• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2018 í máli nr. S-319/2018:

Ákæruvaldið

(Tanja Ýr Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Söndru Takacs Baldursdóttur

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. maí 2018, á hendur  Söndru Takacs Baldursdóttur, kt. 000000-0000, Blöndubakka 12, 109 Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot með því að hafa:

 

I

Föstudaginn 8. september 2017 í Kópavogi ekið bifreiðinni [---] svipt ökuréttindum og óhæf að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og vegna slævandi efna (í þvagsýni fannst amfetamín, morfín og umbrotsefni benzódíazepínsambanda og í blóði mældist nítrazepam 64 ng/ml) suður Dalveg þar til akstur hennar var stöðvaður skömmu síðar.

 

II

Mánudaginn 16. október 2017 í Reykjavík ekið sömu bifreið svipt ökuréttindum og óhæf að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og vegna slævandi efna (í blóði mældist  tetrahýdrókannabínól 5,4 ng/ml, díazepam 280 ng/ml, klónazepam 11 ng/ml, nítrazepam 50 ng/ml, nordíazepam 720 ng/ml, pregabalin 3,5 µg/ml og temazepam 40 ng/ml) eftir Bústaðarvegi uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

III

Fimmtudaginn 1. febrúar 2018 í Reykjavík ekið sömu bifreið svipt ökuréttindum og óhæf að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og vegna slævandi efna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 7,5 ng/ml, morfín 25 ng/ml, nítrazepam 27 ng/ml, nordíazepam 37 ng/ml og díazepam 46 ng/ml) eftir Þjóðhildarstíg uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar. 

 

Teljast brot í öllum liðum varða við 1. sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987 ásamt síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar  og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

Verjandi ákærðu krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærða hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærða er sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök og eru brot hennar rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærða er fædd í mars 1988. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 28. maí 2018, var henni gerð sektarrefsing með dómi vegna umferðarlagabrots, 8. apríl 2016. Þá var hún sakfelld fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og dæmd sektarrefsing með dómi, 6. október 2016. Nú síðast gekkst ákærða undir viðurlagaákvörðun vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og aksturs svipt ökurétti, 10. maí 2017. Sakaferill ákærðu hefur að öðru leyti ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru, einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er ákærða svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 687.864 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                      

 

 

 

D Ó M S O R Ð:

   Ákærða, Sandra Takacs Baldursdóttir, sæti fangelsi í 60 daga.

   Ákærða er svipt ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

   Ákærða greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmenns, 126.480 krónur og 687.864 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir