• Lykilorð:
  • Gjafsókn
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Tímabundin örorka
  • Vátrygging
  • Vinnuslys
  • Örorka
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur  12. nóvember í máli nr. E-2169/2017:

Íris Ósk Guðjónsdóttir

(Steinbergur Finnbogason lögmaður)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

 

 

Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu þann 27. júní 2017. Stefnandi er Íris Ósk Guðjónsdóttir, Birkilundi, Mosfellsbæ og stefndi Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24 Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu að fjárhæð 21.721.912 krónur- með  4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu að fjárhæð 14.354.242 krónum með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.

 

I.

Málsatvik

            Stefnandi starfaði sem tanntæknir hjá Prófíl tannréttingum slf. frá 15. ágúst 2014. Stefnandi slasaðist í vinnuslysi þann 5. september sama ár. Slysið varð með þeim hætti að skápur í vinnurými á tannréttingastofunni féll í heilu lagi niður af veggnum á stefnanda. Lögregla og sjúkrabíll voru kvödd á vettvang, auk þess sem haft var samband við Vinnueftirlitið, sem sá ekki ástæðu til að koma á vettvang. Stefnandi var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild Landspítalans. Samkvæmt læknisvottorði var stefnandi með skurð á höfði, vægan heilahristing, hálstognun og áverka á öxl. Í vottorðinu segir að stefnandi ætti að ná sér að fullu af þessum áverkum á skömmum tíma. Stefnandi leitaði til Heilsugæslunnar í Salahverfi þann 11. nóvember vegna versnandi verkja í hálsi og herðum. Saumar voru síðan teknir úr höfði stefnanda þann 15. september 2014. Stefnandi fór aftur til vinnu þann 22. september 2014 en hætti endanlega störfum vegna viðvarandi verkja þann 25. febrúar 2015. Í læknisvottorði heimilislæknis dagsettu 20. janúar 2016, kemur fram að stefnandi hafi verið með viðvarandi höfuðverk og verki í hálsi og herðum og vinstri öxl frá því að slysið varð. Jafnframt segir í vottorðinu að hún hafi verið óvinnufær utan heimilis og átt bágt með að sinna léttum störfum heima við þrátt fyrir meðferð hjá læknum og sjúkraþjálfurum, m.a. hjá VIRK og á Reykjalundi. Þá hafi hún glímt við kvíða- og áfallastreituröskum og leitað sér aðstoðar á Kvíðamiðstöðinni vegna þess.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                    

Stefnandi sendi bréf til stefnda þann 24. mars 2015 með beiðni um að tekin yrði afstaða til bótaskyldu, annars vegar samkvæmt lögboðinni slysatryggingu launþega og hins vegar til skaðabótakröfu á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins úr frjálsri ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Stefndi samþykkti þann 31. mars 2015 að slysið væri bótaskylt úr slysatryggingu launþega. Varðandi bótaskyldu úr frjálsu ábyrgðartryggingunni óskaði stefndi eftir frekari rökstuðningi og sendi stefnandi slíka kröfu með bréfi, dagsettu 9. júní 2015. Stefndi hafnaði því með bréfi þann 12. febrúar 2016 að slysið mætti rekja til atvika sem vátryggingartaki bæri skaðabótaábyrgð á samkvæmt lögum. Skáparnir hefðu verið keyptir í IKEA og settir upp af smið í lok nóvember 2012. Samkvæmt upplýsingum söluaðila hafi mátt hengja skápinn upp á einfalda gifsplötu með viðeigandi festingum. Skápurinn hafi ekki verið gefinn upp fyrir ákveðið burðarþol, en samkvæmt upplýsingum stefnda voru tannréttingatyllur og plastmódel með sýnishornum af spöngum um 10 kg, í skápnum þegar slysið varð.

Þann 22. apríl 2016 lagði stefnandi inn matsbeiðni og voru dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins þann 27. maí 2016. Samkvæmt matsgerð dagsettri 21. nóvember 2016 var tímabundið atvinnutjón frá 5. september 2014 til 21. september 2014 og aftur frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 og svo frá 25. febrúar 2015 til 5. september 2015. Þjáningatímabil var metið það sama. Varanlegur miski var metinn 15 stig og varanleg örorka 25%. Stefndi greiddi stefnanda 2.665.498 krónur fyrir metinn miska þann 21. júní 2017.

Ágreiningur stefnanda og stefnda varðar hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna umrædds vinnuslyss og hver fjárhæð bótanna skuli vera.

Við aðalmeðferð gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dómi, en auk þess gáfu skýrslu sem vitni Gyða Ólafsdóttir og Kristján E. Yngvason. Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnanda að hann hafi boðað Berglindi Jóhannsdóttur til að gefa skýrslu með stefnuvotti föstudaginn 12. október sl. en hún sé ekki mætt. Lögmaður stefnda gerði athugasemdir við þetta og vísaði til þess að Berglind hafi stöðu aðila og sé ekki skylt að mæta fyrir dóm til að gefa skýrslu. Í annan stað liggi ekkert fyrir um að boðunin hafi verið með lögmætum fyrirvara og í þriðja lagi liggi ekki fyrir í málinu staðfesting þess að boðunin hafi verið birt Berglindi.

 

II.

Helstu málsástæður stefnanda

          Stefnandi krefst þess að greiddar verði skaðabætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu Prófíls tannréttinga slf. hjá stefnda. Kröfunni er beint að stefnda á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Prófill tannréttingar slf. sé skaðabótaskylt á grundvelli reglna sakabótaréttar og stefndi þá með sama hætti samkvæmt vátryggingasamningi stefnda við tannréttingastofuna. Auk þess hafi báðir þessir aðilar óskað eftir því að kröfunni yrði beint að stefnda.  

Stefnandi byggir á því að samkvæmt sakarreglunni beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún varð fyrir með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé reglum um sennilega afleiðingu og orsakasamhengi fullnægt, samanber t.d. viðurkenningu stefnda og Prófíls á skaðabótaskyldu á grundvelli slysatryggingar launþega.

Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til þess að aðbúnaði á vinnustaðnum hafi verið ábótavant, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vinnuveitandi stefnanda hafi brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja stefnanda fyllsta öryggi og góðan aðbúnað á vinnustaðnum, sbr. 37. gr. sömu laga. Í því sambandi skuli fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlitsins og yfirvaldsboðum, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980.

Stefnandi byggir á því að vinnuveitandi hans hafi brugðist þeirri skyldu að tryggja að hinn stóri og þungi veggskápur væri nægilega vel festur á vegginn. Þá er einnig byggt á því að að fyrirtækið hafi brugðist skyldu sinni samkvæmt 1. tölul. 3. gr. reglna nr. 58/1995 um að innrétta vinnuhúsnæðið þannig að hægt væri að nota það á öruggan hátt. Veggskápurinn hafi augljóslega ekki verið festur með nægilega tryggum hætti á vegginn og með því hafi öryggi stefnanda verið teflt í hættu. Stefndi beri fulla ábyrgð á allri uppsetningu skápsins, en ljóst sé að festingum veggskápsins hafi verið verulega ábótavant og notkunin  ekki í samræmi við hönnun þeirra. Þá sé umræddur skápur hvorki gerður fyrir vinnustaði né gert ráð fyrir að slíkir skápar séu festir saman. Húsgögn og búnaður á tannlæknastofum sé sérhæfður m.a. út frá álagi og notkun. Samkvæmt upplýsingum stefnda og myndum úr lögregluskýrslu hafi hin samsetta skápaeining öll verið fest upp á einfaldan gifsvegg með níu tiltölulega litlum skrúfum. Engin þverbiti hafi verið undir skápnum eða aðrar slíkar festingar.

Stefnandi krefst þess að greiddar verði skaðabætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyssins. Vátryggingartaki sé skaðabótaskyldur á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð. Þá styðjist krafan einnig við regluna um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað sem og það að þess hafi ekki verið gætt að tryggja öryggi og starfsumhverfi tjónþola eins og kveðið sé á um í lögum.

Stefnandi telur að beita eigi sakarreglunni með strangara sakarmati en ella vegna eðlis vinnusambandsins. Þær vinnuaðstæður sem stefnanda hafi verið boðið  upp á, hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til öruggs vinnuumhverfis, sem sé ein af skyldum vinnuveitanda. Tiltölulega auðvelt hefði verið að gera sér grein fyrir hættunni og gera viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð.

Stefnandi vísar einnig til 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009. Samkvæmt ákvæðinu eigi starfsmaður sem verður fyrir líkamstjóni í starfi í öllum tilvikum rétt á að tjónið verði bætt. Um sé að ræða hlutlæga ábyrgðarreglu eða ákvæði sem kveði á um stranga sakarábyrgð og sönnunarbyrði vinnuveitanda, og verulegar takmarkanir varðandi eigin sök tjónþola. Stefnandi vísar einnig til skilgreiningar á gáleysi sem fram komi í greinargerð með lögum nr. 124/2009 um stöðu starfsmanns er verði fyrir líkamstjóni í starfi, sbr. 2. kafla  greinargerðar með lögunum. Þetta sér ströng regla um ábyrgð vinnuveitanda í vinnuslysamálum þar sem það hafi raunverulega þýðingu að vinnuveitandi sé ábyrgðartryggður hjá tryggingafélagi fyrir því fjártjóni sem hann beri ábyrgð á.

Þá vill stefnandi einnig benda á að reglur um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað nái ekki fyllilega markmiðum sínum ef ekki er jafnframt fallist á bótaábyrgð vinnuveitanda ef út af bregður. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE, sem og í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/2010, þar sem komi fram að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Stefnandi hafi enga ábyrgð borið á upphengingu veggskápsins og hafi gætt eins vel að sér við vinnu sína og eðlilegt og sanngjarnt geti talist.

Stefnandi byggir að auki á því að skaðabótaábyrgð stefnda hvíli á reglunni um húsbóndaábyrgð en samkvæmt henni geti vinnuveitandi talist bera ábyrgð á tjóni sem starfsmanni sjálfum sé ekki um að kenna og ráði húsbóndavald vinnuveitandans og samband þeirra að öðru leyti því að vinnuveitandi beri ábyrgð á slíkum slysum. Þá er á því byggt að húsbóndaábyrgðin taki einnig til þess aðila sem á sínum tíma kom að því að festa umrædda skápaeiningu á gifsvegginn.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna til Vinnueftirlitsins eigi síðar en innan sólarhrings. Slys það sem mál þetta snýst um hafi ekki verið formlega tilkynnt til Vinnueftirlitsins heldur einungis til lögreglu. Fulltrúi Vinnueftirlitsins hafi því aldrei komið á vettvang til að kanna aðstæður á slysstað og rannsaka mögulegar orsakir slyssins. Þar sem slík tilkynningarskylda sé á ábyrgð stefnda krefjist stefnandi þess að stefndi verði látinn bera hallann af mögulegri óvissu um orsakir slyssins.

       Stefnandi byggir á því í aðalkröfu að árslaun hennar skuli metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skbl., þar sem hún hafi alla tíð unnið í hlutastarfi sem tanntæknir viðmiðunarárin 2011, 2012 og 2013. Hafi hún verið í fljótandi hlutastarfi sem tanntæknir hluta þessa tíma, í um 60% til 75% starfshlutfalli. Þá starfaði stefnandi ekki sem tanntæknir hluta viðmiðunartímabilsins.

Telur stefnandi því að aðstæður hjá sér viðmiðunarárin 2011, 2012 og 2013 hafi verið óvenjulegar í skilningi fyrrnefnds ákvæðis. Telur stefnandi bæði meginskilyrði ákvæðisins uppfyllt, þ.e. að aðstæður hennar á viðmiðunarárunum hafi verið óvenjulegar og að þær aðstæður hafi leitt til þess að árslaun sem meginregla 1. mgr. 7. gr. skbl. miði við séu ekki rétti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hennar, heldur sé annar mælikvarði réttari. Í þessu sambandi byggir stefnandi á meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur fyrir raunverulegt tjón. Þessu til fyllingar og stuðnings er einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skbl. Auk þess verði tekið tillit til tekna hennar árið 2013 hjá Verki og efni ehf.

Miðist aðalkrafa stefnanda við bætur m.v. full laun tanntæknis í 100% starfi. Eins og áður hafi komið fram fékk stefnandi greidd laun í veikindaforföllum frá og með september 2014 til og með mars 2015, þegar þeim greiðslum lauk. Greiðslur á þessum tíma hafi numið launum tanntæknis í 100% starfi. Árslaunaviðmið aðalkröfu fáist með því að leggja saman laun stefnanda þessa sjö mánuði og finna meðaltal þeirra ásamt því að uppreikna launin til stöðugleikapunkts að viðbættu 8% álagi á árslaunaviðmið vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Árslaun miðist því við 4.538.803 kr. Uppreiknuð til stöðugleikapunkts nemi þau 5.572.496 kr. og með 8% álagi nemi árslaunaviðmiðið 6.018.295 kr.

Nánar tiltekið sundurliðar stefnandi aðalkröfu sína tölulega með eftirfarandi hætti:

1.         Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, eða tímabundin örorka skv. 2. gr. skaðabótalaga, eru metnar fyrir þrjú mismunandi tímabil. Í fyrsta lagi frá 5. september 2014 til 21. september 2014 eða 15 daga. Í öðru lagi frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 eða 46 daga. Í þriðja lagi fyrir tímabilið frá 25. febrúar 2015 til stöðugleikapunkts, 5. september 2015, eða 195 daga. Samtals sé því um að ræða 256 daga á tímabilinu frá því að slysið átti sér stað og fram að stöðugleikapunkti, þ.e. á einu ári. Tímabundin örorka reiknist því: 256/365 sem er margfaldað með árslaunaviðmiðun með 8% álagi, þ.e. 6.018.295 kr., þ.e. 4.221.050 kr.

2.         Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. reiknist til stöðugleikapunkts þann 5. september 2015. Alls sé um þrjú tímabil að ræða, þ.e. þau sömu og um ræðir varðandi mat á tímabundnu atvinnutjóni. Samtals sé því um að ræða 256 daga í þjáningabætur, allt án rúmlegu. Þjáningabætur á dag miðist við 1.850 kr. Krafa um þjáningabætur nemi því 473.600 kr.

3.         Varanleg (fjárhagsleg) örorka skv. 5. gr. skbl. Varanleg örorka reiknist 25% miðað við viðmiðunarlaun á sjö mánaða tímabili í veikindaforföllum, sbr. áður, sbr. 2. mgr. 7. gr. skbl. Árslaun miðist því við 4.538.803 kr. og uppfærð til stöðugleikapunkts nemi þau 5.572.496 kr. Viðmiðunarlaun, þ.e. árslaunaviðmiðun með skyldubundnum (8%) lífeyrisréttindum, séu 6.018.295 kr.

Stuðull skv. 6. gr. skbl. er 11,317 stig. Því reiknist fjárhæðin þannig: 6.018.295 x 11,317 x 25% = 17.027.262 kr.       

Dómkrafan (aðalkrafa) sundurliðist því þannig í stuttu máli:

            Tímabundið atvinnutjón:            4.221.050 kr.

            Þjáningabætur:                              473.600 kr.

            Varanleg örorka:                     17.027.262 kr.

            Samtals:                                   21.721.912 kr.

 

Varakrafa stefnanda byggi á árslaunaviðmiði tekna síðustu þriggja almanaksára fyrir slysdag. Eins og í aðalkröfu er byggt á því til fyllingar og stuðnings að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skbl. Auk þess verði tekið tillit til tekna stefnanda árið 2013 hjá Verki og efni ehf. Stefnandi sundurliðar varakröfu sína tölulega með eftirfarandi hætti:

1.         Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, eða tímabundin örorka skv. 2. gr. skbl., eru metnar fyrir þrjú mismunandi tímabil. Í fyrsta lagi frá 5. september 2014 til 21. september 2014 eða 15 daga. Í öðru lagi frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 eða 46 daga. Í þriðja lagi fyrir tímabilið frá 25. febrúar 2015 til stöðugleikapunkts, 5. september 2015, eða 195 daga. Samtals sé því um að ræða 256 daga á tímabilinu frá því að slysið átti sér stað og fram að stöðugleikapunkti, þ.e. á einu ári. Tímabundin örorka reiknist því: 256/365 sem er margfaldað með árslaunaviðmiðun með 8% álagi, þ.e. 3.931.503 kr., þ.e. 2.757.437 kr.

2.         Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. reiknist til stöðugleikapunkts þann 5. september 2015. Alls sé um þrjú tímabil að ræða, þ.e. þau sömu og um ræði varðandi mat á tímabundnu atvinnutjóni. Samtals sé því um að ræða 256 daga í þjáningabætur, allt án rúmlegu. Þjáningabætur á dag miðist við 1.850 kr. Krafa um þjáningabætur nemi því 473.600 kr.

3.         Varanleg (fjárhagsleg) örorka skv. 5. gr. skbl. Varanleg örorka reiknist 25%  miðað við viðmiðunarlaun síðustu þrjú almanaksár fyrir slys eða meðaltal tekjuáranna 2011, 2012 og 2013 uppfært til launavísitölu á stöðugleikapunkti (531 stig). Þau viðmiðunarlaun nemi að meðaltali 3.640.280, þ.e. árslaunaviðmiðun og með skyldubundnum 8% lífeyrisréttindum 3.931.503 krónum.

Stuðull skv. 6. gr. skbl. er 11,317 stig. Því reiknast fjárhæðin þannig: 3.931.503 x 11,317 x 25% = 11.123.205 kr.       

 

Varadómkrafan sundurliðist því þannig í stuttu máli:

            Tímabundið atvinnutjón:            2.757.437 kr.

            Þjáningabætur:                              473.600 kr.

            Varanleg örorka:                     11.123.205 kr.

            Samtals:                                   14.354.242 kr.

 

Gerð er krafa um almenna 4,5% vexti, sbr. 16. gr. skbl., frá tjónsatburði og fram til 29. júlí 2017, en þá er liðinn mánuður frá því að mál þetta er þingfest og því a.m.k. mánuður liðinn frá því að stefnda lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta endanlega tjónsatvik og fjárhæð bóta. Gerð er krafa um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Á þetta við bæði um aðal- og varakröfu stefnanda.

Krafa stefnanda byggir á sakarreglunni og öðrum meginreglum  skaðabótaréttar. Þá er einnig byggt á reglunni um húsbóndaábyrgð ásamt reglunni um aukna ábyrgð vinnuveitanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað. Eins er vísað til reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 sem og ólögfestra reglna skaðabótaréttar.

Þá er vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum ákvæða 6., 8., 9., 13., 14., 16., 21–23., 37., 42., 78. og 79. gr.

Eins er vísað til 1. tölul. 3. gr. reglna nr. 58/1995 um húsnæði vinnustaða.

Þá er einnig vísað til ákvæða laga um nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 44. gr. laganna.

 

III

Helstu málsástæður stefnda

Stefndi vísar til þess að það sé grundvallarregla í íslenskum skaðabótarétti að sá sem verði fyrir tjóni verði að sýna fram á að tjónið verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar hegðunar tjónvalds eða athafnaleysis hans. Þá beri vinnuveitandi ábyrgð á saknæmum og ólögmætum athöfnum starfsmanna sinna, sem leiða til þess að tjónþoli verður fyrir tjóni. Stefndi mótmælir því að beita eigi strangara sakarmati en almennt gerist í þessu dómsmáli. Hvorki öfug sönnunarbyrði né hlutlæg ábyrgð eigi við, heldur komi eingöngu almenna skaðabótareglan, sakarreglan, til álita.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á og sannað að vinnuslysið sem stefnandi varð fyrir 5. september 2014 verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar hegðunar vinnuveitanda stefnanda (vátryggingartaka), eða starfsmanna sem vátryggingartaki beri ábyrgð á. Tjón stefnanda verði ekki rakið til vanbúnaðar vinnusvæðisins, mistaka starfsmanna vátryggingartaka, aðgæsluleysis af þeirra hálfu eða annarra atriða sem  vátryggingartaki kunni að bera skaðabótaábyrgð á.

Eins og fram komi í stefnu hóf stefnandi störf hjá Prófíl 15. ágúst 2014  og hafði því starfað hjá fyrirtækinu tæpan mánuð þegar slysið varð.

            Stefndi vísar til þess að samkvæmt lögregluskýrslu hafði lögreglan samband við Vinnueftirlitið og gerði starfsmanni þess grein fyrir óhappinu en hann sá ekki ástæðu til að koma á vettvang. Tilkynningarskyldu til Vinnueftirlitsins samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafi þar með verið fullnægt. Hvorki vátryggingartaki né stefndi geti borið ábyrgð á því að Vinnueftirlitið ákveði að sinna ekki útkalli.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað. Í 14. gr. laganna er fjallað um upplýsingaskyldu atvinnurekanda gagnvart starfsmönnum. IV. kafli laganna fjallar um vinnustaði og kemur sú meginregla fram í 42. gr. að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé fyllsta öryggis gætt og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Stefndi heldur því fram að vátryggingartakinn hafi í hvívetna fylgt lögum og reglum og tryggt öryggi á vinnustaðnum eftir því sem hægt var og aðstæður leyfðu. Hafi þar engu verið áfátt. Starfsemi vátryggingartaka sé tannréttingastofa og þar sé hreinlæti og framúrskarandi umgengni höfð að leiðarljósi. Á engan hátt hafi verið sýnt fram á að starfsumhverfið hafi ekki verið til fyrirmyndar.

Stefndi byggir á því að starfsmaður vátryggingartaka hafi keypt umræddar skápaeiningar hjá IKEA þann 26. nóvember 2012. Fenginn hafi verið fagmaður, Kristján Yngvason smiður, til þess að festa skápinn á vegginn. Smiðurinn hafi unnið verkið sem sjálfstæður verktaki og beri hvorki vátryggingartaki né stefndi húsbóndaábyrgð á verkum hans. Skápurinn hafi verið festur á einfaldan gifsvegg og samkvæmt svörum starfsmanns IKEA megi hengja þessa skápa upp á einfaldan gifsvegg. Til þess að festa skápinn á gifsvegginn hafi smiðurinn notað sérstakar festingar sem voru festar með skrúfum, fimm festingar voru að ofan og fjórar að neðan. Starfsmenn vátryggingartaka hafi hvorki keypt festingarnar né skrúfurnar. Af myndum megi sjá að skrúfurnar hafi gengið vel inn í gifsvegginn. Ákvörðun um hvernig standa skyldi að uppsetningu skápsins hafi verið tekin af verktakanum, smiðnum, sem sá um uppsetninguna. Í skápnum hafi aðeins verið geymdar tannréttingatyllur og plastmódel með sýnishornum af spöngum, u.þ.b. 10 kg. Skápurinn hafi því alls ekki verið ofhlaðinn eða í honum meiri þungi en hann hafi átt að bera. Skápurinn hafi verið settur upp í nóvember 2012 og hafði verið fastur við vegginn í tæp tvö ár áður en slysið varð. Enginn starfsmaður vátryggingataka, hvorki stefnandi né aðrir, hafi tekið eftir því að skápurinn væri laus. Hefði svo verið hefði verið gripið til viðeigandi ráðstafana. Vátryggingartaki hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að skápurinn væri tryggilega fastur við vegginn. Vátryggingartaki hafi ekki getað brugðist við hættu sem enginn gerði sér grein fyrir að kynni að vera til staðar eða yfirvofandi.

Stefndi vísar til þess að þar sem slys stefnanda verði ekki rakið til atriða sem vátryggingartaki beri ábyrgð á að lögum og þar sem tjónið verði ekki rakið til saknæmrar hegðunar hans eða starfsmanna hans taki ábyrgðartrygging sú sem vátryggingartaki hefur hjá stefnda ekki til tjónsins. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í dómsmáli þessu.

Stefndi gerir verulegar athugasemdir við framsetningu og útreikning bótafjárhæða. Í aðalkröfu sé árslaunaviðmið til grundvallar tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku sagt byggt á launum á sjö mánaða tímabili í veikindaforföllum á árunum 2014 og 2015. Þá segi að til fyllingar og stuðnings sé einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur. Auk þess vilji stefnandi að tekið verði tillit til tekna hennar hjá Verki og efni ehf. á árinu 2013. Engin gögn, skattframtöl, staðgreiðsluyfirlit eða launaseðlar hafi fylgt með stefnu málsins þannig að stefnda sé ómögulegt að staðreyna þær kröfur sem settar eru fram varðandi tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Dómkröfurnar séu því ekki dómtækar og standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. t.d. d- og g-lið greinarinnar.

Stefndi vísar til þess að stefnandi geri kröfu til þess í aðalkröfu að tjón hennar fyrir varanlega örorku verði gert upp á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ennfremur að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón verði reiknaðar á grundvelli þess árslaunaviðmiðs sem leiði af 2. mgr. 7. gr. skbl. Meginregla skaðabótalaganna hvað varði bætur fyrir varanlega örorku komi fram í 1. mgr. 7. gr. laganna en þar sé kveðið á um að árslaun til ákvörðunar bóta skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Kröfur sínar byggi stefnandi á 2. mgr. 7. gr. skbl. þar sem kveðið er á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi þurfi að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá henni síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hennar. Hvort tveggja skilyrðið verði að vera uppfyllt. Stefnandi kaus að vera í hlutastarfi þrjú síðustu árin fyrir slys og verði sú ákvörðun hennar með engu móti heimfærð undir óvenjulegar aðstæður. Óvenjulegar aðstæður séu breytingar sem verði á högum tjónþola sem áður hafi haft tekjur eða störf sem réttara væri að taka mið af. Með vísan til framanritaðs beri að hafna aðalkröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón og um bætur fyrir varanlega örorku.

Varakrafa stefnanda varðandi tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku er sögð byggjast á árslaunaviðmiði miðað við tekjur þriggja síðustu almanaksára fyrir slysdag.  Þá er sagt að til fyllingar og stuðnings sé einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur. Auk þess vilji stefnandi að tekið verði tillit til tekna hennar hjá Verki og efni ehf. á árinu 2013. Eins og í aðalkröfu liggi engin gögn fyrir sem geri stefnda mögulegt að staðreyna kröfurnar. Dómkröfurnar séu því ekki dómtækar og standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. t.d. d- og g-lið greinarinnar.

Með vísan til framanritaðs beri að hafna varakröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón og um bætur fyrir varanlega örorku.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttarins sem og almennra reglna kröfuréttar. Ennfremur er vísað til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða.

IV

Niðurstaða

I

Í íslenskum rétti er það talin almenn regla að vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á tjóni af völdum sjálfstæðs verktaka eða annars framkvæmdaaðila. Í settum lögum kann þó að vera vikið frá þessari reglu og eins eru dæmi um undantekningar þó að settri lagaheimild sé ekki til að dreifa þegar sérstaklega stendur á. Þótt vinnuveitandi fái sjálfstæðan verktaka til að vinna fyrir sig verk sem honum er skylt að vinna eða láta vinna, þá losnar hann ekki undan ábyrgð ef verktakinn vinnur verkið ekki eins og honum ber og af verður tjón, a.m.k. ef um lögbundnar skyldur er að ræða. Samkvæmt lögum nr. 46/1980 ber vinnuveitanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustað.  

Í málinu er óumdeilt að vátryggingartaki fékk, í lok nóvember 2012, Kristján Yngvason trésmið til að setja upp umrædda skápaeiningu á starfsstöð sinni, sem vátryggingataki hafði keypt. Í skýrslutöku fyrir dómi kom fram hjá Kristjáni að það væri föst regla að farið væri yfir það með verkkaupum að gæta beri varúðar þegar notaðir eru veggskápar sem ekki eru með stoðir við borð eða festingar niður í gólf, þar sem þeir þoli ekki mikla þyngd. Í lögregluskýrslu sem gerð var á slysstað kemur fram lýsing á því hvernig festingum á skápnum var háttað. Í skýrslunni er hins vegar hvorki að finna  lýsingu á því hvað hafi verið í skápnum né hversu þungt innihald skápsins var á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 ber atvinnurekendum að tilkynna um alvarleg slys til Vinnueftirlitsins án ástæðulauss dráttar innan sólarhrings frá slysinu og síðan fylgja því eftir með skriflegri tilkynningu innan viku frá því að slysið átti sér stað, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Í lögregluskýrslu er gerð grein fyrir því að haft hafi verið samband við Vinnueftirlitið en það ekki séð ástæðu til þess að koma á vettvang. Þessari beiðni var ekki fylgt eftir skriflega af vátryggingartaka,  þó að stefnandi hefði fengið slæmt höfuðhögg. Vátryggingartaki getur ekki firrt sig ábyrgð á því að fullnægjandi rannsókn hafi ekki farið fram með vísan til þess að það hafi verið hlutverk lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins að rannsaka orsakir slyssins, sbr. t.d. Hrd. nr. 363/2008 og Hrd. 286/609. Vátryggingartaki verður að bera ábyrgð á því að takmörkuð rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi og bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og talin eru óljós. Stefnda hefur ekki tekist að sanna að hvorki hann né starfsmenn hans eigi sök á því að umrædd skápaeining féll af veggnum. Ljóst er að festingar skápsins voru ekki nægjanlega öruggar miðað við notkun skápsins á starfsstöð vátryggingartaka.  Talsverður tími leið frá uppsetningu skápsins og þar til hann féll af veggnum, eða tæp tvö ár, sem bendir til þess að röng notkun skápsins hafi haft áhrif á það að hann féll niður.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður því fallist á það með stefnanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir, enda er ekki ágreiningur um að kröfunni sé beint að stefnda á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga.

 

II.

            Að því er varðar þá málsástæðu stefnda að kröfur stefnanda standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og séu því ekki dómtækar, þá  var rekið sérstakt matsmál nr. M-65/2016 áður en mál þetta var þingfest. Stefndi var aðili að því matsmáli. Matsgerð vegna matsmálsins lá fyrir 21. nóvember 2016 og var lögð fram við þingfestingu málsins. Í matsgerðinni kemur fram að meðal þeirra gagna sem fylgdu matsbeiðninni hafi verið skattframtöl og staðgreiðsluyfirlit. Í matsgerðinni koma auk þess fram launagreiðslur frá einstökum launagreiðendum til stefnanda fyrir tekjuárin 2011 til 2015. Undir rekstri málsins hafa síðan umrædd gögn verið lögð fram, að öðru leyti en láðst hefur að leggja fram skattskýrslu fyrir tekjuárið 2011.  Stefndi krafðist ekki frávísunar vegna þessa máls og hafði í tengslum við matsmálið og fyrirliggjandi matsgerð öll þau gögn sem máli skiptu fyrir hann til þess að geta tekið til varna. Málsástæðu hans um að kröfur stefnanda séu ekki dómtækar er því hafnað.

            Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag. Þær fjárhæðir skulu síðan framreiknaðar til samræmis við breytingar á launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar tjónþola verður stöðugt. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. sömu laga skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í athugasemdum sem fylgdu 6. gr. frumvarps til laga nr. 37/1999, sem breytti 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, kemur fram að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys hafi orðið eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Sem dæmi um slíkt sé þegar tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunar­launin miðað við nýjar aðstæður.  Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum 2. mgr. 7. gr. sé fullnægt.

            Í málinu liggur fyrir að stefnandi útskrifaðist sem tanntæknir árið 2001 og starfaði við slík störf á árunum 2001 – 2012. Í skýrslutöku fyrir dómi og í gögnum málsins  kemur fram að stefnda hafi lokið skrifstofunámi á árinu 2013 og síðan starfað á leikskóla, sem var nálægt heimili hennar, í eitt ár. Eiginmaður hennar var upptekinn á þessum tíma við að byggja upp fyrirtæki og hún hafi viljað vera nær dætrum þeirra sem fæddar eru á árinu 2004 og 2009. Á skattskýrslu fyrir árið 2013 kemur fram að stefnandi hafi þegið atvinnuleysisbætur á því ári. Stefnandi hóf síðan aftur störf sem tanntæknir og nú hjá vátryggingartaka stefnda rétt um fjórum vikum áður en slysið varð. Hún var upphaflega í 70% starfi en hafði hug á að auka það hlutfall eftir því sem dætur hennar yrðu eldri. Fallast verður á það með stefnanda að aðstæður hennar síðustu þrjú árin fyrir slysið hafi verið óvenjulegar, en aukin viðvera stefnanda hjá ungum börnum, tímabundið atvinnuleysi, endurmenntun og ákvörðun stefnanda um að hefja störf sem tanntæknir að nýju, sem hún hafði aflað sér menntunar til að starfa við, varða öll aðstæður sem teljast réttlæta beitingu 2. mgr. 7. gr. Verður því að leggja til grundvallar að sanngjarnt og eðlilegt sé að miða bætur stefnanda við laun hennar vegna þess starfs sem hún gegndi á slysdegi. Stefnandi starfaði þá sem tanntæknir hjá vátryggingartaka stefnda. Stefnandi var almennt  heilsuhraust fyrir slysið og ekkert sem benti til annars en að hún hefði haft fulla atvinnuþátttöku út starfsævina.  

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Sá sem gegnir hlutastarfi utan heimilis, telst verða fyrir fjártjóni vegna skerðingar á starfsgetu sinni á heimilinu. Ákvæði laganna skera ekki úr um það við hvaða launatekjur eigi að miða, en í dómaframkvæmd er miðað við að um sé að ræða kröfur sem séu sanngjarnar og hóflegar. Stefnandi hafði lokið menntun og átti að baki áratuga starfsreynslu sem tanntæknir. Hún hafði jafnframt lokið skrifstofunámi hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum og starfaði að einhverju leyti hjá fyrirtæki eiginmanns síns, m.a. á árunum 2013 og 2014. Þykir ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að miða við sömu laun vegna heimilisstarfanna og starfs stefnanda hjá vátryggingartaka, sem er eitt þeirra sjónarmiða sem miðað hefur verið við í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. Hrd. 451/2000. Er þá einkum vísað til þess að launin eru ekki úr hófi og stefnandi var í aðstöðu til þess auka tekjur sínar með því að geta auðveldlega útvegað sér íhlaupavinnu hjá fyrirtæki eiginmanns síns auk þess sem ætla má að svigrúm hennar til hærra starfshlutfalls, og þar með hærri tekna, myndi fljótlega aukast eftir því sem dætur hennar yrðu eldri.

 

 

III

            Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á aðalkröfu stefnanda um að skaðabætur til stefnanda skuli miðast við laun tanntæknis hjá vátryggingartaka í fullu starfi. Jafnframt er fallist á að árslaunaviðmið aðalkröfu fáist með því að leggja saman laun stefnanda þá sjö mánuði sem vátryggingartaki greiddi stefnanda í veikindaforföllum á tímabilinu frá og með september 2014 til og með mars 2015. Samkvæmt staðgreiðsluskrá sem liggur fyrir í gögnum málsins námu þessar fjárhæðir á þessum sjö mánuðum 2.647.635 krónum. Meðallaun þessa 7 mánuði námu því 378.234 krónum og heildarárslaun eru þá 4.538.803 sem er sama fjárhæð og kemur fram í sundurliðun aðalkröfunnar í stefnu. Í stefnu er þessi fjárhæð síðan uppreiknuð frá því að slysið á sér stað til stöðugleikapunkts og vísað til þess að uppreiknuð nemi hún 5.572.496 krónum. Hvorki er að finna neinar skýringar á því í stefnu við hvaða stig launavísitölu er miðað í þessum útreikningum, né hvers vegna það stig launavísitölunnar er notað.  

Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er kveðið á um að árslaun að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs skuli leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Launavísitalan er 531 stig í september 2015 þegar stöðugleikapunkti er náð. Launin eru verðbætt með því að deila meðaltalslaunavísitölu þess launaárs við laun það árið, sem síðan er margfaldað með launavísitölu við stöðugleikapunkt. Ef tekið er mið af uppreiknaðri fjárhæð í stefnu er sú launavísitala sem deilt er með 432 stig. Þau heildarárslaun sem miðað er við í stefnu 4.538.803 krónur, eru miðuð við tímabilið frá september 2014 til september 2015. Meðaltal launavísitölu á því tímabili er ekki 432 stig heldur 504,03 stig. Með því að deila með þeirri launavísitölu og margfalda með launavísitölu við stöðugleikapunkt er fjárhæðin 4.781.637 krónur. Þegar tekið hefur verið tillit til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð nemur fjárhæðin 5.164.168 krónum.

Í 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er fjallað um tímabundið atvinutjón, en samkvæmt ákvæðinu skulu bætur stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón greiðast frá tjónsdegi og þar til stöðugleikapunkti er náð. Þar sem stefnandi gerði þrjár tilraunir til að snúa aftur til vinnu, miðast bætur fyrir tímabundna örorku við þrjú tímabil. Í stefnu er miðað við að heildardagafjöldi þessara þriggja tímabila sé 256 dagar. Þar er  vísað til þess að þriðja tímabilið frá 25 febrúar 2015 til stöðugleikapunkts 5. september 2015 sé samtals 195 dagar. Það er fjórum dögum ofaukið og miðast því heildardagafjöldinn við 252 daga. Bætur fyrir tímabundna örorku miðaðst því við tekjuviðmið 5.164.168 krónur sem margfaldað er með dagafjölda 252/365 eða samtals 3.565.398 krónur.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal greiða stefnanda þjáningabætur frá tjónsdegi og fram að stöðugleikapunkti. Í stefnu er miðað við að þjáningabætur án rúmlegu miðist við 1.850 krónur í 256 daga. Þegar dagafjöldinn hefur verið leiðréttur í 252  daga nemur þessi fjárhæð 466.200 krónum sem fallist er á að stefnda beri að greiða stefnanda.

Við útreikning á varanlegri örorku eru fyrirmæli í 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar kemur fram að árslaun skuli margfölduð við aldursstuðull sem er tiltekinn í ákvæðinu og örorkustig. Í stefnu er miðað við aldursstuðulinn 11,317 stig. Í stefnu er ekki að finna neinar skýringar á því hvers vegna er miðað við þennan stuðul, en aldur tjónþola á stöðugleikapunkti er notaður til að finna stuðul samkvæmt þeirri töflu sem sett er fram í 1. mgr. 6. gr. Á þeim degi er stefnandi 37 ára og 168 daga  gömul. Aldursstuðull við 37 ára aldur er samkvæmt töflunni 11,180 og þegar tekið er tillit til þessara 168 daga er stuðullinn 11,092. Því reiknast fjárhæðin þannig 5.164.168 x 11,092 x 25% eða 14.319.759 krónur sem fallist er á að stefnda beri að greiða stefnanda.

Með vísan til ofangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda samtals 18.351.357 krónur. (3.565.398 + 466.200 + 14.319.759 ). Þá er fallist á að krafan beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, en þó þannig að upphafstími vaxta fyrir aðrar kröfur en varanlega örorku er 5. september 2014 eins og krafist er í stefnu, en upphafstími vaxta vegna varanlegrar örorku er 5. september 2015. Þá er fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda frá 29. júlí 2017.

Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem með hliðsjón af atvikum þykir hæfilega ákveðin 2.400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Fjárhæð þessa greiði stefndi í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans 2.400.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steinbergur Finnbogason, lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur Kvaran lögmaður.

Helgi Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, Írisi Ósk Guðjónsdóttur 18.351.357 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af  4.031.598 krónum frá 5. september 2014 til 5. september 2015 en af 18.351.357 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð  samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði 2.400.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steinbergs Finnbogasonar, 2.400.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                            Helgi Sigurðsson (Sign)