• Lykilorð:
  • Fyrning

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2019 í máli nr. E-3171/2018:

A

(Ingimar Ingimarsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Hrannar Jónsson hdl.)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 13. mars 2019, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...], á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 14. september 2018.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.345.137 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 147.252 kr. frá 3. nóvember 2014 til 21. nóvember 2014 og af 5.345.137 kr. frá 21. nóvember 2014 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

I

Lán nr. 10187. Hinn 3. október 2007 tók stefnandi lán hjá Landsbanka Íslands hf. (LBI), forvera stefnda, að fjárhæð 40.000.000 kr. Um var að ræða fjölmyntalán til 5 ára í eftirtöldum myntum og hlutföllum: CHF 50%, JPY 25% og EUR 25%. Til tryggingar láninu gaf stefnandi út tryggingarbréf að fjárhæð 48. m.kr. með veði í fasteign sinni.

Hinn 2. desember 2010 undirritaði stefnandi umsókn um endurútreikning lánsins vegna sölu fasteignarinnar. Lánið var endurreiknað og fram kemur að stefnandi samþykki endurreiknaðan höfuðstól lánsins og lýsi því yfir að hann afsali sér öllum rétti til frekari krafna á hendur stefnda vegna lánsins, þ.m.t. vegna lögmætis þess eða endurútreiknings. Niðurstaða endurútreikningsins var inneign að fjárhæð 525.223 kr. Stefnandi greiddi lánið upp í samræmi við endurútreikninginn í desember 2010 og janúar 2011.

Með bréfi dags. 3. desember 2014 tilkynnti stefndi stefnanda um leiðréttan endurútreikning lánsins sem leiddi til inneignar stefnanda að upphæð 5.197.885 kr. Í sama bréfi lýsti stefndi yfir skuldajöfnuði inneignar á láni nr. 10187 á móti afskrift bankans á láni nr. 154865.

Lán nr. 8015660. Hinn 3. október 2014 barst stefnanda bréf frá stefnda þar sem honum var tilkynnt um leiðréttan endurútreikning láns nr. 8015660. Umrætt lán hafði verið greitt upp 24. ágúst 2007, en stefnandi hafði verið skuldari þess. Leiðréttur endurútreikningur þess láns leiddi til inneignar að upphæð 147.252 kr. Í sama bréfi lýsti stefndi yfir skuldajöfnuði inneignar á láni nr. 8015660 á móti afskrift á láni nr. 154865.

Lán nr. 154865. Hinn 6. maí 2009 tók félagið B, lán hjá stefnda að fjárhæð 8.000.000 kr. sem fékk númerið 154865. Félagið var í eigu stefnanda og gekkst hann í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu ásamt konu sinni. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 16. mars 2011 og lýsti stefndi kröfu í þrotabúið vegna skuldabréfs nr. 154865 að fjárhæð 11.068.194 kr. Skiptum lauk 11. október 2011.

Samkomulagið. Hinn 20. júlí 2012 lenti stefnandi í erfiðleikum með greiðslur af lánum sínum og sendi lögmaður hans bréf til stefnda þar sem hann óskaði eftir því að umbjóðandi hans fengi að ljúka skuldum sínum við bankann með eingreiðslu að fjárhæð 3.000.000 kr. Með bréfinu fylgdi greiðsluerfiðleikamat stefnda á stefnanda og konu hans og var niðurstaðan sú að þau hefðu ekki tekjur til að standa undir reiknaðri framfærslu og ef greiðslubyrði lána var tekin með var mánaðarleg staða þeirra verulega neikvæð.

Hinn 1. október 2012 gerði stefndi stefnanda gagntilboð í þá veru, að gegn eingreiðslu að fjárhæð 4.000.000 kr. yrði yfirdráttur á tékkareikningi gerður upp og eftirstöðvar greiðslunnar notaðar til þess að greiða inn á ábyrgðarskuldbindingar stefnanda, vegna krafna nr. 154826, 154866 og 154965. Fram kom í bréfinu að eftirstöðvar krafna bankans á hendur stefnanda yrðu afskrifaðar og hann yrði afskriftarmerktur sem ábyrgðarmaður í kerfum bankans, en umræddar kröfur yrðu ekki settar á kröfuvakt.

Stefnandi féllst á þetta gagntilboð og greiddi stefnda 4.000.000 kr. Í tölvupósti lögmanns stefnda frá 31. október 2012 kom fram að hann hefði lagt 4.000.000 kr. inn til stefnda. Greiðslan væri háð því skilyrði að um fullnaðaruppgjör væri að ræða, samanber samkomulag við bankann. Í málinu liggur fyrir samkomulag málsaðila frá 31. október 2012 þar sem segir að eftirstöðvar skulda og ábyrgða umfram 4.000.000 kr. verði afskrifaðar að fullu á hendur stefnanda og eiginkonu hans af hálfu bankans.

Með bréfi stefnanda, dags. 16. október 2014, komu fram mótmæli hans við skuldajöfnuði stefnda. Stefnandi krafðist leiðréttingar enda yrði samkomulagið ekki skilið öðruvísi en á þann veg, að með greiðslu á 4.000.000 kr. hinn 31. október 2012 hafi falist fullnaðaruppgjör á kröfum stefnda á hendur stefnanda og því ætti stefndi ekki gagnkröfu til að skuldajafna á móti inneign stefndanda.

Stefndi svaraði með bréfi dags. 9. desember 2014. Þar kom fram að stefndi telji að þrátt fyrir að hann hafi afskrifað umrædda kröfu sé hann ennþá eigandi hennar og krafan enn til. Tekið var fram að samkomulagið hefði verið gert að beiðni stefnanda og eignkonu hans og þau hefðu ekki haft neina greiðslugetu og því fallist á að afskrifa eftirstöðvar skuldanna líkt og gert sé við skuldir sem ekki fáist greiddar í kjölfar gjaldþrots. Með samkomulaginu hafi þeim hjónum verið forðað frá gjaldþroti. Forsenda samkomulagsins hafi verið sú að þau hafi ekki átt að geta hagnast á samkomulaginu síðar meir. Þeim hafi mátt vera ljóst að það var meginforsenda bankans.

 

II

Aðalkrafa stefnanda byggist á því, að samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Sama regla leiði af almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár, en öll almenn skilyrði þeirra reglna teljist uppfyllt. Umrædd lán hafi að fullu verið greidd upp annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2011. Stefnandi telur ekki vera tölulegan ágreining í málinu, en útreikningar stafa frá stefnda.

Þá byggir stefnandi á því, að stefnda hafi verið óheimilt að skuldajafna með skuld samkvæmt láni nr. 154865. Sú gagnkrafa hafi verið afskrifuð og felld niður gegn greiðslu stefnanda til stefnda á 4.000.000 kr., skv. samkomulagi stefnda og stefnanda frá 31. október 2012. Þá hafi gagnkrafan auk þess verið fyrnd þegar stefndi lýsti yfir skuldajöfnuði, annars vegar 3. október 2014 og hins vegar 3. desember 2014.

Þá byggir stefnandi á því, að aðalskuldari á láninu nr. 154865 hafi verið B, en stefnandi ásamt eiginkonu sinni voru ábyrgðarmenn á láninu. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gildir sami fyrningarfrestur um kröfu gagnvart aðalskuldara og gagnvart ábyrgðarmönnum. Einnig sé vísað til sérreglu 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

III

Sýknukrafa stefnda byggist í fyrsta lagi á því, að aðilar málsins hafi komist að samkomulagi með endurútreikningi láns nr. 10187 í desember 2010 þar sem stefnandi afsalaði sér öllum rétti á hendur stefnda vegna lánsins og sé sérstaklega tilgreint að hann afsali sér öllum rétti vegna frekari endurútreiknings lánsins. Stefndi telur stefnanda bundinn af þessu samkomulagi og beri því að sýkna stefnda.

Einnig sé byggt á því, að stefnda hafi verið heimilt að skuldajafna inneignum stefnanda samkvæmt lánum nr. 8015660 og nr. 10187 við eftirstöðvar láns nr. 154865. Við túlkun á efni samkomulags aðila frá 31. október 2012 verði að horfa til fjárhagslegrar stöðu stefnanda og konu hans. Stefndi telur, að verði fallist á kröfu stefnanda sé um ólögmæta auðgun að ræða hjá honum þar sem hann fengi greitt frá stefnda 5.345.137 kr. þrátt fyrir að skulda stefnda 12.195.348 kr. vegna láns nr. 154865 og 19.018.846 kr. vegna lána nr. 154866 og 154826. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að krafa hans á hendur stefnanda samkvæmt láni nr. 154865 hafi verið fyrnd þegar hann lýsti yfir skuldajöfnuði.

Í þriðja lagi telur stefndi að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir tómlæti. Stefnandi mótmæli yfirlýsingum stefnda um skuldajöfnuð með bréfum 16. og 24. október 2014. Stefndi svaraði með bréfum dags. 3. og 9. desember 2014. Síðan gerir stefndi ekkert í málinu fyrr en með þingfestingu stefnu 2. október 2018 eða tæpum fjórum árum síðar.

Í fjórða lagi er byggt á því að kröfur stefnanda séu fallnar niður fyrir fyrningu. Stefnandi byggir kröfu sína á 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, þ.e. að hann eigi inneign hjá stefnda vegna endurreiknings á gengistryggðu láni. Stefndi bendir á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í lögunum þá reiknist fyrningarfrestur uppgjörskrafa vegna ólögmætrar gengistryggingar frá 16. júní 2010 og er fyrningarfresturinn átta ár frá því tímamarki. Krafa stefnanda var því fyrnd þegar stefna var birt stefnda þann 14. september 2018.

 

IV

            Í kjölfar dóma á árinu 2010 og setningu laga nr. 151/2010 sem breyttu ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 voru gengistryggð bílalán og fasteignalán endurreiknuð. Tvö lán stefnanda voru endurreiknuð samkvæmt þessum reglum. Samkvæmt endurreikningnum eignaðist stefnandi kröfu að fjárhæð 147.252 kr. vegna gengistryggðs bílaláns nr. 8015660 og 5.197.885 kr. vegna gengistryggðs fasteignaláns nr. 10187. Stefndi skuldajafnaði þessari innstæðu á móti afskrift á láni nr. 154865. Stefnandi telur þennan skuldajöfnuð skorta lagastoð og krefst þess að dómkrafan verði tekin til greina.

            Stefnandi byggir kröfu sína á því, að samkvæmt 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Þá telur stefnandi að sama regla leiði af almennum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár, en öll almenn skilyrði þeirra reglna teljist uppfyllt. Umrædd lán hafi að fullu verið greidd upp, annars vegar árið 2007 og hins vegar árið 2011.

            Óvenjuleg staða var uppi í þjóðfélaginu er lög nr. 151/2010 voru sett og  endurútreikningarnir gerðir er krafa stefnanda byggist á. Í ákvæði XIV til bráðabirgða með lögum nr. 151/2010 var kveðið á um fyrningarfrest uppgjörskrafna vegna ólögmætra verðtryggingar lánasamninga sem teldist frá 16. júní 2010. Þá er kveðið á um að fyrningarfresturinn væri átta ár frá 16. júní 2010. Kröfur vegna endurútreiknings á grundvelli laga nr. 151/2010 fyrndust því 16. júní 2018, en mál þetta er höfðað með birtingu stefnu 14. september 2018. Er krafa stefnanda því fyrnd.

Stefnandi vísar einnig til almennra reglna kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár. Málsástæða þessi er vanreifuð í stefnu málsins. Í greinargerð sinni vakti stefndi athygli á því. Ekki var brugðist við af hálfu stefnanda í fyrstu fyrirtöku málsins. Við aðalmeðferð gerði stefnandi frekari grein fyrir þessari málsástæðu. Mótmælti þá stefndi, sem of seint fram kominni, útlistun stefnanda á skilyrðum endurgreiðslu ofgreidds fjár, sérstaklega hvenær krafa hefði stofnast. Í 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála er kveðið á um að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti megi ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki. Með vísan til þessa eru málsástæður varðandi endurgreiðslu ofgreidds fjár of seint fram komnar.

Niðurstaða málsins er því sú, að þegar af þeirri ástæðu að krafa stefnanda er fyrnd er stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

            Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Landsbankinn, er sýknaður af kröfum stefnanda, A.

            Stefnandi greiði stefnda, Landsbankanum, 500.000 kr. í málskostnað

 

Sigrún Guðmundsdóttir