• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Fyrning
  • Skaðabætur
  • Tómlæti
  • Vanlýsing

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 29. júní 2018 í máli nr. E-2540/2016:

Landesbank Baden-Württemberg

(Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson lögmaður)

(Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 4. ágúst 2016, var dómtekið 4. júní sl. Stefnandi er Landesbank Baden-Württemberg, Am Hauptbahnhof 2, D70173 Stuttgart í Þýskalandi. Stefndi er íslenska ríkið.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði honum 5.268.567.653 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi til greiðsludags. Auk þessa krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað, stefnda að skaðlausu.

 

I.

Stefnandi, sem er fjármálafyrirtæki, lánaði Glitni banka hf., sem síðar hét Glitnir hf., jafnvirði um fimm milljarða íslenskra króna í tveimur erlendum myntum, evrum og svissneskum frönkum, þann 8. ágúst 2008. Um var að ræða svokallað peningamarkaðsinnlán, sem skyldi endurgreiða um þremur mánuðum síðar, eða 12. og 13. nóvember s.á., með nánar greindum vöxtum. Af endurgreiðslu varð ekki enda féllu íslensku bankarnir í upphafi október og Glitnir var tekinn til slitameðferðar á grundvelli ákvæða laga nr. 161/2002, með síðari breytingum.

 

Þann 6. október 2008 tóku neyðarlögin, þ.e. lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., gildi. Sama dag gaf ríkisstjórnin út svohljóðandi yfirlýsingu: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Áréttingin vísar til yfirlýsingar forsætisráðherra í fréttum 3. október s.á. Yfirlýsing þessi var áréttuð nokkrum sinnum, m.a. 3. febrúar og 9. desember 2009 en loks felld úr gildi með yfirlýsingu stefnda 9. september 2016.

 

Á grundvelli neyðarlaganna tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Glitnis 7. október 2008, og skipaði bankanum jafnframt skilanefnd sem tók yfir vald hluthafafundar í samræmi við 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, sem skyldi fylgja ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins og starfa í samráði við það. Með ákvörðun eftirlitsins 14. október s.á. var tilteknum eignum og skuldum bankans ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., þ.á.m. yfirtók nýi bankinn skuldbindingar í útibúum bankans á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum og var tekið fram að ekki væri þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu. Í bréfi til Nýja Glitnis banka hf., dagsettu 11. nóvember 2008, kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi skoðað sérstaklega stöðu svokallaðra peningamarkaðslána/innlána frá fjármálafyrirtækjum og að stjórn eftirlitsins hafi ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum flyttust ekki yfir til nýja bankans. Þessi ákvörðun var áréttuð í almennri tilkynningu eftirlitsins 21. nóvember s.á. og nánar rökstutt hvers vegna eftirlitið telur að líta skuli á skuldbindingar þessar sem lánveitingu þegar gagnaðili væri fjármálafyrirtæki.

 

Glitnir fékk fékk heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði héraðsdóms 24. nóvember 2008, sem var framlengd þrisvar sinnum og breytt síðar í slitameðferð, sbr. lög nr. 44/2009. Bankanum var skipuð slitastjórn 12. maí 2009 og úrskurður um slitameðferð á grundvelli laga nr. 161/2002 var kveðinn upp 22. nóvember 2010. 

 

Innköllun til kröfuhafa var birt í fyrsta sinn í Lögbirtingablaðinu 26. maí 2009 og kröfulýsingarfrestur var veittur til 26. nóvember 2009. Þann 19. maí 2010 lýsti stefnandi kröfum sínum á grundvelli framangreindra peningamarkaðslána við slitameðferð Glitnis en 19. júlí s.á. hafnaði slitastjórn Glitnis kröfum stefnanda með vísan til 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem mælir fyrir um niðurfellingu krafna gegn slitabúi ef þeim hefur ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 443/2014, kveðnum upp 18. ágúst 2014, staðfesti rétturinn að kröfurnar væru fallnar niður fyrir vanlýsingu.

 

Þann 20. nóvember 2015 samþykktu kröfuhafar Glitnis nauðasamninga sem voru staðfestir í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. desember s.á., og varð staðfestingin endanleg við lok kærufrests, 14. desember 2015. Nauðasamningurinn kveður á um greiðslu til kröfuhafa með (i) lágmarksgreiðslu að fjárhæð allt að 3,5 milljónum íslenskra króna, (ii) hlutfallslegri úthlutun á tiltækum fjármunum slitabúsins þegar nauðasamningurinn komst á, greiddri í nokkrum mismunandi myntum, (iii) útgáfu nýrra breytanlegra skuldabréfa í evrum og (iv) útgáfu nýrra hluta í Glitni. Þann 16. desember 2015 veitti Seðlabanki Íslands bankanum undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að geta greitt kröfuhöfum í samræmi við niðurstöðu nauðasamnings og hófust greiðslur á grundvelli hans í kjölfar þessa.

 

Stefnandi hefur ekki fengið neinar greiðslur vegna peningamarkaðsinnlána sinna og reisir kröfur sínar í þessu máli á því að stefndi beri lagalega ábyrgð á því tjóni sem af því hefur hlotist.

 

II.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á vegna þess að innstæða hans í innlendum viðskiptabanka hafi farið forgörðum.

 

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að stefndi beri ábyrgð á öllum innstæðum í innlendum viðskiptabönkum á grundvelli yfirlýsingar stefnda þar að lútandi 6. október 2008 þar sem sagði: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Þann 3. október 2008 hafi þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lýst efnislega yfir því sama og stefnandi hafi ítrekaði yfirlýsingu sína 3. febrúar og 9. desember 2009.

 

Lán stefnda hafi verið innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 í innlendum banka og yfirlýsingarnar taki því til þess og séu bindandi fyrir stefnda. Engu breyti í því efni hvort kröfu vegna innstæðna hafi verið lýst við slitameðferð Glitnis. Yfirlýsingarnar hafi gefið stefnanda, sem sé erlendur lögaðili sem þekki ekki íslensk lög, lögmætar væntingar til ábyrgðar stefnda á kröfu hans.

 

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni vegna ólögmætra ákvarðana Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið hafi, á grundvelli neyðarlaganna, skipt Glitni upp í gamlan og nýjan banka. Nýi Glitnir banki hf. hafi tekið yfir tilteknar skuldbindingar án þess að þörf hafi verið sérstakrar innköllunar eða auglýsinga. Fjármálaeftirlitið hafi, eftir að ákvörðunin var tekin, skýrt hana svo að lán hans og önnur sambærileg hefðu orðið eftir í gamla bankanum. Það hafi verið ólögmætt og í andstöðu við framangreinda ábyrgðaryfirlýsingu stefnda.

 

Með því að undanskilja innstæður stefnanda hafi Fjármálaeftirlitið farið gegn fyrirmælum æðra stjórnvalds, sbr. 2., 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu stjórnsýsluréttar. Fjármálaeftirlitinu hafi verið skylt að lögum að byggja á skilgreiningu innstæðna í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og þar með veita innlánum stefnanda sambærilega meðferð og öðrum innlánum. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi einnig gengið gegn lögmætum væntingum stefnanda. Ákvörðun eftirlitsins um skiptingu bankans hafi einnig leitt til óheimils mismunar á meðhöndlun peningamarkaðsinnlána í eigu innlendra og erlendra aðila. Stefnandi, sem sé erlendur eigandi peningamarkaðsinnlána, hafi því orðið fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis, sem stríði gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

 

Fjárhæð tjóns stefnanda á grundvelli framangreindra málsástæðna nemi höfuðstól lána til Glitnis banka hf. ásamt vöxtum samkvæmt efni samnings hans við bankann. Fjárhæð stefnukröfu er 5.268.567.653 krónur og byggi á umreikningi erlendra gjaldmiðla miðað við sölugengi krónunnar 22. apríl 2009, ekki sé krafist dráttarvaxta frá gjalddaga lánanna til þingfestingardags. Krafan er sundurliðuð með eftirfarandi hætti í stefnu:

Höfuðstóll innláns í evrum                                              14.173.880,00      evrur

Vextir frá 12. ágúst til 12. nóvember 2008(4,97%)             180.024,02      evrur

Samtals                                                                            14.353.904,02      evrur

Umreiknað á genginu 169,23                                          2.429.111.177         íkr.

Höfuðstóll innláns í sv. frönkum                                    25.177.611,11   frankar

Vextir frá 13. ágúst til 13. nóvember 2008 (2,75%)            176.942,66   frankar

Samtals                                                                            25.354.553,77   frankar

Umreiknað á genginu 111,99                                          2.839.456.476         íkr.

 

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að 118. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, um áhrif vanlýsingar kröfu, brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar bótalausrar skerðingar á eignarrétti hans sem leiði af framangreindu ákvæði gjaldþrotaskiptalaganna. Í þessu efni tekur stefnandi fram að hann líti svo á að ekki hafi verið tekin afstaða til þessa álitaefnis í dómi Hæstaréttar í máli nr. 443/2014.

 

Reglan sem fram kemur í 118. gr. gjaldþrotaskiptalaganna hafi komið í veg fyrir að stefnandi fengi úthlutun samkvæmt nauðasamningum Glitnis. Tjón hans á grundvelli þessarar málsástæðu nemi þeirri fjárhæð sem hefði komið í hlut hans á grundvelli nauðasamninga sem náðust í slitameðferð Glitnis að því er almennar kröfur varðar skv. 113. gr. gjaldþrotaskiptalaganna. Sú fjárhæð sé lægri en stefnukrafan og nemi, varlega áætlað, 1.500.000.000 króum. Í stefnu er nánari grein gerð fyrir sundurliðun þeirrar fjárhæðar miðað við greiðslur til almennra kröfuhafa samkvæmt nauðasamningnum og miðast hún við þær greiðslur sem stefnandi telur að hefðu þegar verið komnar í hans hlut við þingfestingu málsins ef kröfur hans hefðu komist að við slitameðferð Glitnis. Áskilur stefnandi sér rétt til að hafa uppi frekari kröfur ef í ljós kemur að greiðslur samkvæmt nauðasamningi reynist verðmætari miðað við síðara tímamark.

 

Stefnandi byggir á því að skilyrði skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennu sakarreglunni leiði til bótaskyldu stefnda. Engar hlutlægar ábyrgðarleysisástæður eigi við um háttsemi stefnda. Fallist dómurinn ekki á þessa málsástæðu reisir stefnandi kröfu sína á því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á tjóni vegna þess sem í stefnu er nefnt reglufest saknæmi.

 

Loks byggir stefnandi á því að frestur hans til málshöfðunar hafi þá fyrst getað byrjað að líða þegar nauðasamningar tóku gildi, þ.e. 14. desember 2015.

 

Um lagarök vísar stefnandi m.a. til laga nr. 161/2002, með síðari breytingum, gjaldþrotaskiptalaganna nr. 21/1991, stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 65. gr., 70. gr. og 72. gr., auk meginreglna stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar, sakarreglunnar og annarra meginreglna skaðabótaréttarins, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. C-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1979, og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og loks til 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað.

 

III.

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Skaðabótakröfur fyrnist á fjórum árum samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu og að öðru leyti gildi hið almenna fyrningarákvæði 3. gr. sömu laga. Stefndi byggir á því að upphaf fyrningarfrests sé 6. október 2008, að því er varði kröfur um bætur á grundvelli ætlaðra vanefnda á yfirlýsingu sem gefin var þann dag, í öllu falli hafi fyrning allra krafna stefnanda verið fyrir 4. ágúst 2012, en stefnan hafi verið birt fjórum árum síðar, eða 4. ágúst 2016.

Í öðru lagi sé málshöfðunarfrestur liðinn samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi að því er varði málsástæður sem byggi á ákvörðunum eða athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins.

 

Í þriðja lagi hafi stefnandi sýnt af sér algert tómlæti við að fylgja kröfu sínum eftir gagnvart stefnda og með því hafi öll tækifæri til að lýsa endurgreiðslukröfu í bú Glitnis banka hf. farið forgörðum.

 

Dómur Hæstaréttar í máli stefnanda gegn Glitni hf. frá 18. ágúst 2014, í máli nr. 443/2012, hafi falið í sér niðurstöðu varðandi það álitaefni hvort 118. gr. laga nr. 21/1991 bryti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Svo sem rakið sé í dómi Hæstaréttar stríði ákvæði 118. gr. hvorki gegn ákvæðum stjórnarskrár né alþjóðlegum skuldbindingum stefnda. Sú málsástæða stefnanda sé því augljóslega haldlaus.

 

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda og að við ákvörðun um fjárhæð hans verði tekið tillit til þess að málsóknin sé algjörlega að ófyrirsynju, sbr. 129.–131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Ekki er þörf á að rekja frekar málsástæður sem fram koma í greinargerð stefnda með vísan til e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

 

IV.

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því reist að kröfur stefnanda séu fyrndar eða fallnar niður fyrir tómlæti stefnanda og er nauðsynlegt að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu áður en til álita kemur að skoða málsástæður stefnanda.

 

Krafa stefnanda er byggð á þremur mismunandi málsástæðum. Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi með yfirlýsingu sinni 6. október 2010 bakað sér beina greiðsluskyldu á kröfu stefnanda þar sem með henni hafi hann gefið stefnanda lögmætar væntingar um greiðslu kröfunnar.

 

Umræddar kröfur féllu í gjalddaga samkvæmt samningum stefnanda við Glitni banka hf. 12. og 13. nóvember 2008. Frá þeim tíma mátti stefnanda vera ljóst að stefndi myndi ekki greiða kröfurnar fyrir hönd aðalskuldara. Í gögnum málsins verður ekki séð að stefnandi haft haft uppi greiðslukröfu gagnvart stefnda eða yfirhöfuð innt hann eftir afstöðu sinni til greiðsluskyldu á þessum grundvelli fyrr en með stefnu þessa máls, sem honum var birt 4. ágúst 2016, eða tæpum átta árum eftir að umdeild yfirlýsing var gefin. Er fallist á það með stefnda að krafa á þessum grundvelli sé fallin niður fyrir tómlæti stefnanda.

 

Til vara byggir stefnandi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli framangreindrar yfirlýsingar frá 6. október 2008. Skaðabótakröfur fyrnast á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Stefnandi kveðst hafa haft væntingar um að stefndi tryggði honum greiðslu kröfunnar, annaðhvort með greiðslu beint til hans, löggjöf sem hefði tryggt ábyrgðina eða með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að færa kröfuna til Íslandsbanka.

 

Svo sem að framan greinir mátti stefnanda vera ljóst frá því í nóvember 2008 að stefndi sjálfur myndi ekki greiða honum kröfuna. Þá lá fyrir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 14. október 2008 um að færa tilteknar eignir og skuldir Glitnis yfir til Nýja Glitnis banka hf. og ákvörðun sama aðila um að krafa hans væri ekki meðal þeirra krafna sem færðust yfir til nýja bankans lá fyrir a.m.k. frá 21. nóvember s.á. Ráðstafanir þær sem Alþingi greip til á grundvelli framangreindrar yfirlýsingar og vörðuðu kröfuhafa föllnu bankanna lágu fyrir 7. október 2008, þegar neyðarlögin tóku gildi, en með 6. og 9. gr. þeirra laga er fjallað um meðferð krafna við slit fjármálafyrirtækja. Verður að miða við að stefnanda hafi verið eða mátt vera kunnugt um framangreindar ráðstafanir þá þegar þær lágu fyrir. Jafnframt hefur hann á sama tíma getað áttað sig á afleiðingum þeirra fyrir kröfu sína, a.m.k. hefur honum þá mátt vera ljóst að löggjöf og ráðstafanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að krafan yrði greidd úr slitabúi Glitnis eftir reglum gjaldþrotaskiptalaga, eftir því sem eignir í slitabúsins hrykkju til. Í málatilbúnaði stefnanda er reyndar á reiki hvort hann lítur svo á að krafa hans hafi verið forgagnskrafa eða almenn krafa. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 383/2013, sem stefnandi byggir á að fjalli um sams konar kröfu og hann átti, var fallist á að krafa sóknaraðila væri forgagnskrafa samkvæmt reglum gjaldþrotaskipalaga á grundvelli breytinga á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem gerðar voru fyrst með 6. og 7. gr. laga nr. 125/2008. Hvað sem líður þessum óskýrleika í kröfugerð stefnanda verður að telja að fyrningarfrestur skaðbótakröfur hans á hendur stefnda, vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna framangreindra ráðstafana, hafi byrjað að líða í október og nóvember 2008. Voru kröfur hans því fallnar niður fyrir fyrningu í ágúst 2016 þegar mál þetta var höfðað.

 

Með sömu rökum eru kröfur á hendur stefnda á þeim grundvelli að Fjármálaeftirlitinu hafi verið óheimilt að skilja kröfu hans eftir í Glitni banka hf., sbr. tilkynningu eftirlitsins 21. nóvember 2008, fallnar niður fyrir fyrningu.

 

Eftir stendur þá ófyrnd krafa á hendur stefnda sem byggð er á þeirri málsástæðu að stefndi beri bótaábyrgð á því að krafa stefnda gagnvart Glitni banka hf. féll niður fyrir vanlýsingu, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Fyrir liggur að slitastjórn bankans hafnaði kröfu hans á þessum grundvelli og með dómi Hæstaréttar í máli nr. 443/2014, kveðnum upp 18. ágúst 2014, staðfesti rétturinn þá niðurstöðu slitastjórnar. Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar var dómur héraðsdóms staðfestur með vísan til forsenda hans. Í forsendum og niðurstöðu héraðsdóms má sjá að stefnandi teflir fram öllum sömu málsástæðum og hann byggir á skaðabótakröfuna í þessu máli, nefnilega þeim að umdeilt ákvæði gjaldþrotaskiptalaganna stangist á við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að í ákvæðinu felist ólögmæt skerðing á eignarrétti hans sem gangi gegn meðalhófsreglu og skilyrðum slíkrar skerðingar og jafnframt að í tilviki kröfu stefnanda þá hafi skuldara verið kunnugt um kröfuna þrátt fyrir vanlýsingu, fyrirsjáanlegt hafi verið að slitameðferðin tæki langan tíma og kröfunni hafi verið lýst í upphafi slitameðferðarinnar. Allt eru þetta málsástæður sem efnislega var teflt fram í áðurnefndum dómi og skýrlega hafnað af héraðsdómi og sú niðurstaða staðfest af Hæstarétti. Er því með öllu haldlaust að tefla þeim fram á ný í þessu máli og er þeim því hafnað.

 

Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfu stefnanda. Með vísan til niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 2.500.000 krónur.

 

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður flutti málið fyrir stefnanda og lögmennirnir Einar Karl Hallvarðsson og Jóhannes Karl Sveinsson fyrir stefnda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda, Landesbank Baden-Württemberg. Stefnandi greiði stefnda 2.500.000 krónur í málskostnað.