• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skjalafals
  • Útivist

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2018 í máli nr. S-699/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Daviti Rachvelishvili og

Koba Migineishvili

 

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni 1. desember 2017, á hendur Daviti Rachvelishvili, fæðingardagur 00. september 0000, með dvalarstað að Klettatröð 10 í Reykjanesbæ og Koba Migineishvili, fæðingardagur 2. desember 1983, með dvalarstað á sama stað, fyrir tilraun til skjalafals og brots gegn útlendingalögum með því að hafa, fimmtudaginn 2. nóvember 2017, í afgreiðslu Póstsins, Pósthússtræti 5, Reykjavík, tekið á móti og haft í vörslum sínum póstsendingu nr. RE58142099GR, frá Aþenu í Grikklandi, sem ákærðu töldu að innihéldi fölsuð grísk vegabréf, sem þeir höfðu áður aflað sér í því skyni að nota til að draga dul á persónuauðkenni sín og uppruna, en tollyfirvöld höfðu haldlagt vegabréfin og komið fyrir gervipakka í stað þeirra. Annars vegar var um ræða vegabréf nr. AK2367271, með gildistíma frá 03.07.2015 til 02.07.2020, ranglega ánafnað Davit Anastasiadis, f.d. 00.00.0000 og hins vegar vegabréf nr. AB1799889, með gildistíma frá 12.09.2015 til 11.09.2020, ranglega ánafnað Konstantinos Papadopoulos, f.d. 00.00.0000. Bæði vegabréfin reyndust breytifölsuð, þ.e. fölsuð að hluta á þann hátt að skipt hafði verið um persónuupplýsingar í upplýsingasíðum þeirra.

 

       Teljast þessi brot ákærðu varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga og h-lið 2. mgr., sbr. 6. mgr. 116. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

 

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

 

            Þá er þess krafist að ákærðu verði, með heimild í 1. og 2. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 149/2009, dæmdir til að sæta upptöku á framangreindum breytifölsuðum grískum vegabréfum.

 

       Ákærðu sóttu ekki þing við þingfestingu málsins og höfðu ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

       Ákærði Daviti er fæddur í september 0000. Hann hefur ekki sætt refsingu hér á landi svo vitað sé.

        Með hliðsjón af sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Frá refsingu dregst gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 3. til 10. nóvember 2017

 

       Ákærði Kobe Migineishvili er fæddur í desember 0000. Hann hefur ekki sætt refsingu hér á landi svo vitað sé.

       Með hliðsjón af sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.          

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs vegabréf nr. AK2367271 með gildistíma frá 3. júlí 2015 til 2. júlí 2020, ranglega ánafnað Davit Anastasiadis og nr. AB1799889, með gildistíma frá 12. september 2015 til 11. september 2020, ranglega ánafnað Konstantinos Papadopoulos, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Ákærði Koba Mignineishvili greiði málsvarnarþóknun tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Einars Odds Sigurðssonar lögmanns., 179.180 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

       Engan annan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Daviti Rachvelishvili, sæti fangelsi í 30 daga. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald ákærða frá 3. til 10. nóvember 2017.

       Ákærði, Koba Migineishvili, sæti fangelsi í 30 daga.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs vegabréf nr. AK2367271 með gildistíma frá 3. júlí 2015 til 2. júlí 2020, ranglega ánafnað Davit Anastasiadis og nr. AB1799889, með gildistíma frá 12. september 2015 til 11. september 2020, ranglega ánafnað Konstantinos Papadopoulos.

       Ákærði Koba Migineishvili greiði málsvarnarþóknun tilnefnds verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Einars Odds Sigurðssonar hdl., 179.180 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir