• Lykilorð:
  • Ábyrgð
  • Lagarök
  • Samningur
  • Skaðabótamál, eignatjón

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2018 í máli nr. E-2249/2017:

A

(Björn Líndal lögmaður)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 14. júní 2018, var höfðað 27. júní 2017 af hálfu A, [..., ...],, á hendur einkahlutafélaginu X, [..., ...],, til greiðslu skaðabóta vegna fjártjóns.

Stefnandi gerir endanlega þær dómkröfur að stefndi verið dæmdur til þess að greiða honum aðallega 944.824 krónur, en til vara 528.300 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi átti slöngubát með utanborðsmótor ásamt segldúk. Þessir munir voru yfir vetrartímann geymdir í geymsluhúsnæði í eigu stefnda, í þriðja sinn veturinn 2016-2017. Húsnæðið er steinsteypt geymsla sem er opið rými og ekki hólfað niður eða skipt á annan hátt. Á geymslunni eru tvær hurðir, önnur stór og hin minni. Um páska 2017 hringdi fyrirsvarsmaður stefnda í stefnanda og tilkynnti honum að brotist hefði verið inn í geymsluna og bátnum ásamt mótor og segldúk hefði verið stolið. Fylgdi það sögunni að þetta hefði verið það eina sem stolið var. Fyrirsvarsmaður stefnda kærði þjófnaðinn til lögreglu. Rannsókn lögreglu leiddi ekki í ljós hver stal eigum stefnanda. Hvorki öryggismyndavélar né önnur öryggiskerfi munu hafa verið í húsnæðinu.

Stefnandi telur stefnda hafa borið ábyrgð á mununum sem hann hafi tekið til geymslu og krefur hann í máli þessu um greiðslu andvirðis hinna stolnu muna. Stefndi hafnar greiðsluskyldu, vísar til samnings aðila og kveðst hafa leigt stefnanda geymslurými undir bát. Húsnæðið sé leigt án þjónustu til margra aðila í senn sem vetrargeymsla fyrir ýmis tæki en ekki sé um eiginlega geymslu á lausafjármunum að ræða. Það sé stefnda í raun óviðkomandi undir hvað hver og einn leigutaki nýti sitt leigurými. Fjárhæð leigunnar miðist við það gólfpláss sem tæki taki og beri leigutaka samkvæmt samningi að tryggja tæki sitt gegn öllu hugsanlegu tjóni á leigutímanum.

Við upphaf leigutíma stefnanda framvísaði fyrirsvarsmaður stefnda samningi sem bar yfirskriftina: Húsaleigusamningur um geymsluhúsnæði. Í samningnum kom fram að um tímabundinn samning væri að ræða sem byggði á lögum nr. 36/1994. Fyrsti húsaleigusamningur um geymsluhúsnæði til að geyma bát var gerður milli aðila 11. október árið 2014. Leigutími var frá hausti fram til byrjun maímánaðar ár hvert og var leigusamningur aðila endurnýjaður þriðja árið í röð 24. september 2016. Í samningi aðila lýsir stefndi geymslunni sem nýbyggingu sem sé tæplega fokheld og leigð sem vetrargeymsla. Geymslu bátsins var þannig háttað að fyrirsvarsmaður stefnda hringdi í stefnanda að vori til og tilkynnti honum að nú væri hann að tæma geymsluna og sótti þá stefnandi bátinn. Að hausti til sammæltust aðilar svo um það hvenær stefndi tæki við bátnum. Bátnum var komið fyrir inni í geymslunni innan um ýmislegt lausafé, eins og fellihýsi, tjaldvagna, báta og annað slíkt, og kveður stefnandi það hafa verið örðugleikum háð fyrir sig að nálgast bátinn, eftir að honum hafði verið komið fyrir að hausti til, fyrr en um vorið. Stefnandi hafði engan lykil að geymslunni né annan frjálsan aðgang. Kveðst hann ekki hafa getað nálgast bátinn sjálfur eða sinnt honum á annan hátt með viðgerðum eða viðhaldi yfir vetrartímann, þar sem fulltrúi stefnda hafi verið sá eini sem haft hafi lyklavöld að geymslunni.

Lausafjármunir stefnanda voru, þegar þeim var stolið, ekki tryggðir gegn slíku tjóni. Báturinn var svokallaður slöngubátur af Quicksilver-gerð, 4,20 metrar á lengd. Á honum var segl/yfirbreiðsla og utanborðsmótor af Suzuki-gerð, 30 hestafla. Bátur og mótor voru keyptir á árinu 2010 og voru þá um tveggja ára gamlir. Í maí 2017 keypti stefnandi nýjan slöngubát og notaðan utanborðsmótor, auk segldúks. Endanleg aðalkrafa stefnanda tekur mið af kaupverði báts og segls og verði á nýjum mótor af sömu tegund, en með frádrætti um 30%, sem stefnandi reiknar í afslátt vegna þess að hinir horfnu munir voru notaðir. Við meðferð málsins var Y, bifvélavirkjameistari og verkstæðisformaður hjá [...]

, dómkvaddur að beiðni stefnanda til að meta verðmæti hinna horfnu muna. Gaf matsmaðurinn skýrslu fyrir dómi, sbr. 65. gr. laga 91/1991, þann 1. mars sl. og skýrði frá niðurstöðum matsvinnu sinnar. Var það niðurstaða hans að verðmæti báts væri 350.000 krónur og verðmæti mótors 150.000 krónur. Varakrafa stefnanda byggir á verðmati dómkvadda matsmannsins á bát og mótor og kaupverði segldúks.

Við aðalmeðferð málsins gaf Z, fyrirsvarsmaður stefnda, skýrslu fyrir dóminum.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefndi hafi tekið að sér að geyma fyrir stefnanda bát ásamt utanborðsmótor haustið 2016. Stefndi geti ekki afhent stefnanda bátinn og eigi hann því að bæta honum tjónið. Stefndi hafi atvinnu af því að geyma lausafé eins og tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og sambærileg farartæki. Geymsla þeirra sé á hans ábyrgð meðan hann hafi ekki afhent hlutina eigendum þeirra. Bátur stefnanda hafi verið í vörslum stefnda þegar stefndi heldur því fram að honum hafi verið stolið síðla vetrar 2017 og geri það ábyrgð stefnda víðtækari en ella að hann sinni umræddri þjónustu í atvinnuskyni.

Um þessa starfsemi stefnda fari samkvæmt lögum nr. 42/2000, um þjónustukaup. Samkvæmt 1. gr. laganna taki þau til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem veitt sé einstaklingum í atvinnuskyni. Sérstaklega sé tekið fram í 3. tölul. 1. gr. að lögin eigi við um þjónustu sem feli í sér geymslu á lausafjármunum. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um þjónustukaup sé sérstaklega tekið fram að ákvæði frumvarpsins nái einnig til „þjónustu sem felst í geymslu muna og er stunduð í atvinnuskyni gegn endurgjaldi“.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um þjónustukaup segi að seljandi þjónustu beri áhættu af tjóni sem verði áður en hann skili af sér verki nema hann sýni fram á að tjónið sé vegna atvika sem ekki hafi verið á hans valdi. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar teljist seljandi þjónustu, þegar keypt þjónusta varði hlut sem hefur verið afhentur seljanda, hafa skilað af sér verki þegar hluturinn er aftur kominn í vörslu neytanda, nema seljandi sýni fram á að tjónið sé vegna atvika sem ekki séu á hans valdi. Augljóst sé að stefndi hafi ekki sinnt skyldum sínum sem seljandi með því að hafa virkan öryggisbúnað í geymslurýminu. Með því að láta undir höfuð leggjast að sinna þessari eftirlitsskyldu sinni beri stefndi fulla ábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem hann varð fyrir þegar bátnum, mótor og fylgihlutum var stolið úr húsnæði stefnda. 

Stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda í ljósi þess að hann geti ekki afhent stefnanda bátinn ásamt mótor og fylgihlutum. Í þessu sambandi sé vísað til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 42/2000. Munirnir hafi verið í vörslu stefnda þegar þeim var að hans sögn stolið. Stefndi hafi getað tryggt sig fyrir slíku tjóni en svo virðist sem það hafi hann ekki gert. Því sé tjónið á hans ábyrgð. Um skýringu á nefndu ákvæði 26.gr. laganna sé vísað til athugasemda við frumvarpið sem varð að lögum nr. 42/2000. Þar segi m.a. um 26.gr.: 

 Í ákvæðinu kemur fram að seljandi þjónustu ber áhættuna af tilviljunarkenndum atburðum eftir að hluturinn hefur verið afhentur seljanda. Sama á við um efni sem nota á til að vinna verk sem neytandi hefur falið seljanda þjónustu. 

   Um 1. mgr. 

 Hafi hlutur sem vinna á við verið afhentur seljanda þjónustu ber hann samkvæmt ákvæðinu áhættuna af því að hluturinn hverfi eða verði fyrir tjóni, svo sem vegna þjófnaðar, eldsvoða, vatnsskaða eða annars tilviljunarkennds atburðar. 

   Seljandi þjónustu getur tryggt sig gegn slíku tjóni.

Þá sé vísað til 25. gr. laga um þjónustukaup en þar komi m. a. fram að verði tjón á eignum neytanda við það að hlutur sem afhentur hefur verið seljanda þjónustu glatist beri seljanda að bæta það tjón nema hann sanni að hann hafi ekki sýnt af sér vanrækslu. Stefndi hafi ekki komið upp öryggisbúnaði í umræddu húsnæði og þannig sýnt af sér vanrækslu sem leigusali.

Stefndi geti ekki borið fyrir sig húsaleigusamning eða lög nr. 36/1994 um húsaleigu enda hafi hann ekki leigt stefnanda húsnæði heldur tekið bátinn í geymslu. Sú starfsemi sem stefndi hafi með höndum falli með engu móti að lögum um húsaleigu enda hafi eigendur þeirra hluta sem stefndi taki til geymslu engan aðgang að húsnæðinu annan en þann að koma með hlutina að hausti og sækja þá að vori. Þess á milli hafi stefnandi engan aðgang haft að húsnæðinu. Hann hafi engan lykil haft að því og hafi þannig ekki getað komist að bátnum. Báturinn hafi auk þess verið geymdur inni í miðju rými geymslunnar og þannig hefði þurft að rýma geymsluna af fellihýsum, tjaldvögnum og öðrum farartækjum ef stefnandi hefði átt að geta komist að bátnum.

Þá hafi ekki verið um húsaleigu að ræða í þeim skilningi að stefnandi hefði á leigu lokaða geymslu sem hann einn hefði aðgang að. Geymslurýmið hafi verið óskipt og hafi stefnandi ekki getað læst eða lokað bátinn inni í sérstakri geymslu þannig að hann hefði einn aðgang að honum. Þá hafi stefndi heldur ekki getað veitt „leigutökum“ aðgang að húsnæðinu því þá hefðu þeir að sama skapi haft aðgang að öllu því lausafé sem geymt hafi verið í hinu óhólfaða húsnæði. Það gefi auga leið að slík starfsemi falli ekki undir húsaleigu í skilningi húsaleigulaga. Samningur aðila hafi beinlínis ekki gert ráð fyrir því að stefnandi hefði aðgang að húsnæðinu. Þannig eigi reglur húsaleigulaga nr. 36/1994 ekki við í samskiptum aðila. 

Ákvæði laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, séu óundanþæg, sbr. 3. gr. þeirra. Þannig geti stefndi ekki samið sig undan þeim lögum heldur verði að sæta því að sú selda þjónusta hans sem falist hafi í því að taka við lausafjármunum til geymslu falli undir lögin. Stefnandi sé einstaklingur og þjónusta stefnda sé veitt í atvinnuskyni. Lögin eigi því örugglega við um það réttarsamband sem komist hafi á milli aðila. Einnig beri að hafa í huga að lög nr. 42/2000 eru yngri lög en húsaleigulög. Í ljósi þess gangi ákvæði þeirra laga framar ákvæðum húsaleigulaga. Leggja beri til grundvallar að lög um þjónustukaup eru ófrávíkjanleg en ákvæði húsaleigulaga frávíkjanleg varðandi atvinnuhúsnæði. Af þessu leiði að ákvæði laga um þjónustukaup gangi framar ákvæðum húsaleigulaga við úrlausn máls þessa. Engu breyti heiti þess samnings sem aðilar hafi gert sín á milli, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar. Gæta beri þess við lögskýringu að þrátt fyrir að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á húsaleigulögum frá því að lög um þjónustukaup öðluðust gildi hafi engar þeirra lotið að því að víkja til hliðar ákvæðum síðarnefndu laganna. Vilji löggjafans sé því skýr í þessu efni. 

Stefndi beri skaðabótaábyrgð á því að hægt hafi verið að komast inn í húsnæði hans og stela þannig hlutum sem þar hafi verið til geymslu. Hann beri ábyrgð á því að geymsla hans sé þannig úr garði gerð að ekki sé hægt að brjótast inn. Ummerki á staðnum hafi verið þess eðlis að ekki sé ljóst hvernig hægt hafi verið að komast inn í geymsluna án lykils. Hurðir hafi verið í lagi og það veki upp spurningar af hverju báturinn hafi verið það eina sem stolið hafi verið úr geymslunni umrætt sinn. Stefnda beri sem aðila sem veiti slíka þjónustu í atvinnuskyni að hafa þjófavarnarkerfi og myndavélar. Ekkert af þessu hafi verið til staðar hjá stefnda. Stefndi beri af þessu hallann sem seljandi þjónustu. Búnaður hans hafi greinilega ekki verið nægjanlega traustur og á því beri hann ábyrgð, sérstaklega í ljósi þess að hann hafi mátt taka sér tryggingar fyrir slíku tjóni. Um þetta sé vísað til almennu sakarreglunnar.

Verði litið svo á að ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 eigi við í málinu beri að líta til 11. gr. laganna og víkja samningi málsaðila til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Þá beri að nota ákvæði laga um þjónustukaup nr. 42/2000 til fyllingar við úrlausn málsins. Fallist héraðsdómur ekki á að víkja húsaleigusamningi til hliðar á grundvelli 11. gr. húsaleigulaga telji stefnandi að stefndi hafi vanefnt samningsskyldur sínar með verulegum hætti. Leiguhúsnæðið hafi ekki fullnægt kröfum húsaleigulaga, sbr. m.a. ákvæði 14. gr. og 19. gr. laganna. Stefnandi hafi einungis haft mjög takmarkaðan aðgang að húsnæðinu en stefndi haft óskertan aðgang. 

Aðalkrafa stefnanda lúti að því að gera hann eins settan og ef hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað. Hann hafi átt þann eina kost og í raun átt rétt á því að kaupa nýjan bát og nýjan mótor. Fjárhæð aðalkröfu miðist við að stefndi hefði verið dæmdur til þess að greiða honum andvirði nýs slöngubáts samkvæmt tilboði frá Vélasölunni og andvirði nýs mótors með 30% afslætti, auk yfirbreiðslu. Sundurliðað þannig:

Slöngubátur Quicksilver 4,15 metrar skv. tilboði frá Vélasölunni      kr.    570.797

Suzuki-utanborðsmótor 30 hestafla með stuttum legg                       kr.    739.000

Segl/yfirbreiðsla                                                                                  kr.      28.300

Samtals                                                                                                kr. 1.338.097

Aðalkrafa um 944.824 krónur er með 30% afslætti af þessu verðmæti báts og mótors. Fjárhæð varakröfu að höfuðstól 528.300 krónur miðast við verð á notuðum bát og mótor í sambærilegu ástandi og tekur mið af niðurstöðu dómkvadds matsmanns.

Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Í fyrsta lagi sé vísað til þess að það hafi verið á ábyrgð stefnanda að tryggja bátinn en ekki stefnda. Skýrt hafi verið kveðið á um það í leigusamningi aðila, sem endurnýjaður hafi verið í þrígang, án nokkurra athugasemda af hálfu stefnanda. Hafa beri hugfast í þeim efnum að stefnandi sé löglærður og því hafi hann verið enn betur í stakk búinn til að yfirfara ákvæði samningsins og eftir atvikum gera athugasemdir teldi hann þörf á. Stefnandi hafi sagt upp tryggingu á bátnum, en ella hefði hann fengið hann að fullu bættan. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á handvömm stefnanda hvað það varði.

Stefndi byggi sýknukröfu sína í öðru lagi á því að í íslenskum rétti ríki samningsfrelsi með aðilum og sé það ein mikilvægasta meginregla samningaréttarins. Stefndi hafi forræði á því hvernig hann hagi útleigu á iðnaðarhúsnæði sínu. Húsnæðið sé stórt og rúmi fjölda ferðavagna, tækja og annað sem leigutakar kjósi að nýta leigurými sitt undir. Iðulega sé um stuttan leigutíma að ræða og þá einkum yfir vetrartímann. Stefnda væri ómögulegt að tryggja hvert tæki um sig með svokallaðri lausafjártryggingu. Felist sá ómöguleiki í því að stefndi þyrfti þá að upplýsa viðkomandi tryggingarfélag um hvert einasta tæki og verðmæti þess. Fjárhæð lausafjártryggingar taki mið af því og séu skilmálar tryggingafélaganna þess efnis að tilgreina þurfi lausafé á tæmandi lista til þess að tryggingin nái til þess. Stefnda sé í raun óviðkomandi undir hvað hver og einn leigutaki nýti leigurými sitt.

Stefndi hafni tilvísan stefnanda til ákvæða laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Engin þjónusta sé fólgin í leigu geymslurýmisins og sé það sérstaklega tilgreint í 2. gr. samnings aðila. Stefndi hafi ekki tekið að sér vörslur bátsins eða aðra þjónustu honum tengda. Endurspeglist það meðal annars í fjárhæð leigunnar sem sé lág eða rétt um 10.000 krónur á mánuði. Hefði stefndi jafnframt átt að sjá um að tryggja bátinn þá hefði fjárhæð leigunnar verið mun hærri.

Stefnandi hefði haft fullt forræði á því undir hvað hann kysi að nýta geymslurými sitt. Í athugasemdum með ákvæði 1. gr. laga í frumvarpi til laga um þjónustukaup nr. 42/2000 sé tilgreint að lögunum sé ætlað að taka til þjónustustarfsemi sem eingöngu felist í því að taka hluti til geymslu. Slíkt eigi ekki við í tilviki stefnanda, sbr. m.a. orðalagið í samningi aðila um að hið leigða sé hluti af geymsluhúsnæði að [..., ...]. Þá sé tiltekið sérstaklega í 4. gr. samningsins að leigan sé húsaleiga án virðisaukaskatts. Væri um þjónustukaup að ræða hefði stefnanda verið skylt að greiða stefnda virðisaukaskatt sem stefndi hefði svo þurft að sjá um að standa skil á í ríkissjóð. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við framangreint fyrirkomulag af hálfu stefnanda.

Þó að ákvæði laga um þjónustukaup væru talin eiga við um lögskipti aðila að hluta eða öllu leyti þá breyti það því ekki að stefnandi hafi borið ábyrgð á vátryggingu bátsins. Vísað sé til athugasemda með 1. gr. í frumvarpi að lögum um þjónustukaup. Þar sé fjallað sérstaklega um geymslu á lausafjármunum og segi þar orðrétt: Í vafatilvikum fer ábyrgð seljanda þjónustu eftir samningi hverju sinni. Í samningi aðila sé skýrt kveðið á um að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á að tryggja viðkomandi tæki. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Öllum málatilbúnaði stefnanda um að lög um þjónustukaup gangi framar lögum um húsaleigu sé því hafnað.

Í 1. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 sé sérstaklega tilgreint að lögin taki til atvinnuhúsnæðis. Í 2. gr. laganna segi að ákvæði laganna séu frávíkjanleg og gildi því aðeins að ekki sé á annan veg samið. Í almennum athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til húsaleigulaga sé sérstaklega tilgreint að farsælast sé að samningsfrelsi ríki um leigu atvinnuhúsnæðis. Þá segi orðrétt: Því er lagt til að aðilar hafi óskorað samningsfrelsi, innan venjulegra marka, um það hvernig þeir haga samningum sínum um leigu á atvinnuhúsnæði og ákvæði frumvarpsins koma þá aðeins til álita ef aðilar hafa ekki samið um annað og eftir því sem við getur átt. Í samningi aðila sé sérstaklega tilgreint að hann lúti ákvæðum húsaleigulaga. Varðandi gildissvið laganna breyti engu þó að stefnandi hafi ekki haft aðgang eða lykil að húsnæðinu. Um þetta hafi sérstaklega verið samið, svo sem stefnandi lýsi sjálfur í stefnu, þ.e. að fyrirkomulagið hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi komið með bátinn að hausti og sótt hann að vori. Málatilbúnaður stefnanda varðandi lykla og aðgengi að húsnæðinu sé reyndar óskiljanlegur. Vart hefði stefnandi viljað að hver og einn leigutaki hefði haft lykil og ótakmarkað aðgengi að húsnæðinu.

Verði ekki fallist á framangreint byggi stefndi á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum sökum tómlætis. Samningur aðila hafi verið endurnýjaður í þrígang án athugasemda stefnanda. Þá hafni stefndi málatilbúnaði stefnanda í þá veru að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli hinnar almennu sakarreglu. Stefnandi hefði fengið tjón sitt bætt ef hann hefði ekki sagt upp vátryggingunni. Öryggiskerfi breyti engu þar um. Húsnæðið sé þannig úr garði gert að það sé gluggalaust og hulið jarðvegi á þrjá vegu. Hurðir séu úr stáli og verulega erfitt um vik að þvinga þær upp. Málatilbúnaður stefnanda um að stefndi beri skaðabótaábyrgð þar sem engin öryggiskerfi hafi verið til staðar sé vanreifaður. Skilyrðum um orsakatengsl sé ekki fullnægt og alla umfjöllun skorti af hálfu stefnanda um meint tengsl milli háttsemi stefnda og þess tjóns sem bóta sé krafist fyrir. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Málsástæða stefnanda á grundvelli 11. gr. laga nr. 36/1994, um húsaleigu, og 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 sé sömu annmörkum háð. Af málatilbúnaði stefnanda sé alls kostar óljóst hvaða atvik við samningsgerðina eða síðar tilkomin atvik kynnu að leiða til þess að samningi aðila yrði vikið til hliðar í heild eða að hluta. Stefnandi sé löglærður, samningur aðila hafi verið endurnýjaður í þrígang án athugasemda og skýrt kveðið á um að trygging tækisins væri á ábyrgð leigutaka. Stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum sökum tómlætis. Því sé alfarið hafnað að ósanngjarnt sé að stefnandi þurfi að bera tjón sitt sjálfur. Stefnandi hafi tekið einhliða ákvörðun um uppsögn vátryggingar á bátnum og það án þess að tilkynna stefnda þar um. Sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Verði stefndi talinn bera bótaábyrgð á tjóni stefnanda sé bótakröfu stefnanda alfarið hafnað. Fjárhæð tjóns og umfang þess sé ósannað. Ekki verði betur séð, miðað við dómkröfu stefnanda og framlögð skjöl, en að stefnandi krefjist bóta sem samsvari verðmæti nýs báts. Í stefnu sé tiltekið, þó að engin gögn séu lögð fram því til staðfestingar, að stefnandi hafi fest kaup á bátnum á árinu 2010 og þá hafi báturinn verið tveggja ára gamall. Miðað við þær upplýsingar sé báturinn níu ára gamall. Tjónþoli geti því ekki gert fjárkröfu sem samsvari verðmæti glænýs báts. Það sé í andstöðu við markmið skaðabótareglna. Tjónþoli eigi ekki að hafa ávinning af tjóni sínu. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfunni, verði henni ekki vísað frá ex officio.

Til vara sé þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður. Stefnandi geti ekki gert kröfu sem samsvari því að hann fengi bátinn bættan eins og hann hefði verið glænýr. Verði stefnda gert að greiða stefnanda bætur verði hann að bera tjón sitt að hluta sjálfur vegna eigin sakar. Þar skipti sköpum uppsögn stefnanda á vátryggingu bátsins.

Um lagarök sé einkum vísað til ákvæða húsaleigulaga nr. 36/1994, auk meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi. Krafa um málskostnað byggist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu bóta sem samsvari verðmæti þeirra lausafjármuna hans sem hurfu úr húsnæði stefnda, svo sem rakið er í kafla um málsatvik hér að framan.

Stefnandi byggir á því að um starfsemi stefnda fari að lögum um þjónustukaup nr. 42/2000. Samkvæmt 3. tölul. 1. gr. laganna taka þau til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi þegar veitt þjónusta felur í sér geymslu á lausafjármunum. Seljandi þjónustu ber samkvæmt 26. gr. laganna m.a. áhættu af því ef hlut, sem vinna á við og hefur verið afhentur honum, er stolið. Stefndi telur lög um þjónustukaup ekki eiga við um starfsemi sína. Vísar stefndi til samnings við stefnanda sem ber heitið: „Húsaleigusamningur um geymsluhúsnæði“, dags. 24. september 2016. Í honum segir m.a. að samningur þessi sé tímabundinn leigusamningur um atvinnuhúsnæði og byggi á lögum um húsaleigu nr. 36/1994.

Fyrirkomulag viðskipta aðila eru í meginatriðum óumdeild eins og þeim er lýst í stefnu og greinargerð og staðfest var með framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dóminum. Aðila greinir á um það hvort viðskipti þeirra séu að efni til um þjónustu sem feli í sér geymslu á lausafjármunum eða um húsaleigu á atvinnuhúsnæði. Við úrlausn þess álitaefnis getur heiti samnings þeirra og tilvísun í honum til húsaleigulaga ekki ráðið úrslitum. Samkvæmt gögnum málsins auglýsti stefndi þjónustu sína í smáauglýsingu í Fréttablaðinu með yfirskriftinni „Vetrargeymsla í Reykjavík“. Þar segir einnig „Fyrir tjaldvagna, felli- og hjólhýsi. Öruggt og gott húsnæði.“ Af auglýsingunni verður ekki dregin sú ályktun að verið sé að bjóða til leigu atvinnuhúsnæði sem leigutaki fái til umráða og geti nýtt til atvinnustarfsemi, enda reyndist sú ekki vera raunin. Eins og auglýsingin er fram sett virðist hún fremur vera um geymsluþjónustu á tilteknum flokki lausafjármuna.

Fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst sjálfur hafa samið ákvæði fyrirliggjandi samnings aðila, sem ber yfirskriftina Húsaleigusamningur um geymsluhúsnæði. Í samningnum segir að húsnæðið sé leigt án þjónustu til margra aðila í senn sem vetrargeymsla fyrir tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og sambærileg farartæki og að gerður sé sérsamningur við hvern leigutaka. Í samningi stefnanda og stefnda kemur fram að stefnandi fái leigt gólfpláss til að geyma bát og takmarkist stærð þess við stærð bátsins og skyldi stefnandi sjálfur sjá um að tryggja bátinn fyrir öllu hugsanlegu tjóni. Stefndi bendir á að ákvæði húsaleigulaga eru frávíkjanleg þegar um er að ræða atvinnuhúsnæði og vísar til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi til húsaleigulaga um að óskorað samningsfrelsi skuli ríkja um leigu á atvinnuhúsnæði. Þar kemur jafnframt fram að samningsfrelsið skuli ríkja „innan venjulegra marka“. Draga má í efa að þeir skilmálar í samningi aðila að afnot húsnæðisins séu bundin við að þar skuli geymdur bátur sem leigutaki skuli vátryggja séu innan þeirra marka sem venjulegir geti talist í húsaleigusamningi um atvinnuhúsnæði.

Fyrir liggur að stefnandi hafði ekki lyklavöld til að komast í það rými sem hann samkvæmt samningnum átti að hafa tekið á leigu. Fyrirsvarsmaður stefnda upplýsti lögreglu eftir að brotist hafði verið inn í geymsluna að hann væri bæði umráðamaður og eigandi hennar. Staðfesti hann fyrir dómi að engin öryggiskerfi eða myndavélar væru í húsnæðinu. Kvað hann skilti, sem ljósmynd liggur fyrir af í málinu og á stendur: „Vaktað svæði“ og „Myndavélar“ vera í nágrenni geymslunnar, en skiltið væri ekki á hans vegum. Þá staðfesti hann fyrir dóminum að hann tæki við munum að hausti og afhenti að vori. Jafnframt kom fram að hann veitti þá þjónustu að „leigutakar“ gætu hvenær sem er haft samband við hann til að komast í geymsluhúsnæðið þyrftu þeir þess. Að mati dómsins hefur það enga sjálfstæða þýðingu að í samning aðila, sem í raun felur í sér þá þjónustu að taka lausafjármuni til geymslu gegn gjaldi, sé sett ákvæði um að húsnæðið sé leigt án þjónustu. Eins og atvikum er háttað er það niðurstaða dómsins að lög um þjónustukaup eigi við um viðskipti aðila.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á tveimur málsástæðum. Annars vegar á því að stefnandi hafi með samningi skuldbundið sig til að tryggja bátinn og geti hann því ekki krafið stefnda um bætur vegna tjóns af því að báturinn var ótryggður þegar honum var stolið. Hins vegar á því að aðilum sé frjálst að semja um viðskipti sín og að stefndi hafi fullt forræði á því hvernig hann hagi útleigu á iðnaðarhúsnæði sínu. Samkvæmt 3. gr. laga um þjónustukaup er óheimilt að víkja með samningi frá ákvæðum laganna neytanda í óhag. Frelsi aðila til samninga um þjónustu sem fellur undir gildissvið laganna takmarkast af þessu ákvæði. Af því leiðir einnig að þau ákvæði í samningi aðila sem ekki fá samrýmst réttindum neytanda samkvæmt lögunum eru ekki skuldbindandi fyrir stefnanda. Ganga ákvæði laga um þjónustukaup um áhættu á geymdum munum framar því samningsákvæði um vátryggingarskyldu sem stefndi telur eiga að leiða til þess að stefnandi beri sjálfur áhættu á því að munum sé stolið. Því er hafnað þeirri málsástæðu stefnda að stefnanda hafi verið skylt að vátryggja munina og hann eigi af þeim sökum að bera tjón sitt eða hluta þess sjálfur vegna eigin sakar. Samkvæmt 25. gr. laga um þjónustukaup ber seljanda þjónustu að bæta það tjón sem verður ef hlutur sem afhentur hefur verið seljanda þjónustu glatast, nema hann sanni að hann hafi ekki sýnt af sér vanrækslu. Ekki er upplýst hvernig munirnir hurfu og verður umráðamaður húsnæðisins að bera hallann af sönnunarskorti að þessu leyti. Samkvæmt 26. gr. laga um þjónustukaup ber seljandi þjónustu, þ.e. stefndi, áhættu af því ef hlut sem afhentur hefur verið honum er stolið. Að þessu virtu telst stefndi bera ábyrgð á því að munir stefnanda séu honum til reiðu við lok umsamins geymslutíma. Það getur hann ekki gert og eftir því sem næst verður komist um afdrif þeirra hefur þeim verið stolið. Ber stefnda því að bæta stefnanda tjón hans.

Stefndi telur að umfang tjóns stefnanda sé ósannað. Fjárkrafan sé of há þar sem hún miðist við verðmæti nýs báts og mótors. Stefnandi lækkaði aðalkröfu sína við upphaf aðalmeðferðar málsins og kveður endanlega fjárhæð hennar miða við verðmæti nýs báts og nýs mótors með 30% afslætti. Fallist er á það með stefnda að mat á fjártjóni stefnanda skuli taka mið af verðmæti sambærilegra muna og þeirra sem hurfu, en ekki af verðmæti nýrra og ónotaðra muna. Stefnandi hefur ekki stutt það rökum eða gögnum hvað liggi því til grundvallar að afskriftir eða afsláttur af verði nýs báts og mótors sé hæfilega ákveðinn 30%. Kröfunni var í þessu horfi mótmælt af hálfu stefnda við málflutning og fellst dómurinn á röksemdir stefnda um að endanleg aðalkrafa stefnanda sé að þessu leyti vanreifuð.

Endanleg varakrafa stefnanda byggir á mati dómkvadds matsmanns, sem stefnandi aflaði við meðferð málsins. Mati hans hefur ekki verið hnekkt með yfirmati eða með öðrum hætti. Fallist verður á að verðmat hans sé umfang tjóns stefnanda að því er varðar bát og mótor. Fyrir liggur kvittun fyrir kaupum sem sýnir verðmæti segldúks að fjárhæð 28.300 krónur, en því er ekki mótmælt að sá sé sambærilegur þeim sem stolið var. Verður að öllu framangreindu virtu fallist á varakröfu stefnanda og verður stefnda gert að greiða honum 528.300 krónur ásamt dráttarvöxtum frá þingfestingardegi svo sem krafist er.

Með því að fallist er á bótaskyldu stefnda hefur hann tapað málinu í öllu verulegu og verður honum með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, gert að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 800.000 krónur.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, X., greiði stefnanda, A, 528.300 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. júní 2017 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir