• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Skaðabótamál

 

    

 

 

Ú R S K U R Ð U R

Föstudaginn 28. desember 2018

 

Mál nr.            E-3826/2011:

Stefnandi:       LBI ehf.

                        (Kristinn Bjarnason lögmaður

                        Þórir Júlíusson lögmaður

                        Pétur Örn Sverrisson lögmaður)

 

Stefndu:          Sigurjón Þorvaldur Árnason

                        (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

                        Halldór Jón Kristjánsson

                        (Gunnar Viðar lögmaður)

                        QBE International Insurance Ltd. og

                        QBE Corporate Ltd.

                        (Viðar Lúðvíksson lögmaður

                        Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður)

 

Dómarar:         Skúli Magnússon héraðsdómari, Arnaldur Hjartarson héraðsdómari og         Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. og 5. júlí 2011 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 29. nóvember sl. Stefnandi er LBI ehf., áður Landsbanki Íslands hf., Sóltúni 26, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þorvaldur Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík, Halldór Jón Kristjánsson, með óþekkt lögheimili í Kanada, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., bæði með lögheimili að Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, Bretlandi.

            Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndu Sigurjón og Halldór verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega 5.325.381.476 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst þess að stefndi, QBE International Insurance Ltd., verði dæmdur til að greiða sameiginlega með stefndu Sigurjóni og Halldóri 20.454.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum. Þá krefst stefnandi þess að stefndi, QBE Corporate Ltd., vegna QBE Syndicate 1886, verði dæmdur til að greiða sameiginlega með sömu stefndu 5.644.000 evrur með sömu vöxtum og dráttarvöxtum. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

            Stefndi Halldór krefst sýknu af kröfum stefnanda. Aðrir stefndu krefjast aðallega sýknu en til vara lækkunar. Stefndu krefjast einnig málskostnaðar.

            Stefndu hafa við aðalmeðferð málsins vakið athygli á ýmsum annmörkum á málatilbúnaði stefnanda sem þeir telja, gegn mótmælum stefnanda, að eigi að leiða til sjálfkrafa frávísunar málsins.

            Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en úrskurður var kveðinn upp.

 

Yfirlit yfir efni og meðferð málsins

            Mál þetta höfðaði stefnandi, áður Landsbanki Íslands hf., upphaflega gegn stefndu Sigurjóni og Halldóri ásamt 24 vátryggjendum, þ.á m. stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., sem selt höfðu stefnanda ábyrgðartryggingu vegna krafna sem stofnast kynnu vegna bótaskyldrar háttsemi stjórnenda og starfsmanna bankans í janúar 2008. Í stefnu voru stefndu Sigurjón og Halldór, sem báðir störfuðu sem bankastjórar stefnanda, sameiginlega krafðir um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 11.552.000.000 krónur, auk nánar tiltekinna vaxta og dráttarvaxta, vegna ætlaðs gáleysis þeirra við gerð lánssamnings að fjárhæð 19.000.000.000 króna milli stefnanda og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. sem sagður var dagsettur 30. september 2008 en undirritaður 1. október 2008. Svo sem nánar er gerð grein fyrir síðar hefur stefnandi fallið frá kröfum gegn 22 af 24 af téðum vátryggjendum og einnig lækkað kröfur sínar gagnvart öðrum stefndu undir meðferð málsins.

          Mál þetta var þingfest 29. september 2011 og lauk meðferð þess á reglulegu dómþingi 27. september 2012. Eftir meðferð á reglulegu dómþingi hefur málið að mestu verið rekið rekið samhliða tveimur öðrum málum, þingfestum 29. september 2011 og 8. mars 2012, sem stefnandi hefur höfðað til greiðslu skaðabóta og vátryggingabóta vegna ráðstafana á vegum Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008. Var annað málið, þ.e. mál nr. E-3827/2011 í málaskrá héraðsdóms, höfðað gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og tilteknum fyrrverandi starfsmanns stefnanda. Hitt málið, þ.e. mál nr. E-911/2012, var höfðað gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og fjórum fyrrverandi bankaráðsmönnum auk eins tiltekins fyrrverandi starfsmanns. Í báðum málunum var sömu vátryggjendum einnig stefnt til varnar. Skýrslutökur við aðalmeðferð fóru fram í einu lagi í þágu málanna þriggja samkvæmt samkomulagi aðila.

          Eftir að málið var tekið til efnismeðferðar í héraði hafa verið kveðnir upp ýmsir úrskurðir um gagnaöflun sem að nokkru hafa komið til kasta Hæstaréttar, svo sem nánar er lýst í dómi réttarins 17. október 2017 í máli nr. 628/2017. Með úrskurði héraðsdóms 11. desember 2017, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 16. janúar 2018, var synjað beiðni stefndu QBE International Insurance Ltd. og annarra stefndra vátryggingafélaga um yfirmat eða frekari gagnaöflun. Í sama þinghaldi var fært til bókar að við næstu fyrirtöku málsins væri gert ráð fyrir því að gagnaöflun yrði lýst lokið og aðalmeðferð málsins ákveðin. Í þinghaldi 27. febrúar 2018 lýsti dómari gagnaöflun lokið, en þá höfðu allir aðilar aðrir en hin stefndu vátryggingafélög lýst gagnaöflun lokið fyrir sitt leyti. Í þinghaldi 2. maí sl. var ákveðinn dagur fyrir upphaf aðalmeðferðar sem hófst með skýrslutökum fyrir dómi 29. október sl. í samræmi við það sem áður hafði verið ákveðið.

            Við fyrirtöku málsins, eftir upphaf aðalmeðferðar þess, 12. nóvember sl. féll stefnandi frá kröfum gegn 22 af 24 stefndum vátryggjendum með samþykki hlutaðeigandi stefndu. Jafnframt lagði stefnandi fram bókun um lækkun dómkrafna gegn stefndu Sigurjóni, Halldóri og Jóni Þorsteini um 4.174.618.524 krónur en kröfur gegn þeim stefndu vátryggjendum sem eftir stóðu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd., voru óbreyttar. Í þinghaldi degi síðar lögðu stefndu QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd. fram bókun þar sem fullyrt var að niðurfelling og lækkun krafna stefnanda gagnvart öðrum vátryggjendum hefði byggst á samkomulagi, sem ekki hefði verið lagt fram, og væri ekkert vitað um efni þess. Voru meðal annars færð að því rök að af þessum sökum væri málatilbúnaður stefnanda svo óskýr og vanreifaður að vísa bæri málinu frá án kröfu með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennra reglna réttarfars. Aðrir stefndu skoruðu á stefnanda að leggja fram umrætt samkomulag og áskildu sér rétt til að halda fram nýjum og breyttum málsástæðum í ljósi breyttrar stöðu málsins.

            Í þinghaldi 16. nóvember sl. gaf skýrslu fyrir dómi sem vitni Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og fyrirsvarsmaður Pricewaterhouse Coopers ehf. Við skýrslutökuna var Vignir meðal annars spurður um lyktir málshöfðunar stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækinu og hvort því máli hefði lokið með sátt utan réttar þar sem mælt hefði verið fyrir um bótagreiðslur til stefnanda. Er vikið nánar að skýrslu Vignis, svo og skýrslu Ársæls Hafsteinssonar framkvæmdastjóra stefnanda, í niðurstöðum úrskurðarins. Í þinghaldi 21. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun um niðurfellingu nokkurra málsástæðna, meðal annars viðvíkjandi því að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki uppfyllt kröfur um eiginfjárgrunn, að ekki hafi legið fyrir lögmæt ákvörðun bankaráðs um veitingu lánsins til Straums-Burðarás fjárfestingarbanka hf. og að brotnar hafi verið reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Í sama þinghaldi lögðu stefndu, aðrir en vátryggjendur, fram bókun þar sem tekið var undir fyrri bókun vátryggjenda um að vísa bæri málinu frá kröfu vegna þess óskýrleika sem upp væri kominn í framhaldi af samkomulagi stefnanda og 22 vátryggjenda um niðurfellingu krafna gegn þeim síðastnefndu. Í þinghaldinu vakti dómsformaður athygli lögmanna á því að þeim gæfist kostur á að reifa sjónarmið sín um sjálfkrafa frávísun málsins við munnlegan flutning þess.

            Við upphaf munnlegs flutnings málsins 29. nóvember sl. lagði stefnandi fram bókun um endanlegar dómkröfur sínar, þar sem tekið hafði verið tillit til lækkunar samkvæmt bókun stefnanda 12. sama mánaðar. Við munnlegan flutning spurði dómsformaður lögmenn stefnanda að því hvernig lyktir í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP horfðu við málatilbúnaði stefnanda. Af því tilefni var því lýst yfir af hálfu stefnanda að lyktir í því máli hefðu ekki haft nein áhrif á sakarefni málsins. Af hálfu allra stefndu var yfirlýsingu stefnanda mótmælt og vakin athygli á því að samkomulag stefnanda við endurskoðunarfyrirtækin tvö hefði ekki verið lagt fram í málinu. Lægi því ekkert fyrir um hvaða greiðslur stefnandi hefði þegar þegið vegna þess tjóns sem hann teldi sig hafa orðið fyrir vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi stefndu Sigurjóns og Halldórs.

            Í munnlegum málflutningi lögmanns stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Insurance Ltd., var vísað til þess að í öðru þeirra mála, sem rekið hefur verið samhliða máli þessu, þ.e. máli nr. E-3827/2011, hefði stefnandi lækkað kröfur sínar um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulags síns við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Hefði stefnandi þannig í reynd viðurkennt að hafa þegið greiðslur vegna sama tjóns og um ræði í máli þessu án þess þó að fram hefði komið hvaða greiðslur hann hafi þegið í reynd. Væri því uppi sú staða í málinu að alls óljóst væri um endanlegt tjón stefnanda. Af hálfu stefnanda var hins vegar lögð á það áhersla að jafnvel þótt litið yrði svo á að greiðslur vegna lykta umrædds máls hans gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefðu þýðingu fyrir sakarefni málsins hefði stefnandi lækkað kröfur sínar í þeim mæli að slíkar greiðslur hefðu enga þýðingu. Þá var vísað til þess að ekki hefði verið skorað á stefnanda að leggja umrædda sátt fram.

            Áður hefur verið gerð grein fyrir málsástæðum stefndu um sjálfkrafa frávísun málsins sem fram komu við aðalmeðferð málsins og andmælum stefnanda við þeim. Verður vikið nánar að sjónarmiðum aðila um þessi atriði í niðurstöðum dómsins eftir því sem tilefni er til. Með hliðsjón af úrlausn málsins og með vísan til 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, sbr. grunnök e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, eins og töluliðnum var breytt með 10. gr. laga nr. 78/2015, er ekki ástæða til þess að reifa frekar efnishlið málsins, málsástæður og lagarök aðila þar að lútandi eða skýrslutökur við aðalmeðferð málsins.

           

Niðurstaða

            Í þinghaldi 17. desember 2012 lagði stefnandi fram, að áskorun stefndu QBE International Insurance Ltd. og annarra stefndra vátryggjenda, stefnu í máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Ber stefnan með sér að hafa verið þingfest 21. júní 2012 eða stuttu áður en stefnandi höfðaði mál þetta. Í umræddu máli var PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP stefnt til greiðslu 83.170.680.018 króna auk 11.188.670 bandaríkjadala og 64.931.514 evra. Var á því byggt að félögin hefðu bakað stefnanda tjón með athöfnum og athafnaleysi við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum Landsbanka Íslands hf. svo og með ráðgjöf sem þau veittu bankanum varðandi tiltekna þætti í reikningsskilum. Í stefnu málsins var vísað til þess að saknæm og ólögmæt háttsemi endurskoðendanna allt frá árinu 2005 og fram að áritun um könnun á árshlutareikningi bankans um mitt ár 2008 hefði, með samverkandi hætti, leitt til tjóns fyrir stefnanda. Tjónið, sem stefnandi krafðist bóta fyrir í málinu, taldi hann hins vegar einkum mega rekja til tiltekinna ráðstafana sem bankinn greip til eftir að hálfsársuppgjör bankans var áritað af endurskoðendum 28. júlí 2008, en þær hefðu leitt til þess að verulegir fjármunur runnu út úr bankanum. Hafi því orðið mun minna af eignum í búinu til ráðstöfunar til kröfuhafa en ella hefði orðið. Einkum byggði stefnandi á því, varðandi ætlað tjón sitt, að allir fjármunir sem greiddir voru út úr bankanum eftir áritun endurskoðenda 28. júlí 2008 fram til 7. október þess árs, og ekki hefði reynst unnt að endurheimta, teldust til tjóns stefnanda.

            Í umræddri stefnu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur er nánari grein gerð fyrir þeim einstöku ráðstöfunum sem stefnandi taldi hafa valdið sér tjóni. Meðal þessara ráðstafana er greiðsla til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. að fjárhæð 19.000.000.000 krónur sem fram fór 2. október 2008. Er hafið yfir vafa að hér er um að ræða sömu ráðstöfun og stefnandi telur hafa valdið sér tjóni í máli þessu. Í stefnu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum er raunar tekið fram að stefnandi hafi meðal annars höfðað sérstakt mál gegn fyrrverandi bankastjórum Landsbanka Íslands hf. vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir af þessum sökum. Segir enn fremur að niðurstaða í því máli liggi ekki fyrir og því sé alls óvíst hvort nokkuð muni greiðast upp í kröfuna. Liggur þannig einnig fyrir að stefnandi hefur sjálfur vísað til þess máls sem hér er til meðferðar í málatilbúnaði sínum gegn umræddum endurskoðunarfyrirtækjum.

A

Svo sem áður greinir gáfu meðal annars skýrslu við aðalmeðferð málsins Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi og stjórnarmaður í PricewaterhouseCoopers ehf. Í aðilaskýrslu Ársæls kom fram að máli stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP hefði lokið með samkomulagi um niðurfellingu þess. Spurður um hvort stefnandi hefði þegið bætur frá endurskoðunarfyrirtækjunum á grundvelli samkomulagsins kvað Ársæll sér óheimilt að upplýsa um efni þess sem bundið væri trúnaði. Við skýrslutöku af Vigni Rafni Gíslasyni var hann spurður um lyktir máls stefnanda gegn fyrrgreindum félögum og þá sérstaklega hvort stefnandi hefði fengið greiddar bætur á grundvelli samkomulags um niðurfellingu málsins. Vignir Rafn vísaði til þess að hér væri um að ræða trúnaðarmál milli einkaaðila. Um hafi verið að ræða „hagsmunamat“ og málið hafi því verið fellt niður.

            Svo sem áður greinir spurði dómsformaður lögmenn stefnanda, við munnlegan flutning málsins, að því hvort og þá hvernig lyktir í umræddu máli stefnanda gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur horfðu við sakarefni málsins. Af þessu tilefni var því lýst yfir af hálfu stefnanda að lyktir í því máli hefðu ekki haft nein áhrif á sakarefni þessa máls. Af hálfu annarra aðila var þessari yfirlýsingu stefnanda hins vegar mótmælt. Var í því sambandi vísað til þess að í öðru þeirra mála sem rekið hefur verið samhliða máli þessu, þ.e. í máli nr. E-3827/2011, hefði stefnandi nokkrum dögum áður lækkað kröfur sínar um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulags síns við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP. Hafi stefnandi þannig í reynd viðurkennt að hafa þegið greiðslur vegna sama tjóns og um ræði í málinu.

B

Umrætt mál stefnanda gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP var að meginstefnu höfðað á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og fór því um afmörkun tjóns samkvæmt þeim reglum. Hið sama á við um það mál sem hér er til úrlausnar og gildir þá einu þótt skaðabótaábyrgð stefndu Sigurjóns og Halldórs í málinu sé einnig reist á 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt þessu á hér við sú grunnregla skaðabótaréttar að stefnandi eigi rétt á því að fá tjón sitt að fullu bætt að fullnægðum skilyrðum skaðabótaábyrgðar, en bresti hins vegar heimild til þess að afla sér ávinnings umfram það úr hendi stefndu. Leiðir af þessu að bætur fyrir tjónið, sem stefnandi kann að hafa þegið frá þriðja aðila, eiga að leiða til lækkunar hugsanlegra skaðabóta til hans í máli þessu. Af almennum reglum réttarfars leiðir einnig að stefnanda sem tjónþola ber að gera viðhlítandi grein fyrir tjóni sínu, þ.á m. með tilliti til greiðslna sem hann hefur hlotið frá þriðja manni og koma eiga til lækkunar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. ágúst 2006 í máli nr. 403/2006 og dóm Hæstaréttar 30. ágúst 2005 í máli nr. 312/2005.

            Svo sem áður greinir leitaðist stefnandi, með fyrrgreindri málshöfðun sinni gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur, við að fá meðal annars sama tjón bætt og er til úrlausnar í þessu máli. Fyrir liggur að umrætt mál var fellt niður í kjölfar samkomulags sem mun hafa verið gert í febrúar 2017. Við munnlegan flutning málsins hefur verið vísað til þess að í áðurnefndu máli nr. E-3827/2011, sem rekið hefur verið samhliða þessu máli, hafi stefnandi lækkað kröfu sína um 1.500.000.000 krónur með vísan til samkomulagsins og þar með viðurkennt að hafa hlotnast hagsmunir á þeim grunni.

            Stefnandi hefur engin rök fært fram fyrir því að bætur sem hann kann að hafa þegið á grundvelli umræddrar málshöfðunar gegn PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP séu af einhverjum ástæðum þess eðlis að þær eigi ekki að leiða til lækkunar skaðabótakröfu hans í máli þessu. Er því ekki fallist á þá fullyrðingu stefnanda að sakarefni málsins hafi verið þess eðlis að lyktir í því hafi ekki getað haft þýðingu fyrir mat á endanlegu tjóni stefnanda í því máli sem hér er til úrlausnar. Dómurinn telur þar af leiðandi að sú skylda hafi hvílt á stefnanda að gera grein fyrir, svo fljótt sem kostur var, hvers kyns bótum sem hann þáði vegna þess tjóns sem málarekstur hans gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur byggðist á, enda gat stefnandi eðli málsins samkvæmt ekki gengið út frá því að stefndu væri kunnugt um fyrrgreint samkomulag og þýðingu þess. Svo sem áður greinir lauk stefnandi hins vegar gagnaöflun sinni 27. júní 2017 án þess að láta þess að nokkru getið fyrir dóminum að hann hefði í febrúar þess árs lokið máli sínu gegn endurskoðunarfyrirtækjunum tveimur, vegna meðal annars sama tjóns og deilt er um í fyrirliggjandi máli, og hlotið greiðslur frá þeim. Var sá háttur við rekstur málsins af hálfu stefnanda í andstöðu við grunnreglur íslensks réttarfars.

C

Samkvæmt framangreindu getur dómurinn ekki, gegn mótmælum stefndu, fallist á það með stefnanda að stefndu verði að una við einhliða yfirlýsingu hans, sem fyrst kom fram við munnlegan flutning málsins, um að hann hafi tekið fullt tillit til hvers kyns greiðslna sem hann hafi hlotið frá þriðja manni vegna þess tjóns sem hann krefst bóta fyrir í máli þessu. Við þær aðstæður sem uppi eru í málinu verða stefndu heldur ekki látnir bera hallann af því að hafa ekki skorað á stefnanda, samkvæmt 1. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, að upplýsa um greiðslur á grundvelli umrædds samkomulags við PricewaterhouseCoopers ehf. og PricewaterhouseCoopers LLP.

            Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að verulega skorti á að stefnandi hafi nú, að lokinni aðalmeðferð málsins, gert fullnægjandi grein fyrir endanlegu tjóni sínu vegna þeirra ráðstafana sem hann telur stefndu Sigurjóni og Halldóri til sakar í máli þessu. Við þær aðstæður að efnisdómur yrði lagður á málið væri þannig alls óvíst hvort og að hvaða leyti stefnandi fengi tjón sitt ofbætt og hagnaðist þannig á vanreifun málsins, sbr. til hliðsjónar fyrrgreinda dóma Hæstaréttar 17. ágúst 2006 og 30. ágúst 2005. Með hliðsjón af grunnrökum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennum reglum réttarfars eru þessir annmarkar enn fremur svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa málinu í heild sinni sjálfkrafa frá dómi.

             Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu hverjum um sig málskostnað, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við ákvörðun málskostnaðar verið tekið tillit til virðisaukaskatts svo og þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö fyrrgreind mál sem að nokkru lúta að sambærilegum ágreiningsefnum.

            Af hálfu stefnanda fluttu málið lögmennirnir Kristinn Bjarnason, Þórir Júlíusson og Pétur Örn Sverrisson.

            Af hálfu stefnda Sigurjóns flutti málið Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda Halldórs flutti málið Gunnar Viðar lögmaður.

            Af hálfu stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., fluttu málið lögmennirnir Viðar Lúðvíksson og Hildur Ýr Viðarsdóttir.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt Arnaldi Hjartarsyni héraðsdómara og Hrefnu Sigríði Briem viðskiptafræðingi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

            Stefnandi, LBI ehf., greiði stefndu, Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Halldóri Jóni Kristjánssyni, hvorum um sig 9.000.000 krónur í málskostnað, en stefndu, QBE International Insurance Ltd. og QBE Corporate Ltd., hvorum um sig 4.500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Skúli Magnússon

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson

 

                                                                        Hrefna Sigríður Briem