• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Reynslulausn
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2018 í máli nr. S-132/2018:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Skúla Má Hilmarssyni

 

       Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 13. mars 2018, á hendur Skúla Má Hilmarssyni, kt. [--], óstaðsettum í hús í Reykjavík fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot, með því að hafa:

 

1.    Miðvikudaginn 5. maí 2017, í verslun Bónuss, Lóuhólum 2-4, Reykjavík, stolið matvörum, samtals að verðmæti kr. 2.208.

 

2.    Föstudaginn 27. október 2017, í verslun Bónuss, Faxafeni 14, Reykjavík, stolið átta pakkningum af lambakjöti, samtals að verðmæti kr. 19.231.

 

3.    Mánudaginn 20. nóvember 2017, í verslun Bónuss, Laugavegi 59, Reykjavík, stolið matvörum samtaðs að verðmæti kr. 6.589.

 

4.    Laugardaginn 25. nóvember 2017, í verslun Nettó í Mjódd, Reykjavík, stolið bókum og fæðubótarefnum, allt samtals að verðmæti kr. 88.951.

 

 

       Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

       Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

       Ákærði er fæddur í janúar 1983. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 8. mars 2018, á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2004. Hefur ákærði meðal annars verið margítrekað fundinn sekur um þjófnað. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. febrúar 2015, var hann sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot og dæmdur í þriggja mánaða fangelsi. Þá var hann dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þjófnaðarbrot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 6. apríl 2016. Hinn 20. maí 2016 var ákærða veitt reynslulausn, skilorðsbundið í eitt ár, á 51 dags eftirstöðvum fangelsisrefsingar samkvæmt tveimur fyrrnefndum dómum frá 4. febrúar 2015 og 6. apríl 2016. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt fyrsta tölulið ákæru hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar sem honum var veitt sem fyrr segir og fer refsing sú, sem ákærði hefur nú til unnið, fram úr sektum. Verður því að taka reynslulausnina upp og dæma refsingu í einu lagi, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur játað brot sitt greiðlega og verður það virt honum til málsbóta.

       Með hliðsjón af framangreindu og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Að virtum sakaferli ákærða þykir ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

       Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Skúli Már Hilmarsson, sæti fangelsi í 90 daga.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir