• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Eignaspjöll
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Upptaka
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2019 í máli nr. S-802/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Kristófer Bæring Sigurðarsyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. maí 2019, er höfðað með þremur ákærum útgefnum af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsettum 20. nóvember 2018, 13. febrúar 2019 og 13. maí 2019 á hendur Kristófer Bæring Sigurðarsyni, kt. [...], [...] Reykjavík.

 

Með ákæru dagsettri 20. nóvember 2018 „fyrir eftirtalin hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot:

I.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa,:

 

 1. [...] 2016, haft í vörslum sínum 0,74 g kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða við [...] í Reykjavík.

Mál nr. 007-2016-65136

 

2. [...] 2016, haft í vörslum sínum 8,11 g af amfetamíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða að [...] í Reykjavík.

Mál nr. 007-2016-67012

 

3. [...] 2017, haft í vörslum sínum 10,09 g af kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða á lögreglustöð við [...].

Mál nr. 318-2017-8861

 

4. [...] 2017, haft í vörslum sínum 4,52 g af kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða á lögreglustöð við [...].

Mál nr. 007-2017-48313

 

5. [...] 2018, haft í vörslum sínum 3,14 g af kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða á lögreglustöð við [...].

Mál nr. 007-2018-30732

 

6. [...] 2018, haft í vörslum sínum 0,48 g af kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða á [...] í Reykjavík.

Mál nr. 007-2018-43709

 

Teljast framangreind brot varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

II.

Nytjastuld og umferðarlagabrot með því að hafa, [...] 2018, tekið bifreiðina [...] heimildarlaust og til eigin nota, þar sem hún stóð við [...] í Reykjavík, og ekið henni án gildra ökuréttinda og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 29 ng/ml af klónazepam) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 90 ng/ml af amfetamíni, 35 ng/ml af kókaíni og 1200 ng/ml af MDMA) norður [...] í Reykjavík, við [...], þar sem ákærði missti stjórn á bifreiðinni sem hafnaði á vegriði og ákærði svo í kjölfarið yfirgefið vettvanginn fótgangandi uns lögregla fann hann og handtók.

Mál nr. 007-2018-23919

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og við 1. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.

Umferðar- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa,:

 

1. [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda, án þess að hafa öryggisbelti spennt og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 96 ng/ml af brómazepam og 43 ng/ml af klónazepam) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 470 ng/ml af amfetamíni og 105 ng/ml af kókaíni, í þvagi mældist amfetamín og kókaín) um [...] í Reykjavík, við [...], uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Mál nr. 007-2018-47936

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 71. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

2. [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 50 ng/ml af alprazólam) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 365 ng/ml af amfetamíni og 205 ng/ml af kókaíni, í þvagi mældist amfetamín og kókaín) um [...]í Reykjavík, við [...], uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar og haft í vörslum sínum á sama tíma 0,50 g af kókaíni, sem fannst við líkamsleit lögreglu á ákærða.

Mál nr. 007-2018-48686

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

3. [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 21 ng/ml af alprazólam og 91 ng/ml af díazepam) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 335 ng/ml af amfetamíni, 160 ng/ml af kókaíni og 125 ng/ml af MDMA) um [...] í Reykjavík, við [...], uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Mál nr. 007-2018-49426

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

4. [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 66 ng/ml af alprazólam, 59 ng/ml af díazepam og 340 ng/ml af oxazepam) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 420 ng/ml af amfetamíni, 120 ng/ml af kókaíni og 45 ng/ml af MDMA, í þvagi mældist amfetamín, kókaín og MDMA) austur [...] í Reykjavík, móts við [...], uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Mál nr. 007-2018-51213

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

5. [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 14 ng/ml af klónazepam, 230 ng/ml af díazepam og 98 ng/ml af nordíazepam) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 45 ng/ml af amfetamíni og 575 ng/ml af MDMA, í þvagi mældist amfetamín, kókaín og MDMA) austur [...] í Reykjavík, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Mál nr. 007-2018-59584

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

IV.

Þjófnað með því að hafa, [...] 2018, stolið af [...] í Reykjavík, reiðufé að verðmæti 4.112 kr., þremur 70 cl. áfengisflöskum af tegundinni [...], allar að óþekktu verðmæti, 14 stk. af drykkjarmiðum að óþekktu verðmæti, 2 stk. af reikningum frá [...] og 5 stk. af nótum og reikningum frá [...] að óþekktu verðmæti.

Mál nr. 007-2018-72301

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

V.

Húsbrot með því að hafa, [...] 2018, ruðst í heimildarleysi inn í íbúð á 1. hæð að [...] í Reykjavík.

Mál nr. 007-2018-65964

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

VI.

Húsbrot með því að hafa, [...] 2018, ruðst í heimildarleysi inn í [...].

Mál nr. 007-2018-70894

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þess er jafnframt krafist að gerð verði upptæk framangreind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Með ákæru, dagsettri 7. febrúar 2019, „fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:

 

I.

Þjófnað með því að hafa, [...] 2018, í félagi við A, kt. [...], brotist inn í [...] í Reykjavík og stolið þaðan eftirtöldum munum að óþekktu verðmæti:

Mál nr. 007-2018-76600

 

Munanúmer:

Lýsing munar:

Fjöldi:

474877

Fartölva, [...]

1 stk.

474878

Fartölva, [...]

1 stk.

474879

Fartölva, [...]

1 stk.

474880

Playstation 4 leikjatölva ásamt tveimur fjarstýringum

1 stk.

475770

Úlpa, [...]

2 stk

475771

Kveikjulás [...]

1 stk.

475772

Húslykill

1 stk.

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa, [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa lyfja (í blóði mældist 210 ng/ml af díazepam,  25 ng/ml af klónazepam og 28 ng/ml af nítrazepam) og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 595 ng/ml af amfetamíni og 20 ng/ml af kókaíni, í þvagi mældist amfetamín og kókaín) vestur [...] uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

Mál nr. 007-2018-77488

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

 

Með ákæru dagsettri 13. maí 2019, „fyrir eftirtalin hegningar-, fíkniefna- og umferðarlagabrot:

 

I.

1. Umferðarlagabrot með því að hafa, [...] 2018, ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda á bifreiðastæði við [...] í Reykjavík.

Mál nr. 007-2018-70578

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

2. Sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, [...] 2018, á skemmtistaðnum [...] í Reykjavík, ráðist með ofbeldi að dyraverðinum B, kt. 120797-2989, með því að slá glerglasi í höfuð hans, síðan kýlt hann einu hnefahöggi í höfuð, því næst slegið hann með öðru glerglasi í höfuð og að lokum kýlt hann einu hnefahöggi í andlit þar til ákærði var stöðvaður af B og öðrum nærstöddum, allt með þeim afleiðingum að B hlaut opið sár í hársverði, nánar tiltekið 3 cm skurð á hvirfli sem náði niður í gegnum höfuðleður.

Mál nr. 007-2018-80955

 

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, á þeim tíma sem greinir í 2. tl., haft í vörslum sínum 10,5 ecstacy töflur (MDMA), sem fundust við leit lögreglu á ákærða og lagt var hald á.

 

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

III.

4. Eignaspjöll með því að hafa, [...] 2019, brotið rúðu í hurð á [...] í Reykjavík, með því að keyra innkaupakerru á rúðuna og síðan lemja kerrunni í rúðuna fjórum sinnum.

Mál nr. 007-2019-17454

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Vegna ákæruliðar nr. 2 (mál nr. 007-2018-80955) gerir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, fyrir hönd B, kt. [...], þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð krónur 1.006.400, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá [...] 2018 til þess dags þegar liðinn var mánuður frá því að kærðu var birt bótakrafa, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða brotaþola málskostnað við að halda fram kröfu þessari skv. síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

           

            Ákærði tók afstöðu til sakargifta í þinghaldi 13. mars, 15. apríl og 13. maí sl. Játaði hann brot sín skýlaust að hluta. Í þinghaldi 20. maí 2019  féll sækjandi frá þeim hluta ákæru er lýtur að nytjastuldi í II. kafla ákæru sem er dagsett 20. nóvember 2018. Þá féll sækjandi frá V. og VI. kafla ákærunnar. Þá óskaði ákærði eftir að endurskoða afstöðu til sakargifta samkvæmt II. kafla ákæru sem er dagsett 13. maí 2019 og játaði brot sitt skýlaust. Þá viðurkenndi hann bótaskyldu samkvæmt einkaréttarkröfu er tengist þeim kafla ákæru en lagði fjárhæð bóta í mat dómsins.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá krefst hann lækkunar einkaréttarkröfu.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærum.

 

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði einu sinni hlotið dóm. Var hann þá með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. desember 2015 dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot gegn valdstjórninni en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Með brotum sínum samkvæmt 1. til 4. lið I. kafla ákæru 20. nóvember 2018 hefur hann rofið skilorð framangreinds dóms. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður skilorðsdómur tekinn upp og ákærða dæmd refsing í einu lagi. Verulegur dráttur varð á meðferð þessara mála ákærða hjá lögreglu en þau eru frá árinu 2016 og 2017.

Við ákvörðun refsingar er litið til játningar ákærða, ungs aldurs hans og sakaferils. Til þess er að líta að umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot ákærða varða sektum. Þá var þjófnaðarbrot hans samkvæmt IV. kafla ákæru 20. nóvember 2018 smávægilegt. Brot hans samkvæmt I. kafla ákæru 13. febrúar 2019 er á hinn bóginn framið í félagi við annan mann auk þess sem brotist var inn í hýbýli manna. Mun þýfið hafa komist til skila. Þá er brot ákærða samkvæmt II. kafla ákæru sem er dagsett 13. maí 2019 litið alvarlegum augum en atlagan var tilefnislaus og fólskuleg þó líkamlegar afleiðingar hennar hafi ekki verið verulegar eða langvarandi. Var ásetningur ákærða til brotsins einbeittur og sú aðferð sem hann beitti stórhættuleg. Brot ákærða tengjast öll fíkniefnaneyslu hans en engu að síður ber hann ábyrgð á gjörðum sínum, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga. Fyrri ofbeldis- eða ofbeldistengd brot ákærða hafa ekki ítrekunaráhrif þar sem áður dæmd refsing var skilorðsbundin.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1., 3., 4., 5. og 6. tl.1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga telst hæfileg refsing ákærða vera 18 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu 15 mánaða refsingarinnar og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins. Til frádráttar refsingar kemur gæsluvarðhaldsvist sem ákærða hefur sætt frá 1. apríl 2019.

 

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökuréttindum í fjögur ár frá uppkvaðningu dómsins. Jafnframt skal hann sæta upptöku á þeim fíkniefnum sem hald var lagt á undir rannsókn málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Með broti sínu samkvæmt II. kafla ákæru 13. maí 2019 hefur ákærði bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola B samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar litið er til af afleiðinga árásarinnar sem staðfestar eru með læknisvottorði sem fyrir liggur í málinu þykja miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Þá er krafa brotaþola um útlagðan kostnað 6.400 krónur vegna komu á slysadeild studd gögnum og verður hún tekin til greina. Samtals ber ákærða að greiða brotaþola 256.400 krónur auk vaxta og dráttarvaxta eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafsdagur dráttarvaxta er mánuði eftir að ákærða var birt einkaréttarkrafan en það var í skýrslutöku hjá lögreglu 1. apríl 2019. Þá ber ákærða að greiða brotaþola 231.880 krónur í málskostnað við að halda einkaréttarkröfu sinni fram.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, 421.600 krónur, m.a. vegna vinnu hans á rannsóknarstigi og 1.603.726 krónur í annan sakarkostnað. Tekið er tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarþóknunar.

 

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Kristófer Bæring Sigurðarson, sæti fangelsi í 18 mánuði en fresta skal fullnustu 15 mánaða refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Til frádráttar refsingar kemur gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 1. apríl 2019.

Ákærði er sviptur ökurétti í fjögur ár frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.

Ákærði sæti upptöku á 19,47 g af kókaíni, 8,11 g af amfetamíni og 10,5 töflu ecstacy (MDMA).

Ákærði greiði B 256.400 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá [...] 2018 til 1. maí 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 231.880 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar, lögmanns 421.600 krónur og 1.603.726 krónur í annan sakarkostnað.

 

Sigríður Hjaltested (sign.)