• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2019 í máli nr. S-807/2018:

Ákæruvaldið

(Kári Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Aðalsteini A Guðlaugssyni

            (Þorgils Þorgilsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 27. nóvember 2018, á hendur Aðalsteini A. Guðlaugssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa miðvikudaginn 7. mars 2018 að [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum 45,21 g af amfetamíni og 4,58 g af marihuana, sem lögreglumenn fundu við leit í íbúðinni og að hafa skömmu síðar, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,89 g af MDMA og 5,7 g af kókaíni, sem lögreglumenn fundu við leit á ákærða.

Telst háttsemin varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á 45,21 g af amfetamíni, 4,58 g af marihuana, 0,89 g af MDMA, 5,7 g af kókaíni, vog, hasspípu og áhöldum (vape græja stór í machintosh kassa o.fl.) er lagt var hald á við leit á ákærða og í framangreindu húsnæði samkvæmt 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 21. nóvember 2018, var hann þann 17. október sl. dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Það fíkniefnalagabrot sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru í þessu máli var framið áður en hann gekkst undir fyrrgreindan dóm frá 17. október sl. og verður refsing fyrir það brot ákveðið sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 17. október 2018.

Við ákvörðun refsingar er litið til skýlausrar játningar ákærða. Með hliðsjón af framangreindu og sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 dagar en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkisjóðs, 45,21 g af amfetamíni, 4,58 g af marihúana, 0,89 g af MDMA, 5,7 g af kókaíni, vog, hasspípa, rafretta og áhöld í Machintosh kassa, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari.

Benedikt Smári Skúlason, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Aðalsteinn A. Guðlaugsson, sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 45,21 g af amfetamíni, 4,58 g af marihuana, 0,89 g af MDMA, 5,7 g af kókaíni, vog, hasspípa, rafretta og áhöld í Machintosh kassa.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 105.400 krónur.

 

Benedikt Smári Skúlason