• Lykilorð:
  • Skilorð
  • Tilraun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2019 í máli nr. S-283/2019:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Yngva Páli Þorfinnssyni

(Björgvin Jónsson lögmaður)

 

       Mál þetta, sem dómtekið var 2. maí síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 19. mars síðastliðinn, á hendur Yngva Páli Þorfinnssyni, kt. 000000-0000, [...], [...], „fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin á árinu 2016:

 

I.

Tilraun til fjársvika með því að hafa, mánudaginn 31. október, hringt úr símanúmerinu [...] í [...], kt. 000000-0000, símanúmer [...], og í blekkingarskyni reynt að hafa af henni fé með því að krefja hana um greiðslu á ógreiddri húsaleigu sonar hennar, en ákærði vakti ranga hugmynd hjá brotaþola um skuldina sem var uppspuni ákærða.

 

       Telst brot þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Tilraun til fjársvika með því að hafa, mánudaginn 31. október og miðvikudaginn 2. nóvember, hringt úr símanúmerinu [...] í [...], kt. 000000-0000, símanúmer [...], og í blekkingarskyni reynt að hafa af henni fé með því að krefja hana um greiðslu á fíkniefnaskuld sonar hennar að fjárhæð 800.000 kr., en ákærði vakti ranga hugmynd hjá brotaþola um skuldina sem var uppspuni ákærða.

 

       Telst brot þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

Tilraun til fjársvika með því að hafa, þriðjudaginn 1. nóvember, hringt úr símanúmerinu [...] í C, kt. 000000-0000, símanúmer [...], og í blekkingarskyni reynt að hafa af henni fé með því að krefja hana um greiðslu á skuld látins föður hennar vegna þjónustukaupa við [...] að upphæð 760.000 kr., en ákærði vakti ranga hugmynd hjá brotaþola um skuldina sem var uppspuni ákærða.

 

Telst brot þetta varða við 248. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

IV.

---------------------------------------------------------------------------

V.

Tilraun til fjárkúgunar með því að hafa, í nóvember og desember, reynt að hafa fé af D, kt. 000000-0000, með hótunum um að tilkynna til lögreglu um að hún hefði ekið á barn og stungið af frá vettvangi, en atvik þetta var uppspuni ákærða. Ákærði hringdi úr símanúmerinu [...] í brotaþola miðvikudaginn 30. nóvember, símanúmer [...], og kvaðst vera lögmaður fjölskyldu barnsins og væri tilbúinn til þess að tilkynna ekki um málið til lögreglu gegn því að brotaþoli greiddi 350.000 kr., og í kjölfarið mælt sér mót við brotaþola á heimili hennar, að [...] í Reykjavík, föstudaginn 2. desember, til að taka við greiðslunni, og er hann kom þangað var ákærði handtekinn af lögreglu.

 

       Telst brot þetta varða við 251. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

VI.

Tilraun til fjárkúgunar með því að hafa, fimmtudaginn 1. desember, reynt að hafa fé af [...], kt. 000000-0000, með hótunum um að tilkynna til lögreglu um að hún hefði ekið á barn og stungið af frá vettvangi, en atvik þetta var uppspuni ákærða. Ákærði hringdi úr símanúmerinu [...] í brotaþola miðvikudaginn 1. desember, símanúmer [...], og kvaðst vera lögmaður fjölskyldu barnsins og væri tilbúinn til þess að tilkynna ekki um málið til lögreglu gegn því að brotaþoli greiddi foreldrum barnsins peningafjárhæð.

 

       Telst brot þetta varða við 251. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

     Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

       Ákæruvaldið féll frá saksókn fyrir það sem ákærða var gefið að sök í IV. kafla ákæru.

       Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærunni, svo breyttri, og er játning hans studd sakargögnum. Það eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

       Refsing hans verður ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og er hún hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um lögbrot. Í öllum tilvikum er um tilraunabrot að ræða og hlaust ekkert fjártjón af verknaði ákærða. Hann hefur játað brot sín og sótt sér aðstoð vegna þessa. Að þessu athuguðu verður refsingin skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir. Komi til afplánunar skal gæsluvarðahaldsvist koma til frádráttar eins og í dómsorði greinir.

       Verjandi ákærða krefst ekki málsvarnarþóknunar.

      

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Ingvi Páll Þorfinnsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til afplánunar refsingarinnar skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 2. til 9. desember 2016 koma refsingunni til frádráttar.

                                                                                                

Arngrímur Ísberg