• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2018 í máli nr. S-711/2017:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Adam Guzewicz

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 5. desember 2017, á hendur Adam Guzewicz, kt. 000000-0000, Grandavegi 39, Reykjavík, fyrir eftirgreind umferðar- og fíknefnalagabrot á árinu 2017, með því að hafa:

 

1. Miðvikudaginn 8. febrúar í Hafnarfirði haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, 571,71 g af marijúana, 1,29 g af amfetamíni, 1,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1.155 kannabisplöntur, sem ákærði hafði ræktað um nokkurt skeið og til þess dags, sem lögregla fann við húsleit á dvalarstað ákærða að Hvaleyrarbraut 22.

 

2. Miðvikudaginn 8. febrúar í Hafnarfirði ekið bifreiðinni BP-909 sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 185 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 11 ng/ml) um Hvaleyrarbraut þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

 

3. Fimmtudaginn 29. júní í Hafnarfirði haft í vörslum sínum 20,08 g af marijúana sem lögregla fann á dvalarstað hans að Hvaleyrarbraut 22 og lagði hald á.

 

       Teljast brot í 1. og 3. lið varða við 2. gr., sbr., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, auk þess sem brot í 1. lið varðar við 4. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerðir nr. 232/2001 og nr. 848/2002 og telst brot í 2. lið varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006, og jafnframt að framangreind fíkniefni verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

       Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

       Ákærði er fæddur í nóvember 1983. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 4. desember 2017, á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2008. Ákærða var gerð sektarrefsing með lögreglustjórasátt, 20. október 2011, vegna fíkniefna- og vopnalagabrots. Aftur gekkst hann undir sektarrefsingu, 4. júní 2013, fyrir brot gegn umferðarlögum. Hinn 21. október 2014 var honum gerð viðurlagaákvörðun vegna umferðarlagabrots og loks var hann aftur fundinn sekur um umferðarlagabrot og dæmdur í 45 daga fangelsi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 28. september 2016. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki þýðingu við refsiákvörðun í málinu.

       Við ákvörðun refsingar verður miðað við að ákærði sé nú í fjórða sinn fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis og/eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Að því er varðar brot ákærða gegn ávana- og fíkniefnalögum verður litið til þess að um umtalsvert magn af kannabisplöntum og marijúana, ætluðu til sölu- og dreifingar, var að ræða, svo og til alls umbúnaðar á dvalarstað ákærða í tengslum við ræktun kannabisplantnanna. Þá þurfti ákærði að leggja vinnu við ræktun plantnanna. Loks er litið til greiðrar játningar ákærða á rannsóknarstigi sem og fyrir dómi.

       Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Að öllu virtu þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 591,79 g af marijúana, 1,29 g af amfetamíni, 1,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1.155 kannabisplöntur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 484.480 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Diljár Mistar Einarsdóttur lögmanns, 66.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 454.512 krónur í annan sakarkostnað.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:                   

       Ákærði, Adam Guzewicz, sæti fangelsi í 12 mánuði.

       Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 591,79 g af marijúana, 1,29 g af amfetamíni, 1,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 1.155 kannabisplöntur

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 484.480 krónur, og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Diljár Mistar Einarsdóttur lögmanns, 66.960 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og 454.512 krónur í annan sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir