýrslu Birgis Finns­sonar, vara­­slökkvi­liðs­stjóra, þess efnis fyrir dómi. Þá var stefnda ekki skylt að gæta and­mæla­réttar og uppsögnin því ekki ómálefnaleg af þeim ástæðum að það var ekki gert. Fyrir liggur að um var að ræða athuga­­semdir sem lutu að mannlegum þáttum í fari stefn­anda í tengslum við fram­­­­­­­­­­­­kvæmd starfsins. Að teknu tilliti til eðlis starfsins, framan­greindra umsagna og hversu afgerandi þær voru þrátt fyrir veikindaleyfi stefnanda, og með vísan til þess að um var að ræða reynslu­tíma hjá honum, þá var nærtækast að stefndi brygðist við um­­sögn­­unum með upp­sögn. Verður því ekki fallist á með stefn­anda að stefndi hafi brotið gegn meðal­hófsreglu stjórn­­­sýsluréttar, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993. Að öllu framan­­greindu virtu verður lagt til grundvallar að uppsögnin hafi verið mál­­efna­­­leg í skiln­­ingi greinar 11.1.6.1 (1. mgr.) í kjara­samn­ingi LSS.

Í málinu er ágreiningur uppi um það hvort stefndi hafi viðhaft vönduð vinnubrögð sem samrýmst hafi skráðum sem óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Af mála­tilbún­aði stefnanda, sem er fremur óskýr að þessu leyti, verður ráðið að hann byggi á megin­reglu stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti. Í þessu sambandi finnur stefnandi sérstaklega að því að ekki hafi verið fundið að störfum hans áður en til upp­­­­­sagnar kom, sbr. meginreglu vand­­aðra stjórnsýsluhátta um þátttöku í málsmeðferð. Af þeirri megin­reglu getur meðal annars leitt að stjórn­­valdi kann að vera rétt að veita víðtækari and­mæla­rétt en beinlínis leiðir af skráð­­­um og óskráð­­um and­mæla­­reglum til að skapa traust á stjórnsýslustörfum. Að mati dóms­ins má að nokkru taka undir það með stefn­anda að það hefði verið vandaðri máls­­meðferð hjá stefnda ef hann hefði gefið stefn­anda betri kost á því að bregð­ast við fram­­­komnum umsögnum þó að honum hefði ekki verið það skylt á grundvelli meginreglu um andmælarétt, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Við mat dóms­­­­­­­ins á því hvort máls­meðferð stefnda hafi samrýmst megin­reglu um vand­­­aða stjórn­­­­­­­­­­­sýsluhætti er til þess að líta að hinn almenni útgangs­­punktur í fræðilegri um­­­fjöllun á sviði stjórnsýslu­réttar, að því er varðar mat á réttar­áhrifum ef brotið er gegn meginreglu um vandaða stjórnsýsluhætti, er sá að ann­marki af þeim toga leiðir almennt hvorki til þeirrar niður­stöðu að stjórn­valds­ákvörðun verði ógilt né heldur leiði hann til greiðslu skaða­bóta. Að mati dóms­­ins hefur stefn­andi ekki stutt það hald­bær­um rökum að ann­marki á máls­­­meðferð stefnda í framan­greindu tilliti geti leitt til annarrar niðurstöðu. Að því virtu verður ekki fallist á með stefn­anda að frávik frá vönd­­uðum stjórnsýslu­háttum geti leitt til þeirrar niður­stöðu að ákvörðun stefnda um upp­­­­sögn stefnanda verði metin ólög­­­­mæt og skaða­­­­bóta­skyld. 

Í málinu er uppi ágreiningur um það hvort stefndi hafi með umræddri uppsögn brotið gegn 1. málsl. 30. gr. laga nr. 95/2000. Gildissvið laganna tekur meðal annars til starfs­­manna á reynslutíma, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 18. júní 2004, í máli nr. 61/2004, en fullyrðing stefnda um hið gagnstæða er ekki studd haldbærum rökum og verður ekki lögð til grundvallar í máli þessu. Ágreiningslaust er að stefnandi hafði með út­fylltu eyðublaði 21. júlí 2017 til­kynnt stefnda um fyrirhugaða töku fæðingar­orlofs án athuga­­­semda af hálfu stefnda. Fyrir liggur að í bréfi stefnda um uppsögn stefn­­­anda 30. ágúst 2017 fylgdi ekki rökstuðningur vegna upp­sagnarinnar og var þessi fram­­setning í and­­stöðu við fyrrgreint ákvæði laga nr. 95/2000. Úr því var bætt eftir á með rök­stuðn­ingi stefnda 7. september 2017, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 37/1993. Með vísan til þess sem að framan greinir og lagt hefur verið til grundvallar um ástæður um­ræddrar upp­­­­­­­­sagnar, þar með talið að uppsögnin átti rót sína að rekja til þess hvernig stefnandi gegndi starfinu samkvæmt umsögnum frá yfirmönnum stefnda, þá verður jafnframt lagt til grund­vallar að stefnda hafi tekist sönnun á því að gildar ástæður hafi verið fyrir upp­sögn­inni og að þær hafi ekki tengst fyrirhugaðri fæð­­­­ingar­orlofs­­­­­­­töku stefnanda eða veik­­indum hans. Verður því ekki fallist á með stefn­anda að með uppsögninni hafi verið brotið gegn 1. málsl. 30. gr. laga nr. 95/2000.

Að öllu framangreindu virtu eru ekki uppfyllt skilyrði almennu sakarreglunnar og 31. gr. laga nr. 95/2000 og verður því hvorki fallist á aðal- né varakröfu stefn­anda um skaðabætur og verður stefndi sýknaður af þeim kröfum.

Með vísan til þess sem að framan greinir um niðurstöðu varðandi aðal- og vara­kröfu stefnanda þá verður ekki fallist á með honum að um hafi verið að ræða meið­andi fram­göngu stefnda gagnvart honum með um­ræddri uppsögn. Eru því ekki uppfyllt skil­­yrði 26. gr. laga nr. 50/1993 og verður stefndi því sýknaður af miskabóta­kröfu stefn­anda.  

Með vísan til atvika máls og aðstæðna aðila þá þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Ásþór Haraldsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Anton Björn Markússon lögmaður.

       Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, byggðasamlag, er sýkn af öllum kröf­um stefnanda, Gríms Snorrasonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

Daði Kristjánsson