• Lykilorð:
  • Fordæmi
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Lögskýring
  • Ráðningarsamningur
  • Sjómenn
  • Uppsögn
  • Vinnulaun
  • Vinnusamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 20. mars 2019 í máli nr. E-1759/2018:

A

(Jónas Þór Jónasson lögmaður)

gegn

Ögurvík ehf.

(Magnús Helgi Árnason lögmaður)

 

 

I.

Dómkröfur o.fl.:

Mál þetta var höfðað 31. maí 2018 og dómtekið 4. mars 2019. Stefn­andi er A, [...], [...]. Stefndi er Ögurvík ehf., Norður­­­­­garði 1, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.171.636 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­­ingu frá 16. ágúst 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi máls­kostn­­­­aðar að skað­­­lausu úr hendi stefnda að mati dómsins og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst sýknu og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

 

II.

Málsatvik:

Stefnandi hafði samkvæmt ráðningarsamningi starfað í rúmlega þrjú og hálft ár sem báts­maður á frysti­­­togaranum [...], skipaskrárnúmer [...], í út­gerð stefnda, þegar honum var sagt upp störf­um með þriggja mánaða uppsagnar­fresti frá og með 16. ágúst 2017. Í uppsagnarbréfi var tekið fram að ekki væri óskað eftir vinnu­­fram­­lagi stefnanda í uppsagnarfresti. Að sögn stefnda taldi hann það vera í þágu hags­muna stefn­anda að hann væri laus frá vinnuskyldu í uppsagnarfresti.

Skipti­­mannakerfi var á skipinu, sem fólst í því að stefnandi fór aðra hverja veiði­ferð en var í fríi aðra hverja ferð. Nánar tiltekið var stefnandi á launum þegar hann var á sjó en launa­laus þegar hann var í fríi.

Stefnandi var í veiðiferð sem hófst 12. júlí 2017 og lauk 14. ágúst sama ár. Næsta veiði­ferð var farin frá 15. ágúst 2017 til 11. september sama ár, en þá átti stefn­andi að vera í fríi ef ekki hefði komið til fyrrgreindrar uppsagnar. Í næstu veiðiferð þar á eftir, á tímabili frá 12. september 2017 til 10. október sama ár, ef ekki hefði komið til uppsagnarinnar, hefði stefnandi verið meðal skipverja á skipinu. Stefn­andi hefði hins vegar verið í fríi í næstu veiðiferð þar á eftir, á tímabili frá 11. október 2017 til 7. nóvember sama ár. Þá hefði stefnandi verið meðal skipverja í veiði­ferð skipsins sem var farin þar á eftir, á tímabili frá 8. nóvember 2017 til 6. des­ember sama ár.

Stefnandi fékk laun í uppsagnarfresti sem tóku til veiðiferða sem hann hefði átt að fara sjálfur samkvæmt framangreindu fyrirkomulagi, ef ekki hefði komið til upp­sagnar, en ekki vegna þess tímabils sem hann hefði átt að vera í fríi. Aðila greinir á um hvort stefnda beri skylda til að greiða stefn­anda laun allan uppsagnar­frest­inn, þar með talið vegna þeirra veiðiferða sem gert hafði verið ráð fyrir að stefnandi væri í fríi.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á því að fá laun allan upp­sagnar­frestinn, það er laun vegna allra veiðiferða skipsins í uppsagnarfresti, en ekki ein­göngu vegna þeirra veiðiferða sem hann hefði sannanlega farið á því tíma­bili ef ekki hefði komið til uppsagnar. Stefn­andi reisir mál sitt á því að dómur Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 126/1989, sem birtur er í dóma­safni 1990, bls. 1246, hafi fordæmisgildi og bindi báða aðila í máli þessu. Bæði málin séu alger­lega sambærileg og taki til túlkunar á þeim ákvæðum sjómanna­laga nr. 35/1985 sem eigi við, nánar tiltekið 25. gr., sbr. 9. gr., þeirra laga. Engar breyt­­­­ingar hafi verið gerðar á þeim lögum frá árinu 1990, eða ný laga­­sjónar­mið komið fram, sem hnekki fordæmis­gildi dómsins. Hið sama eigi við um dóm Hæsta­­réttar frá 28. októ­­­ber 2004, í máli nr. 210/2004. Þá leggur stefnandi áherslu á það að lög nr. 35/1985 séu sérlög um réttar­stöðu sjómanna. Af því leiði að lögin séu um margt rýmri en lög og ákvæði sem eigi almennt við um starfs­menn í landi. Eigi þetta til að mynda við um tilvik stefnanda, sem sjómanns, varðandi rétt til fullra launa allan upp­sagnar­frestinn.

Stefnandi tekur fram að eldri fordæmi Hæstaréttar Íslands eigi almennt enn við, að því er varði túlkun laga nr. 35/1985, enda þótt um sé að ræða dóma sem kveðnir hafi verið upp fyrir gildistöku laganna. Í því sambandi vísar stefnandi til dæmis til dóms Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1986, bls. 1248, þar sem staðfest hafi verið niðurstaða héraðsdóms sem byggðist á dómafordæmum í tíð eldri laga, sbr. tvo dóma Hæsta­­réttar birta í dómasafni 1973, bls. 722 og 731. Hið sama eigi við um dóm Hæsta­réttar frá 1. febrúar 2001, í máli nr. 294/2000, þar sem vísað hafi verið til for­dæmis í eldri dómi réttarins birtum í dóma­safni 1983, bls. 1707. Í fyrrgreindum til­vik­um hafi til­gangur málsóknar verið að reyna að fá hnekkt fyrri dómafordæmum. Það hafi hins vegar ekki tekist. Hæsti­réttur hafi haldið sig við fyrri fordæmin enda hafi hvorki tilvitnuð ákvæði sjó­manna­laga breyst, né heldur lagasjónarmið eða réttarreglur á þessu sviði. Forsendur hafi því ekki verið fyrir hendi til að víkja frá hinum eldri for­dæmum.

Stefnandi byggir á því að yfirmenn á skipum, að frátöldum skipstjóra, eigi rétt á óskert­um launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. og 25. gr. laga nr. 35/1985. Því til frekari stuðnings vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar frá 1. febrúar 2001, í máli nr. 340/2000. Að því virtu þurfi stefnandi ekki að hlíta því að tekjur, sem hann kunni hugsan­lega að hafa unnið sér inn annars staðar í uppsagnarfresti, séu dregnar frá.

Stefnandi tekur fram að hann byggi kröfu sína á útreikningi og sundurliðun stéttar­­­­­­­­félags síns, Sjómannafélags Íslands, miðað við þá veiðiferð og hluta úr veiðiferð í lok uppsagnartímans sem stefnandi hefði ekki farið í en verið í fríi samkvæmt gild­andi vinnu­­fyrirkomulagi um borð í [...]. Heildarkrafan, auk vaxta, sem nánar sé sundur­­liðuð í gögnum málsins, nemi því 2.171.656 krónum, auk dráttarvaxta og máls­­­kostn­­aðar.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til 4., 6., 9., 25. og 27. gr. laga nr. 35/1985, sbr. gr. 1.11 í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Sjómannasambands Íslands (SSÍ). Um orlof vísar stefnandi til laga nr. 30/1987 um orlof. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 varðandi dráttarvexti. Um máls­­­­kostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, auk laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi reisir sýknukröfu sína á meginreglu skaðabótaréttar, að skaðabætur eigi að gera stefnanda, sem tjónþola, eins settan fjárhagslega og ef tjónsatvikið, sem var í formi um­ræddrar uppsagnar, hefði ekki komið til. Stefndi byggir á því að dóma­fordæmi, sem stefn­­andi vísar til í stefnu, eigi aðeins við um yfirmenn á skipum sem eigi lögbundinn þriggja mánaða upp­sagnar­­frest, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985. Aðrir skipverjar en yfirmenn, eins og stefn­andi, hafi lögbundinn sjö daga uppsagnar­frest, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar. Ákvæði kjarasamnings aðila ákvarði hins vegar þriggja mánaða upp­sagnar­­­frest, eftir fjögurra ára samfellt starf. Sá uppsagnarfrestur sé ekki lögbundinn og hann sé umfram hinn lögbundna sjö daga frest. Ófrá­víkjanlegur lög­bundinn upp­sagnar­frestur sé hins vegar grundvöllur niður­staðna þeirra dóma sem stefnandi vísi til í stefnu.

Stefndi tekur fram að jafnvel þótt litið verði á uppsögn stefnanda 16. ágúst 2017 sem riftun ráðningar þá eigi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985 við um atvik. Í því ákvæði sé kveðið á um sjö daga upp­sagnar­frest nema á annan veg hafi verið samið. Í tilviki stefn­­anda og stefnda hafi verið samið á annan veg í tveimur meginatrið­um. Annars vegar hafi verið samið um lengd uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi og hins vegar að stefnandi færi í aðra hverja veiðiferð á umræddu skipi og fengi þá laun, en hann væri launalaus í þeim veiðiferðum sem hann væri í fríi. Stefndi tekur fram að í lög­um nr. 35/1985 sé í engu vikið að skiptimannakerfi. Í kjarasamningi komi hins vegar fram bókun um að samningsaðilum sé ljóst að aukist hafi verulega að settar hafi verið skipti­­­­­manna­áhafnir á skip, enda [hafi] það skapað betra og fjöl­skylduvænna starfs­umhverfi skip­verja. Bókunin, sem fjalli um veikindi og slys skip­verja í skipti­manna­kerfi, vísi til þess almenna skilnings samningsaðila að skiptimanna­kerfi, eins og það sem stefn­andi starf­aði eftir, væri honum hagfellt þar sem það fæli í sér fjöl­skyldu­vænna starfs­­umhverfi. Þá komi fram í bókuninni sá skilningur stéttarfélags stefnanda að skip­verjar í skipti­mannakerfi njóti sambærilegra réttinda og þeir skipverjar sem starfi ekki í slíku kerfi. Stefndi tekur fram að hann telji að það sé álit stéttarfélags stefnanda að skip­verji sem starfi í skiptimannakerfi og sagt sé upp í starfi, veikist eða slasist, eigi hvorki að hafa fjárhagslegan ávinning né fjárhagslegt tap af uppsögn ráðn­ingar, veik­indum eða slysi.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til laga nr. 35/1985, einkum 2. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr., þeirra laga. Þá byggir stefndi á almennum reglum vinnu-, samninga- og skaðabótaréttar. Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstöður:

Lög nr. 35/1985 eru sérlög á sviði vinnuréttar sem ganga framar almennum lögum og meginreglum vinnuréttar, eftir því sem við á. Samkvæmt 1. málsl. 1. gr. þeirra laga gilda þau um alla sjómenn á íslenskum skipum. Með skipverja er sam­kvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna átt við hvern þann sjómann sem á skip er ráðinn til skipsstarfa. Báts­maður fellur þar undir en hann telst hins vegar ekki til yfirmanna á skipi samkvæmt gagn­ályktun frá 2. mgr. sömu lagagreinar. Sjómenn á fiskiskipum taka almennt laun sam­kvæmt kjarasamningum sjó­­manna á svo­kölluðu skiptimanna­kerfi sem á sér jafnframt stoð í 27. gr. laga nr. 35/1985. Í meginatriðum felur það í sér að sjómaður fær greidd laun frá út­gerð þegar hann er við störf á fiski­skipi í veiðiferð en ekki þegar hann er í fríi í landi. Sam­kvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 35/1985 á skipverji, hvort heldur sem hann er undir­maður eða yfirmaður, almennt rétt á launum í uppsagnarfresti sem mælt er fyrir um í 9. gr. lag­anna ef hon­um er vikið úr skips­rúmi áður en ráðn­ingar­tími hans er liðinn. Almennur upp­­sagnar­­frestur skipverja á fiski­skipi, sem ekki telst til yfir­manns, er sjö dagar sé eigi á annan veg samið, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985. Sam­kvæmt 4. gr. sömu laga er með kjarasamningum unnt að semja um betri rétt­­indi sjó­mönnum til handa en leiðir af ákvæð­um laganna og skulu lagaákvæðin í engu skerða fyllri rétt sjómanna samkvæmt slíkum ­samn­­ing­um. Hið sama leiðir af 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldu­tryggingu lífeyris­rétt­inda. Að þessu virtu er kjara­samn­ingur réttar­heimild og hliðstæður lögum eða opin­berum reglum.

Stefnandi var á grundvelli ráðningarsamnings 22. desember 2013 ráðinn ótíma­bundið til starfa á fiskiskipinu [...]. Samkvæmt ráðningar­samningnum fór um starfs­kjör hans samkvæmt kjara­samningi LÍÚ og SSÍ, að því leyti sem ekki var kveðið á um þau kjör í ráðningar­samn­ingn­um. Óumdeilt er að stefnandi var á skipti­manna­kerfi á meðan hann starfaði fyrir stefnda og fékk laun fyrir þær veiðiferðir skipsins þegar hann var í áhöfn en var launalaus þess á milli þegar hann var í fríum. Stefn­­­andi gegndi starfi báts­manns á fyrrgreindu skipi þegar honum var sagt upp störf­um 16. ágúst 2017, án þess að óskað væri eftir vinnu­framlagi í upp­sagnar­­fresti. Bátsmaður telst ekki til yfirmanna á skipi eins og áður greinir. Stefnandi naut þriggja mánaða upp­sagnarfrests sam­kvæmt því sem greinir í uppsagnarbréfi og verður ráðið að það hafi verið vegna starfstíma hans hjá stefnda, nánar tiltekið vegna starfa hans samfellt í fjögur ár á sama skipi eða hjá sömu útgerð, sbr. grein 1.11 í fyrr­greindum kjara­samn­ingi. Réttar­­staða hans var því ríkari sam­kvæmt kjara­samn­­ingnum sé mið­að við hinn almenna sjö daga upp­sagnar­frest undir­manns, eins og áður greinir. Stefn­andi átti rétt á launum í uppsagnarfresti sam­kvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985. Hið sama kemur fram í grein 1.11 í kjarasamningnum en sam­kvæmt þeirri grein bar að greiða laun í uppsagnarfresti eftir ákvæðum laga og kjara­samnings. Verður að skýra réttar­stöðu stefn­anda að þessu leyti með hliðsjón af lengd uppsagnar­frests eins og hann var nánar ákveðinn í kjarasamningi, nánar tiltekið að upp­sagnar­frestur og laun í uppsagnarfresti fari saman. Með upp­sögninni og framkvæmd hennar, sem meta verður sem vikningu stefnanda úr skipsrúmi, féll úr gildi sam­komu­lag sem gilt hafði um til­högun á starfi hans, þar með talið að hann tæki aðeins laun á þeim tíma sem hann væri á sjó. Bar stefnanda því samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr., laga nr. 35/1985 og fyrr­greint kjara­samn­ings­ákvæði, sbr. og 4. gr. sömu laga og 1. gr. laga nr. 55/1980, að fá full laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá þeim degi sem honum var sagt upp störf­um, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 126/1989, sem birtur er í dóma­safni 1990, bls. 1246, og dóm Hæstaréttar frá 28. október 2004, í máli nr. 210/2004. Er um að ræða ófrávíkjanlegar kjara­­­samnings­bundnar bætur vegna upp­sagnar sem jafnað verður við lög­­bundnar bætur. Þær byggja ekki á almenn­­um sjónar­miðum skaðabóta­réttar um bætur vegna tjóns. Stefndi hefur ekki fært fram hald­bær rök fyrir því að fyrr­greindir dómar Hæstaréttar hafi ekki for­dæmisgildi fyrir úrlausn málsins. Sam­kvæmt framan­sögðu er niðurstaða dómsins sú að taka beri kröfur stefn­anda til greina að fullu enda hafa þær ekki tölulega sætt and­mælum af hálfu stefnda.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefn­anda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 700.000 krónur að teknu tilliti til virðis­­­­­­­­aukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Jónas Þór Jónasson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Magnús Helgi Árnason lögmaður.

       Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Ögurvík ehf., greiði stefnanda, A, 2.171.636 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 16. ágúst 2017 til greiðsludags.

       Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Daði Kristjánsson