• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2019 í máli nr. S-289/2019:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Pétri Leó Hrannarssyni

(Steinbergur Finnbogason lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí 2019, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. mars 2019 á hendur:

 

            „Pétri Leó Hrannarssyni, kt. [...],

            [...],

 

fyrir líkamsárás með því að hafa, [...] 2017, í [...] í Reykjavík, við gatnamót að [...], ráðist á A, kt. [...], með því að kýla hann einu hnefahöggi í andlit með þeim afleiðingum að A hlaut brot í kinnbeini og þverbrot í kjálkaboga vinstra megin.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

A, kt. [...], gerir kröfu um að ákærða verði gert að greiða sér kr. 3.000.000 í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá [...] 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Til þrautarvara að fjárhæð hennar verði lækkuð verulega.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Ákærði er fæddur í [...] hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverðan verknað.

            Við ákvörðun refsingar er litið til greiðrar játningar ákærða. Þá er litið til þess að ákærði er ungur að árum en atvik áttu sér stað fyrir nær tveimur árum síðan. Til þyngingar horfir að ráðið verður af gögnum að um tilefnislausa árás hafi verið að  ræða. Hlaut ákærði talsverða áverka af atlögunni þó afleiðingarnar hafi ekki orðið alvarlegar.

            Kæra vegna líkamsárásarinnar var lögð fram [...] 2017. Hafði lögregla þá fengið upptökur úr eftirlitsmyndavélum og tekið skýrslu af ákærða, en læknisvottorð barst [...] 2017. Verður ekki betur séð en að rannsókn hafi síðan legið niður í rúmt ár en þá voru teknar skýrslur af vitnum. Ákæra í málinu, sem er hvorki umfangsmikið né flókið, var ekki gefin út fyrr en 26. mars 2019. Verður ákærða ekki kennt um þennan drátt sem á einkum rætur að rekja til anna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið svo og 1. og 4.-6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákærða gert að sæta fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnu einu ári frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Ákærði er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar. Bótakrafan telst nægilega reifuð. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi hans á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun bóta er litið til þeirra afleiðinga sem fá stoð í gögnum málsins. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Krafa um miskabætur ber almenna vexti eins og í dómsorði greinir. Þá eru dráttarvextir á lagðir mánuði eftir birtingu bótakröfunnar sem var við þingfestingu málsins. Auk þess greiði ákærði málskostnað vegna meðferðar kröfunnar eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða Steinbergs Finnbogasonar og þóknun Ómars R. Valdimarssonar lögmanns vegna vinnu hans sem tilnefndur verjandi ákærða á rannsóknarstigi, og annan sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti sækjanda eins og nánar greinir í dómsorði. Tekið er tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar allra lögmanna.

 

                        Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, Pétur Leó Hrannarsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnu einu ári frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði A 300.000 krónur í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá [...] 2017 til 30. maí 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði brotaþola 180.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda ákærða Steinbergs Finnbogasonar 147.560 krónur og þóknun Ómars R. Valdimarssonar lögmanns 130.200 krónur svo og 39.510 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)