• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2018 í máli nr. S-60/2018:

Ákæruvaldið

(Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

A

(Sævar Þór Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, 18. desember 2017, á hendur A... fyrir líkamsárás, með því að hafa, föstudaginn 3. apríl 2015, ráðist að B, og slegið hann ítrekað í andlitið, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut brot í augnbotnabeinum (augnumgjörð, kinnholu og augntóft) hægra megin, lausan beinbita innan kúpu innan við hægri augnumgjörð, sprungu, þ.e. ótilfært brot, í kinnholu auk þess sem gervitannagómur í efri góm brotnaði.(Mál nr. 007-2015-18208)

Er þetta talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá gerir brotaþoli kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 3. apríl 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 2. apríl 2015 hafi lögregla þann dag fengið boð um að fara að Hlemmi vegna brotaþola sem væri með áverka eftir líkamsárás, en sjúkrabifreið væri á leið á vettvang. Fram kemur að á vettvangi hafi brotaþoli verið ásamt vinahópi sínum og hafi hann verið í mjög slæmu ástandi sökum ölvunar. Tekið er fram að brotaþoli hafi neytt áfengis samfellt undanfarnar tvær til þrjár vikur. Jafnvægi hans hafi verið skert og hann hafi átt erfitt með tjáningu. Hann hafi verið bólginn hægra megin í andliti og sjá hafi mátt þurra blóðtauma í andlitinu. Mikil bólga hafi verið í kringum hægra auga. Brotaþoli hafi tjáð lögreglu að ákærði hefði ráðist á sig, en árásin hefði átt sér stað á heimili brotaþola. Hann hafi verið einn heima þegar þetta gerðist. Í frumskýrslu kemur fram að brotaþoli hafi verið fluttur á slysadeild og áverkar hans verið ljósmyndaðir. Ljósmyndirnar af brotaþola eru í frumskýrslu málsins.

Rituð hefur verið lögregluskýrsla, 29. mars 2015, í máli lögreglu nr. 007-2015-016959 þar sem fram kemur að 27. mars 2015, kl. 23.30, hafi ákærði verið skráður sem árásaraðili gagnvart brotaþola. Vettvangur hafi verið í stofu á heimili brotaþola að Austurbrún. Á slysadeild hafi verið teknar ljósmyndir af brotaþola, og fylgi þær frumskýrslunni. Tekið er fram að ljósmyndirnar sýni ekki áberandi áverka. Þó megi greina bólgur hægra megin í andliti.

Sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss hefur, 15. apríl 2015, ritað vottorð vegna komu brotaþola á slysadeild 4. apríl 2015. Í vottorðinu er tekið fram að brotaþoli hafi áður, eða 28. mars 2015, leitað á slysadeild vegna verkjar í hægri hluta andlits. Hafi hann sagt að hann hefði endurtekið verið kýldur í andlitið. Hann hafi komið aftur 31. sama mánaðar af sama tilefni. Í hvorugt skiptið hafi verið talin ástæða til frekari rannsókna. Brotaþoli hafi síðan komið 4. apríl og sagt að um nágranna sinn hafi verið að ræða en hann væri afbrýðissamur út í sig. Lemji hann brotaþola sífellt og endurtekið og alltaf á sama stað hægra megin í andlitið. Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að brotaþoli hafi ítrekað verið sleginn hægra megin  í andlitið. Um brot á augnbotnabeinum hafi verið að ræða. Hafi beinbiti verið laus og sprunga í kinnholu.

Sökum þess að nokkurrar ónákvæmni gætir í framburðum ákærða og vitna hjá lögreglu og fyrir dómi verður hér á eftir gerð nokkur grein fyrir framburðum bæði hjá lögrelgu og fyrir dómi.

Brotaþoli mætti á lögreglustöð 13. apríl 2015 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Lýsti brotaþoli því að hann ásamt vinkonu sinni hefði verið að drekka bjór í íbúð sinni einhvern dagana 2. til 4. apríl 2015. Ákærði hafi komið í heimsókn og brotaþoli boðið hann velkominn. Ákærði hafi ekki verið búinn að dvelja í íbúðinni nema í um 20 til 30 mínútur er hann hafi orðið mjög æstur og lyft hnefa og hótað að lemja vinkonu brotaþola. Brotaþoli hafi gengið á milli og ákærði þá slegið brotaþola þannig að hann hafi kinnbeinsbrotnað og þurft að fara á slysadeild vegna áverkans. Hann hafi rætt málið við ákærða eftir að af slysadeild og hafi ákærði þá afsakað sig. Hann hefði reiðst vinkonu brotaþola og ætlað að lemja hana en þar sem brotaþoli hefði gengið á milli hefði ákærði óvart lamið hann í staðinn. Er það var borið undir brotaþola að ákærði hefði greint frá því í skýrslutöku að hann hefði lamið brotaþola mörg högg í mars 2015 lýsti brotaþoli því að það væri annað mál. Hann hefði ekki fram kæru vegna þess. 

Tekin var lögregluskýrsla af vinkonu brotaþola 16. apríl 2016. Fram kom að vitnið væri vinkona brotaþola og færi hún oft heim til hans. Í lok mars 2015 hafi hún orðið vitni að því að ákærði hefði ráðist á brotaþola. Atburðurinn hefði átt sér stað í íbúð brotaþola. Vitnið, brotaþoli og ákærði hafi öll verið að drekka bjór. Ákærði og brotgaþoli hafi verið inni í eldhúsi að fá sér að borða. Er henni hafi verið litið inn í eldhús hafi hún séð ákærða halda brotaþola hálstaki. Hafi hún staðið upp og ákærði þá sleppt brotaþola en kýlt hann eitt hnefahögg. Hún myndi ekki eftir því hvort áverka hafi verið að sjá eftir höggið. Vitnið hafi hitt brotaþola 1. apríl 2015 og hefði hann þá ekki verið með neina áverka. Hún hafi síðan farið heim til brotaþola 3. apríl 2015 og þá hefði hann verið með mjög mikla áverka í andliti. Hún hafi spurt brotaþola hvað hefði gerst og hann sagt að ákærði hefði lamið sig. Vitnið hafi verið heima hjá brotaþola þessa nótt og þau farið næsta dag á Hlemm. Þar sem brotaþoli hafi verið óstöðugur hafi hún hringt á sjúkrabifreið. Þá hafi lögreglumenn komið á staðinn. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að líkamsárásinni 3. apríl 2015.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 6. apríl 2015. Við það tækifæri greindi hann frá því að í mars 2015, í máli lögreglu nr. 007-2015-16959, hafi hann verið nýsofnaður heima hjá sér þegar bankað hafi verið. Klukkan hafi verið um tvö eftir miðnætti. Hann hafi farið til dyra og brotaþoli og vinkona hans verið fyrir utan. Ákærði hafi reiðst og ráðist á brotaþola þar sem brotaþoli hafi setið í sófa í stofunni. Hann hafi slegið brotaþola nokkur högg í andlitið. Höggin hafi verið fimm til sex. Eftir þetta hafi hann tekið brotaþola kverkataki og nærri verið búinn að kyrkja hann. Hann hafi svo sleppt takinu. Brotaþoli hafi síðan komið til ákærða 5. apríl 2015 og þá verið bólginn í andliti og rauður í framan. Brotaþoli hefði þá beðist afsökunar á því að hafa vakið ákærða þarna um nóttina þegar hann og vinkona hans hefðu komið í heimsókn. Er borið var undir ákærða hvort það gæti verið að hann hefði valdið brotaþola þeim áverkum er hann hefði greinst með 4. apríl 2015, kvað ákærði það vel geta verið.

Er ákærði kom fyrir dóm greindi hann svo frá að hann hefði eitt sinn, vorið 2015, verið á dagvakt. Hafi hann komið heim rúmlega kl. 16.00 og ákveðið að fara að sofa tímanlega. Klukkan 23.45 um kvöldið hafi hann vaknað við að bankað hafi verið á hurð íbúðar hans og brotaþoli og vinkona hans verið þar komin. Hann hafi sagt þeim að fara því hann þyrfti að vakna næsta morgun og beðið þau um að ónáða sig ekki. Þau hefðu farið en klukkan 00.10 eftir miðnættið hefðu þau hringt dyrabjöllunni. Hann hefði sagt brotaþola að hann þyrfti hvíld. Ákærði hafi orðið reiður yfir einhverju sem vinkona brotaþola hefði sagt og ætlað að slá hana en þar sem brotaþoli hafi gengið á milli þeirra hafi ákærði slegið hann eitt hnefahögg. Höggið hefði lent á hægra gagnauga brotaþola. Hafi þetta verið eina tilvikið þar sem ákærði hafi ráðist á brotaþola. Nágrannar hefðu komið brotaþola til aðstoðar. Ákærði hefði ekki séð hvort einhverjir áverkar hefðu verið á brotaþola. Umrætt tilvik hafi verið í apríl 2015.

Brotaþoli lýsti atvikum þannig fyrir dómi að ákærði hafi komið á heimili hans. Ákærði hefði verið afbrýðissamur út í brotaþola vegna vinkonu brotaþola. Hann hafi tekið brotaþola kverkataki og í framhaldi lamið hann með krepptum hnefa í andlitið. Um fleiri högg en eitt hafi verið að ræða og hafi brotaþoli ekkert gert á móti. Atvik hafi átt sér stað um miðnættið og hafi brotaþoli verið lítillega drukkinn þetta kvöld. Vinkona hans hafi verið á staðnum og hafi þau farið rakleitt á spítala í framhaldi atburða. Áverkinn hafi verið mikill og haft áhrif á daglegt líf brotaþola. Ákærði hafi áður ráðist á brotaþola og hafi hann þá einnig lamið brotaþola í andlitið. Er þetta hafi gerst  hafi hann verið einn heima með ákærða. Hann hafi ekki fengið mikla áverka þá og ekki leitað á slysadeild vegna þess tilviks.

Vinkona brotaþola lýsti því fyrir dómi að hún hafi verið heima hjá brotaþola, 3. apríl 2015. Ákærði hafi einnig verið þar drukkinn. Hann og brotaþoli hafi farið að rífast. Hún hafi snúið baki í þá en er hún hafi snúið sér við hafi hún séð ákærða taka brotaþola hálstaki. Þetta atvik hafi verið að kvöldi til og hún hafi ekki tekið eftir áverkum á andliti brotaþola. Tveimur til þremur dögum síðar hafi brotaþoli hringt og sagt að ákærði hefði lamið sig. Hafi hún hitt brotaþola við Hlemm. Hún hafi hringt á sjúkrabifreið og þau farið saman á slysadeild. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hefði ráðist á sig og kýlt sig.

Tveir nágrannar brotaþola komu fyrir dóminn og lýstu því að þeir hefðu komið í íbúð brotaþola á vormánuðum 2015. Íbúð brotaþola hafi verið óvenjulega sóðaleg og brotaþoli verið með samkvæmi. Vitnin mundu ekki eftir ummerkjum um átök í íbúðinni. Eitthvað blóð hafi verið á gólfi.

Fyrir dóminn kom læknir er ritaði læknisvottorð vegna brotaþola. Þá komu fyrir dóminn lögreglumenn er unnu að rannsókn málsins.       

 

            Niðurstaða:

            Ákærða er gefin að sök líkamsárás með því að hafa slegið brotaþola innandyra á heimili brotaþola föstudaginn 3. apríl 2015. Er í ákæru miðað við að ákærði hafi slegið brotaþola ítrekað í andlitið, allt með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Er háttsemin talin varða við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

            Ákærði neitar sök. Hann hefur viðurkennt að hafa fyrir þennan dag ráðist á brotaþola á heimili hans og kýlt hann. Vinkona brotaþola hafi þá verið á staðnum. Vinkona brotaþola hefur einnig lýst þessari sömu árás, sem hún hafi orðið vitni að. Brotaþoli lýsir einnig þessari árás. Verður ráðið af rannsóknargögnum að myndir úr lögreglumáli nr. 007-2015-16959 tengist þeirri árás. Brotaþoli hlaut ekki mikla áverka í því tilviki en hann ber hins vegar að um tvær árásir af hálfu ákærða hafi verið að ræða.

            Miðað við framburði ákærða, brotaþola og vitna virðist nokkuð ljóst að einungis brotaþoli ber um þá árás sem í ákæru greinir. Af henni hlutust miklir áverkar. Brotaþoli hitti vinkonu sína á Hlemmi, væntanlega daginn eftir árásina, og aðstoðaði hún við að koma brotaþola á slysadeild. Ljósmyndir af þessum miklu áverkum eru í rannsóknargögnum málsins. Svo sem fyrr greinir hefur ákærði synjað fyrir þessa líkamsárás. Er þá engum vitnum til að dreifa að þessari árás og því í raun orð á móti orði. Með hliðsjón af því og reglum laga nr. 88/2008 um að allan vafa beri að virða sakborningi í hag telur dómurinn ósannað að ákærði hafi valdið brotaþola þeim áverkum sem í ákæru greinir. Verður ákærði því sýknaður.

            Með vísan til þessarar niðurstöðu verður skaðabótakröfu brotaþola vísað frá dómi.

            Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar er mælt fyrir um í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.    

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Einarsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, A, er sýkn af kröfum ákæruvalds.

            Skaðabótakröfu B er vísað frá dómi. 

            Úr ríkissjóði greiðist allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sævars Þórs Jónssonar lögmanns, 832.660 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason