• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. S-660/2017:

Ákæruvaldið

(Kári Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Birni Má Sigfússyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní sl., er höfðað með tveimur ákærum, útgefnum af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ákæran var gefin út 21. nóvember 2017, á hendur Birni Má Sigfússyni, kt. 000000-0000, Dvergaborgum 5, Reykjavík, fyrir eftirfarandi umferðarlagabrot:

 

1. Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. maí 2017, ekið bifreiðinni [---] án þess að hafa öðlast ökuréttindi og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi) eftir Hafnarfjarðarvegi við Fífuhvammsveg í Garðabæ, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

2. Með því að hafa laugardaginn 9. september 2017, ekið bifreiðinni [---] án þess að hafa öðlast ökuréttindi og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi) eftir Skeifunni í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

 

            Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

            Síðari ákæran er gefin út á hendur ákærða 12. júní 2018, fyrir eftirfarandi umferðarlagabrot:

 

I.

Með því að hafa mánudaginn 23. október 2017 ekið bifreiðinni [---], án þess að hafa öðlast ökuréttindi, um Hringbraut við Birkihvamm uns lögregla gerði ákærða að stöðva aksturinn.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

Með því að hafa föstudaginn 1. desember 2017 ekið bifreiðinni [---], án þess að hafa öðlast ökuréttindi, um Háaleitisbraut við Hvassaleiti uns lögregla gerði ákærða að stöðva aksturinn.

 

            Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur  til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í ágúst 1993. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 14. nóvember 2017, hefur honum í tvígang áður verið gerð sektarrefsing með lögreglustjórasátt vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Annars vegar 21. september 2012 og hins vegar 13. febrúar 2013. Þá gekkst ákærði undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt, 5. júlí 2017, fyrir brot gegn 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Það brot sem ákærði er nú sakfelldur fyrir samkvæmt 1. tölulið fyrri ákæru var framið fyrir gerð sáttarinnar og verður ákærða því dæmdur hegningarauki hvað það brot varðar í samræmi við ákvæði 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli.

Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni málsins og að virtri 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru, einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 168.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 153.942 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Björn Már Sigfússon, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 168.640 krónur, og 153.974 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir