• Lykilorð:
  • Arfleiðsluhæfi
  • Erfðaskrá
  • Ógilding

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 9. janúar 2019 í máli nr. Q-1/2018:

A,

B og

C

(Guðni Ásþór Haraldsson lögmaður)

gegn

D og fleiri

 (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)

 

Mál þetta barst dómnum með bréfi skiptastjóra dánarbús Á, sem móttekið var 17. janúar 2018. Aðilar málsins eru allir erfingjar dánarbúsins samkvæmt tveimur erfðarskrám hinnar látnu, utan erfingjans É. Málið var tekið til úrskurðar þann 7. desember sl. að lokinni aðalmeðferð þess.

 

I.

Sóknaraðilar krefjast þess að erfðaskrá Á, frá 9. apríl 2014 verði metin ógild og að hún verði ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar. Enn fremur krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðilum verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað óskipt.

 

Varnaraðilar krefjast þess að framkominni kröfu sóknaraðila, um að erfðaskrá Á, frá 9. apríl 2014 verði metin ógild og ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi hennar, verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.

 

II.

Á lést ....2017. Hún var ógift og eignaðist ekki afkomendur. Tengsl Á við sóknaraðila málsins eru þau að sóknaraðilar eru fóstursynir É en Á heitin var um nokkurra ára bil upp úr 1970 í sambúð með föður É. Sóknaraðilar voru aðeins börn að aldri þegar þeir kynntust Á og samband þeirra mun hafa haldist alla tíð. Varnaraðilar málsins eru systkinabörn Á.

 

Á gerði tvær erfðaskrár, þá fyrri 20. maí 2009 og hina síðari 9. apríl 2014. Með fyrri erfðaskrá sinni arfleiddi hún sóknaraðila að fasteign sinni að jöfnu auk þess að arfleiða sóknaraðilann C og föður hans, É, að öllum öðrum eignum utan skatthols og skautbúnings sem falla skyldi í hendur I, sem nú er látin. Í seinni erfðaskrá frá árinu 2014 voru systkinabörn hinnar látnu, ásamt sóknaraðilum, arfleidd að öllum hennar eignum auk þess sem eldri erfðaskrár voru afturkallaðar.

 

Ágreiningurinn í máli þessu snýr að gildi seinni erfðaskrárinnar frá 9. apríl 2014, en sóknaraðilar telja að þegar Á hafi gert hana hafi hún verið komin með það alvarlega heilabilun að hún hafi verið óhæf til að átta sig á löggerningum og þýðingu hans. Svo virðist sem sjúkdómurinn hafi greinst 2008 og ágerst mjög með árunum. Varnaraðilar telja hins vegar að einkenni hafi verið væg þar til undir það síðasta og að ekkert bendi til þess að Á hafi verið vegna sjúkdóms ófær um að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá í apríl 2014.

 

Að kröfu sóknaraðila var dánarbú Á tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur ........2017. Bjarki Þór Sveinsson lögmaður var skipaður skiptastjóri dánarbúsins. Sóknaraðilar lögðu fram bréf á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu 10. janúar 2018 og lýstu því yfir að þeir véfengdu erfðaskrána frá 2014. Skiptastjóri vísaði sem fyrr segir ágreiningnum til héraðsdóms með bréfi mótteknu í dóminum 17. janúar sl.

 

Að beiðni sóknaraðila var Jón Snædal, lyf- og öldrunarlæknir, dómkvaddur sem matsmaður undir rekstri málsins. Lagt var fyrir hann að meta á grundvelli allra tiltækra læknisfræðilegra gagna hvort og þá hvenær Á hefði greinst með minnissjúkdóm og hvers eðlis slíkur sjúkdómur hefði verið. Þá var þess óskað að lagt yrði mat á það hvert andlegt ástand Ár hefði verið frá byrjun árs 2014 og fram á mitt árið 2015, og loks hvort hún hafi í apríl 2014 verið það heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá. Matsmaður skilaði niðurstöðu sinni með matsgerð dagsettri 8. ágúst 2018 sem lögð var fram í málinu 14. september. Forsendur matsgerðar eru raktar í niðurstöðukafla úrskurðar þessa en niðurstaða læknisins var sú að Á hefði ekki verið andlega fær um að skilja þá ráðstöfun sem fólst í erfðaskrá hennar sem hún undirritaði 9. apríl 2014.

 

III.

Sóknaraðilar byggja í fyrsta lagi á því að hin látna hafi þann 9. apríl 2014 ekki verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Um það sé vísað til 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá eigi erfðaskráin ekki að koma til framkvæmda við skipti á búi hinnar látnu, sbr. 1. mgr. 45. gr. sömu laga.

 

Telja sóknaraðilar að í upphafi ársins 2008 hafi hin látna verið greind með byrjandi minnissjúkdóm og nærminni verið farið að gefa sig og á þeim tíma hafi hún ekki verið fullkomlega áttuð í tíma. Á þessum tíma hafi þannig verið hafnar æðakölkunarbreytingar í heila.

 

Sóknaraðilum virðist sem Á hafi notið aðstoðar öldrunarþjónustu Seltjarnarness frá árinu 2012 og að frá þeim tíma og fram að árinu 2014 hafi virst sem um hratt undanhald á andlegri heilsu hennar hafi verið að ræða. Á árinu 2013 hafi hún ekki vitað lengur um stað og tíma. Þá hafi verið svo komið á árinu 2014 að hún hafi verið orðin veruleikaskert svo hún gerði sér ekki grein fyrir nærumhverfi sínu og verið með ranghugmyndir um stað og tíma. Þá hafi líkamlegt ástand Á verið orðið þannig að hún gat ekki lengur þrifið sig og hafi enga hugmyndir haft um hvað væri hreint eða óhreint. Einnig hafi þurft að læsa öllum vistarverum á heimili hennar svo hún færi sér ekki að voða.

 

Þá hafi hún á þessum tíma ekki þvegið þvott sjálf í nokkur ár eða skipt um á rúmi sínu. Hún hafi í raun misst alla slíka færni til almennra heimilisstarfa. Sitja hafi þurft yfir henni þegar hún mataðist því ella hafi hún gleymt því. Vitsmunaleg skerðing hennar á þessum tíma hafi þannig verið orðin veruleg.

 

Að sögn forstöðumanns öldrunarþjónustu Seltjarnarness hafi minnispróf, væntanlega MMSE próf, sýnt 16 til 17 stig af 30 stigum árið 2015. Þannig hafi hegðun hennar á þessum tíma verið lærð hegðun. Þá segi í samantekt öldrunarþjónustu að á þessum síðustu árum hefði hin látna í raun ritað undir hvað sem var, einfaldlega vegna þess að hún hefði ekki haft andlega heilsu til annars.

 

Sóknaraðilar telja að því fari fjarri, að hin látna hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi í raun vitað hvað hún var að rita undir þegar hún ritaði undir erfðaskrána þann 9. apríl 2014. Hún hafi á þeim tíma ekki getað munað að hún hafi þá þegar ritað undir aðra erfðaskrá 5 árum áður. Þess vegna sé erfðaskráin frá 9. apríl 2014 ekki gild erfðaskrá í skilningi erfðalaga nr. 8/1962.

 

Í öðru lagi byggja sóknaraðilar á því að ekki verði litið fram hjá því að hin látna hafi gert erfðaskrá árið 2009 þar sem hún af fúsum og frjálsum vilja arfleiddi sóknaraðila að eignum sínum. Sú ráðstöfun hafi átt sér þá skýringu að það hafi verið þeir og þeirra fjölskyldur sem mest höfðu umgengist hana. Þá hafi þessi ráðstöfun átt rót að rekja til hins nána sambands sem hafi verið á milli hinnar látnu og sóknaraðila. Hin látna hafi þannig lýst yfir þessum vilja sínum strax árið 2009. Hin mikla breyting sem gerð hafi verið með erfðaskránni árið 2014 veki því tortryggni.

 

Á því er einnig byggt að hin látna hafi ekki þekkt þann lögmann sem sagður er hafa samið erfðaskrána og heldur ekki þá arfleiðsluvotta sem eiga að hafa vottað undirritun hennar og andlegt heilbrigði. Þá halda sóknaraðilar því fram að hafi hin látna á annað borð séð arfleiðsluvottana þá hafi hún fyrst séð þá þann sama dag og hún ritaði undir erfðaskrána.

 

Þá hafi sá sem sagður sé höfundur erfðaskrárinnar, Guðmundur Óli Björgvinsson lögmaður, aldrei séð Á og hann hafi ekki verið viðstaddur þegar erfðaskráin var undirrituð. Hann hafi þannig aldrei spurt hana út í hinsta vilja hennar áður en erfðaskráin var útbúin. Þannig hafi sá lögmaður sem sagður er hafa samið erfðaskrána fengið efni hennar frá einum af varnaraðilum, löglærðum. Allt þetta hafi lögmaðurinn staðfest fyrir dómi.

 

Þá telja sóknaraðilar að leiða megi að því líkur að hin látna hafi skilið það svo að eignir hennar ættu samkvæmt erfðaskránni frá 2014 að skiptast jafnt milli annars vegar sóknaraðila og hins vegar varnaraðila, þannig að hvor erfingjahópur fengi helmings hlut eigna hennar. Með vísan til framangreinds og eins undirstöðuraka 37. og 38. gr. laga nr. 8/1962 beri því að ógilda erfðaskrána.

 

Í þriðja lagi byggja sóknaraðilar á því að erfðaskráin frá 9. apríl 2014 uppfylli ekki formkröfur erfðalaga nr. 8/1962. Því hafi varnaraðilar sönnunarbyrði fyrir því að hin látna hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 45. gr. nr. 8/1962.

 

Strangar kröfur séu gerðar til formskilyrða er gildi um erfðaskrár. Sóknaraðilar kveðast halda því fram að hin látna hafi ekki kvatt arfleiðsluvottana til þess að vera viðstadda undirritun hennar á erfðaskrána. Hún hafi enga vitneskju haft um nöfn þeirra, hvorugan þeirra þekkt og því á engan hátt getað kvatt þá til þess að votta erfðaskrána. Þess vegna sé vottorð arfleiðsluvotta um þetta í raun rangt samkvæmt 42. gr. laga nr. 8/1962.

 

Byggt er á því að báðir arfleiðsluvottar hafi starfað með einum þeirra sem arf áttu að fá samkvæmt seinni erfðaskránni. Þannig hafi erfinginn O lögmaður verið samstarfsmaður arfleiðsluvotta til margra ára. Þrjú systkini O séu auk þess erfingjar með honum. Þetta sé í andstöðu við 2. mgr. 41. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

 

Samkvæmt framangreindu ákvæði 42. gr. laga nr. 8/1962 sé það skilyrði fyrir gildi erfðaskrár að arfleiðsluvottar hafi í vottorði sínu getið þess hvort arfleiðandi hafi verið svo heil heilsu andlega, að hún hafi verið hæf til þess að gera erfðaskrá. Þess sé ekki getið í erfðaskránni heldur einungis sagt að hin látna hafi verið með „fullu ráði“. Þannig sé þetta veigamikla atriði í arfleiðsluvottorðinu ekki uppfyllt. Þannig beri arfleiðsluvottorðið það ekki með sér að hún hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið hæf til þess að gera erfðaskrá.

 

Sóknaraðilar fullyrða að hvorugur arfleiðsluvotta hafi rætt við hina látnu um efni erfðaskrárinnar og farið yfir hana lið fyrir lið eins og nauðsynlegt hefði verið þar sem vottarnir þekktu ekki til hinnar látnu. Miðað við lýsingar frá forstöðumanni öldrunarþjónustu Seltjarnarness á andlegu ástandi hinnar látnu á árinu 2014 sé ljóst að viðtal við hina látnu hefði átt að kalla fram viðbrögð frá arfleiðsluvottum og athugasemdir frá þeim.

 

Þá telja sóknaraðilar að arfleiðsluvottorðið hefði einnig þurft að vera í heild sinni á báðum blaðsíðum erfðarskrárinnar. Ekki nægi að rita vottorðið einungis á aðra blaðsíðuna. Þannig uppfylli vottun erfðaskrárinnar hvað varðar fyrri síðu hennar ekki skilyrði 42. gr. laga nr. 8/1962 og um það sé vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 234/2014.

 

IV.

Varnaraðilar byggja kröfur sínar á því að framkomin erfðaskrá frá 9. apríl 2014 hafi að geyma hinsta vilja hinnar látnu. Mikilvægt sé að hafa hugfast að hin látna hafði óskoraðan rétt til að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðagerningi enda átti hún enga skylduerfingja. Mikið þurfi að koma til svo gerningum sem byggja á vilja arfláta sé raskað eftir andlát hans. Erfðaskráin frá 9. apríl 2014 sé skýr um hinsta vilja hinnar látnu. Þann vilja beri að virða í þessu máli enda ráðstafaði hin látna eigum sínum með skránni á eðlilegan og skynsamlegan hátt í skilningi 34. gr. erfðalaga.

 

Varnaraðilar kveða málatilbúnað sóknaraðila í fyrsta lagi byggjast á því að hin látna hafi ekki verið andlega hæf til að ganga frá erfðaskrá árið 2014. Sönnunarbyrðin fyrir því að hin látna hafi ekki fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 við gerð erfðaskrárinnar hvíli á sóknaraðilum. Sú sönnun hafi ekki tekist.

 

Þá hafna varnaraðilar fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila að efni erfðaskrárinnar frá 2014 sé ekki komið frá hinni látnu heldur einhverjum af varnaraðilum. Rökstuðningurinn fyrir þessari fullyrðingu sé afar fátæklegur. Erfðaskráin frá 2014 beri hins vegar með sér að lögmaður hafi samið texta hennar í samræmi við eindregnar óskir hinnar látnu. Þá hafi hin látna komið fyrir tvo arfleiðsluvotta til að staðfesta vilja sinn með undirritun.

 

Varnaraðilar hafna jafnframt öllum hugmyndum sem sé að finna í greinargerð sóknaraðila um að hin látna hafi misskilið erfðaskrána frá 2014 þar sem hún hafi skilið það sem svo að eignir hennar ættu að skiptast jafnt á milli tveggja hópa erfingja, annars vegar sóknaraðila og hins vegar varnaraðila. Þessi fullyrðing í greinargerð sóknaraðila sé með öllu órökstudd og því hafnað.

 

Þá hafi sóknaraðilar ekki sýnt fram á það með nokkrum hætti að formkröfur erfðalaga nr. 8/1962 hafi ekki verið uppfylltar við undirritun erfðaskrár í apríl 2014.

 

Því sé mótmælt að vottun erfðaskrár sé ófullnægjandi þar sem vottar hafi verið samstarfsmenn eins erfingja, sbr. 2. mgr. 41. gr. erfðalaga. Í umræddu ákvæði segi aðeins að aðili sé ekki hæfur til að votta arfleiðslu ef erfðaskrá varðar hagsmuni hans sjálfs eða aðilja eða stofnunar, sem hann vinnur hjá. Það sé ljóst að hvorugur vottur hafði nokkra hagsmuni af erfðaskrá hinnar látnu þannig að valdið gæti vanhæfi þeirra með vísan til 2. mgr. 41. gr. erfðalaga.

 

Varnaraðilar byggja á því að ekki séu annmarkar á erfðaskrá frá 2014 sem réttlæti að hún sé ógilt með vísan til 2. mgr. 42. gr. erfðalaga. Í greinargerð sóknaraðila sé fullyrt að arfleiðsluvottorð þurfi að vera á báðum blöðum erfðaskrár til að teljast gilt og vísað í því samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 234/2014. Sá munur sé hins vegar á því máli og þessu að þar var undirrituð hvorug þeirra blaðsíðna sem hafði að geyma fyrirmæli um ráðstöfun arfsandlagsins. Í þessu máli sé hins vegar að finna leiðbeiningar um ráðstöfun eigna á þeirri blaðsíðu sem sé undirrituð og vottuð auk þess sem hin látna merkti fyrri blaðsíðu með upphafsstöfum sínum.

 

Varnaraðilar telja enn fremur að ef fylgja ætti fordæmi í máli nr. 234/2014 ætti það að leiða til þess að erfðaskráin frá 2009 gilti ekki í málinu, enda sé arfleiðsluvottorðið í þeirri erfðaskrá á annarri blaðsíðu en meginmál hennar og erfðaskráin sjálf óvottuð.

 

Varnaraðilar hafna sem ósönnuðum fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila um að vottar hafi ekki kannað andlegt hæfi hinnar látnu með því að ræða við hana um efni erfðaskrárinnar. Þá geti vitnisburður forstöðumanns öldrunarþjónustu um ástand hinnar látnu á tilteknu tímabili ekki nýst til að ógilda vottun á undirritun hinnar látnu.

 

Með vísan til alls framangreinds krefjist varnaraðilar þess að framkominni kröfu sóknaraðila verði hafnað.

 

Um lagarök vísa varnaraðilar til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og til erfðalaga nr. 8/1962, einkum VI. kafla þeirra. Kröfu um málskostnað byggi þeir á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um álag á málskostnað á 131. gr. sömu laga.

 

 

V.

Aðilarnir A, S, R og O gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Einnig komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu vitnin Jón Snædal, öldrunarlæknir og dómkvaddur matsmaður, og fimm önnur tilgreind vitni. Framburður þeirra verður hér að nokkru rakin eins og þurfa þykir.

 

-------

 

Jón Snædal öldrunarlæknir kom fyrir dóminn til skýrslugjafar og staðfesti matsgerð sína. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir að Á hafi verið haldin Alzheimers-sjúkdómi og að vitræn skerðing hafi verið komin á stig vægrar heilabilunar á árinu 2008. Í matsgerðinni kemur fram að Á hafi skorað 23 stig af 30 mögulegum í svokölluðu MMSE-prófi (Mini Mental State Examination), sem Sigurbjörn Björnsson öldrunarlæknir lagði fyrir hana í maí 2008. Matsmaður túlkar læknanótur frá árunum 2008-2009 þannig að þar sé lýsing á konu á níræðisaldri, sem komin sé á fyrsta stig heilabilunar þar sem hún sé ekki fær um flóknari athafnir daglegs lífs, svo sem að sjá um lyfin sín sjálf.

 

Frá þeim tíma hafi henni farið smám saman aftur hvað vitræna getu varðar. Lögð voru fyrir Á MMSE-próf í níu skipti á árunum 2012-2015. Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir lagði prófin fyrir hana og munu prófin hafa sýnt hefðbundna þróun heilabilunar og skýra afturför til lengdar. Haustið 2013 var heilabilun komin á meðalhátt stig, þar sem nærminni og áttun í tíma vantaði auk þess sem geta til að stafa afturábak og reikna var skert. Vitnað var til læknanótu frá 2013 sem segi að allt bendi til Alzheimers-sjúkdóms með hægri þróun.

 

Eftir það hafi hún aldrei skorað hærra en 18 stig, sem útleggist sem meðallangt gengin eða töluverð heilabilun. Í skýrslu matsmanns kom fram að MMSE-prófin séu stöðluð og mikið notuð verkfæri til að skima eftir heilabilun. Dagsform geti valdið smávægilegri sveiflu upp á 1-2 stig, eins geti munað allt að 2-3 stigum á milli prófa sem ekki séu lögð fyrir af sama lækninum. Það sem mestu máli skipti í tilviki Á sé að flest prófana voru lögð fyrir hana af sama lækninum á sama stað og sama tíma dags og það séu ávallt sömu veikleikarnir sem komi fram. Í skýrslu matsmanns kom fram að að sjúkdómur Á hafi þróast frá vægri heilabilun yfir í töluverða heilabilun. Skammtímaminni hafi verið orðið mjög takmarkað og yfirsýn lítil. Á þessu stigi sé fólk ekki fært um að ráða fjárhag sínum eða taka afstöðu um erfðamál sín. Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að Á hafi ekki verið andlega fær um að skilja þá ráðstöfun er fólst í erfðaskrá hennar sem hún undirritaði 9. apríl 2014.

 

Í matgerðinni kemur fram að MMSE-próf hafi verið lagt fyrir Á einni viku fyrir gerð erfðaskrár í apríl 2014. Á því prófi mun Á hafa skorað 18 stig af 30 mögulegum og það merki að um töluverða heilabilun hafi verið að ræða. Varnaraðilar telja þó að Á hafi ekki verið farin að sýna nein merki heilabilunar fyrr en um það leyti sem hún fluttist af heimili sínu yfir á Grund árið 2016 og kveðast ekki þekkja til þess að Á hafi greinst á árinu 2008 með minnissjúkdóm.

 

-------

 

Í matsgerð er vitnað í læknagögn frá því að Á kom fyrst til Sigurbjörns Björnssonar öldrunarlæknis. Segir þar að Á hafi í það skiptið, og einnig síðar, komið í fylgd Þ, eiginkonu sóknaraðilans A.

 

A skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði þekkt Á frá því að hann var barn. Þrátt fyrir að slitnað hafi upp úr sambandi Á og fósturafa hans hafi samband Á við þá bræður, sóknaraðila þessa máls, haldist alla tíð. Þeir hafi litið á hana sem ömmu sína og hún hafi kallað þá „drengina sína“. Hins vegar hafi ekki verið mikill samgangur á milli sóknaraðila og annarrar fjölskyldu Á, þar með talda varnaraðila í þessu máli. A greindi frá því að þau Þ eiginkona hans hafi annast og aðstoðað Á mikið með ýmislegt frá árinu 2000 og enn meira eftir að bera fór á veikindum hennar upp úr 2008–2009. Fram kom hjá A, og einnig hjá vitninu Þ, að Á hefði verið orðin nokkuð slæm á árinu 2014 og það illa áttuð að hún kannaðist jafnvel ekki við sig inni á eigin heimili heldur hafi talið sig vera í sumarbústað eða í Kaupmannahöfn. Þegar svo hafi staðið á hjá Á hafi hún hringt mikið í þau, oft seint á kvöldin, og beðið þau um að sækja sig og fara með sig heim. Fram kom hjá A og Þ að þau teldu Á engan veginn hafa verið færa um að gera flókna fjármálalega gerninga á árinu 2014 og kvaðst Þ telja að Á hefði á þeim tíma skrifað undir hvað sem var sem hefði verið lagt fyrir framan hana.

 

Fram kom hjá aðilanum S, systursyni Á, að fjölskylda Á hafi verið samheldin og Á verið náin móður hans og þeirra fjölskyldu. Hann hafi ekki heimsótt Á mikið en hann hafi reglulega hringt til hennar og að lengst af hafi verið hægt að eiga við hana venjuleg samtöl. Ekki hafi verið farið að bera á neinum ruglingi hjá henni fyrr en síðustu tvö árin í lífi hennar eða svo, þá hafi hún stundum talið sig verið komna til Kaupmannahafnar „og svoleiðis“.

 

Vitnið Ó gaf skýrslu. Ó var eiginmaður I heitinnar, frænku Á sem mun hafa litið mikið til með Á á meðan henni entist heilsan til. Í skýrslu Ó kom fram að ávallt hafi verið gott að tala við Á, líka á seinni árum, þó svo að stundum hafi komið gloppur hjá henni og heyrst á henni að minnið væri farið að fyrnast. Hún hafi mikið verið í „gamla tímanum“ og stundum talið sig vera að fara á Patreksfjörð að hitta móður sína. Þá kom það fram hjá vitninu Æ, dóttur U og Ó, að Á, sem hefði alla tíð verið mikil hannyrðakona og rekið hannyrðaverslun um margra ára skeið, hefði fyrir um fimm árum verið farin að gleyma ýmsum útsaumssporum. Fyrir um þremur árum hafi Á verið hætt að treysta sér til að koma í saumaklúbb sem þær frænkur voru í.

 

Aðilinn O lögmaður, bróðursonur Á skýrði frá því að hann hefði þekkt hana alla tíð og að hún hefði átt í eðlilegum fjölskyldutengslum við systkini sín. Fram kom að hann teldi engan í fjölskyldu Á hafa vitað til þess að hún hafi farið í MMSE-próf og greinst þar með heilabilun. Slíkar prófanir virtust honum eingöngu hafa farið fram fyrir tilstilli sóknaraðila sem hafi að honum vitandi ekki deilt niðurstöðum prófana með varnaraðilum eða öðrum úr fjölskyldu Á.

 

Varnaraðilar halda því fram í greinargerð að Á hafi haft áhyggjur af fyrri ráðstöfun sinni með gerð erfðarskrárinnar 2009 og að hún hafi tjáð skyldmennum sínum að hún hygðist leiðrétta þá skekkju sem gerð hefði verið. Fram kom hjá vitnunum Ó og Æ, að U hefði sagt þeim frá því að Á hefði haft áhyggjur af einhverju skjali sem hún hefði undirritað á lögmannsstofu nokkrum árum áður, erfðaskrá að hana minnti, en hún hafi ekki munað hvað stæði í henni. Þau gátu ekki sagt til um hvenær U greindi þeim frá þessu.

 

Vitnið Ö, bróðir Á, skýrði frá því að hann hefði heimsótt Á mikið og verið henni mikið innan handar. Fam kom að hann hefði aðstoðað Á í aðdraganda að gerð seinni erfðaskrárinnar. Hann kvaðst hafa borið undir Á áhyggjur sínar af því að hún hefði enga erfðaskrá gert. Hann hefði því haft samband við varnaraðilann O lögmann, bróðurson Á, og beðið hann um að vera þeim innan handar við að stilla erfðaskránni upp. Hann hafi svo farið með Á til fundar við O og kvað Á hafa verið hina hressustu á fundinum sem hafi farið eðlilega fram. Fram kom að Á hefði verið orðin ansi slöpp síðustu tvö árin en hann muni ekki eftir öðru en að hún hafi verið í góðu ástandi við gerð erfðaskrárinnar í apríl 2014.

 

O kvað Á oft hafa rætt við sig um erfðamál sín í gegnum tíðina. Hún hafi haft hugmyndir um að stofna sjóð fyrir systkinabörn sín til að styrkja þau til menntunar en það hafi verið upp úr 1980. Ekkert hafi orðið úr þeim áformum og kvað hann Á hafa haft samband við sig á árinu 2014 og viljað ræða þessi mál. Hún hafi komið til fundar við sig ásamt Ö og verið ákveðin í að gera erfðaskrá þar sem öll systkinabörn sín yrðu erfingjar. O kveðst hafa stungið upp á því að sóknaraðilar yrðu einnig nefndir í erfðaskránni. Þá hafi hann spurt Á út í gerð fyrri erfðarskrár þar sem hann hafi fregnað af því frá frændfólki sínu að á árinu 2009 hefði verið farið með Á veika á lögmannsstofu úti í bæ til að gera erfðaskrá, en Á svarað því til að hún myndi ekkert eftir því sem þar hefði farið fram. Aðspurður hvort honum þætti ekki skjóta skökku við að Á hefði verið fullkomlega skýr á árinu 2014 en á þeim tíma ekki munað eftir gerð erfðaskrár á árinu 2009, svaraði O að eftir því sem honum best skyldist hefði Á átt í einhverjum veikindum um það leyti og að vegna þeirra einangruðu veikinda hefði hún ekki munað betur eftir atvikinu.

 

Þá kom fram að Á hafi viljað tilnefna vitnið til að annast skiptin en hann hafi þá bent henni á að það væri ekki mögulegt því hann væri einn erfingja samkvæmt erfðaskránni. Hann hafi því bent á Guðmund Óla Björgvinsson lögmann sem hafi verið reiðubúinn til að taka það að sér. Ö hafi svo tekið saman öll nöfnin og O annast undirskrift erfðaskrárinnar að beiðni Guðmundar. Á hafi af því tilefni komið á sinn fund á ný, þau hafi farið vandlega yfir efni erfðaskrárinnar í votta viðurvist og Á verið fullkomlega skýr og ákveðin. Í arfleiðsluvottorði erfðaskrárinnar kemur fram að Á hafi sérstaklega kvatt til þá Ú og Ý, sem nú er látinn, til að vera viðstaddir og votta undirritun erfðaskrárinnar. Erfðaskrána hafi hún kveðið geyma hinsta vilja sinn og undirritað hana af fúsum og frjálsum vilja og með fullu ráði.

 

O greindi frá því að arfleiðsluvottarnir störfuðu báðir sem sjálfstæðir verktakar undir formerkjum Kontakt fyrirtækjaráðgjafar, líkt og O sjálfur. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá, sem bornar voru undir aðilann O við skýrslugjöf hans, mun O hafa verið eigandi 10% hlutar í fyrirtækinu á þeim tíma sem erfðaskráin var undirrituð auk 80% hlutar í gegnum einkahlutafélagið Global M&A Iceland ehf. Að sögn O endurspegli þær tölur þó ekki raunverulegt eignarhald hans, sem hafi verið nærri 10% hlut á þeim tíma.

 

Vitnið Z gaf skýrslu fyrir dómi og samræmdist framburður hans því sem áður hafði komið fram hjá O um tengsl við Kontakt fyrirtækaráðgjöf og eignarhald fyrirtækisins á árinu 2014. Þá kom fram að hann hefði ekki þekkt Á neitt þegar hann var kvaddur til sem vottur og minntist hann þess ekki að hafa rætt við hana áður. Hann hafi heilsað henni í upphafi fundar þegar erfðaskráin var undirrituð og verið viðstaddur þegar farið var munnlega yfir efni erfðaskrárinnar en hann hafi ekki getað greint þá að hún væri með heilabilun. Hún hafi virst heil heilsu og virtist áttuð á stað og stund og meðvituð um hvað hún væri að undirrita.

 

-------

 

Þrátt fyrir að helstu atriði úr framburði þeirra vitna og aðila sem komu fyrir dóm til skýrslugjafar séu hér rakin samhengisins vegna telur dómurinn að ekkert í framburði þeirra skipti sköpum andspænis ítarlegri matsgerð dómkvadds matsmanns og framburði hans fyrir dóminum, við úrlausn á því hvort Á heitin hafi verið svo heil heilsu andlega að hún hafi verið fær um að gera erfðaskrá á árinu 2014, heldur styðji annar framburður málsins og gögn niðurstöður matsgerðarinnar fremur en hitt. Eins og sönnunarfærslu hefur verið háttað, skiptir því við úrlausn málsins langmestu máli niðurstaða matsgerðar Jóns Snædal, lyf- og öldrunarlæknis, sem sérhæfir sig í meðhöndlun sjúklinga með Alzheimers-sjúkdóminn. Er það mat hans að Á hafi ekki verið andlega fær um að skilja þá ráðstöfun er fólst í erfðaskrá hennar sem hún undirritaði 9. apríl 2014.

 

Matsgerð sú sem liggur fyrir í málinu byggir á ítarlegum hlutlægum upplýsingum úr sjúkraskrá, en ekki verður séð að um það sé í sjálfu sér gerður ágreiningur. Fyrir liggja bæði endurtekin vitræn próf, eða svokölluð MMSE-próf framkvæmd af sama lækni, og einnig myndgreining sem rennir stoðum undir greiningu Alzheimers-sjúkdóms þegar árið 2011. Gögnin sem matsgerð byggir á benda til þess að sjúkdómurinn hafi verið kominn á stig töluverðrar heilabilunar árið 2013, en eftir október það ár fengust aldrei fleiri en 18 stig á MMSE kvarðanum. MMSE kvarðinn metur ekki eingöngu minni, heldur einnig aðra þætti vitrænnar getu svo sem áttun, athygli, reiknigetu, sjónræna úrvinnslu og mál. Til þess að fá einungis 18 stig á kvarðanum þarf að vera til staðar víðtæk skerðing sem nær ekki eingöngu til minnis heldur einnig annarra þátta vitrænnar getu og veldur því að hlutaðeigandi getur ekki haft yfirsýn yfir fjárhagslega gjörninga á borð við gerð erfðaskrár.

 

Að virtu framangreindu tekur dómurinn undir þær ályktanir sem dómkvaddur matsmaður dregur í niðurstöðum matsgerðar, það er að árið 2014 hafi heilabilunin verið komin á það stig að Á hafi ekki lengur haft yfirsýn eða forsendur til að sjá fyrir afleiðingar af ákvörðunum sínum. Fá niðurstöður matsmanns og stuðning frá öðrum gögnum málsins eins og fyrr segir.

 

Varnaraðilar hafa ekki leitast við að hnekkja matsgerð dómkvadds matsmanns, en lögmaður þeirra upplýsti aðspurð dóminn um að ákveðið hefði verið að leita ekki eftir yfirmati. Ekkert í framburði aðila og vitna megnar að hnekkja með einhverjum hætti vægi matsgerðarinnar. Matsgerðin er aukinheldur að mati dómsins, sem skipaður er sérfróðum meðdómara í öldrunarlækningum, vel og ítarlega unnin og nákvæm og engir þeir ágallar á henni sem draga úr sönnunargildi hennar. Verða því niðurstöður hennar lagðar til grundvallar við úrlausn málsins og jafnframt lagt til grundvallar að sönnun hafi verið færð fyrir óhæfi Á heitinnar til að gera erfðaskrá í apríl 2014. Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um þær málsástæður sóknaraðila sem byggjast á því að formreglna erfðalaga nr. 8/1962 hafi ekki verið gætt, sem hefðu eftir atvikum leitt til þess að sönnunarbyrðin um arfleiðsluvilja og -hæfi arfláta hefði færst yfir til varnaraðila.

 

Með vísan til framangreinds þykja sóknaraðilar, eins og fyrr segir, þvert á móti hafa fært sönnur á að Á hafi skort hæfi til að gera erfðaskrána 9. apríl 2014, samkvæmt 2. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr., erfðalaga. Þegar af þeirri ástæðu verður því fallist á kröfu þeirra um að umrædd erfðaskrá verið metin ógild og að hún verði ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi Á.

 

Með vísan til úrslita málsins og 1. mgr. 130. gr. sbr. 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 en að teknu tilliti til þess að í málinu liggja fyrir tvær erfðaskrár og þá með vísan til 3. mgr. 130. gr., verða varnaraðilar dæmd sameiginlega til að greiða sóknaraðilum hluta máls­kostnaðar sem telst hæfilega ákveðinn, miðað við umfang málsins, 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti til hvers sóknaraðila um sig.

 

Það er meginregla að kostnaður af opinberum skiptum greiðist af fjármunum búsins, sbr. 41. gr. laga nr. 20/1991. Með vísan til þess og einnig til 48. gr. sömu laga er kröfu sóknaraðila um að fá bættan úr hendi varnaraðila kostnað skiptastjóra vegna opinberra skipta á dánarbúi Á, samtals að fjárhæð 2.664.567 kr. hafnað Verður enda talið að sóknaraðilar hafi ekki rökstutt með nægjanlegum hætti hvers vegna slíkan kostnað ætti að taka undir málkostnaðarákvörðun í þessu máli sem snýst um eitt afmarkað atriði undir opinberum skiptum. Fær dómurinn ekki séð að fyrir kröfunni í þessum búningi sé lagastoð.

 

Fyrir sóknaraðila flutti málið Guðni Ásþór Haraldsson lögmaður og fyrir varnaraðila Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður.

 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt meðdómendunum Ragnheiði Snorradóttur héraðsdómara og Dr. Steinunni Þórðardóttur, sérfræðingi í lyf- og öldrunarlækningum.

 

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Erfðaskrá Á frá 9. apríl 2014 er ógild og verður ekki lögð til grundvallar við opinber skipti á dánarbúi Á.

Varnaraðilar greiði sameiginlega, sóknaraðilum málskostnað að fjárhæð 500.000 krónur til hvers þeirra um sig.

                                                Lárentsínus Kristjánsson

                                                Ragnheiður Snorradóttir

Steinunn Þórðardóttir