• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2019 í máli nr. S-84/2019:

Ákæruvaldið

(Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Piotr Andrzej Ryszkowski og

(Sigurgeir Valsson lögmaður)

Krystian Edward Borecki

(Jóhannes Albert Kristbjörnsson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 15. apríl síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 7. febrúar 2019, „á hendur Piotr Andrzei Ryszkowski, kennitala 000000-0000, [...], Reykjavík og Krystian Edward Borecki, kennitala 000000-0000, [...], Reykjavík,

 

I.

Gegn ákærða Piotr Andrzei fyrir valdstjórnarbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. mars 2018 í og við anddyri íbúðar nr. 403 að [...] í Reykjavík veist með ofbeldi að lögreglumanninum A og ýtt í bringu hans og í kjölfarið reynt að loka hurð íbúðarinnar á hann og lögreglumennina B, C og D og leitast þannig við að hindra framkvæmd starfa lögreglumannanna sem voru við skyldustörf.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Gegn ákærða Krystian Edward fyrir valdstjórnarbrot, með því að hafa á sama stað og strax í kjölfarið á atviki í ákærulið I, tekið meðákærða Piotr Andrzei hálstaki og togað hann frá lögreglu og reynt þannig að tálma því að  lögreglumennirnir gætu gengt skyldustörfum sínum og handtekið meðákærða Piotr Andrzei.

 

       Telst þetta varða við 2. mgr. 106. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

       Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þeir krefjast þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

       Málavextir eru þeir að lögreglan var kvödd að íbúð þeirri er í ákæru greinir, á þeim tíma sem þar segir. Kvartað hafði verið undan hávaða frá íbúðinni. Í skýrslu segir að lögreglumenn hafi heyrt hávaða frá íbúðinni. Þeir knúðu dyra en enginn kom. Hins vegar var lækkað í hávaðanum og heyrðist þá að fólk ræddi saman á pólsku. Þegar ekki var svarað ítrekuðum beiðnum lögreglumanna um að opna tók einn þeirra í hurðarhúninn og reyndist hurðin ólæst. Fyrir innan stóðu tvær konur og ákærði Krystian og voru þau sjáanlega ölvuð segir í skýrslunni. Reynt var að ræða við fólkið á íslensku og ensku en það gekk erfiðlega. Lögreglumenn vildu skoða skilríki fólksins en það gekk líka erfiðlega að koma því í skilning um það. Einnig spurðu þeir um börn í íbúðinni og fengu að lokum upplýsingar um þau. Síðan segir í skýrslunni að heyrst hafi í manni inni í íbúðinni og hefði hann meðal annars verið að bölva á pólsku. Skömmu síðar hafi lítil stúlka komið út úr herbergi og í sömu andrá hefði ákærði Piotr komið og ýtt henni aftur inn í herbergið. Hann hefði síðan gengið rakleiðis að lögreglumanni þeim sem fyrstur er nefndur í ákærunni. Segir í skýrslunni að ákærði hafi ýtt frá konu er þar stóð og var að sýna lögreglumanninum skilríki. Þessu næst hefði ákærði tekið með vinstri hendi í hurðina og ýtt fremur harkalega í brjóst lögreglumannsins með þeirri hægri. Um leið hefði ákærði reynt að loka hurðinni. Lögreglumenn brugðust við þessu með því að ýta upp hurðinni og taka í ákærða. Segir svo í skýrslunni að um leið hafi ákærði Krystian tekið meðákærða hálstaki og togað hann til sín þannig að lögreglumennirnir hefðu dregist inn í anddyri íbúðarinnar. Ákærði Krystian sleppti ekki takinu fyrr en lögreglumaður hótaði að beita varnarúða á hann. Í framhaldinu var ákærði Piotr handtekinn og færður á lögreglustöð.

 

III

       Við aðalmeðferð bar ákærði Piotr að hafa komið í íbúð meðákærða nefnda nótt, en þar hefði eiginkona hans verið í heimsókn hjá meðákærða og eiginkonu hans. Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt að barið væri að dyrum, enda hefði hann verið inni í barnaherbergi. Hann kvaðst hafa komið að þegar meðákærði hefði staðið við dyrnar sem voru opnar. Ákærði kvaðst hafa spurt hvað væri í gangi og jafnframt sagt við meðákærða að hann vildi fara heim til sín með barn sitt, en hann hefði komið í íbúðina til að sækja það. Þá hefði meðákærði sagt við sig að hann mætti loka hurðinni. Ákærði kvaðst hafa reynt að loka en þá hefði lögreglumaður sett fót sinn á milli. Lögreglumenn hefðu svo opnað hurðina og reynt að toga sig út úr íbúðinni. Þeir hefðu svo hent sér í gólfið og handjárnað sig. Ákærði kvaðst ekki hafa spurt lögreglumennina í upphafi af hverju þeir væru komnir en hann hefði spurt meðákærða hvað væri að gerast. Meðákærði hefði sagst ekki vita það. Ákærði kvaðst hafa reynt að loka hurðinni vegna þess að meðákærði, húsráðandi, hefði ekki gefið þeim leyfi til að koma inn í íbúðina. Ákæruefnið var borið undir ákærða og kvaðst hann ekki hafa ýtt við lögreglumanni en hann hefði reynt að loka hurðinni. Í framhaldinu hefði lögreglumaðurinn ýtt upp hurðinni og svo hefðu fleiri lögreglumenn komið og þeir hent sér í gólfið. Ákærði kvaðst ekki hafa bragðað áfengi í þetta skipti. Hann kvað meðákærða ekki hafa reynt að koma í veg fyrir handtökuna. Hann hefði ekki tekið sig hálstaki.

       Ákærði Krystian bar að í umrætt sinn hefði eiginkona meðákærða verið í heimsókn hjá sér og eiginkonu sinni. Einnig hefðu börn þeirra verið í íbúðinni og dóttir meðákærða. Þau hefðu verið að fagna pólskum hátíðisdegi og hefðu neytt áfengis. Þá var sjónvarp í gangi en hann kvað það ekki hafa verið hátt stillt og þau hefðu getað spjallað saman. Meðákærði hefði komið til að sækja konu sína og barn. Ákærði kvaðst hafa farið til dyra þegar bankað var og hefði hann opnað. Hann hefði séð lögreglumenn en hann hefði ekki rætt við þá, enda talaði hann ekki tungumál, eins og hann orðaði það. Meðákærði hefði svo komið en hann hefði verið á leið heim til sín með konu og barn. Skömmu síðar kvaðst ákærði hafa séð lögreglumann toga í handlegg meðákærða og toga hann út úr íbúðinni. Ákærði kvað meðákærða hafa ætlað að loka hurðinni vegna þess að hann vildi ekki að barnið sæi lögreglumenn og yrði hrætt. Hann kvaðst ekki muna hvort meðákærði hefði beðið um leyfi til að loka hurðinni. Þegar meðákærði lokaði hefði lögreglumaður verið fyrir framan dyrnar en hann hefði sett fót milli stafs og hurðar. Ákærði kvaðst ekki hafa séð meðákærða ýta við lögreglumanni. Lögreglumaður hefði tekið meðákærða út og þar hefði honum verið fleygt í gólfið. Ákærði neitaði alfarið að hafa tekið meðákærða hálstaki og togað hann frá lögreglumönnum.

       Eiginkona ákærða Piotr bar að hún og ákærði hefðu verið hjá meðákærða og eiginkonu hans. Ákærði Piotr hefði hins vegar farið en komið svo aftur síðar um kvöldið. Lögreglan hefði komið og bankað en þau hefðu ekki viljað hleypa henni inn þar sem ekkert hefði verið að gerast í íbúðinni. Einn lögreglumaður hefði opnað hurðina og viljað komast inn og þá hefði ákærði Piotr komið og sagt við lögreglumennina að meðákærði leyfði þeim ekki að koma inn, og ákærði hefði ætlað að loka hurðinni. Þá hefði einn lögreglumannanna sett fót í dyragættina og togað ákærða Piotr út úr íbúðinni. Hún kvaðst hafa ætlað að fylgja ákærða en þá hefði hún verið handtekin og henni kastaði í gólfið. Eiginkonan kvað þau hafa rætt við lögreglumennina á bjagaðri ensku. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða ýta við lögreglumanni en hún hefði séð hann reyna að loka hurðinni á lögreglumennina. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða Krystian gera neitt á hlut lögreglumannanna.

       Eiginkona ákærða Krystian bar að þegar lögreglan kom hefði ákærði Piotr verið í barnaherberginu að sækja dóttur sína en hin hefðu verið frammi. Ákærði hefði viljað loka hurðinni og ýtt á hana en lögreglumaður hefði sett fót í dyragáttina. Ákærða hefði svo verið varpað í gólfið og hann handjárnaður. Hún kvaðst ekki hafa beðið ákærða um að loka hurðinni. Þá kvaðst hún ekki hafa séð ákærða ýta í lögreglumann. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærða Krystian taka í meðákærða eins og hann er ákærður fyrir.

       Lögreglumaður sá sem fyrst er nefndur í ákæru og var stjórnandi á vettvangi bar að lögreglan hefði verið kvödd á vettvang vegna hávaða. Frá íbúðinni hefði mátt heyra mikinn hávaða, bæði söng og tónlist. Hann kvað engan hafa komið til dyra en svo hefði heyrst tal innan úr íbúðinni og þeir þá gert grein fyrir sér, bæði á íslensku og ensku, en enginn hefði komið til dyra. Þeir hefðu opnað útihurðina, enda hefði hún verið ólæst. Fyrir innan hefðu staðið þrjár manneskjur og hefðu lögreglumenn reynt að ræða við þær en það hefði gengið illa vegna tungumálaörðugleika. Þá hefði komið maður, sem síðar kom í ljós að var ákærði Piotr, innan úr stofu og ýtt barni inn í herbergi. Ákærði hefði síðan gengið að sér án þess að segja orð og mjög ákveðið. Hann hefði ýtt fólkinu frá og ýtt í brjóstkassann á sér. Kvaðst lögreglumaðurinn hafa hrasað aftur á bak við þetta. Ákærði hefði reynt að loka hurðinni en lögreglumenn hefðu þá tekið í hann. Ákærði Krystian hefði tekið í ákærða Piotr og reynt að toga hann frá lögreglumönnunum. Ákærða Krystian hefði nú verið haldið frá ákærða Piotr sem var tekinn fram og lagður í gólfið. Í framhaldinu hefði ákærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

       Lögreglumaður, sem næst er nefndur í ákærunni, bar að á vettvangi hefði gengið erfiðlega að ræða við fólkið, enda hefði það hvorki skilið íslensku né ensku. Hann kvaðst hafa staðið fyrir framan útidyrnar og séð að inni í íbúðinni hefði opnast hurð og út hefði komið ung stúlka sem virtist nývöknuð. Í sömu mund hefði karlmaður, sem síðar kom í ljós að var ákærði Piotr, komið og ýtt stúlkunni inn í herbergi. Hann hefði síðan gengið að lögreglumönnunum og ýtt harkalega í stjórnandann. Í framhaldinu hefði ákærði reynt að loka hurðinni en lögreglumenn hefðu tekið í hann og hefði komið til átaka. Ákærði Krystian hefði gripið utan um ákærða Piotr og haldið honum. Lögreglumenn hefðu sett ákærða Piotr í handjárn og bundið fætur hans. Hann hefði síðan verið fluttur á lögreglustöð. Lögreglumaðurinn kvað þetta hafa átt að vera venjulegt hávaðaútkall. Í slíkum tilfellum sé fólk beðið um að lækka og þar með sé málið oftast afgreitt. Í þessu tilviki hefði fólkið verið ósamvinnuþýtt og þess vegna hefðu málin þróast með þeim hætti sem raun varð.

       Þriðji lögreglumaðurinn sem nefndur er í ákærunni bar að fólkið á vettvangi hefði ekki skilið eða ekki viljað skilja hvert erindi lögreglumanna væri á staðinn. Hann kvaðst hafa séð barn koma út úr herbergi og á sama tíma hefði komið maður og ýtt barninu inn í herbergið. Síðar kom í ljós að maðurinn var ákærði Piotr. Ákærði hefði síðan gengið að lögreglumönnunum og ýtt í brjóstið á lögreglumanni sem var stjórnandi á vettvangi. Ákærði hefði síðan reynt að loka hurðinni. Í framhaldinu hefðu lögreglumenn tekið ákærða en þá hefði ákærði Krystian komið aftan að ákærða Piotr og haldið honum. Ákærði Krystian hefði ekki sleppt fyrr en lögreglumaðurinn hótaði að beita úða. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða á ensku.

       Fjórði lögreglumaðurinn sem nefndur er í ákærunni bar að tilkynnt hefði verið um hávaða í íbúðinni. Lögreglumenn hefðu bankað á dyrnar en enginn hefði komið til dyra. Hann kvaðst hafa heyrt fólk tala inni í íbúðinni og svo hefði verið opnað. Hann kvað þá hafa kynnt sig og erindið og beðið fólkið um að lækka en það hefði ekki virst vilja skilja lögreglumennina. Fólkið hefði ekki talað íslensku og eiginlega heldur ekki ensku. Það hefði því tekið nokkurn tíma að fá hjá því upplýsingar og biðja það að lækka hávaðann. Á endanum hefði þetta tekist og lögreglumenn verið að kveðja þegar ákærði Piotr hefði komið út úr stofunni. Í sömu mund hefði lítið stúlka komið út úr herbergi. Ákærði hefði gengið fram hjá henni og ýtt henni aftur inn í herbergið og lokað hurðinni. Ákærði hefði svo gengið að lögreglumönnunum og formálalaust ýtt í lögreglumanninn, sem nefndur er fyrstur í ákæru og eins hefði ákærði reynt að loka á lögreglumennina. Í framhaldinu hefði verið ákveðið að handtaka ákærða. Þegar lögreglumenn voru að handtaka ákærða Piotr hefði ákærði Krystian tekið meðákærða hálstaki og hefði orðið að skilja þá að. Þá lýsti lögreglumaðurinn handtöku ákærða Piotr en hún hefði gengið erfiðlega vegna óláta ákærða. Hann hefði loks verið fluttur á lögreglustöð og þar hefði hann verið svo aðframkominn eftir átökin að færa þurfti hann í hjólastól.

 

IV

       Í I. kafla ákæru er ákærða Piotr gefið að sök að hafa ýtt í bringu lögreglumanns og í kjölfarið reynt að loka hurð á lögreglumenn. Eins og að framan var rakið komu lögreglumenn á vettvang vegna þess að tilkynnt hafði verið um hávaða. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu þeir beðið húsráðendur um að lækka og hefði málinu þar með lokið. Í fyrstu áttu lögreglumenn samskipti við ákærða Krystian og eiginkonu hans og eiginkonu ákærða Piotr. Veittist þeim erfitt að ræða við fólkið þar eð það virtist hvorki tala íslensku né ensku. Reyndar kom fram hjá eiginkonu ákærða Piotr við aðalmeðferð að hún talar einhverja ensku. Á meðan lögreglumenn voru að ræða við ákærða Krystian og konurnar kom ákærði Piotr innan úr íbúðinni og, samkvæmt framburði lögreglumannanna, ýtti hann formálalaust í lögreglumann, eins og hann er ákærður fyrir. Þá reyndi ákærði einnig að loka hurðinni á lögreglumennina, eins og hann hefur viðurkennt og fær játning hans stoð í öðrum gögnum málsins, það er framburði lögreglumanna og annarra vitna. Samkvæmt þessu er sannað, gegn neitun ákærða Piotr, að hann hafi ýtt í bringu lögreglumanns og reynt að loka hurð á lögreglumenn og þar með brotið gegn valdstjórninni. Ákærði braut þar með gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, eins og honum er gefið að sök í I. kafla ákæru.

       Í II. kafla ákæru er ákærða Krystian gefið að sök að hafa tekið meðákærða hálstaki eins og þar er lýst. Með þessu hafi hann reynt að tálma því að lögreglumenn gætu handtekið meðákærða. Í kaflanum hér að framan var rakinn framburður lögreglumanna um að ákærði hefði gert þetta og þurft hefði að hóta honum með úða til að hann fengist til að sleppa meðákærða. Með þessum framburði er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi á framangreindan hátt reynt að tálma því að lögreglumenn gætu handtekið meðákærða. Ákærði braut þar með gegn 2. mgr. 106. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, eins og honum er gefið að sök í II. kafla ákæru.

       Samkvæmt sakavottorðum ákærðu hafa þeir ekki áður gerst brotlegir við lög. Refsing ákærða Piotr er hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi og refsing ákærða Krystian er hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Skilyrði eru til að skilorðsbinda refsingarnar, eins og í dómsorði greinir.

       Ákærðu verða dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna sem ákvörðuð eru með virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins. 

       Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Piotr Andrzej Ryszkowski, sæti fangelsi í 60 daga.

       Ákærði, Krystian Edward Borecki, sæti fangelsi í 30 daga.

       Fresta skal fullnustu refsinga ákærðu og falli þær niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Ákærði Piotr Andrzej greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurgeirs Valssonar lögmanns,  632.400 krónur.

       Ákærði Krystian Edward greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Kristbjörnssonar lögmanns, 421.600 krónur og 43.291 krónu í aksturskostnað.

                             

Arngrímur Ísberg