• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl
  • Skaðabætur
  • Vanreifun

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2018 í máli nr. E-1335/2017:

Oddný Hanna Helgadóttir

(Páll Kristjánsson lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Gísli Örn Reynisson Schramm lögmaður)

 

                                                               I

       Mál þetta, sem var dómtekið 15. mars 2018, var höfðað 19. apríl 2017 af Oddnýju Hönnu Helgadóttur, Lundarbrekku 6 í Kópavogi, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík.

       Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hennar til fullra bóta úr slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar MH-025 vegna líkamstjóns sem hún hlaut í umferðarslysi 1. ágúst 2014. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda.

       Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

       Stefndi féll frá frávísunarkröfu sinni við fyrirtöku málsins 12. desember 2017.

                                                              II

       Stefnandi, sem var ökumaður bifreiðarinnar MH-025, lenti í umferðarslysi á þjóðvegi 1 í námunda við Hvammstanga 1. ágúst 2014. Samkvæmt lögregluskýrslu varð slysið um klukkan 15:47, með þeim hætti að bifreið stefnanda var ekið aftan á aðra bifreið sem ók á undan henni. Stefnandi kveður þá bifreið sem hún ók á hafa hemlað skyndilega og hún ekki náð að hægja á bifreið sinni sem skall aftan á þeirri fremri. Stefndi taldi tjón á bifreið stefnanda vera umfram verðgildi bifreiðarinnar og fékk hún greiðslu því til samræmis. Stefnandi var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi og fékk morfín til verkjastillingar á leiðinni. Samkvæmt áverkavottorði Jóns Baldurssonar, sérfræðings í bráðalækningum, fór fram ítarleg skoðun á stefnanda við komu á bráðadeild og voru teknar röntgenmyndir af mjaðmagrind og hægra hné. Tekið var fram að hálsinn hefði verið eymslalaus og hreyfigeta verið eðlileg. Þá hafi ekki verið að finna eymsli í baki, brjóstkassa eða kvið. Röntgenmyndir sýndu hvorki brot né beináverka. Stefnandi var greind með yfirborðsáverka á vinstri mjöðm og hægra hné. Hún var útskrifuð og ávísað verkjalyfi.

       Fyrir liggur að stefnandi leitaði aftur á bráðadeild Landspítalans 10. ágúst 2014. Samkvæmt fyrrgreindu áverkavottorði Jóns Baldurssonar fann stefnandi þá fyrir óþægindum neðarlega í kviði. Ekki fannst skýring á verkjum stefnanda en læknirinn taldi útilokað að þeir tengdust bílslysinu.

       Stefnandi leitaði næst til heimilislæknisins Björns Guðmundssonar í maí 2015. Fram kemur í vottorði læknisins frá 22. febrúar 2016 að stefnandi hafi leitað til göngudeildar Landspítalans 10. ágúst 2014 „þá reyndar meira kviðarholseinkenni mögulega talin tengjast bílslysinu en ekkert fannst sérstakt og útskrifuð, greining bakverkur og annar og ótilgreindur kviðverkur“. Það var mat heimilislæknisins, sem skoðaði stefnanda 22. maí 2015, að hún hefði í umferðarslysinu 1. ágúst 2014 „greinilega fengið hálshnykk“ því hún hefði „verið að fá verki í hálsinn af og til, kemur í köstum og nú eitt slíkt kast. Staðið í 2 vikur, aumir stífir vöðvar vinstra megin og skertur hreyfanleiki í hálsliðunum.“ Hvað varðar sjúkrasögu stefnanda og stoðkerfiseinkenni kom fram í læknisvottorðinu að hún hefði fætt dreng í júlí 2013 og fundið fyrir nokkurri vöðvabólgu í lok meðgöngunnar, auk þess sem hún hefði meiðst á snjóbretti 15. febrúar 2014 en það liðið tiltölulega fljótt hjá. Tekið var fram að í kjölfar umferðarslyssins 10. ágúst 2014 mætti reikna með að stefnandi hefði einhver „óþægindi í hálsi fyrstu árin þó þau verði ekki viðvarandi“. Fram kom í læknisvottorðinu að stefnandi hefði verið send í sjúkraþjálfun og liggur fyrir beiðni heimilislæknisins til Sjúkratrygginga Íslands frá 22. maí 2015. Segir þar meðal annars að stefnandi hafi lent í umferðarslysi og fengið „verki í hálsinn eftir þetta og þá gjarnan höfuðverkur sem fylgir. Nú slæm vi megin og staðið í tvær vikur. Verulega stífir og aumir vöðvar vi megin á hálsi og niður að herðablaði.“ Fyrir liggur að stefnandi leitaði ekki til sjúkraþjálfara og kveður hún fjárhagslega erfiðleika einkum hafa ráðið því. Hún kveðst hafa farið í sund, heita potta og nudd.

