• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2018 í máli nr. S-503/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Herði Kristgeirssyni

(Kolbrún Garðarsdóttir lögmaður)

Mál þetta, sem dómtekið var 24. október sl., er höfðað með tveimur ákærum, útgefnum af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrri ákæran er gefin út 10. júlí 2018, á hendur Herði Kristgeirssyni, kt. [...], óstaðsettum í hús, en með dvalarstað að [...], Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa:

1. Mánudaginn 10. júlí 2017, ekið bifreiðinni [...] vestur Breiðholtsbraut við Mjódd, Reykjavík, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 750 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 5,3 ng/ml) og fyrir að hafa, sem eigandi bifreiðarinnar, vanrækt vátryggingarskyldu hennar.

Telst þessi háttsemi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 93. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

2. Laugardaginn 5. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...] suður Vesturlandsveg, við Fiskilæk, Hvalfjarðarsveit, á 103 kílómetra hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfður hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Telst þessi háttsemi varða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

3. Föstudaginn 27. apríl 2018, ekið bifreiðinni [...] vestur Einarsnes og að Þorragötu, Reykjavík, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 440 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,2 ng/ml sem einnig mældist í þvagi ásamt metamfetamíni og kókaíni).

Telst þessi háttsemi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Síðari ákæran er gefin út á hendur ákærða, 23. október 2018, fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

1. Fimmtudaginn 10. maí 2018 ekið bifreiðinni [...] um Suðurlandsbraut og suður Kringlumýrarbraut, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 1200 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 1,7 ng/ml, sem einnig mældist í þvagi ásamt metamfetamíni og MDMA) og haft í vörslum sínum 3,37 g af amfetamíni og 3,48 g af ecstasy sem lögregla fann við leit í umrætt sinn.

2. Laugardaginn 21. júlí 2018 ekið bifreiðinni [...] vestur Miklubraut og um Snorrabraut, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 905 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml) og haft í vörslum sínum 11,65 g af amfetamíni og 7,58 g af ecstasy sem lögregla fann við leit í umrætt sinn.

Telst framangreind háttsemi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt er krafist upptöku á 15,02 g af amfetamíni og 11,06 g af ecstasy, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 4. júlí 2018, var ákærði dæmdur til greiðslu sektar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 11. október 2012, meðal annars fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá var ákærða gert að greiða sekt fyrir að aka sviptur ökurétti með sátt Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 8. ágúst 2013. Að öðru leyti hefur sakavottorð ákærða ekki þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu.

Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir ítrekaðan akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk fíkniefnalagabrota. Með hliðsjón af fjölda brota ákærða og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dóms þessa að telja. Þá eru jafnframt, með vísan til lagaákvæða í ákæru, gerð upptæk 15,02 g af amfetamíni og 11,06 g af ecstasy, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kolbrúnar Garðarsdóttur lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 633.804 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Hörður Kristgeirsson, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í fimm ár frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð 15,02 g af amfetamíni og 11,06 g af ecstasy.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kolbrúnar Garðarsdóttur lögmanns, 126.480 krónur og 633.804 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Þórhildur Líndal                                                    

 

           

---------------------          ---------------------          ---------------------

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 2. nóvember 2018