• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2018 í máli nr. S-481/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kamil Ciolek

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 26. júní 2018, á hendur Kamil Ciolek, kt. 000000-0000, Grettisgötu 40b,  Reykjavík, fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 9. desember 2017, í verslun Bónus í Kjörgarði, Laugavegi 59, Reykjavík stolið söluvarningi samtals að fjárhæð kr. 2.882,-

 

Telst framangreind háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í mars 1983. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 20. júní 2018, hefur hann margítrekað verið dæmdur fyrir þjófnað. Nú síðast var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í sjö mánuði fyrir þjófnaði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 3. maí 2017.

Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Með vísan til sakaferils ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda dóminn.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Kamil Ciolek, sæti fangelsi í 30 daga.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir