• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2018 í máli nr. E-1169/2017:

Landsbankinn hf.

(Ásgeir Jónsson lögmaður)

gegn

Guðmundi Tryggva Ásbergssyni og

Guðmundi Tryggva Sigurðssyni

(Björn Jóhannesson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2018, var höfðað dagana 28. mars 2017 og 31. mars s.á. af hálfu Landsbankans hf., Austurstræti 11, Reykjavík vegna Landsbankans hf., Grafarholti, Vínlandsleið 1, Reykjavík á hendur Guðmundi Tryggva Ásbergssyni, Litlakrika 36, Mosfellsbæ og Guðmundi Tryggva Sigurðssyni, Árskógum 8, Reykjavík til innheimtu á skuld.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 15.986.470 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 25. júlí 2014 til greiðsludags. Inn á skuldina var greidd innborgun 11. febrúar 2015 að fjárhæð 157.130 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefndu er þess aðallega krafist að þeir verði alfarið sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda á hendur stefndu verði lækkaðar verulega. Þá gera stefndu bæði í aðal- og varakröfu kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk álags á málskostnað.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Mál þetta varðar kröfu vegna lánssamnings sem Landsbanki Íslands hf. gerði við G.T. samsteypuna ehf. 13. janúar 2006. Að beiðni lántaka var lánsfjárhæðin, að frádregnu lántökugjaldi og kostnaði, greidd lántaka á bankareikning hans 18. janúar 2006 með 12.860.000 krónum. Með undirritunum sínum á lánssamninginn tókust stefndu á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum samningsins. Bú lántaka var tekið til gjaldþrotaskipta 23. janúar 2013 og lauk búskiptum 22. apríl s.á. án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur stefnanda vegna lánssamningsins. Í máli þessu eru stefndu krafðir um endurgreiðslu lánsins á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra. Stefndu krefjast aðallega sýknu á þeim grundvelli að krafan á hendur þeim sé fyrnd, en krefjast lækkunar á stefnufjárhæð til vara.

Aðilar lýsa málavöxtum nánar svo að samkvæmt lánssamningnum hafi stefnandi veitt G.T. samsteypunni ehf. fjölmyntalán til 18 mánaða að jafnvirði 13.000.000 króna í erlendum myntum, þannig að 65% lánsfjárins skyldu vera í svissneskum frönkum (CHF), 18% í japönskum jenum (JPY) og 17% í bandarískum dollurum (USD). Lánið skyldi endurgreiða með einni afborgun í lok lánstímans, 1. ágúst 2007, en vexti skyldi greiða á sex mánaða fresti út lánstímann, í fyrsta sinn 1. ágúst 2006. Vextir skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags.

Lánið var ekki endurgreitt á umsömdum gjalddaga 1. ágúst 2007 og því gerðu Landsbanki Íslands hf. og G.T. samsteypan ehf. með sér viðauka við lánssamninginn 10. september 2007, þar sem samið var um breytingar á lánstíma og endurgreiðslu lánsins frá því sem upphaflega hafði verið ákveðið. Var samið um að lánið skyldi greitt upp með einni afborgun 1. desember 2008, en vexti skyldi greiða á eins mánaðar fresti út lánstímann, í fyrsta sinn 1. október 2007. Að öðru leyti var upphaflegur lánssamningur óbreyttur. G.T. samsteypan ehf. og NBI hf., sem þá hafði yfirtekið réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf., gerðu skilmálabreytingu 26. nóvember 2008 og viðauka við lánssamninginn frá 13. janúar 2006. Nýr gjalddagi lánsins skyldi nú vera 3. mars 2009, en vexti skyldi sem fyrr greiða á mánaðar fresti, næst 1. desember 2008, og skyldu vextir reiknast frá 3. nóvember s.á. Að öðru leyti skyldi samningurinn haldast óbreyttur. NBI hf. og G.T. samsteypan ehf. gerðu að nýju skilmálabreytingu 20. apríl 2009 með nýjum viðauka við lánssamninginn. Samkvæmt því skyldi endurgreiða lánið með einni afborgun 15. september 2009. Vexti skyldi sem fyrr greiða á mánaðar fresti út lánstímann, næst 15. apríl 2009, en vextir skyldu reiknast frá 3. mars s.á. Að öðru leyti skyldi samningurinn haldast óbreyttur. Enn ein skilmálabreytingin var gerð með viðauka við lánssamninginn 25. nóvember 2009, þar sem ákveðið var að lánið bæri að endurgreiða með einni afborgun 15. mars 2010. Sem fyrr var ákvæði um að vexti skyldi greiða á mánaðarfresti út lánstímann, næst 15. október 2009. Þá var einnig gerð sú breyting á ákvæðum samningsins um vexti að samið var um að greiða skyldi breytilega vexti af láninu, sem væru jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxtaálags. Að öðru leyti skyldu ákvæði lánssamningsins vera óbreytt. Stefndu samþykktu í öllum tilvikum þessar breytingar á skilmálum og gjalddaga lánssamningsins.

G.T. samsteyptan ehf. greiddi ekki lánið á umsömdum gjalddaga 15. mars 2010. Ekki verður séð að þá hafi verið gripið til innheimtuaðgerða, en á þessum tíma voru komin upp dómsmál varðandi sambærilega lánssamninga, þar sem deilt var um hvort þeir hefðu að geyma ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Stefnandi kveðst í kjölfar dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hafa hafið endurreikning lána viðskiptavina sinna í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, um breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Lántaka hafi verið sent bréf 30. ágúst 2011 þar sem fram hafi komið að Alþingi hefði í desember 2010 samþykkt breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Væri það mat Landsbankans hf. að lánssamningurinn kvæði á um slíka gengistryggingu og að í samræmi við ákvæði laganna hefðu eftirstöðvar lánsins verið endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birti. Eftirstöðvar lánsins fyrir endurútreikning hafi verið 39.115.676 krónur og eftir endurútreikning 21.336.873 krónur, en endurútreikningur miðist við 29. ágúst 2011. Stefndu kveða sér ekki hafa verið tilkynnt um endurútreikning stefnanda.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2013 var bú G.T. samsteypunnar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Landsbankinn hf. lýsti kröfu í þrotabúið samtals að fjárhæð 32.883.423 krónur, m.a. vegna fyrrgreinds lánssamnings frá 13. janúar 2006. Lýst krafa stefnanda vegna samningsins var samtals 25.069.734 krónur, sem var tilgreint uppgreiðsluverðmæti hans miðað við úrskurðardag þann 23. janúar 2013. Skiptum á þrotabúi G.T. samsteypunnar ehf. lauk 22. apríl 2013 á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, þar sem engar eignir fundust í þrotabúinu.

Stefnandi kveðst í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012, um að greiðslukvittanir hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og að endurútreikningur lána hefði átt að taka mið af því, hafa leiðrétt endurútreikning lánssamningsins. Staða lánsins fyrir endurútreikning hafi verið 25.074.703 krónur, en eftir endurútreikning 15.986.470 krónur, sem er stefnufjárhæð málsins. Stefnandi kveður lánið hafa verið leiðrétt miðað við úrskurðardaginn 23. janúar 2013, þar sem skiptum hafi verið lokið á félaginu, en lántaka hafi ekki verið sent bréf um leiðréttingu endurútreikningsins. Stefnandi mun ekki heldur hafa tilkynnt stefndu um þennan endurútreikning.

Stefndu var send innheimtuviðvörun 25. júní 2014 vegna kröfu stefnanda samkvæmt umræddum lánssamningi frá 13. janúar 2006, þar sem höfuðstóll kröfunnar var tilgreindur 15.986.470 krónur. Í innheimtuviðvöruninni segir að lánið hafi verið leiðrétt 23. júní 2014, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar, og var það ítrekað í innheimtubréfi sem stefnandi sendi stefndu vegna kröfunnar 5. ágúst 2014.

Þann 11. febrúar 2015 endurreiknaði stefnandi gengistryggt bílalán sem G.T. samsteypan ehf. hafði verið skuldari að hjá stefnanda á tímabilinu 26. október 2007 til 9. júní 2008. Við endurútreikning bílalánsins myndaðist inneign að fjárhæð 157.130 krónur og ákvað stefnandi að skuldajafna þeirri inneign á móti vanskilum G.T. samsteypunnar ehf. á lánssamningnum og er það sú innborgun sem stefnandi lýsir í dómkröfu sinni. Stefndu fengu ekki tilkynningar um þessa innborgun/skuldajöfnun.

Stefndu voru í upphafi hvers árs, allt frá 19. janúar 2010 til 10. janúar 2017, sendar tilkynningar á grundvelli laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn um yfirlit ábyrgða þeirra gagnvart stefnanda. Á yfirlitunum kom fram að stefndu væru í sjálfskuldarábyrgð vegna lánssamnings G.T. samsteypunnar ehf. en gildistími ábyrgðarinnar var ekki tilgreindur. Í síðustu yfirlitunum, sem send voru stefndu 10. janúar 2017, var ábyrgðarfjárhæð stefndu tilgreind 13.000.000 króna, en að vanskil væru 25.813.922 krónur. Í lok mars 2017 var stefndu birt stefna málsins. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Um samninginn gildi íslensk lög og skuli mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. gr. 16.1 í samningnum.

Hvað aðild Landsbankans hf. varði þá hafi Fjármálaeftirlitið (FME), með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú Landsbankinn hf.) sé dagsett þann 9. október 2008.

Byggt sé á meginreglum kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða. Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu

Aðalkrafa stefndu um sýknu

Um aðalkröfu um sýknu vísi stefndu fyrst og fremst til þess að ábyrgð þeirra sem sjálfskuldarábyrgðaraðila samkvæmt lánssamningnum frá 13. janúar 2006 sé fallin niður sökum fyrningar. 

Lánssamningurinn hafi verið gerður í gildistíð laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, og því beri að fara eftir ákvæðum þeirra laga varðandi fyrningartíma kröfu sem grundvallist á lánssamningnum, sbr. 28. gr. núgildandi laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Samkvæmt 4. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnist kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum frá þeim degi sem krafan verði gjaldkræf, sbr. 1. málslið 5. gr. laganna. Krafa samkvæmt lánssamningnum hafi orðið gjaldkræf 15. mars 2010, sem verið hafi gjalddagi skuldar samkvæmt samningnum og þeim viðaukum sem við hann hafi verið gerðir. Síðasti viðaukinn við lánssamninginn hafi verið gerður 25. nóvember 2009 en samkvæmt honum skyldi lánið endurgreitt með einni afborgun þann 15. mars 2010. Þann dag hafi krafan orðið gjaldkræf gagnvart útgefanda og sjálfskuldarábyrgðaraðilum lánssamningsins. Stefna vegna ábyrgðarskuldbindinga stefndu hafi verið birt fyrir stefndu í lok mars 2017, en þá hafi rúm sjö ár verið liðin frá því að krafa stefnanda samkvæmt samningnum hafi orðið gjaldkræf. Ekki verði séð af gögnum málsins að fyrningu kröfunnar hafi verið slitið gagnvart stefndu innan ábyrgðartíma kröfunnar.  Með vísan til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 14/1905 hafi krafan því löngu verið fyrnd þegar stefndu hafi verið birt stefna í málinu. Þó svo að miðað yrði við gjaldþrot G.T. samsteypunnar ehf. varðandi gjalddaga kröfunnar væri krafan engu að síður fyrnd gagnvart stefndu.  

Nánast engin umfjöllun sé í stefnu málsins um málsástæður stefnanda og því sé mjög óljóst með hvaða hætti stefnandi hafi í hyggju að haga málatilbúnaði sínum og á hverju hann byggi, m.a. varðandi fyrningartíma kröfunnar. Eðlilegt hefði verið að einhver umfjöllun væri um fyrningartíma kröfunnar í stefnu, ekki síst í ljósi þess að rúm sjö ár séu frá því að krafa stefnanda hafi orðið gjaldkræf. Vera kunni, þó ekki sé vikið að því í stefnunni, að stefnandi telji að krafan sé ófyrnd með vísan til bráðabirgðaákvæðis nr. XIV í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. e-lið 2. gr. laga nr. 151/2010 og 1. gr. laga nr. 38/2014. Þar komi fram að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar skuli reiknast frá 16. júní 2010 og skuli fyrningarfresturinn vera átta ár frá því tímamarki. Bráðabirgðaákvæðið feli í sér sérákvæði um upphaf fyrningar og fyrningarfrest sem telja verði að gangi framar almennum reglum um fyrningu þeirra krafna sem nefndar séu í bráðabirgðaákvæðinu „uppgjörskröfur“. Um það hvað átt sé við með „uppgjörskröfum“ í ákvæðinu sé nærtækast að líta til þeirra athugasemda sem fylgdu frumvarpinu er varð að lögum nr. 151/2010, svo og til þeirra dómafordæma sem þegar liggi fyrir þar sem reynt hafi á túlkun ákvæðisins. Í áðurnefndum athugasemdum komi fram að tilefni lagasetningarinnar hafi verið dómar Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málunum nr. 92/2010 og nr. 153/2010, sem skorið hafi úr um ólögmæta bindingu lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, svo og dómur Hæstaréttar frá 16. september 2010 í málinu nr. 471/2010, um vaxtaútreikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána. Með 18. gr. laga nr. 38/2001 og bráðabirgðaákvæði XI í sömu lögum, sbr. lög nr. 151/2010, hafi fjármálafyrirtækjum verið falið að endurreikna lán með ólögmætri gengistryggingu. Þörfin fyrir endurútreikning lánanna hafi fyrst og fremst helgast af hugsanlegri endurkröfu lántaka vegna greiðslna sem inntar hefðu verið af hendi á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar, en jafnframt gæti lánveitandi átt kröfu um viðbótarvexti í hennar stað. Þessar kröfur hafi almennt verið látnar mætast og mismunurinn, sem jafnan hafi verið skuldara í hag, verið látinn koma til lækkunar á höfuðstól.

Með hliðsjón af tilefni laganna og þeirri staðreynd að um undantekningarákvæði sé að ræða frá almennum reglum um fyrningu verði að telja að með „uppgjörskröfum“ í bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001 sé einvörðungu átt við endurgreiðslu- og viðbótarkröfur aðila að samningi sem skylt sé að endurreikna samkvæmt fyrirmælum laganna. Ákvæðið geti eðli málsins samkvæmt ekki tekið til krafna lánveitanda um aðrar greiðslur, svo sem höfuðstóls slíks samnings, en um slíkar kröfur gildi hins vegar almennar fyrningarreglur. Þessi skilningur hafi m.a. verið staðfestur í tveimur nýlegum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur. Einsýnt sé samkvæmt þessu að krafa stefnanda á hendur stefndu sé fyrnd og stefnandi hafi því glatað rétti sínum til efnda úr höndum þeirra og því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu. 

Verði á því byggt af hálfu stefnanda að hluti kröfu hans byggist á viðbótarvöxtum á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 þá sé til þess að líta að í stefnu sé engin grein gerð fyrir því hver sá hluti sé. Málatilbúnaði stefnanda sé hvað það varði verulega ábótavant og hann vanreifaður. Verði ekki séð að fyrrgreint bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001 geti átt við um kröfu stefnanda. Við úrlausn varðandi fyrningu kröfunnar verði að mati stefndu alfarið að líta til ákvæða laga nr. 14/1905, þannig að fyrningartími kröfunnar sé fjögur ár frá 15. mars 2010 varðandi alla kröfuna.  

Umfjöllun stefnanda um málsástæður sínar séu mjög óljósar og vanreifaðar í stefnu. Þar sé vikið að svokallaðri innborgun 11. febrúar 2015 að fjárhæð 157.130 krónur, sem sögð sé tilkomin vegna inneignar útgefanda lánssamningsins, G.T. samsteypunnar ehf., og eigi að hafa myndast við endurútreikning á ólögmætu gengistryggðu bílaláni félagsins. Stefnandi kveðist hafa skuldajafnað þessari inneign einhliða, og að því er virðist án samþykkis þrotabús G.T. samsteypunnar ehf., á móti vanskilum á lánssamningi félagsins. Stefndu hafi hvorki verið tilkynnt um fyrrgreindan skuldajöfnuð né að inneign hefði myndast hjá G.T. samsteypunni ehf. Ekki verði ráðið af stefnunni hvort stefnandi byggi að einhverju leyti á því að með fyrrgreindri innborgun hafi fyrningu kröfunnar verið slitið. Telji stefnandi að svo hafi verið sé því harðlega mótmælt enda deginum ljósara að fyrningu gagnvart stefndu verði ekki slitið með þessum hætti. Þó svo að talið yrði að skuldajöfnuður hafi verið heimill hafi það ekki í för með sér að fyrning ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi verið rofin. Samkvæmt almennum reglum um slit fyrningar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 og 14. gr. laga nr. 150/2007, geti skuldari rofið fyrningu kröfu með viðurkenningu á henni, svo sem með greiðslu inn á kröfu eða með samkomulagi um greiðslu hennar. Greiðsla með einhliða skuldajöfnuði, sem stefndu hafi ekki haft hugmynd um, geti hins vegar ekki undir nokkrum kringumstæðum rofið fyrningu kröfunnar.

Stefndu byggi jafnframt á því að krafa stefnanda gagnvart þeim sé fallin niður sökum tómlætis og athafnaleysis. Tómlæti stefnanda varðandi innheimtu kröfunnar og tilkynningar til stefndu um stöðu hennar sé með miklum ólíkindum. Af framlögðum gögnum málsins megi sjá að í rúm fjögur ár hafi stefnandi ekkert aðhafst gagnvart stefndu til að reyna að fá efndir kröfu sinnar, þ.e. frá 15. mars 2010, er krafan féll í gjalddaga, og þar til stefndu hafi verið send innheimtuviðvörun 25. júní 2014. Stefna hafi verið birt þremur árum síðar eða rúmum sjö árum frá því að krafan féll í gjalddaga. 

Sýknukröfu sinni til stuðnings vísi stefndu einnig til laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skuli lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur sé þegar um vanefndir lántakanda sé að ræða eða þegar bú lántaka sé tekið til gjaldþrotaskipta. Þá sé lánveitanda einnig skylt að senda ábyrgðarmönnum upplýsingar eftir hver áramót um stöðu lána sem ábyrgð standi fyrir svo og yfirlit yfir ábyrgðir. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. og sé vanrækslan veruleg skuli ábyrgðin falla niður. Af gögnum málsins verði ekki séð að stefnandi hafi sent stefndu skriflegar tilkynningar um vanefndir G.T. samsteypunnar ehf. á greiðslu kröfunnar þann 15. mars 2010, eða þegar bú lántaka hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2013. Þá hafi stefndu ekki verið tilkynnt um endurútreikninga á lánssamningnum fyrr en með birtingu stefnu í mars 2017. Stefnandi hafi hins vegar staðið við þá skyldu sína að senda stefndu um hver áramót yfirlit ábyrgða þeirra gagnvart stefnanda. Yfirlitin hafi verið mjög misvísandi, m.a. hafi tilgreind ábyrgðarfjárhæð verið mismunandi og í síðasta yfirlitinu, 10. janúar 2017, hafi tilgreind ábyrgðarfjárhæð verið sögð vera 13 milljónir króna. Stefndu telji einsýnt að stefnandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 32/2009 og að um verulega vanrækslu sé að ræða af hálfu stefnanda, sem valdi því að ábyrgð stefndu sé niður fallin, sbr. 2. mgr. 7. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 32/2009. 

Þó svo að hér sé um að ræða ábyrgð á skuld lögaðila verði ekki horft framhjá þeim grunnsjónarmiðum sem legið hafi að baki samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og fyrra samkomulagi sama efnis frá 27. janúar 1998. Þar hafi komið fram ákveðnar meginreglur sem síðar hafi verið teknar upp í lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Tilgangur fyrrgreinds samkomulags svo og laga nr. 32/2009 hafi verið að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða. Þar hafi komið fram ákveðnar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum þar sem sjálfskuldarábyrgð sé sett til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum, svo sem varðandi mat á greiðslugetu og ríka upplýsingaskyldu af hálfu lánveitanda til ábyrgðarmanna. Ekkert mat á greiðslugetu lántaka hafi farið fram á sínum tíma, auk þess sem upplýsingagjöf til stefndu, bæði fyrir og eftir að til sjálfskuldarábyrgðarinnar var stofnað, hafi verið lítil sem engin, að undanskildum fyrrgreindum tilkynningum um hver áramót um yfirlit ábyrgða.

