• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í máli nr. S-321/2018:

Ákæruvaldið

(Tanja Ýr Jóhannsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Helga Jakobi Jakobssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. maí 2018, á hendur Helga Jakobi Jokobssyni, kt. 000000-0000, Hraunbæ 107, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, mánudaginn 3. júlí 2017, ekið bifreiðinni [---], sviptur ökurétti og án þess að hafa öryggisbelti spennt, eftir Stuðlahálsi og inn á bifreiðaplan við ÁTVR þar sem akstur hans var stöðvaður.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., og 1. mgr. 71. gr., allt sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í október 1959.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 25. maí 2018, hefur hann í þrígang áður verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Nú síðast var ákærði dæmdur í 75 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum áfengis og akstur sviptur ökurétti með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 20. janúar 2016.

Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og dómvenju þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Helgi Jakob Jakobsson, sæti fangelsi í 60 daga.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir