• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Útivist
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2018 í máli nr. S-237/2018:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Sævaldi Herði Harðarsyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. apríl 2018, á hendur Sævaldi Herði Harðarsyni, kt. 000000-0000, Reiðvaði 7, Reykjavík,fyrir eftirtalin umferðarlagabrot í Reykjavík á árinu 2017 með því að hafa:

 

I

Fimmtudaginn 27. júlí ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti, óhæfur að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og undir áhrifum áfengis (í blóði mældist vínandamagn 0,71 ‰ og tetrahýdrókannabínól 15 ng/ml) um Miklubraut og fleiri götur uns aksturinn var stöðvaður við gatnamót Hamrahlíðar og Kringlumýrarbrautar, og í sama skipti haft í vörslum síðum 0,16 g af tóbaksblönduðu kannabis, jónu, sem hann hélt á við aksturinn og lögregla lagði hald á.

 

II

Að kvöldi föstudagsins 1. desember ekið sömu bifreið sviptur ökurétti vestur Hringbraut að BSÍ uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Teljast brot í báðum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., en brot í lið I auk þess við 1.  sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.

 

 

Ákærði sótti ekki þing við fyrirtöku málsins í dag og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í september 1980. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 26. apríl 2018, gekkst hann undir sektarrefsingu vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna með lögreglustjórasátt, 4. október 2011. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun vegna umferðar- og fíkniefnalagabrots, meðal annars aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, 5. febrúar 2013. Þá var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökuétti, 24. september 2013. Var honum gerður hegningarauki við þann dóm, 16. október 2013. Nú síðast gekkst ákærði undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt vegna aksturs sviptur ökurétti, 24. mars 2017. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.  

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,16 g af tóbaksblönduðu kannabis, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 99.967 krónur í sakarkostnað.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Sævaldur Hörður Harðarson, sæti fangelsi í 90 daga.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,16 g af tóbaksblönduðu kannabis.

Ákærði greiði 99.967 krónur í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir