• Lykilorð:
  • Ógilding stjórnarathafnar

 

 

 

 

 

D Ó M U R

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 30. apríl 2018 og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 24. apríl sl. Stefnandi er Friðrik Ottó Friðriksson, Fossheiði 56, Selfossi. Stefndu eru endurupptökunefnd, Skuggasundi 3, Reykjavík, Lögreglustjórinn á Suðurlandi, Hlíðarvegi 16, Hvolsvelli, ríkissaksóknari, Suðurlandsbraut 4, Reykjavík, og dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

            Stefnandi gerir þá kröfu að úrskurður endurupptökunefndar 23. nóvember 2017 um að hafna endurupptöku héraðsdómsmáls nr. S-226/2016 verði felldur úr gildi. Hann krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.   

            Stefndu krefjast sýknu auk málskostnaðar.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

            Í málinu er deilt um gildi úrskurðar endurupptökunefndar 23. nóvember 2017, en með úrskurðinum var synjað beiðni stefnanda frá 24. mars 2017 um að héraðsdómsmál nr. S-226/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 12. desember 2016 að stefnanda fjarstöddum, yrði endurupptekið. Atvik málsins eru ágreiningslaus að því er skiptir máli fyrir úrlausn málsins.

Með fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Suðurlands var stefnandi sakfelldur samkvæmt ákæru útgefinni 5. október 2010 af stefnda, Lögreglustjóranum á Suðurlandi, fyrir hylmingu með því að hafa keypt átta málverk á tímabilinu 7. apríl 2012 til febrúarloka 2013 og í samverknaði við ónafngreindan mann haft þau í vörslum sínum og þannig haldið þeim frá réttmætum eiganda þrátt fyrir að honum væri ljóst eða hefði mátt vera ljóst að málverkunum hefði verið stolið í innbroti 8. apríl 2012. Einnig var hann sakfelldur fyrir sama hegningarlagabrot með því að hafa keypt nánar tiltekna bifreið á tímabilinu frá 18. janúar 2013 til febrúarloka 2013 og hafa í samverknaði við sama mann haft bifreiðina í vörslum sínum og þannig haldið henni frá réttmætum eiganda hennar þrátt fyrir að honum væri ljóst eða hefði mátt vera ljóst að bifreiðinni hefði verið stolið í innbroti sem hefði verið framið á tímabilinu 18. til 20. janúar 2013. Hin ætluðu brot voru framin í Danmörku.

Í forsendum dómsins var tekið fram að stefnandi hefði ekki mætt við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru 26. nóvember 2016 og fyrirkall, þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Væri málið því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómurinn taldi einnig fullnægt skilyrðum 2. töluliðar 1. mgr. 5. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til að refsa stefnanda eftir íslenskum lögum þótt brot hans hefðu verið framin erlendis. Í umfjöllun um ákvörðun refsingar var fjallað um sakaferil stefnanda og frá því greint að samkvæmt sakavottorði ætti hann nokkurn sakaferil að baki. Var stefnanda dæmdur hegningarauki með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga vegna eldri dóms og þótti refsing hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.Var stefnanda einnig gert að greiða allan sakarkostnað.

            Í málinu liggur fyrir framburðarskýrsla stefnanda hjá dönsku lögreglunni auk gagna um meðferð málsins fyrir dönskum dómstólum. Þessi gögn, sem ekki hafa verið lögð fram í málinu í íslenskri þýðingu, bera með sér að stefnandi hafi sætt ákæru í Danmörku en ekki hafi tekist að ljúka meðferð málsins sökum þess að birting ákæru tókst ekki fyrir stefnanda. Einnig liggur fyrir að danska lögreglan óskaði þess við ríkissaksóknara með bréfi 11. september 2015 að íslensk stjórnvöld tækju við meðferð málsins. Í bréfinu var þó tekið fram að ef stefnandi viðurkenndi ekki brot sín væri þess óskað að tekin væri af honum skýrsla og málið að því búnu sent að nýju til meðferðar danskra yfirvalda.

Með bréfi 28. október 2015 fól stefndi ríkissaksóknari stefnda Lögreglustjóranum á Suðurlandi meðferð málsins í samræmi við fyrrgreinda beiðni dönsku lögreglunnar og var ákæra í málinu gefin út 5. október 2016, svo sem áður greinir. Samkvæmt gögnum málsins og greinargerð stefndu var ítrekað reynt að birta stefnanda ákæruna, en án árangurs. Ekki er um það deilt að birting fyrirkalls 26. nóvember 2016 fór fram fyrir lögreglumanni sem hittist fyrir á skráðu lögheimili stefnanda. Ber birtingarvottorðið með sér að lögreglumaðurinn hafi engin tengsl við stefnanda og er ekkert fram komið í málinu um að hann hafi gert tilraun til þess að koma ákærunni til stefnanda með beinum eða óbeinum hætti. Fyrrgreindur dómur héraðsdóms var birtur í Lögbirtingablaðinu 6. janúar 2017 með vísan til þess að þá hefði ekki tekist að birta stefnanda dóminn. Í stefnu segir þó að stefnandi hafi frétt af dóminum 15. desember 2016, þegar hann las frétt um málið á netmiðli, og þá fyrst fengið vitneskju um meðferð málsins hér á landi.

Stefnandi lagði fram beiðni um endurupptöku málsins til stefnda endurupptökunefndar 24. mars 2017 og óskaði nefndin umsagnar stefnda ríkissaksóknara með bréfi 11. apríl þess árs. Stefndi endurupptökunefndin lauk meðferð málsins með áðurnefndum úrskurði sínum 23. nóvember 2017. Í forsendum nefndarinnar kemur fram að fyrir liggi að gripið hafi verið til þess ráðs að birta fyrirkall vegna ákæru fyrir lögreglumanni á lögheimili stefnanda og þess sérstaklega getið á birtingarvottorðinu að sá sem birt væri fyrir hefði engin tengsl við hann. Þetta hefði verið gert vegna þess að lögreglu hafði ekki tekist að hafa uppi á stefnanda. Í ljósi síðastnefndrar staðreyndar taldi nefndin einnig ljóst að lögreglumanninum sem tók við birtingunni hefði verið fyrirsjáanlega ómögulegt að rækja þá skyldu sína, að viðlagðri sekt, að koma afriti ákæru í hendur stefnanda. Þá lægi ekkert fyrir um tilraunir hans til að koma afriti ákæru í hendur þess sem telja hefði mátt líklegastan til að koma afriti til skila í tæka tíð. Loks væri ekki tekið fram í birtingarvottorðinu að sá sem annaðist birtinguna hefði bent þeim sem birt var fyrir á þessa skyldu. Í ljósi þessara atvika taldi nefndin „að birting fyrirkallsins hafi vart markað fullnægjandi grundvöll til þess að tækt væri að leysa úr málinu á grundvelli heimildar í 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála enda fyrirséð að aðvörun um að mál kynni að verða dæmt að endurupptökubeiðanda fjarstöddum myndi missa marks eins og að birtingunni var staðið“. Þá segir eftirfarandi í úrskurði nefndarinnar: „Með hliðsjón af ofanrituðu sýnist einboðið að gallar hafa verið á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála.“ Hins vegar var það niðurstaða nefndarinnar, einkum með vísan til játningar stefnanda í framburðarskýrslu hjá lögreglunni í Danmörku, að téðir gallar hefðu ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Var í því sambandi engu talið skipta þótt téð gögn málsins hefðu ekki legið fyrir Héraðsdómi Suðurlands í íslenskri þýðingu, enda væri það dómara að meta samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvort fylgja skuli þýðing skjals á erlendu tungumáli eða hvort hann telur sér fært að þýða skjalið. Orðrétt segir því næst í forsendum úrskurðarins: „Fyrir liggur játning endurupptökubeiðanda hjá lögreglu í Danmörku og framburður samverkamanns hans fyrir dómi í Danmörku um aðild endurupptökubeiðanda að hylmingu. Að mati endurupptökunefndar eru því ekki forsendur til að telja að mat Héraðsdóms Suðurlands á sönnunargögnum hafi verið rangt. Engu breytir í þessum efnum þó endurupptökubeiðandi staðhæfi nú í beiðni sinni að hann hafi verið fenginn til að taka á sig sök af glæpasamtökum. Endurupptökubeiðandi styður fullyrðingu sína engum gögnum. Fyrirliggjandi ágallar á birtingu fyrirkalls ákæru eru þannig ekki til þess fallnir að talið verði að þeir hefðu haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi d liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Birting dóms er í samræmi við 3. mgr. 185. gr., sbr. 3. mgr. 156. gr. sakamálalaga og er því ekki tilefni til endurupptöku málsins af þeirri ástæðu að dómur hafi verið birtur í Lögbirtingablaðinu.“ Var beiðni stefnanda hafnað á þessum grundvelli, svo sem áður greinir.

Engar munnlegar skýrslur fóru fram við aðalmeðferð málsins.

 

Helstu málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi byggir kröfu sína á því að ákvörðun stefndu endurupptökunefndar sé ógild vegna þess að hún byggist á ólögmætum sjónarmiðum, brjóti gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, skipulagslegri aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttar, 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefur hann við aðalmeðferð málsins vísað til þess að dómur héraðsdóms hafi verið kveðinn upp af löglærðum aðstoðarmanni dómara, en slík skipan dómsins samræmist ekki kröfum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannréttindasáttmála um að leyst sé úr refsiverðri háttsemi fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól.

Stefnandi vísar einkum til þess að skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt c- og d-lið 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. nú 228. gr. laganna, hafi verið fullnægt og því hafi niðurstaða stefnda endurupptökunefndar brotið gegn lögum. Stefnandi leggur áherslu á að nefndin hafi fallist á röksemdir stefnanda að hluta til, þ.e. um að birting ákæru og fyrirkalls hafi ekki verið fullnægjandi eða í samræmi við lög. Stefnandi telur hins vegar ekki standast þá niðurstöðu nefndarinnar að téðir gallar hefðu engu breytt fyrir meðferð málsins. Stefnandi telur að með rökstuðningi sínum hafi nefndin í raun sest í sæti dómara í andstöðu við 2. gr. stjórnarskrárinnar og tekið afstöðu til efnisatriða málsins, sem sé þó ekki hennar hlutverk að lögum. Það sé dómstóla að meta hvort og hvaða þýðingu játning stefnanda fyrir dönsku lögreglunni eigi að hafa en almennt hafi játning ekki gildi nema hún komi fram fyrir dómi og stefnandi neiti staðfastlega sök. Með rökstuðningi nefndarinnar og niðurstöðu hafi stefnandi einnig verið sviptur þeim grundvallarréttindum sem sakaðir menn eigi að njóta, sbr. einkum 2. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 þykir ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir málsástæðum og lagarökum stefnanda.

Stefndu mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda. Þau vísa til þess að stefnandi hafi vitað af málarekstri gegn sér í Danmörku. Þá beri gögn málsins með sér að öllum tiltækum ráðum hafi verið beitt til þess að ná í stefnanda til að birta fyrir honum annars vegar fyrirkall og ákæruna og hins vegar dóminn. Í héraðsdóminum í máli nr. S-226/2016 hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við birtingu fyrirkalls og ákæru. Stefndu telja að birting með þessum hætti sé í samræmi við ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 156. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem ekki hafðist með nokkru móti upp á stefnanda til að birta fyrir honum sjálfum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess. Nefnt lagaákvæði geri beinlínis ráð fyrir birtingu með þessum hætti, finnist ákærði ekki. Staðfest sé í héraðsdóminum að birtingin hafi verið lögmæt og þess vegna sé málið tekið fyrir og dæmt sem útivistarmál samkvæmt 161. gr. laga um meðferð sakamála.

Stefndu taka einnig undir þá niðurstöðu stefnda endurupptökunefndar að jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að gallar hefðu verið á birtingu fyrirkalls hafi þeir ekki verið slíkir að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins. Að því er þetta atriði varðar benda stefndu á skýrslu stefnanda fyrir lögreglu í Danmörku 21. mars 2013. Í skýrslutökunni hafi stefnandi viðurkennt hylmingu og sé bókað að stefnandi hafi óskað eftir að lesa útskýringar sínar og að honum hafi verið leiðbeint um að honum væri óskylt að rita undir skýrsluna. Skýrslan sé undirrituð af stefnanda. Hinn 18. og 21. mars 2013 hafi verið réttað yfir meintum samverkamanni stefnanda og sá aðili játað sinn hlut, þ.e. að hafa geymt bifreið og málverk fyrir stefnanda. Þessi aðili sé sá sem stefnandi haldi nú fram að hafi þvingað sig til að taka á sig sakir í málinu. Að mati stefndu bendir sú staðreynd að umræddur maður var dæmdur í fangelsi fyrir sinn þátt í brotunum til þess að framburður stefnanda um að hann hafi þvingað hann til að taka á sig sök í málinu eigi ekki við rök að styðjast. Slík þvingun sýnist næsta marklaus. Þá sé rétt að árétta að stefnandi hafi ekki byggt á því í málatilbúnaði sínum fyrir stefnda endurupptökunefndinni að tungumálaörðugleikar hafi ráðið því að hann játaði sök, heldur hafi hann tekið á sig sök af hræðslu við umræddan mann.

Í greinargerð stefndu er því hreyft að tilefni kunni að vera til sjálfkrafa frávísunar málsins hvað varðar aðra stefndu en stefnda íslenska ríkið sem stefndu telja réttan aðila til varnar. Stefndu, aðrir en íslenska ríkið, telja einnig að sýkna eigi þá vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 þykir ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir málsástæðum og lagarökum stefndu um þessi eða önnur atriði.

 

Niðurstaða

Svo sem rakið er í fyrrgreindum úrskurði stefndu endurupptökunefndar liggur fyrir að fyrirkall vegna ákæru var birt fyrir lögreglumanni á lögheimili stefnanda og þess sérstaklega getið á birtingarvottorðinu að sá sem birt væri fyrir hefði engin tengsl við hann. Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar þá niðurstöðu nefndarinnar að téðum lögreglumanni, sem tók við ákærunni, hafi fyrirsjáanlega verið ómögulegt að rækja þá skyldu sína, að viðlagðri sekt, að koma afriti ákæru í hendur stefnanda. Þá er ekkert fram komið í málinu um að lögreglumaðurinn hafi gert nokkra tilraun til að koma afriti ákæru í hendur þess sem telja mætti líklegastan til að koma afriti til skila í tæka tíð.

Samkvæmt 1. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 skal ákæra ásamt fyrirkalli birt fyrir ákærða sjálfum, sé  þess  kostur, en annars fyrir lögmanni hans eða öðrum lögráða manni sem fengið hefur skriflegt umboð frá honum til að taka við birtingu ellegar fyrir heimilismanni eða öðrum sem dvelur eða hittist fyrir á skráðu lögheimili hans. Í 2. mgr. sömu greinar segir að ef ákæra er birt öðrum en ákærða sjálfum beri þeim sem við ákæru tekur að koma afriti ákæru í hendur ákærða, að viðlagðri sekt, en sé þess ekki kostur þá í hendur þess sem telja má líklegastan til að koma afriti til skila í tæka tíð.

Í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 er það gert að skilyrði fyrir uppkvaðningu útivistardóms í refsimál að ákærða hafi verið löglega birt ákæra og þess getið að mál kunni að vera dæmt að honum fjarstöddum. Eins og fyrr greinir var ákæra birt á lögheimili stefnanda fyrir lögreglumanni sem engin tengsl hafði við stefnanda, dvaldi ekki á lögheimili hans og hittist þar ekki fyrir, heldur virðist hafa verið þar staddur eingöngu í þeim tilgangi að taka við fyrirkalli og ákæru. Þá verður að leggja til grundvallar að fyrirmælum 4. málsliðar 2. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið fylgt í kjölfar birtingar svo sem fram kemur í úrskurði stefndu endurupptökunefndarinnar. Lögmæt birting ákæru hafði samkvæmt framangreindu ekki farið fram þegar mál ákæruvaldsins var dómtekið á hendur ákærða og voru því ekki skilyrði til þess að leggja dóm á málið að ákærða fjarstöddum samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Landsréttar 12. október 2018 í máli nr. 303/2018.

Samkvæmt framangreindu eru fram komnir gallar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Ákvæði 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 fela í sér frávik frá þeirri grunnreglu að ekki sé skorið úr um refsiverða háttsemi manna og þeim ákveðin refsing nema að undangenginni málsmeðferð þar sem þeim hefur verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum, sbr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, eins og greininni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Þeir gallar á meðferð málsins sem hér er um að ræða voru þar af leiðandi verulegir og jafnframt til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins fyrir dómi. Við meðferð máls stefnanda fyrir stefndu endurupptökunefndinni vegna endurupptökubeiðni hans var því fullnægt skilyrði c-liðar 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eins og greininni hefur síðar verið breytt, og bar stefndu, að réttum lögum, að fallast á beiðni stefnanda. Verður því á það fallist með stefnanda að úrskurður stefndu endurupptökunefndarinnar sé reistur á ólögmætum grundvelli. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á kröfu stefnanda um að úrskurður nefndarinnar verði felldur úr gildi, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Stefndu, endurupptökunefnd, ríkissaksóknari og Lögreglustjórinn á Suðurlandi, heyra öll undir íslenska ríkið sem einnig er stefnt sjálfstætt í málinu. Er því lýst yfir í sameiginlegri greinargerð stefndu að málinu sé réttilega beint að stefnda, íslenska ríkinu. Kemur af þessum sökum ekki til álita að sýkna einhver stefndu á grundvelli aðildarskorts. Með hliðsjón af langri dómaframkvæmd um aðild sjálfstæðra úrskurðarnefnda að dómsmálum, þar sem krafist er ógildingar úrskurða þeirra, telur dómurinn ástæðu til að taka fram að bersýnilega var óþarft að beina  kröfu í máli þessu einnig að endurupptökunefndinni. Í málinu liggur fyrir að stefndi ríkissaksóknari gætti hagsmuna ákæruvaldsins við meðferð málsins fyrir nefndinni og telur dómurinn þar af leiðandi að nægilegt hefði verið fyrir stefnanda að beina kröfum sínum að því embætti, svo sem dómvenja er fyrir, og óþarft að beina dómkröfunni einnig að Lögreglustjóranum á Suðurlandi sem gaf út ákæru í mál. Að því er varðar aðild íslenska ríkisins verður að horfa til þess að í framkvæmd hefur verið látið átölulaust að kröfu um ógildingu úrskurðar endurupptökunefndar sé einnig beint að þessum lögaðila og jafnframt virðast stefndu sammála um að íslenska ríkið sé réttur aðili til varnar í málinu, svo sem áður greinir. Hvað sem þessum álitamálum líður telur dómurinn, í ljósi fyrrnefndrar stöðu stefndu sem ríkisstofnana sem standa saman að vörnum sínum í málinu og fyrrgreindrar niðurstöðu málsins, að ekki séu efni til þess að leysa sérstaklega úr sjálfkrafa frávísun málsins gagnvart einhverjum stefndu.

Með hliðsjón af gjafsókn stefnanda og aðild íslenska ríkisins til varnar verður málskostnaður ekki dæmdur. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Söru Pálsdóttur, hæfilega ákveðin 1.515.210 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan

DÓMSORÐ

Úrskurður endurupptökunefndar 23. nóvember 2017 í máli nr. 11/2017, þar sem hafnað var endurupptöku máls nr. S-226/2016, sem lauk með dómi Héraðsdóms Suðurlands 12. desember 2016, er felldur úr gildi.

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, Friðriks Ottós Friðrikssonar, þar með talin þóknun lögmanns hans, Söru Pálsdóttur að fjárhæð 1.515.210 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

 

Skúli Magnússon