• Lykilorð:
  • Skuldamál
  • Sönnun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019 í máli nr. E-2418/2018:

Logaland ehf.

(Gunnar Egill Egilsson hdl.)

gegn

Landspítala

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

           

Mál þetta, sem var dómtekið 11. mars 2019, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Logalandi ehf., Ögurhvarfi 2, Kópavogi, á hendur Landspítalanum, Eiríksgötu 5, Reykjavík, með stefnu birtri 26. júlí 2018.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.004.522 kr. með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 26. júní 2018 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

 

I

            Stefnandi er einkahlutafélag, sem selur vörur og þjónustu á heilbrigðissviði. Í kjölfar útboðs stefnda nr. 14506, sem opnað var 2. september 2008, gerðu aðilar með sér samning um kaup á sérstöku tæki til greiningar á klamydíu ásamt rekstrarvörum fyrir það tæki. Samningurinn var tímabundinn til fjögurra ára og átti að renna út 20. mars 2013. Með sérstöku samkomulagi var samningurinn framlengdur til 20. mars 2014. Þrátt fyrir að samningur aðila hafi runnið út 20. mars 2014, hélt stefndi áfram að kaupa rekstrarvöru af stefnanda á grundvelli ákvæða samningsins. Stefndi upplýsir að á árinu 2016 hafi hann boðið út kaup á nýju tæki og hafa frekari viðskipti við stefnanda því stöðvast.

Stefnandi kveður að með pöntun, sem borist hafi með faxi frá stefnda 7. október 2015, hafi hann pantað fjórar tilgreindar vörur frá stefnanda. Um hafi verið að ræða vörur sem varða rekstur Tigris DTS greiningartækis. Hinn 30. apríl 2018 hafi reikningur vegna viðskiptanna verið gefinn út. Með tölvupósti stefnda hinn 25. júní 2018 hafi stefndi hafnað greiðslu reikningsins, en stefndi kannast ekki við að hafa móttekið vörur þessar. Stefnandi höfðar því mál þetta til að fá reikninginn greiddan, þar sem innheimtutilraunir hafi ekki tekist.

 

II

         Stefnandi krefst þess að stefndi greiði reikning þann er dagsettur sé 30. apríl 2018 að fjárhæð 2.004.522 kr. og móttekinn hjá stefnda 25. maí 2018. Krafan byggist á meginreglu kröfuréttarins um lögverndun kröfuréttar, sem og meginreglu samningaréttar og lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936. Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Upphafsdagur kröfu um greiðslu dráttarvaxta sé 26. júní 2018, eða mánuði eftir móttöku hans hjá stefnda.

 

III

Sýknukrafa stefnda byggist á því, að ekkert liggi fyrir um að vara sú, sem getið sé um á hinum umstefnda reikningi, hafi verið afhent stefnda. Eins og fram komi í framlögðum tölvupóstsamskiptum, milli stefnda og stefnanda annars vegar og hins evrópska umboðsaðila framleiðanda hins vegar, hafi töluverð vanhöld verið af hálfu stefnanda á að afhenda þær vörur sem stefndi hafði pantað á því tímabili sem reikningur stefnanda tekur til. Loksins þegar vörurnar hafi borist, hafi það oftar en ekki verið svo, að það hafi vantað upp á pöntun stefnda. Þá hafi það í nokkrum tilvikum verið svo að reikningar hafi ekki borist frá stefnanda fyrir þeim vörum sem pantaðar höfðu verið.

Stefndi bendir á að samhliða þeim reikningi sem hér sé til umfjöllunar, hafi stefnandi sent stefnda tvo aðra reikninga vegna vöru sem sögð hafi verið afhent tveimur og hálfu ári áður. Við eftirgrennslan af hálfu stefnda hafi verið unnt að staðreyna að vörur samkvæmt tveimur af þremur reikningum stefnanda hafi verið mótteknar. Þá hafi upplýsingum, sem aflað var frá Póstinum, um að vörur hafi verið afhentar á því tímamarki, borið saman við þessa niðurstöðu stefnda. Engin staðfesting liggi hins vegar fyrir um að vörur þær sem greindar séu á hinum umstefnda reikningi hafi verið afhentar.

Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt og alvarlegt kæruleysi og tómlæti, en hann hafi látið líða meira en tvö og hálft ár áður en hann hafi sent þá reikninga sem um sé fjallað í máli þessu. Tómlæti stefnanda og þau vanhöld sem verið hafi á afgreiðslu hans á pöntunum stefnda á þeim tíma sem um ræðir hafi gert stefnda mjög erfitt fyrir að staðreyna hvort vara hafi raunverulega verið afhent eða ekki. Vegna þessa alvarlega tómlætis telur stefndi að stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði fyrir því, að umrædd vara hafi verið afhent og móttekin af stefnda. Ekkert í máli þessu bendir hins vegar til þess, að hin umdeilda vara hafi verið afhent.

 

IV

            Í málinu krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum reikning að fjárhæð 2.004.522 kr., en reikningurinn er dagsettur 30. apríl 2018. Reikningurinn mun hafa verið vegna rekstrarvara sem stefndi pantaði 7. október 2015. Stefndi hefur hafnað greiðslu reikningsins þar sem hann telur ósannað, að stefnandi hafi afhent umræddar vörur.

            Í málinu liggur fyrir samningur stefnda nr. 6580, sem gerður var á grundvelli útboðs 14506. Samningurinn er um kaup stefnda á tækjum og rekstrarvörum fyrir  klamydíu- og lekandarannsóknir frá stefnanda fyrir sýklafræðideild stefnda. Helstu ákvæði samningsins er hér skipta máli eru þau, að samkvæmt 3. gr. samningsins bar stefnanda að afhenda vörurnar innan 24 klst. frá pöntun. Samkvæmt 5. gr. skuldbatt stefnandi sig til að halda birgðir af rekstrarvörum til 30 daga á lager hjá sér. Þá var í 7. gr. kveðið á um að gjalddagi og eindagi reiknings væri 30 dögum eftir lok úttektarmánaðar.

Samkvæmt stefnunni var pöntunin gerð 7. október 2015, en hinn umkrafði reikningur var ekki sendur fyrr en 30. apríl 2018 eða hátt í þremur árum síðar. Fyrir dómi bar starfsmaður stefnanda, að það hefði farist fyrir að senda reikninginn strax. Vörurnar hafi ekki verið til á lager hjá stefnanda og strax daginn eftir hafi stefnandi pantað þær frá hinum erlenda söluaðila. Þegar þær hafi komið til landsins hafi verið verkfall hjá tollstjóraembættinu og hafi stefnandi því þurft að fá neyðarleyfi vegna innflutningsins. Fyrir liggur í málinu, að samtímis því að stefnandi sendi reikning sinn 30. apríl 2018, hafi tveir aðrir reikningar vegna pantana sem gerðar höfðu verið af hálfu stefnda á svipuðum tíma (27/10 og 27/11) verið sendir til stefnda. Þeir reikningar hafi báðir verið greiddir þar sem hægt hafi verið að sýna fram á að þær pantanir hafi verið afhentar stefnda. Við aðalmeðferð málsins hélt stefnandi því fram, að hann hafi afhent vörur samkvæmt hinni umdeildu pöntun hinn 30. október 2015. Framlögð gögn stefnanda verða hins vegar ekki skilin á þennan veg, samanber til dæmis tölvupóst starfsmanns stefndanda frá 1. júní 2018 þar sem hún óskar eftir staðfestingu sýkladeildar, að sendingar hafi farið frá stefnanda 7.-10. október 2015 til sýkladeildarinnar. Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefndi því, sem nýrri málsástæðu, að vörurnar hefðu verið afhentar 30. október 2015. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki. Málsástæða þessi er því of seint fram komin.

Af gögnum málsins má ráða, að misbrestur hafi verið á því að allar rekstrarvörur sem stefndi pantaði hjá stefnanda hafi skilað sér til stefnda á réttum tíma samkvæmt samningi þeirra. Þá verður ekki hjá því litið að stefnanda bar að senda reikning vegna afhentra rekstrarvara við móttöku varanna eða eigi síðar en viku eftir dagsetningu úttektar, en ekki tæpum þremur árum seinna. Auðveldara hefði verið að upplýsa, hvort vörurnar hefðu verið afhentar, ef reikningurinn hefði borist á réttum tíma. Einnig er bent á, að stefndi greiddi hina tvo reikningana um leið og staðfesting var komin um að þær vörur hefðu verið afhentar. Það bendir til þess að greiðsluvilji sé til staðar hjá stefnda. Það sem mestu máli skiptir þó er að ósannað er að stefnandi hafi afhent vörur samkvæmt pöntuninni frá 7. október 2015. Stefnandi verður að bera hallann af því. Með vísan til þessa og þess mikla tómlætis sem stefnandi hefur sýnt við innheimtu reikningsins verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Landspítalinn, er sýknaður af kröfum stefnanda, Logalands ehf.

Stefnandi, Logaland ehf., greiði stefnda, Landspítalanum, 750.000 kr. í málskostnað.

Sigrún Guðmundsdóttir