Vilji svo ólíklega til að talið yrði að krafa stefnanda væri að einhverju leyti ófyrnd eða ekki fallin niður sökum tómlætis eða vegna ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 þá telji stefndu eðlilegt að ábyrgð þeirra á lánssamningnum frá 13. janúar 2006 verði vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í því sambandi sé m.a. vísað til stöðu aðila við samningsgerðina á sínum tíma og hins mikla aðgerðaleysis stefnanda gagnvart stefndu allt frá því að krafan hafi fallið í gjalddaga 15. mars 2010 og þar til þeim hafi verið stefnt rúmum sjö árum síðar. Þá sé vísað til vanrækslu stefnanda á skyldum sínum gagnvart stefndu samkvæmt lögum nr. 32/2009.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telji stefndu einboðið að sýkna beri þá af öllum kröfum stefnanda í málinu.    

Varakrafa stefndu um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu sé þess krafist til vara að dómkröfur stefnanda á hendur stefndu verði lækkaðar verulega. Til stuðnings kröfu sinni um lækkun vísi stefndu m.a. til þess að verði talið að bráðabirgðaákvæði nr. XIV í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. e-lið 2. gr. laga nr. 151/2010 og 1. gr. laga nr. 38/2014 eigi að einhverju leyti við varðandi fyrningu kröfunnar, þá sé ljóst að það ákvæði geti ekki undir nokkrum kringumstæðum átt við um höfuðstól hennar. Höfuðstóll kröfunnar geti aldrei talist til „viðbótarkrafna“ í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis. Höfuðstóll kröfunnar sé fyrndur hvað sem líði skilningi aðila á „viðbótarkröfum“ í bráðabirgðaákvæði nr. XIV í lögum nr. 38/2001. Tilgreining kröfunnar í tilkynningum stefnanda sjálfs til stefndu í upphafi hvers árs hafi verið mjög óljós og misvísandi og hafi ábyrgðarskuldbinding stefndu í tilkynningu 10. janúar 2017 verið sögð nema 13.000.000 króna. Til stuðnings varakröfu um lækkun á dómkröfum vísi stefndu að öðru leyti til sömu málsástæðna, sjónarmiða og rökstuðnings og til stuðnings aðalkröfu þeirra um sýknu.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Vísað sé til fyrningar svo og til 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um dráttarvexti sem falli til eftir gjalddaga, nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni hafi sannanlega verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.

Stefndu geri í aðal- og varakröfu sinni kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda. Málskostnaðarkrafa stefndu byggi á ákvæðum 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi önnur lagarök fyrir kröfum stefndu í málinu sé fyrst og fremst vísað til ákvæða laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, einkum til 3., 5., 6. og 11. gr. laganna. Þá sé vísað til laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, einkum til 24. og 28. gr. laganna. Stefndu vísi einnig til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og sé í því sambandi m.a. vísað til 18. gr. laganna og ákvæða til bráðabirgða nr. XI og XIV. Þá sé m.a. vísað til 1., 3., 7., og 12. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, svo og bráðabirgðaákvæðis þeirra laga. Stefndu vísi einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Niðurstaða

Málsatvik eru óumdeild og eru þau rakin, eins og þau birtast í gögnum málsins og aðilar lýsa þeim í stefnu og greinargerð, í sérstökum kafla hér að framan. Svo sem þar kemur fram höfðar stefnandi málið til innheimtu á skuld samkvæmt lánssamningi sem stefndu tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á 13. janúar 2006, en lokagjalddagi lánsins samkvæmt síðasta samningsviðauka sem stefndu samþykktu var 15. mars 2010.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og byggja á því aðallega að ábyrgðarskuldbinding þeirra sé fyrnd, með vísan til 4. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt lagaákvæðinu fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum, en fyrningarfrestur telst, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga, frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf.

Við málflutning kom fram að óumdeilt er að um fyrningu kröfunnar gilda lög nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Einnig er óumdeilt að skuldin varð gjaldkræf 15. mars 2010 og að innborgun á skuldina 11. febrúar 2015, vegna endurútreiknings á bílaláni lántaka, hefur enga þýðingu til slita á fyrningu, en fyrningu telst slitið við höfðun málsins. Af hálfu stefnanda var á því byggt við málflutning að af orðalagi ábyrgðarskuldbindingar stefndu í lánssamningi mætti ráða að ábyrgð þeirra stæði meðan skuldin væri ógreidd og ófyrnd, en heimilt væri að víkja frá lögmæltum fyrningarfrestum með samningi. Í því sambandi var á því byggt að þar sem skuldin væri vegna peningaláns hefði hún tíu ára fyrningartíma samkvæmt lögum nr. 14/1905 og væri því ófyrnd. Í lánssamningnum segir að ábyrgðin gildi jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum samkvæmt samningnum, einu sinni eða oftar, uns skuldin sé að fullu greidd. Á það verður ekki fallist að með framangreindri yfirlýsingu hafi stefndu skuldbundið sig til ábyrgðar á endurgreiðslu skuldarinnar til lengri tíma en verið hafi lögmæltur fyrningarfrestur krafna vegna slíkra ábyrgðarskuldbindinga.

Af hálfu stefnanda var öðru fremur á því byggt við flutning málsins fyrir dóminum að um fyrningu kröfu hans á hendur stefndu ætti að fara eftir ákvæði til bráðabirgða nr. XIV í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. e-lið 2. gr. laga nr. 151/2010 og 1. gr. laga nr. 38/2014. Samkvæmt lagaákvæðinu skal fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknast frá 16. júní 2010 og skal hann vera átta ár frá því tímamarki.

Óumdeilt er að lánið sem um ræðir var bundið ólögmætri gengistryggingu og var það endurútreiknað í tvígang. Framangreint bráðabirgðaákvæði nr. XIV í vaxtalögum er sérákvæði um fyrningarfrest sem gengur framar almennum reglum um upphaf fyrningar og fyrningarfrest þeirra krafna sem þar eru nefndar „uppgjörskröfur“, en aðila greinir í máli þessu á um hvort það taki til krafna stefnanda á hendur stefndu.

Með 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og bráðabirgðaákvæði XI í sömu lögum, sbr. lög nr. 151/2010, var fjármálafyrirtækjum falið að eiga frumkvæði að endurreikningi lána með ólögmætri gengistryggingu. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 151/2010 kemur fram að tilefni lagasetningarinnar hafi verið dómar Hæstaréttar 16. júní 2010 í málunum nr. 92/2010 og 153/2010, um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, og dómur réttarins 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, um vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána. Laut slíkur endurútreikningur að hugsanlegri endurkröfu lántaka vegna greiðslna sem inntar hefðu verið af hendi á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar, en jafnframt gat lánveitandi átt kröfu um viðbótarvexti í hennar stað. Af hálfu stefnanda er ekki á því byggt að dómkrafa hans sé að einhverju leyti reist á viðbótarvöxtum á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001.

Í ljósi tilefnis laga nr. 151/2010, og að teknu tilliti til þess að fyrirmæli þeirra um upphaf fyrningar og fyrningarfrest eru sérákvæði sem víkja frá almennum reglum um fyrningu, telur dómurinn að með uppgjörskröfum í bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001 sé einungis vísað til endurgreiðslu- og viðbótarkrafna aðila að samningi sem skylt er að endurreikna samkvæmt fyrirmælum laganna. Um kröfur á grundvelli yfirlýsingar um sjálfskuldarábyrgð gilda hins vegar almennar fyrningarreglur.

Samkvæmt framansögðu og í samræmi við 4. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 og 1. mgr. 5. gr. sömu laga fyrnist krafa stefnanda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar stefndu á fjórum árum frá því að krafan varð gjaldkræf þann 15. mars 2010. Krafan var því fyrnd þegar mál þetta var höfðað með stefnubirtingum dagana 28. mars og 31. mars 2017 og var hún reyndar þegar fyrnd 25. júní 2014 þegar stefndu var send innheimtuviðvörun. Þegar af þeirri ástæðu að krafan er fyrnd verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda á hendur þeim.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu óskipt 1.435.000 krónur í málskostnað, án tillits til virðisaukaskatts. Álag sem stefndu kröfðust við málflutning, sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991, verður ekki dæmt.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Guðmundur Tryggvi Ásbergsson og Guðmundur Tryggvi Sigurðsson, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 1.435.000 krónur í málskostnað.

Kristrún Kristinsdóttir