• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot
  • Vörslur
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. september 2018 í máli nr. S-472/2018:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ásgeiri Þór Nordgulen

(Páll Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. september sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. júní 2018, á hendur Ásgeiri Þór Nordgulen, kt. 000000-0000,      Blikatjörn 3, Reykjanesbæ, með dvalarstað í fangelsinu Litla-Hrauni, Eyrarbakka, fyrir eftirtalin brot:

 

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa:

 

1.      Að kvöldi laugardagsins 26. maí 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 130 ng/ml og kókaín 205 ng/ml) um gatnamót Suðurlandsbrautar og Reykjavegar uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar við Gullteig.

 

2.      Aðfaranótt sunnudagsins 9. júlí 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 765 ng/ml og kókaín 90 ng/ml) vestur Ármúla uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar á móts við Háleitisbraut.

 

3.      Fimmtudaginn 13. júlí 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 25 ng/ml) norður Rauðarárstíg uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar í Bríetartúni.

 

4.      Að morgni föstudagsins 1. desember 2017 í Reykjavík ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist kókaín 150 ng/ml og alprazolam 17 ng/ml) norður Arnarbakka uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar í bifreiðastæði við Jörfabakka.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

 

II.

Fíkniefnalagabrot með því að hafa:

 

  1. Aðfaranótt sunnudagsins 6. ágúst 2017, í bifreiðinni [---], sem stöðvuð var af lögreglu vegna gruns um umferðarlagabrot á gatnamótum Lönguhlíðar og Barmahlíðar í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,24 g af amfetamíni, sem ákærði framvísaði til lögreglu.

 

  1. Að kvöldi sunnudagsins 6. ágúst 2017, haft í vörslum sínum 7,45 g af kókaíni og 0,66 g af marijúana, sem lögregla fann við húsleit í bílskúr að [---] í  Reykjavík.

 

 

Teljast brot þessi varða við 2. gr., sbr. 5.  og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

III.

           

            Fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. júlí 2017, í auðgunarskyni reynt að brjóta sér leið inn um bílskúrshurð að [---]í Kópavogi, með því að rífa út glugga, brjóta bréfalúgu og skemma hurðarkarm en horfið frá áætlun sinni er hann varð var við mannaferðir en lögreglan handtók hann skömmu síðar þar sem hann lá í felum undir bifreið á bifreiðastæðinu.

 

            Telst brot þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

IV.

 

Fyrir tilraun til þjófnaðar og vopnalagabrots, með því að hafa að morgni fimmtudagsins 21. desember 2017, í auðgunarskyni farið inn í bifreiðina [---] sem stóð ólæst í bílakjallara við [---] í Reykjavík, en farið af vettvangi þegar hann varð var við mannaferðir. Jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum vasahníf, sem lögregla fann við handtöku á ákærða.

 

Telst brot þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Jafnframt að framangreind fíkniefni 7,45 g af kókaíni, 0,24 g af amfetamíni og 0,66 g af marijúana, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í október 1996.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. júní 2018, á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2013. Hefur hann hlotið fimm refsidóma fyrir margvísleg brot frá því að hann náði 18. ára aldri. Ákærði var dæmdur í fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, vegna brota gegn umferða-, fíkniefna-, vopna- og hegningarlögum, með dómi 18. desember 2014. Þá var hann dæmdur til að sæta fangelsi í átta mánuði vegna brota gegn umferðar-, fíkniefna-, vopna- og hegningarlögum, með dómi 4. mars 2015. Rauf ákærði skilorð eldri dóms og var skilorðsbundni hluti þess dóms tekinn upp og dæmdur með og var refsingin einnig að hluta til hegningarauki. Ákærði var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn umferðar-, fíkniefna-, vopna- og hegningarlögum, með dómi 11. nóvember 2015. Nú síðast var ákærða gert að sæta fangelsi í átta mánuði fyrir brot gegn hegningar- og umferðarlögum með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 22. desember 2016. Var refsingin að hluta til hegningarauki.

Ákærði hefur játað brot sín greiðlega og er það virt til refsilækkunar. Hins vegar er til þess að líta að ákærði hefur nú í fimmta sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára og innan ítrekunartíma, verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti og í fjórða sinn undir áhrifum áfengis eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Þá verður litið til ítrekaðra auðgunarbrota ákærða, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   

Með hliðsjón af öllu framangreindu og að teknu tilliti til dómvenju sem og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 7,45 g af kókaíni, 0,24 g af amfetamíni og 0,66 g af marijúana, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 506.131 krónu í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Ásgeir Þór Nordgulen, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 7,45 g af kókaíni, 0,24 g af amfetamíni og 0,66 g af marijúana.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur og 506.131 krónu í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir