• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2018 í máli nr. S-594/2017:

Ákæruvaldið

(Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Ásgeiri Aroni Ásgeirssyni

(Jón Bjarni Kristjánsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar 2018, er höfðað með tveimur ákærum, útgefnum af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ákæran var gefin út 17. október 2017, á hendur Ásgeiri Aroni Ásgeirssyni, kt. 000000-0000, Jónsgeisla 23, Reykjavík, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. september 2017, í hjólageymslu í húsnæði að Stelkshólum í Reykjavík, haft í vörslum sínum 163,65 g af marijúana og 18,96 g af amfetamíni og 15 stk. ecstacy töflur, en efnin fundust við leit lögreglu á vettvangi.

 

       Telst þetta varða við 1., sbr. 4. mgr. 2. gr., sbr. og 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á 163,65 g af marijúana og 18,96 g af amfetamíni og 15 stk. af ecstacy töflum samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974.

 

       Síðari ákæran var gefin út á hendur ákærða 30. janúar 2018, fyrir eftirtalin umferðar-, lyfja- og fíkniefnalagabrot:

 

I.

Fyrir umferðar-, lyfja- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni þriðjudagsins 1. ágúst 2017 ekið bifreiðinni PM307 eftir Hafnarfjarðarvegi, Garðabæ, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 765 ng/ml og metýlfenídat í blóði mældist 10 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn og fyrir að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum samtals 21,32 g af amfetamíni, 1,89 g af kannabisefnum, 3 ml af stungulyfinu nandrolon, 3 ml af stungulyfinu testesteron og 13 stykki af töflum af óþekktri tegund sem lögregla fann í bakpoka í farangursrými bifreiðarinnar.

 

       Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 20. gr., 32. gr. og 34. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, og 51. gr., sbr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.

 

II.

Fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 1. ágúst 2017 ekið bifreiðinni PM307 eftir Breiðholtsbraut vestan við Stekkjarbakka, Reykjavík, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 360 ng/ml, metýlfenídat í blóði mældist 20 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 1,2 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn og fyrir að hafa á sama tíma haft í vörslum sínum samtals 2,08 af kannabisefnum, 3 stykki af hvítum töflum af óþekktri tegund merktar U94, 6 stykki af hvítum hringlaga töflum af óþekktri tegund og 2,33 g af óþekktu efni sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.

 

       Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 4., sbr. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

 

III.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 20. ágúst 2017 ekið bifreiðinni PM307 norður Breiðholtsbraut, Reykjavík, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 300 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn.

 

       Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

IV.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi laugardagsins 2. september 2017 ekið bifreiðinni PM307 suður Ægisgötu, Reykjanesbæ, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 935 ng/ml, MDMA í blóði mældist 710 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 1,2 ng/ml) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn.

 

       Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerð verði upptæk framangreind 21,32 g af amfetamíni, 3,97 g af kannabisefnum samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974. Jafnframt að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á 3 ml af stungulyfinu Nandrolon, 3 ml af stungulyfinu Testesteron og 13 stykki af töflum af óþekktri tegund, 3 stykki af hvítum töflum af óþekktri tegund merktar U94, 6 stykki af hvítum hringlaga töflum af óþekktri tegund og 2,33 g af óþekktu efni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963.

 

       Þess er einnig krafist að ákærði verður dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

       Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

       Ákærði er fæddur í maí 1994. Sakaferill hans hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í málinu. Við ákvörðun refsingar verður hins vegar litið til umfangs þeirra ávana- og fíkniefna sem tilgreind eru í ákæru sem og greiðrar játningar ákærða.

       Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu 30 daga af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í tvö og hálft ár frá birtingu dóms þessa að telja.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 167,62 g af marijúana og 40,28 g af amfetamíni, 15 stk. ecstacy töflur, 3 ml af stungulyfinu Nandrolon, 3 ml af stungulyfinu Testesteron, 13 stykki af töflum af óþekktri tegund, 3 stykki af hvítum töflum af óþekktri tegund merktar U94, 6 stykki af hvítum hringlaga töflum af óþekktri tegund og 2,33 g af óþekktu efni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Bjarna Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 716.642 krónur í annan sakarkostnað.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Ásgeir Aron Ásgeirsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu 30 daga af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö og hálft ár frá birtingu dóms þessa að telja.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 167,62 g af marijúana og 40,28 g af amfetamíni, 15 stk. ecstacy töflur, 3 ml af stungulyfinu Nandrolon, 3 ml af stungulyfinu Testesteron, 13 stykki af töflum af óþekktri tegund, 3 stykki af hvítum töflum af óþekktri tegund merktar U94, 6 stykki af hvítum hringlaga töflum af óþekktri tegund og 2,33 g af óþekktu efni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Bjarna Kristjánssonar lögmanns, 126.480 krónur og 716.642 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir