• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2018 í máli nr. S-281/2018:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Símoni Smára Sigurðssyni

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 4. júlí sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 15. maí 2018, á hendur  Símoni Smára Sigurðssyni, kt. 000000-0000, Engjaseli 83, Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot:

 

I

Umferðarlagabrot í Reykjavík með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 30. janúar 2018 ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 315 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,5 ng/ml, í þvagi mældist metamfetamín) vestur Borgartún uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar í Borgartúni á móts við verslun 10/11.

 

II

Fíkniefnalagabrot í Kópavogi með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. október 2017, eftir að lögregla stöðvaði bifreiðina [---] á Dalvegi á móts við verslun 10/11, haft í vörslum sínum í vinstri brjóstvasa 2,75 g af amfetamíni sem lagt var hald á.

 

Telst brot í lið I varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, en brot í lið II við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í febrúar 1993. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 11. maí 2018, á hann að baki nokkurn sakaferil. Ákærði gekkst undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt, 2. mars 2012, vegna ölvunaraksturs og aksturs sviptur ökurétti. Þá gekkst hann undir viðurlagaákvörðun vegna aksturs sviptur ökurétti, 20. desember 2012. Ákærði gekkst undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, aksturs sviptur ökurétti sem og brots gegn lögreglu- og  fíkniefnalögum, 29. nóvember 2013. Þá var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 60 daga, þar af voru 30 dagar skilorðsbundnir til tveggja ára, vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og aksturs sviptur ökurétti, 20. desember 2013. Var dómurinn hegningarauki við fyrrgreinda lögreglustjórasátt frá 29. nóvember 2013. Ákærði var dæmdur til að sæta fangelsi í 105 daga fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, akstur sviptur ökurétti og fíkniefnalagabrot með dómi, 27. maí 2015. Hinn 21. október 2015 var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, akstur sviptur ökurétti og fíkniefnalagabrot. Var sá dómur hegningarauki við fyrri dóm frá 27. maí 2015. Ákærði var dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti með dómi, 27. apríl 2016. Nú síðast var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði fyrir akstur sviptur ökurétti með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 1. nóvember 2011. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli samkvæmt II. kafla ákæru voru framin fyrir uppkvaðningu fyrrgreinds dóms og verður ákærða því dæmdur hegningarauki nú, samkvæmt ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki þýðingu við ákvörðun refsingar í máli þessu.

Með hliðsjón af framangreindu, greiðri játningu ákærða og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1904 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 2,75 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 144.398 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Símon Smári Sigurðsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 2,75 g af amfetamíni.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 126.480 krónur og 144.398 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                   Lilja Rún Sigurðardóttir