       Lögmaður stefnanda sendi stefnda tölvuskeyti 25. febrúar 2016 og lagði til að afleiðingar slyssins yrðu metnar. Stefndi hafnaði því 1. mars 2016 þar sem ekki væru orsakatengsl á milli núverandi einkenna stefnanda og umferðarslyssins. Tekið var fram að stefnandi hefði á slysdegi verið greind með yfirborðsáverka á mjöðm og hægra hné, en í maí 2015 væri hún greind með hálstognun. Samdægurs barst nánari rökstuðningur frá lögmanni stefnanda og var lagt til að stefndi stæði undir kostnaði við öflun vottorðs sérfræðilæknis. Af hálfu stefnda var fyrri afstaða ítrekuð og tekið fram að ekki yrði séð af samtíma læknisfræðilegum gögnum að orsakatengsl væru á milli einkenna stefnanda í hálsi og umferðarslyssins. Gæti skoðun sérfræðilæknis á stefnanda ekki haft þýðingu í þeim efnum.

                                                              III

Málsástæður stefnanda

       Stefnandi byggir á því að núverandi einkenni hennar í mjöðm, baki og hálsi megi rekja til umferðarslyssins 1. ágúst 2014. Hún hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og beri stefnda að bæta tjón hennar úr slysatryggingu ökumanns, sbr. 1. og 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Byggt er á því að fyrirliggjandi gögn sýni fram á að orsakatengsl séu á milli slyssins og einkenna stefnanda. Stefnandi bendir sérstaklega á áverkavottorð Jóns Baldurssonar, sérfræðings í bráðalækningum, og lýsingar stefnanda á eymslum í kjölfar slyssins. Þá er lögð áhersla á að Björn Guðmundsson, heimilislæknir stefnanda, hafi staðfest áverka hennar og það líkamstjón sem hún búi enn að. Staðfesti gögn málsins að orsakatengsl séu fyrir hendi, en ekkert annað í sjúkrasögu stefnanda skýri einkenni hennar. Jafnframt er vísað til þess að einkenni stefnanda samræmist því hvernig slysið atvikaðist. Áreksturinn hafi verið svo harður að báðar bifreiðir hafi orðið fyrir verulegu tjóni og megi ætla að ökumenn og farþegar geti beðið varanlegan skaða af.

Málsástæður stefnda

       Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að orsakatengsl á milli þeirra líkamseinkenna sem hrjá stefnanda og umferðarslyssins séu ósönnuð. Sönnunarbyrðin hvíli á stefnanda og verði ráðið af dómaframkvæmd að það nægi ekki að orsakatengsl geti hugsanlega verið til staðar. Skorti verulega á að gögn málsins beri með sér að meiri líkur en minni séu á því að stefnandi hafi hlotið varanleg einkenni í umferðarslysinu. Engin samtímagögn liggi fyrir í málinu sem styðji á nokkurn hátt þá fullyrðingu stefnanda að þau líkamlegu einkenni sem hún kvarti undan í dag megi rekja til umferðarslyssins í ágúst 2014.

       Stefndi leggur áherslu á að þrátt fyrir ítarlega skoðun Jóns Baldurssonar, sérfræðings í bráðalækningum, hafi stefnandi aðeins verið greind með smávægileg einkenni á mjöðm og hné á slysdegi. Þá hafi þess sérstaklega verið getið í vottorði læknisins að við skoðun væri hálsinn eymslalaus og eðlileg hreyfigeta. Séu engar frekari kvartanir eða komur skráðar vegna þessara einkenna og hafi verið talið útilokað að einkenni sem stefnandi kvartaði yfir við komu á bráðadeild 10. ágúst 2014 væru afleiðing umferðarslyssins. Þá hafi stefnandi fyrst minnst á einkenni frá hálsi við skoðun hjá heimilislækninum Birni Guðmundssyni 22. maí 2015 eða tæpum tíu mánuðum eftir umferðarslysið. Þrátt fyrir það telji læknirinn sig geta staðfest að einkenni stefnanda í hálsi sé að rekja til óhappsins, en rökstuðningur fyrir þessu sé í raun enginn og alls óljóst hvernig læknirinn hafi getað komist að þeirri niðurstöðu. Því er mótmælt að umrætt vottorð geti verið fullnægjandi sönnun þess að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í umferðarslysinu. Vottorðið byggi á einhliða frásögn stefnanda og dugi ekki til sönnunar á orsakatengslum. Til nánari stuðnings vísar stefndi til upplýsingabæklings slysa- og bráðasviðs Landspítalans um hálstognun þar sem meðal annars segi að fyrstu einkenni hálstognunar komi fram nokkrum klukkustundum eftir áverkann. Geti einkennin verið lítil í byrjun, en svo versnað fyrstu dagana eftir slys. Nái flestir sér að fullu, en séu einkennin ekki að mestu horfin eftir þrjár til fjórar vikur frá slysi sé ráðlagt að panta tíma til frekari skoðunar. Í tilviki stefnanda hafi hins vegar liðið tæpir tíu mánuðir frá því að slysið varð og þar til að hún leitaði fyrst til læknis vegna einkenna í hálsi. Ekkert útskýri þetta og sé því nærtækast að draga þá ályktun að stefnandi hafi ekki hlotið tognun í hálsi í umferðarslysinu, enda geti ýmislegt gerst á tæpum tíu mánuðum sem geti orsakað einkenni stefnanda þótt þess sé ekki getið í sjúkraskrá hennar.

       Stefndi bendir jafnframt á að þó að um harðan árekstur hafi verið að ræða sé ekki sjálfgefið að líkamstjón hljótist af. Þurfi til að mynda töluvert meiri krafta til að ökumaður eða farþegar í bifreið sem ekið er aftan á aðra bifreið verði fyrir líkamstjóni en hjá þeim sem eru í fremri bifreiðinni. Þá séu hálstognanir ólíklegri hjá þeim sem eru í aftari bifreiðinni.

                                                              IV

       Aðilar deila um hvort sýnt sé fram á að umferðarslysið sem stefnandi lenti í 1. ágúst 2014 hafi leitt til þeirra líkamlegu einkenna sem eru tilefni kröfugerðar hennar á hendur stefnda. Samkvæmt stefnu eru núverandi líkamleg einkenni sem stefnandi telur mega rekja til umferðarslyssins „á mjöðm, baki og hálsi“. Einkennum stefnanda í aðilaskýrslu var lýst þannig að hún fengi reglulega „slæma hálsrígi sem leiði niður í öxl og í bak“. Ekki var minnst á eymsli í mjöðm og verður ekki ráðið af gögnum málsins að slíkt sé meðal núverandi einkenna. Samkvæmt þessu er málatilbúnaður stefnanda um þau einkenni sem hún telur hafa orsakast af umferðarslysinu ekki fyllilega skýr. Þá er til þess að líta að stefnandi, sem ber sönnunarbyrðina fyrir því að orsakatengsl séu til staðar, styður kröfu sína við áverkavottorð Jóns Baldurssonar, sérfræðings í bráðalækningum, og læknisvottorð heimilislæknisins Björns Guðmundssonar sem hún leitaði til tæpum tíu mánuðum eftir slysdag. Ekki hafa verið lögð fyrir dóminn önnur gögn sem varða einkenni stefnanda í kjölfar slyssins eða sem stutt geta orsakatengsl, svo sem skráningar lækna í sjúkraskrá í tilefni af komu stefnanda á Landspítalann 1. og 10. ágúst 2014.

       Þau læknisvottorð sem stefnandi grundvallar kröfu sína á eru að vissu leyti misvísandi um kvartanir stefnanda og greiningar við komu á Landspítalann tíu dögum eftir slysið þann 10. ágúst 2014. Þannig segir í læknisvottorði Björns Guðmundssonar, sem er að þessu leyti endursögn byggð á skráningum í sjúkraskrá stefnanda vegna komu á Landspítalann þennan dag, að greining hafi verið „bakverkur“ og annar ótilgreindur kviðverkur. Aftur á móti er ekki gerð grein fyrir því í fyrirliggjandi áverkavottorði Jóns Baldurssonar, sérfræðings í bráðalækningum, að stefnandi hafi verið greind með bakverk umræddan dag, heldur eingöngu vikið að verkjum sem hún kvartaði undan neðarlega í kvið. Óljóst er hver ástæða þessa er og gaf læknirinn ekki skýrslu fyrir dómi. Telur dómurinn samkvæmt þessu óskýrt, eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað, hver atvik voru þegar stefnandi leitaði á göngudeild Landspítalans tíu dögum eftir slysið.

       Málsástæður stefnanda eru jafnframt að ákveðnu leyti þversagnakenndar þar sem það virðist byggt á því að greining á bakverk hjá stefnanda tíu dögum eftir slysið styðji orsakatengsl á milli núverandi einkenna og umferðarslyssins. Aftur á móti er í stefnu sérstaklega vísað til áverkavottorðs Jóns Baldurssonar til stuðnings orsakatengslum, en þar er, sem áður greinir, ekki vikið að kvörtun um bakverk eða greiningu á slíku heldur öðrum einkennum. Líkt og áður greinir hefur stefnandi hvorki lagt fram samtímagögn, sem þó virðast vera til staðar, þannig að unnt sé að taka afstöðu til þess hvernig atvikum var háttað né aflað frekari gagna sem mögulega gætu stutt þá staðhæfingu hennar að orsakatengslum sé til að dreifa.

       Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn málatilbúnað stefnanda verulega vanreifaðan og röksemdir ekki svo glöggar að unnt sé að leggja dóm á kröfu hennar. Fer málatilbúnaður stefnanda í bága við e-lið 1 mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður málinu því vísað af sjálfsdáðum frá dómi.

       Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

       Úrskurð þennan kveður upp Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari ásamt Þórði Clausen héraðsdómara og Halldóri Baldurssyni bæklunarlækni.

      

                                                Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

       Máli þessu er vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

       Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)

                                                                                    Þórður Clausen (sign.)

                                                                                    Halldór Baldursson (sign.)