• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2019 í máli nr. S-271/2019:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Gheorghe Cornel Ioan Fedorca

og

Gheorghe Preda

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 24. apríl sl. er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. mars 2019, á hendur Gheorghe Cornel Ioan, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík og Gheorghe Preda, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, fyrir þjófnað með því að hafa, föstudaginn 9. mars 2018, stolið í félagi af bar á Hótel Marina, að Mýrargötu 2 í Reykjavík, eftirtöldum vínflöskum að samtals áætluðu verðmæti 40.000 krónum:

 

Munanúmer:

Lýsing:

Fjöldi:

460023

Martins Miller, 700 ml.

1 stk.

460024

Bullet Bourbon, 700 ml.

1 stk.

460025

Plantation 3 star, 700 ml.

1 stk.

460026

Duck Fat Cognat, 700 ml.

1 stk.

460027

Rose Negroni, 700 ml.

1 stk.

 

            Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Ákærðu krefjast báðir vægustu refsingar sem lög leyfa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærðu komu báðir fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játuðu skýlaust brot sitt. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærðu eru sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og er brot þeirra réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

            Ákærði Gheorghe Cornel Ioan Fedorca er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 11. mars 2019, var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir þjófnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 12. febrúar 2016. Þá hlaut ákærði aftur dóm fyrir þjófnað með dómi sama dómstóls hinn 23. janúar 2017 og var þá dæmdur í 60 daga fangelsi. Nú síðast var ákærði svo dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 8. nóvember 2017. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð síðastnefnda dómsins og ber því að taka upp þá refsingu og gera ákærða refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Svo sem fyrr greinir hefur ákærði skýlaust játað brot sín og verður það virt honum til refsimildunar. Á hinn bóginn liggur fyrir að brot hans var framið í félagi við meðákærða Gheorghe Preda og verður því við ákvörðun refsingar jafnframt litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og greiðri játningu ákærða, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Að sakaferli ákærða virtum þykir ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

            Ákærði Gheorghe Preda er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 11. mars 2019, hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ákærði játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi og verður það virt honum til refsimildunar. Hins vegar liggur fyrir að brot hans var framið í félagi við meðákærða Gheorghe Cornel Ioan Fedorca og verður því við ákvörðun refsingar einnig litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Haukur Gunnarssonar saksóknarfulltrúi fyrir hönd Kristmundar Stefáns Einarssonar saksóknarfulltrúa.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

            Ákærði, Gheorghe Cornel Ioan Fedorca, sæti fangelsi í 90 daga.

            Ákærði, Gheorghe Preda, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

                                                   Þórhildur Líndal