• Lykilorð:
  • Dánarbú
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Skiptastjóri
  • Skaðabótamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2018 í máli nr. E-515/2018:

 

Kristin Lif Linder

Ingrid Saga Linder

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

gegn

A

Vátryggingafélagi Íslands hf. (Réttargæsla)

(Björgvin Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 1. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristínu Líf Þórisdóttur Linder [...] og Ingrid Sögu Þórisdóttur Linder, [...] á hendur A, [...], Reykjavík og Vátryggingafélagi Íslands hf, [...], til réttargæslu, með stefnu birtri 13. febrúar 2018.

Stefnendur krefjast þess að stefnda verði gert að greiða stefnendum, hvorri um sig, skaðabætur að fjárhæð 2.270.644 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 16. febrúar 2016 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað, líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda í málinu. Til þrautavara er þess krafist að dómkröfur verði stórlega lækkaðar og aðeins teknar til greina að óverulegu leyti. Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur í öllum tilvikum, að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu en styður málatilbúnað og málsástæður stefnda.

            Í þessum þætti málsins er krafa stefnda um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefnda og krefjast málskostnaður í þessum þætti málsins eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

 

 

 

I

            Hinn 31. mars 2011 lést Þórir Níels Jónsson. Hann lét eftir sig eiginkonu og tvær dætur af fyrra sambandi, það er stefnendur.

Hinn 27. október 2011 var dánarbú hins látna tekið til opinberra skipta, samanber úrskurð héraðsdóms Suðurlands þann dag og stefndi skipaður skiptastjóri. Stefndi kveður að eignir í dánarbúinu hafi þá verið 50% eignarhlutur hins látna í jörðinni [...] ásamt mannvirkjum, landnúmer [...], fastanúmer mannvirkja [...], Árborg, en á móti hafi eftirlifandi maki hins látna, Áslaug Fjóla Guðmundsdóttir, átt 30% eignarhluta í jörðinni, og móðir Áslaugar Fjólu, Hrefna Karlsdóttir átt 20% eignarhluta. Aðrar eignir hafi verið bifreiðin [...] KIA sportage, árg. 1998, eignarhlutar hins látna í hrossastóði að [...], 50% eignarhluti á móti eignarhluta ekkjunnar í sauðfé á [...], í veðsettri hestakerru að bókfærðu verði skv. skattmati 204.80 kr., í sláttuvél að bókfærðu verði skv. skattmati 75.366 kr., rúllugreip að bókfærðu verði skv. skattmati 100.455 kr. og í gömlum sturtuvagni að bókfærðu verði skv. skattmati 128.309 kr.

Lýstar kröfur í búið voru samtals að fjárhæð 51.692.438 kr., þar af krafa Arion banka að fjárhæð 44.186.723 kr. með veðrétti í 80% eignarhluta [...]. Kröfum með lögveðrétt í eigninni lýstu m.a. Sveitarfélagið Árborg og Flóahreppur. Aðrir kröfuhafar voru Bændasamtök Íslands, Ásgeir Ingvi Jónsson, Vélaver ehf., Innheimtustofnun sveitarfélaga, Sólning Kópavogi, Fóðurblandan hf., Jötunn Vélar ehf., Íslandsbanki Ergo, Dagur Baldurs ehf., Dýralæknaþjónusta Suðurlands og Sláturfélag Suðurlands, sem samtals námu 2.763.094 kr. Stefndi kveður að ljóst hafi verið að 80% eignarhluti hins látna og eftirlifandi maka í jörðinni, var yfirveðsettur og við hafi blasað að eftirstöðvar af lýstum kröfum Arion banka hf., ásamt þeim vöxtum og kostnaði sem við bættust frá úrskurðardegi, myndu bætast við sem óveðtryggðar kröfur í dánarbúið, eftir að eignarhlutinn í fasteigninni hefði verið seldur.   

Stefndi kveðst hafa reynt að selja jörðina, með samþykki eiganda 20% hennar. Í nóvember 2012 barst kauptilboð að fjárhæð 48.000.000 kr. í alla jörðina ásamt mannvirkjum. Arion banki synjaði því og taldi hyggilegast að láta nauðungarsölu fara fram á eigninni. Bankinn tók einnig fram að það sem ekki fengist greitt upp í kröfu bankans úr nauðungarsölunni yrði almenn krafa í dánarbúið og líklega fengist eitthvað greitt upp í þá kröfu af óveðsettum eignum dánarbúsins, svo sem hrossum, samanber tölvupóst bankans frá 20. febrúar 2013. Hinn 23. apríl 2013 fór fram nauðungarsala og var eignarhluti hins látna ásamt 30% eignarhluta ekkju hans, sleginn Arion banka á 10 m.kr. Að frádregnum lögboðnum uppboðsgjöldum og lögveðum fékk Arion banki hf. 8.407.395 kr. vegna skuldabréfs á 1. veðrétti. Stefndi kveður að eftir hafi staðið stærstur hluti krafna bankans, auk áfallinna dráttarvaxta af þeim frá 27. október 2011, þ.e. úrskurðardegi.

Hinn 9. maí 2013 var hrossastóðið verðmetið og miðað við andlátsdag voru það 112 hross að verðmæti 13.160.000 kr. Verðmestu hrossin munu hafa verið í hjúskapareign eftirlifandi maka Þóris, það er skráð á hana í WorldFeng alþjóðlegu skráningarkerfi íslenskra hrossa. Auk þess hafi einhver þeirra verið í eigu móður eftirlifandi maka.

Hinn 10. júní 2013 tilkynnti stefndi á skiptafundi í dánarbúinu um þá ákvörðun sína að fara eftirleiðis með búið sem gjaldþrotabú skv. ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Hinn 1. júlí 2013 óskaði stefndi lausnar sér til handa undan störfum sem skiptastjóri í umræddu dánarbúi og var fallist á þá beiðni 16. júlí 2013. Var Haukur Guðmundsson hdl. skipaður skiptastjóri í stað stefnda.

Hinn 16. febrúar 2016 var samþykkt á skiptafundi úthlutunargerð vegna dánarbúsins. Þar kemur fram að hrossin að matsverði 12.340.000 kr. hafi verið seld/ráðstafað til ekkju. Sturtuvagn að skattmati 128.309 kr., rúllureipi að skattmati 100.455 kr., sláttuvél að skattmati 75.366 kr. og bifreið að skattmati 57.934 kr. hafi verið arfshluti ekkju.

 

II

Frávísunarkrafan byggist í fyrsta lagi á því að kröfugerðin sé ekki í samræmi við þær lagareglur er gildi um skipti á dánarbúum sbr. lög nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í stefnunni sé byggt á þeirri aðferðafræði að allar eigur eftirlifandi maka í eignum sem teljist lausafé skuli falla til búsins. Fyrst til uppgjörs á lýstum kröfum í dánarbúið og kostnaði við skiptin, en því sem þá standi eftir skuli skipt í tvo jafna hluta. Annar þeirra teljist búshluti maka og hinn búshluti hins látna, og hinn síðarnefndi komi þá til skipta milli erfingja þar sem stefnendur og eftirlifandi maki erfi hvert um sig 1/3 arfshluta. Þessi aðferð sé ekki í samræmi við 2. mgr. 34. gr., sbr. 109. gr. laga nr. nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum (og 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993) er mæla fyrir um hvernig búshluti hvors hjóna skuli fundinn út, en þar segir að við skiptin skuli greina milli þeirra eigna sem tilheyra hvorum aðila fyrir sig og þeirra sem tilheyra þeim í sameiningu. Síðan skuli lagt saman hjá hvorum aðila verðmæti hjúskapareigna er honum tilheyra og verðmæti hlutdeildar hans í því sem hann á í sameign með gagnaðilanum. Stefndi bendir á að verðmestu eignirnar að Efra-Seli, þ.e. þau hross sem séu sérstaklega verðmetin í verðmati hafi nánast öll verið hjúskapareign eftirlifandi maka. Frá þessari heildareign hvors um sig skuli síðan dregin fjárhæð skulda sem beinist að hvoru þeirra að viðbættri hlutdeild viðkomandi í sameiginlegum skuldum. Eigi annar hvor aðilinn eignir umfram skuldir við framangreindan útreikning, komi hrein eign hans til skipta milli aðila. Sú aðferð sem stefnendur beiti skv. stefnu myndi hins vegar leiða til þess að ekkert tillit væri tekið til skulda eftirlifandi maka sem ekki séu sameiginlegar með skuldum hins látna og því ekki lýst í dánarbúið. Af hálfu stefnda sé á því byggt að með öllu sé ósannað að hreinni eign hafi verið til að dreifa hjá eftirlifandi maka og, skv. 109. gr. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, hafi því dánarbúið ekki átt neitt tilkall til eignahlutdeildar í þeim eignum sem tilheyrðu hennar búshluta skv. ofansögðu.

Vanreifað sé í stefnu hver hrein eign í búshluta eftirlifandi maka hafi verið og því sé engin leið fyrir dóminn að ákvarða hverrar fjárhæðar tilkall dánarbúsins í hennar búshluta hafi verið. Eigi þetta að leiða til frávísunar málsins frá dómi. Einnig sé í umfjöllun í stefnu, þar sem gerð sé grein fyrir útreikningum að baki kröfugerð stefnenda í málinu, ekki tekið tillit til þeirra eigna sem dánarbúið seldi eða peningalegra eigna sem til þess runnu, er skv. úthlutunargerð námu að verðmæti rúmum 2,6 milljónum króna. Því sé jafnframt mótmælt að kostnaður af skiptunum sem og greiðslur á lýstum kröfum, hafi átt að greiðast af eigum úr búshluta eftirlifandi maka. 

Þá sé byggt á því að málsástæður stefnenda, og orsakasamband þeirra við hið ætlaða tjón, séu óljósar, óskýrar og vægast sagt ekki greinargóðar. Þannig sé þar að finna almenna umfjöllun í stefnu um skyldur skiptastjóra í dánarbúi í opinberum skiptum, sem stefnendur telja að stefndi hafi ekki fylgt út í hörgul við skiptastjórn í dánarbús Þóris, án þess að á nokkurn hátt sé rakið hvernig sú ætlaða vanræksla eigi að hafa leitt til tjóns fyrir stefnendur. 

 

III

            Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefnda. Í stefnu sé byggt á því að allar eignir skuli falla til búsins. Enginn kaupmáli hafi verið gerður milli hins látna og eftirlifandi maka. Stefnendur telja að byggja eigi á úthlutunargerðinni. Hún sé samin af skiptastjóra sem sé opinber sýslunarmaður. Honum sé óskylt að koma fyrir dóm og í stað þess dugi vottorð sem sýslunarmenn gefi út. Stefnendur telja að staða dánarbúsins sé nægjanlega í ljós leidd og því sé rétt að byggja á úthlutunargerðinni.

            Stefnendur halda því fram að í stefnu sé gerð grein fyrir því tjóni sem athöfn/athafnarleysi stefnda hafi valdið þeim og vísa til þess sem fram komi í málavaxtalýsingar kafla stefnenda en þar segir: „Á meðal þeirra aðfinnslna sem komu fram á störf stefnda var að hann hefði ekki hirt þannig um eigur dánarbúsins að firra mætti búið, erfingja og kröfuhafa tjóni. Eftir að stefndi tók við rekstri búsins sem skiptastjóri afhenti hann ekkju hins látna flestar eignir búsins, eins og að framan greinir. Á meðal þeirra eigna var hrossastóð, sem henni var fært að því er virðist til frjálsrar ráðstöfunar (dskj. 3) í bága við 54. gr. laga nr. 20/1991.“

            Þá benda stefnendur á að í stefnu var áskilinn réttur til að fá dómkvaðningu matsmanna og það sé heimilt til frekari sönnunar á kröfum málsins.

            Stefnendur telja að tjón þeirra hafi að fullu verið ljóst þegar skiptum hafi verið lokið og sé krafan því frá þeim degi. Þá telja stefnendur að skýrlega komi fram í stefnu hvernig krafan sé reiknuð út.

 

IV

Stefnendur krefjast skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðrar saknæmrar hegðunar hans í störfum hans sem skiptastjóri. Byggt er á því að stefndi sé bótaskyldur eftir almennum meginreglum skaðabótaréttarins og 1. mgr. 25. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. einnig 4. mgr. 48. gr. laga 20/1991 um skipti dánarbúa.

Stefnendur byggja á því að tjón hvorrar um sig sé 2.270.644 kr. Samkvæmt stefnu byggist sú fjárhæð á því, að samkvæmt úthlutunargerð skiptastjóra, sem skipaður var eftir að stefndi sagði sig frá málinu og hafði afhent búið til gjaldþrotaskipta, voru ekkjunni úthlutaðar 13.623.864 kr. Stefnendur telja að helmingur fjárhæðarinnar sé hjúskapareign ekkjunnar, en helmingurinn eigi að skiptast á milli ekkjunnar og stefnenda þannig að í hlut hverrar komi 2.270.644 kr. (13.623.864:2=6.811.932:3=2.270.644 kr.) Því er byggt á skiptahlutföllum samkvæmt 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Í kaflanum um málsástæður og lagarök í stefnu segir: „Eins og að framan er greint er ljóst að skiptafundir voru ekki haldnir í samræmi við ákvæði 1. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991, bókhald var ekki haldið í samræmi við ákvæði 8. tl., sbr. 6. tl., 1. gr. laga um bókhald nr. 145/1994, ekki var gert yfirlit yfir efnahag og rekstur búsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. 49. gr. laga nr. 20/1991 og engar tilraunir voru gerðar til þess að tryggja varðveislu eigna í samræmi við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991. Þá sé ljóst skiptastjórinn brást gjörsamlega öðrum lögboðnum skyldum sínum skv. VI. kafla laga nr. 20/1991, s.s. að gera grein fyrir efnahag búsins á þeim skiptafundum sem haldnir voru þann 1. og 20. febrúar 2013.

Þá liggur fyrir að ekki var greint frá því með skýrum hætti hvaða eignir voru í dánarbúinu eða hvaða kröfur hefðu verið gerðar á hendur því, í samræmi við VI. og VII. kafla laga nr. 20/1991, áður en farið var með það eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, sbr. ákvæði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991. Þá er ljóst að skattframtölum fyrir árinu 2013 og 2014 var ekki skilað vegna rekstrar búsins á árunum 2012 og 2013, í trássi við ákvæði 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 90. gr. sömu laga.“

Stefnendur gera hér almenna grein fyrir skyldum skiptastjóra og telja upp þau lagaákvæði sem þeir telja að stefndi hafi ekki virt í störfum sínum. Ætla má að stefnendur séu með þessu að gera grein fyrir hinni bótaskyldu háttsemi stefnda, þótt það liggi ekki skýrt fyrir. Hins vegar er í engu lýst hvernig ætlað athafnaleysi stefnda hafi valdið stefnendum tjóni. Því er ekki gerð grein fyrir orsakasamhengi milli tjónsatburðar og tjónsins.

Eins og að framan greinir lögðu stefnendur úthlutunargerð, er annar skiptastjóri gerði, til grundvallar tjóni stefnenda. Engin grein er gerð fyrir því hvers vegna stefndi beri ábyrgð á og skapi sér bótaskyldu vegna niðurstöðu þeirrar úthlutunargerðar.

Grunnur málsins virðist lúta að því að tjón stefnenda sé það að þær hafi ekki fengið arf eftir föður sinn. Hefði þá komið til skoðunar að miða við eignir á dánardegi og að búinu hefði verið skipt í samræmi við reglur laga um skipti dánarbúa, sbr. 2. mgr. 34. gr., sbr. 109. gr. laga nr. nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og 106. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Stefnendur miða hins vegar við úthlutunargerð sem gerð var vegna gjaldþrotaskiptanna. Grundvöllur málsins er því verulega óljós og reikull og slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnenda að hann fullnægir ekki kröfu d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnendur hafa ekki lagt málið upp með nægjanlega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að því sem nauðsynlegur er til að unnt sé að kveða upp efnisdóm í málinu. Með vísan til þess sem að framan greinir ber að vísa málinu frá dómi.

            Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnendum sameiginlega að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 kr.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði þar með málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ómars R. Valdimarssonar, sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 kr. Málflutningsreikningur lögmannsins að fjárhæð 2.345.911 kr. þykir úr hófi þegar litið er til umfangs málsins og málatilbúnaðarins.

            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Málinu er vísað frá dómi. 

Stefnendur, Kristín Líf Þórisdóttir Linder og  Ingrid Saga Þórisdóttir Linder, greiði stefnda, A, 800.000 kr. í málskostnað.

            Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun Ómars R. Valdimarssonar, 800.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir