• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Handtaka
  • Leit
  • Lögreglumenn
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2019 í máli nr. E-1522/2018:

A

(Oddgeir Einarsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu þann 3. maí 2018. Stefnandi er A [           ], og stefndi íslenska ríkið. Málið var dómtekið 14. desember 2018.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 króna ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 6. ágúst 2017 til 1. desember 2017, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda og að í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

 

I.

Málavextir

Verulegur ágreiningur er á milli aðila um málavexti. Stefnandi var staddur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þann 6. ágúst 2017. Lögreglan veitti stefnanda athygli þegar hún var við fíkniefnaeftirlit í miðbæ Vestmannaeyja. Stefnanda og stefnda greinir verulega á um með hvaða hætti atvik urðu. Stefnandi lýsir því þannig að lögreglumaður hafi skyndilega verið komin upp að honum og spurt hvort hann mætti láta lögregluhund þefa af honum, sem hann hafi samþykkt. Hundurinn hafi ekki sýnt honum neinn áhuga, en þegar hann hugðist ganga leiðar sinnar hafi lögreglumenn sem dreif að í sömu mund varnað honum för. Í framhaldinu hafi verið leitað á honum og öryggisúðabrúsa beint að andliti hans og hótað að úða innhaldi brúsans á hann ef hann opnaði ekki munninn. Hann hafi síðan verið beittur afli til þess að opna munninn og lögreglumenn hafi leitað í munnholi hans með fingrum og með sjónskoðun. Leitin hafi verið tilefnislaus og honum hafi verið sleppt í kjölfarið, en lögreglumennirnir hafi hins vegar neitað að upplýsa hann um lögreglunúmer þegar hann greindi þeim frá því að hann hygðist kæra þennan atburð.

Stefndi vísar til dagbókar lögreglu þar sem fram kemur að stefnandi og annar maður hafi reynt að komast undan og breytt um göngustefnu þegar þeir urðu varir við lögreglu. Lögreglumennirnir hafi þurft að hlaupa á eftir þeim og biðja þá að nema staðar, sem þeir gerðu. Áður en það gerðist hafi stefnandi tekið pakkningu upp úr vasanum og stungið henni upp í sig. Fíkniefnahundurinn hafi merkt vasa stefnanda þar sem hann hafði tekið pakkninguna upp. Stefnandi hafi neitað að opna munninn og hafi lögreglumaður beint að honum úðavopni til að knýja fram þá beiðni. Í stað þess að opna munninn hafi stefnandi gleypt pakkninguna og neitað að upplýsa hvað hann hefði gleypt.

Síðar þennan sama dag tók stefnandi myndir með farsíma sínum af lögreglumönnunum sem höfðu haft afskipti af honum fyrr um daginn. Stefnandi var beðinn að hætta að mynda og eyða myndunum sem hann hafði tekið þar sem það fylgdi starfi lögreglumanna að þeir mættu ekki þekkjast. Stefnandi hafi fallist á þetta.

Stefnandi lýsir þessu á annan veg. Hann hafi tekið myndir af lögreglumönnunum í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur þeim vegna atviksins fyrr um daginn. Þegar þeir hafi orðið varir við myndatökuna hafi þeir skipað honum að afhenda símann. Þegar hann neitaði því hafi tveir lögreglumenn haldið honum og sá þriðji tekið símann úr vasa hans. Lögregluhundurinn hafi verið látinn þefa af honum aftur og lögreglumennirnir hafi hótað honum að klippa í sundur aðgangsband að samkomusvæði Þjóðhátíðarinnar ef hann eyddi ekki myndunum.

Lögmaður stefnanda sendi fyrirspurn til lögreglunnar í Vestmannaeyjum með bréfi þann 8. ágúst 2017 þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu málsins og afriti af öllum gögnum. Í svarbréfi lögreglu þann 21. ágúst 2017 kom fram að málinu væri lokið og fylgdi útprentun af dagbókarfærslu sem er skráð kl. 07:52 þann 8. ágúst. 2017.

Stefnandi segist hafa verið að leita að veitingastað þegar hann hafi ásamt vini sínum, J,verið stöðvaður af lögreglumönnum í fyrra skiptið. Þeir hafi haft hund meðferðis sem hafi ekki sýnt honum neinn áhuga, en engu að síður hafi verið gerð harkaleg leit á honum og honum m.a. skipað að opna munninn og hótað með úðabrúsa. Lögreglumennirnir hafi ekki verið tilbúnir til að gefa honum upp nöfn og lögreglunúmer. Í síðara skiptið hafi lögreglumaður rifið símann úr buxnavasa hans á meðan tveir aðrir héldu honum. Hann hafi neyðst til að eyða út þessum myndum enda hafi þeir hótað því að gera símann upptækan. Auk stefnanda gaf skýrslu fyrir dómi J, vinur stefnanda sem var með honum í fyrra skiptið. Hann sagði að þeir hefðu verið að reyna að finna veitingastað og breytt um stefnu til að komast að veitingastöðum við höfnina. Þetta hafi verið stefnulaus ganga og nærvera lögreglunnar ekki haft nein áhrif. Hann hafi ekki tekið eftir því að stefnandi setti eitthvað upp í sig en telur að hann hefði orðið var við það ef svo hefði verið. Munnsvipur stefnanda sé þannig að það gæti valdið þeim misskilningi hjá þeim sem þekktu hann ekki að hann væri með eitthvað uppi í sér. Hann segist aldrei hafa vitað til þess að stefnandi hafi handleikið fíkniefni.

K lögreglumaður segir að stefnandi og vinur hans hafi skyndilega breytt um stefnu á leið sinni þegar þeir urðu varir við lögreglumennina og hundana sem voru með þeim. Það hafi gefið þeim tilefni til þess að elta þá. Þegar einungis örfáir metrar hafi verið á milli hans og stefnanda hafi stefnandi tekið upp úr hægri vasanum pakkningu og sett upp í munninn. Hundurinn hafi merkt hægri buxnavasann. Stefnandi hafi neitað að opna munninn og á endanum kyngt pakkningunni. Í síðara skiptið hafi þeir orðið varir við að hann hafi verið að taka myndir af þeim, sem hann hafi fallist á að eyða eftir að þeir höfðu útskýrt fyrir honum mikilvægi þess að ekki yrðu teknar myndir að þeim né því fólki sem þeir væru að hafa afskipti af. L lögreglumaður var ekki vitni að fyrra atvikinu en sagði að stefnandi hefði fallist á að eyða myndunum eftir útskýringar. Stefnandi hafi haldið á símanum allan tímann. M lögreglumaður segir að stefnandi og vinur hans hafi snúið við þegar þeir hafi orðið varir við hundana. Lögreglumennirnir hafi hlaupið á eftir þeim og hann hafi séð þegar stefnandi fór í hægri vasann og sett eitthvað upp í munninn á sér. Hundurinn hafi síðan merkt hægri vasann. Stefnandi hafi neitað að opna munninn. N lögreglumaður segir að greinilegt fát hafi komið á stefnanda þegar hann og vinur hans sáu lögreglumennina með hundana. Hann hafi séð stefnanda teygja sig í eitthvað en ekki séð hann setja neitt upp í sig. Stefnandi hafi neitaði að opna munninn þegar farið var fram á það. O lögreglumaður segir að stefnandi og vinur hans hafi snúið við þegar þeir hafi orðið varir við lögreglumennina og hundana. Hann sá ekki að stefnandi hefði sett neitt upp í sig, enda er hann umsjónarmaður hundsins og upptekinn við að fylgjast með honum. Stefnandi hafi neitað að opna munninn þegar hann var beðinn um það. Hundurinn hafi merkt vasa stefnanda.

 

II.

Helstu málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því að aðgerðir lögreglu í málinu hafi verið að ósekju og telur sig eiga rétt á miskabótum vegna þeirra. Í fyrra tilvikinu hafi ferðafrelsi hans verið skert og hann í raun handtekinn og sviptur frelsi í skilningi XIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eins og þessi ákvæði hafa verið túlkuð af dómstólum. Í síðara tilvikinu hafi hann einnig verið handtekinn með því að tveir lögreglumenn héldu honum með valdi á meðan sá þriðji tók af honum símann. Ferðafrelsi hans hafi verið skert með þessum hætti og því um að ræða frelsissviptingu og handtöku.

            Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi staðfest að líkamsleit hafi verið gerð á stefnanda í fyrra tilvikinu. Um hafi verið að ræða leit í skilningi 1. mgr. 76. gr. sakamálalaga. Engu máli skipti varðandi bótaréttinn hvort stefnandi hafi veitt samþykki fyrir þeirri líkamsleit. Umræddar ásakanir hafi ekki átt við nein rök að styðjast og stefnanda verið sleppt í kjölfarið. Í síðara tilvikinu hafi einnig verið um líkamsleit að ræða enda hafi honum verið haldið föstum og sími tekinn úr vasa hans. Rannsókn á farsímanum og fyrirskipun um að eyða út myndum falli undir XI. kafla sakamálalaga eða X. kafla þeirra og séu efnislega sambærilegar við ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84 gr. sakamálalaga. Samkvæmt lögjöfnun frá þeim hafi borið að afla dómsúrskurðar til þess að rannsaka efni farsímans. 

Stefnandi byggir á því að í reynd hafi verið gerð líkamsrannsókn á stefnanda samkvæmt 77. gr. sakamálalaga með því að lögregla leitaði í munnholi hans. Hér hafi a.m.k. verið um að ræða leit í skilningi 2. mgr. 76. gr. þar sem leitað hafi verið innvortis á stefnanda. 

Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi ekki hafnað því að aðgerðirnar hafi átt sér stað, heldur vísi til þess að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim þannig að bótaréttur eigi að falla niður.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á hlutlægri bótareglu 1. og 2. mgr. 246. gr. sakamálalaga. Samkvæmt ákvæðinu eigi stefnandi rétt á bótum ef mál hans hefur verið fellt niður. Stefnandi hafi verið grunaður um vörslur fíkniefna og beittur tveimur handtökum og líkamsleitum, líkamsrannsókn og rannsókn á farsíma. Mál hans hafi síðan verið fellt niður. Stefnandi vísar einnig til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, enda hafi hann tvívegis verið sviptur frelsi að ósekju. Til vara byggir stefnandi á því að bótakrafa hans eigi stoð í 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Auk framangreinds verði að líta til þess að aðgerðirnar hafi gengið lengra en nauðsyn krafði, m.a. með því að beina úðabrúsa að andliti stefnanda og neyða hann með valdi til að opna munninn. Með þessu hafi verið brotið gegn skráðum og óskráðum meðalhófsreglum, sbr. m.a. 3. mgr. 53. gr. sakamálalaga og 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Stefnandi mótmælir sérstaklega málsatvikalýsingu stefnda og vísar til þess að hún sé byggð á lögregluskýrslu sem er gerð tveimur dögum eftir að umrædd atvik áttu sér stað. Í skýrslunni sé hvergi vikið að því að gerð hafi verið líkamsleit, sem þó er viðurkennt í greinargerð fyrir dómi. Fullyrðingar um að stefnandi hafi gleypt fíkniefni hafi ekki kallað á neinar aðgerðir af hálfu lögreglu, sem sá t.d. enga ástæðu til að koma stefnanda undir læknishendur. Þá fær sú fullyrðing í greinargerð stefnda ekki staðist að stefnandi hafi verið afar ósamvinnuþýður en samt samþykkt líkamsleitina, ef mið er tekið af greinargerð stefnda, og numið staðar þegar hann vera beðinn um það, eins og fram kemur í lögregluskýrslu. Allt sé þetta til þess fallið að draga úr trúverðugleika í málavaxtalýsingu stefnanda, en henni er auk þess mótmælt af stefnanda og vitninu J.

 

III.

Helstu málsástæður stefnda

Stefndi hafnar málavaxtalýsingu stefnanda og byggir á því að stefnandi hafi ekki sætt öðrum þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu en einni hefðbundinni líkamsleit við fíkniefnaeftirlit. Stefndi hafnar bótaskyldu vegna þessarar líkamsleitar á grundvelli 2. mgr. 246. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sem er undantekningarregla frá hinni hlutlægu reglu lagaákvæðisins. Stefnandi hafi reynt að komast undan lögreglu sem hafi þurft að hlaupa hann uppi, stungið upp í sig pakkningu áður en hann nam staðar, neitað að gera grein fyrir sér eftir að hann hafði numið staðar, neitað að opna munninn og sérþjálfaður fíkniefnahundur hafi merkt á honum stað eins og hann gerir þegar lykt finnst af fíkniefnum. Stefnandi hafi haft réttarstöðu sakbornings á þeim tíma sem líkamsleitin fór fram, sbr. 1. mgr. 27. gr. sakamálalaga, beri sjálfur ábyrgð á leitinni og verði að taka afleiðingum hennar.

Stefndi vísar til þess að skilyrði 76. gr., sbr. 78. gr. sömu laga, hafi verið fullnægt. Ástæða þess að leitað var á stefnanda hafi verið sú að rökstuddur grunur hafi verið um að hann væri með fíkniefni í sinni vörslu. Það hafi byggst á því að hann hafi reynt að komast undan lögreglu og tekið upp úr vasa sínum pakkningu sem hann hafi stungið upp í sig og kyngt. Fíkniefnahundur lögreglu hafi sérstaklega merkt buxnavasa stefnanda. Ekkert hafi legið fyrir um tegund og styrkleika þeirra efna sem lögregla taldi vera í pakkningunni sem stefnandi gleypti, auk þess sem grunur lék á að hann hefði meira efni innanklæða. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi gefið samþykki sitt fyrir líkamsleitinni, en jafnframt að líkamsleitin hafi verið heimil án dómsúrskurðar, þar sem brýn hætta hafi verið á að bið eftir úrskurði ylli sakarspjöllum, sbr. síðari málslið 1. mgr. 78. gr. laga nr. 88/2008, sem reyndar hafi ekki tekist að koma í veg fyrir þar sem stefnandi hafi gleypt umrædda pakkningu.

Stefndi byggir á því að gætt hafi verið meðalhófs í skilningi 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Stefndi vísar til þess að fullt tilefni hafi verið til líkamsleitarinnar, en til greina hefði komið að grípa til frekari aðgerða, svo sem handtöku og líkamsrannsóknar til að komast að því hvert hefði verið innihald pakkningarinnar sem stefnandi gleypti. Lögregla hafi fulla heimild til að stöðva för manna á fjöldasamkomum, eins og Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum óneitanlega er, til að koma í veg fyrir afbrot þegar grunur beinist að tilteknum manni, eins og í þessu tilviki. Stefndi telur að sú aðferð að halda úðavopni á lofti til að reyna að knýja fram hlýðni við lögmæt fyrirmæli lögreglu sé fyllilega í samræmi við 11. og 12. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Líkamsleit sé heimil samkvæmt ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sem séu uppfyllt í þessu máli. Þá er því hafnað að brotið hafi verið gegn 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. MSE, enda var stefnandi aldrei handtekinn og þar af leiðandi ekki sviptur frelsi.

Stefndi hafnar því að líkamsrannsókn hafi farið fram á stefnanda í umrætt sinn enda hafi stefnandi neitað að opna munninn þegar hann var beðinn um það. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að slík líkamsrannsókn hafi átt sér stað, en jafnvel þó talið væri sannað að lögregla hefði skoðað upp í munn stefnanda, eftir að hann gleypti pakkninguna, þá geti það ekki fallið undir hugtakið líkamsrannsókn í skilningi 77. gr. sakamálalaga. Jafnframt hafnar stefndi því að farsími stefnanda hafi verið tekinn af honum. Stefnandi hafi orðið við beiðni lögreglu um að eyða sjálfur út myndum að lögreglu ásjáandi.

Varakröfu sína um lækkun styður stefndi við það að stefnandi hafi í það minnsta stuðlað að leitinni með háttsemi sinni. Umrædd líkamsleit hafi verið hluti af fíkniefnaeftirliti lögreglu á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, þar sem mikið er um fíkniefnamisferli. Því beri að lækka bætur til stefnanda með vísan til 2. ml. 2. mgr. 246. gr. laganna. Auk þess verði bæturnar að endurspegla eðlilegt tjón stefnanda með hliðsjón af dómaframkvæmd í sambærilegum málum. Miskabótakröfu stefnanda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga er mótmælt sérstaklega, enda hafi ekki verið fyrir að fara neinni sök hjá starfsmönnum stefnda, sem hafi eingöngu verið að sinna skyldu sinni sem lögreglumenn við fíkniefnaeftirlit og saknæmisskilyrði ákvæðisins sé því ekki uppfyllt.

 

IV.

Niðurstaða

Í málinu er óumdeilt að stefnandi sætti einni líkamsleit við fíkniefnaeftirlit sem stóð yfir í um það bil fimm mínútur. Í skýrslu lögreglu af atvikinu kemur ekki fram að stefnandi hafi samþykkt umrædda líkamsleit. Lýsing á atvikum, bæði í skýrslunni sjálfri og í skýrslutöku lögreglumanna sem komu fyrir dóm, bendir til þess að það hafi ekki gefist tími til að leita eftir samþykki stefnanda, a.m.k ekki í byrjun leitarinnar, enda miðuðust aðgerðir lögreglu í upphafi við það að þvinga stefnanda til þess að opna munninn og ná pakkningu sem lögreglan taldi að hann hefði gleypt, samkvæmt lýsingu lögreglumannanna. Þá verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi ekki verið frjáls ferða sinna á meðan þessi leit stóð yfir. Stefnandi hafði því réttarstöðu sakbornings í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008 á meðan leitin stóð yfir. Í greinargerð stefnda er vísað til þess að stefnandi falli undir ákvæði 27. gr. sakamálalaga þar sem hann hafi verið grunaður um vörslur fíkniefna á þeim tíma sem líkamsleitin fór fram.

Samkvæmt svari lögreglustjórans í Vestmannaeyjum með bréfi dagsettu 21. ágúst 2017 við fyrirspurn stefnanda í bréfi dagsettu 8. ágúst 2017 var málið skráð sem „verkefni lokið“ í dagbók lögreglunnar. Málið var því fellt niður í skilningi 1. mgr. 246. gr. sakamálalaganna, en í þeirri lagagrein segir að maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 246. gr. laganna má dæma bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málsliðnum má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Frekari skilyrði eru ekki sett fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXIX. kafla laga nr. 88/2008. Skiptir þá ekki máli hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða sem hafa haft í för með sér tjón eða ekki hefur verið nægjanlegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, sbr Hrd. nr. 421/2015 og Hrd. nr. 191/2017.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Því eigi 2. málsliður 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 við og því beri að fella niður bætur, og til vara er þess krafist að þær verði lækkaðar verulega. Samkvæmt framburði J og lögreglumannanna sem gáfu skýrslu fyrir dómi þykir nægjanlega upplýst að stefnandi hafi beygt af leið þegar hann nálgaðist óeinkennisklædda lögreglumennina og hundana sem þeir voru með. Samkvæmt skýrslugjöf lögreglumannanna sem voru viðstaddir leitina gaf fíkniefnahundur til kynna að stefnandi hefði hugsanlega verið að meðhöndla fíkniefni og þeir tveir lögreglumenn sem komu fyrst að stefnanda skýrðu frá því að þeir hefðu séð hann setja eitthvað upp í sig og kyngja því. Í skýrslutöku yfir lögreglumanninum sem stjórnaði leitinni kom fram að hann hefði boðið stefnanda að fara á sjúkrahús, eins og yfirleitt er gert þegar lögreglan verður vör við að fólk gleypi fíkniefni. Það hafi þó augljóslega ekki verið stór pakkning sem hann gleypti og því ekki verið talin ástæða til frekari aðgerða, auk þess sem stefnandi hafi neitað því að um fíkniefni væri að ræða.

Samkvæmt lögum hefur lögreglan víðtækar valdheimildir til þess að framkvæma leit, sbr. t.d. 76. gr. og 3. mgr. 93. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, svo og 1. mgr. 17. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu, sbr. 19. gr. sömu laga. Hvorki verður fallist á að umrædd leit hafi verið algerlega tilefnislaus né að valdheimildir hafi ekki verið til staðar samkvæmt lögum. Skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru því ekki uppfyllt, enda skortir skilyrði um saknæmi og ólögmæti. Þá verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu við leitina, sem einungis tók um fimm mínútur og leiddi hvorki til sérstakarar skýrslugjafar né líkamsrannsóknar í framhaldinu og hafði hvorki í för með sér óþarfa miska né tjón umfram það sem óhjákvæmilega hlýst jafnan af aðgerðum sem þessum. 

Samkvæmt hinni hlutlægu bótareglu 2. mgr. 246. gr. skiptir ekki máli þó að þvingunarráðstafanir hafi byggst á lögmætum grundvelli og tilefni hafi verið til þeirra ef skilyrði 1. mgr. 246. gr. um að mál hafi verið fellt niður er uppfyllt. Það sem mestu varðar er hver niðurstaða þvingunarráðstöfunarinnar er. Þó að hegðun stefnanda hafi getað vakið grunsemdir lögreglu verður ekki fallist á að hann hafi með háttsemi sinni valdið eða stuðlað að umræddum aðgerðum með þeim hætti að fella eigi alfarið niður bætur, sbr. til hliðsjónar Hrd. 191/2017, en þar var fallist á bætur þó að fíkniefnahundur hefði gefið til kynna að viðkomandi kynni að hafa haft í fórum sínum fíkniefni. Þá liggur a.m.k. ekki fyrir hvað það var sem stefnandi gleypti, enda voru ekki gerðar neinar ráðstafanir af hálfu lögreglu til þess að finna út úr því. Loks nægir skyndileg stefnubreyting stefnanda þegar hann nálgaðist lögreglumennina og hundana sem þeir voru með ekki til þess að fella alfarið niður bætur, þó fallist sé á að hún komi til lækkunar á þeim. 

Við skýrslutöku fyrir dómi staðfestu þrír lögreglumenn að stefnandi hefði orðið við beiðni lögreglunnar um að eyða úr farsíma sínum myndum, sem hann tók af þeim við störf. Gegn skýrum framburði þeirra verður að líta svo á að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann hafi sætt  sérstökum þvingunarráðstöfunum  vegna þessa auk þess sem fyrirmæli lögreglu voru fyllilega eðlileg að þessu leyti og studdust við málefnaleg rök.  

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verða bætur til stefnanda ákveðnar 75.000 krónur, sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 2. febrúar 2018, sbr. 1. mgr. 230. gr., sbr. 228. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og eru því ekki efni til að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmans hans 1.000.000 króna.

Af hálfu stefnanda flutti máli Oddgeir Einarsson lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður.

Helgi Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 75.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. desember 2017 til greiðsludags.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                            Helgi Sigurðsson (sign.)