• Lykilorð:
  • Heilbrigðismál
  • Lögskýring
  • Sjúkratrygging
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnvaldseftirlit
  • Valdmörk
  • Sjúklingur
  • Ógilding stjórnarathafnar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 18. september 2018 í máli nr. E-3567/2017:

Alma Gunnarsdóttir

(Gísli Guðni Hall lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 13. nóvember 2017 og dómtekið 4. september 2018. Stefn­andi er Alma Gunnarsdóttir, [...],[...]. Stefndi er íslenska ríkið, Stjórnar­­­­­­­­­ráðinu við Lækjargötu, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, sem tilkynnt var um með bréfi stofnunarinnar, dagsettu 8. september 2017, um að hafna umsókn hennar, dagsettri 14. júlí 2017, um aðild að rammasamningi Sjúkra­trygg­­­inga Íslands og sérgreinalækna. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hún verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

II.

Málavextir:

Ágreiningur málsaðila snýst um rétt stefnanda til aðildar að rammasamningi Sjúkra­­trygginga Íslands og sérgreinalækna frá 3. desember 2013 um sérgreina­læknis­þjónustu. Gildistími rammasamningsins er frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2018. Samn­­ingur­inn var staðfestur af heil­­­­­brigðis­ráðherra. Til viðbótar við rammasamninginn gerðu Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Íslands með sér samstarfs­samning sama dag um aðkomu sérgreinalækna að málefnum er varða ramma­samn­ing­inn og gildir sam­­­­starfssamningurinn frá 1. janúar 2014 með gagnkvæmum upp­sagnar­­­­­­rétti og þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Í 1. gr. rammasamningsins greinir meðal annars að samningurinn sé gerður á grund­­velli laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og að hann taki til sérgreina­lækna á nánar tilgreindum sviðum, meðal annars á sviði háls-, nef- og eyrnalækninga, sem reka eigin starfsstofur utan opinberra stofnana og veita þjónustu einstaklingum sem eru sjúkratryggðir samkvæmt fyrrgreindum lögum eða eru slysatryggðir samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Um nánari skilgreiningu á læknisverkum innan samningsins er í sömu grein rammasamningsins vísað til gjaldskrár, sem fylgi­skjals með samningnum, auk nánari skilgreiningar í reglugerð um undanþegin læknis­verk o.fl. Í 2. gr. rammasamningsins greinir meðal annars að sérgreinalæknir, sem síðar vilji hefja störf á stofu samkvæmt samningnum, skuli senda um það erindi til Sjúkra­trygg­­inga Íslands, auk nánar tilgreindra upplýsinga. Jafnframt greinir í 2. gr. að Sjúkra­­­tryggingar Íslands skuli almennt svara slíku erindi innan mánaðar frá því að það og nauð­­­synleg gögn bárust og að í svari skuli koma fram hvort og hvenær lækni sé heimilt að hefja störf samkvæmt samningnum. Í 3.–16. gr. rammasamningsins er kveðið á um ýmis atriði varðandi samninginn, framkvæmd hans og nánari útfærslu, meðal annars um kröfur til lækna, verð á þjónustu, greiðslur sjúkratryggðra og Sjúkra­trygginga Íslands, útgáfu reikn­inga og heildarfjölda eininga, áætlanir um vinnumagn, eftir­lit o.fl. Í 17. gr. er kveðið á um fyrrgreindan gildistíma en auk þess tekið fram í niðurlagi greinarinnar að samningnum megi segja upp með sex mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót, ef forsendur samningsins breytast verulega. 

Þá er í 18. gr. rammasamningsins meðal annars tekið fram að fjárhæðir í samn­ingnum séu settar fram með fyrirvara um ákvörðun Alþingis um fjárveitingu á fjár­lög­um og með fyrirvara um að stjórnvöld kunni að ákveða aðrar viðmiðanir við undir­bún­ing fjárlaga vegna að­stæðna í ríkisfjármálum á hverjum tíma. Þannig verði heimilt að gera ráð fyrir aðhaldi eða hagræðingu í rekstri þeirra verkefna sem samningurinn taki til í sama mæli og hjá heil­brigðisstofnunum taki stjórnvöld ákvörðun um það við gerð fjárlaga, enda minnki kröfur um afköst á móti. Í sömu grein rammasamningsins er einnig kveðið á um að verði verulegar breytingar á starfsumhverfi sérgreina­lækna geti hvor aðili um sig óskað eftir því að samstarfsnefnd, sbr. samstarfssamning Lækna­félags Reykjavíkur og Sjúkratrygginga Íslands, fjalli um málið og fáist ekki við­­­­unandi niðurstaða skuli vísa málinu til samninganefnda sömu aðila. Enn fremur er í 18. grein rammasamningsins kveðið á um að verði farið í sparnaðaraðgerðir skuli leitast við, eins og unnt sé, að breytingarnar verði sem minnst íþyngjandi fyrir sjúk­linga og lækna og að eðlilegur aðlögunartími verði gefinn áður en slíkar breytingar gangi í gildi.

Í fyrrgreindum samstarfssamningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykja­­­­­­­­­­­­víkur greinir meðal annars að aðilar skuli skipa samstarfsnefnd sem sinni þeim verk­­­­­efnum sem tilgreind séu í samningnum. Hlutverk sam­starfsnefndar sé meðal annars að leggja mat á þjónustuþörf sem haft verði til hliðsjónar við afgreiðslu um­sókna frá nýjum læknum um aðild að rammasamningnum. Einnig sé hlutverk sam­starfs­­­nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál varðandi rammasamninginn, gera til­lögur í öðrum málum sem kunni að koma upp í samskiptum Sjúkratrygginga Íslands og lækna, auk þess að fjalla um mál sem beint er til nefndarinnar varðandi verulegar breyt­­ingar á starfsumhverfi sérgreinalækna, en að öðrum kosti að vísa slíkum málum til samninganefnda samningsaðila.

Með bréfi velferðarráðuneytisins, fyrir hönd heilbrigðisráðherra, til Sjúkra­trygg­inga Íslands 10. desember 2015 var meðal annars tekið fram að ekki hefði tekist að halda kostnaði vegna ramma­samnings­ins innan heimilda fjárlaga og tilgreinds ein­inga­fjölda í samningnum. Af þeim sökum hefði ráðuneytið ákveðið að grípa til að­gerða með það að leiðarljósi að laga umfang útgjalda og þjónustu að gildandi samn­ingi og fjárlögum. Annars vegar væri um að ræða aðgerðir sem grípa mætti til strax eða fljótlega á grundvelli ramma­samn­­ingsins og hins vegar aðgerðir sem tækju lengri tíma og hefðu það meðal annars að markmiði að bæta aðgengi að annars stigs þjónustu og tengsl hennar við aðra hluta heil­brigðis­­kerfisins. Með bréfinu var Sjúkra­trygg­ingum Íslands, meðal annars með vísan til 2. gr. rammasamningsins, falið að stöðva skrán­ingu nýrra lækna inn á samninginn frá og með 1. janúar 2016 þar sem einingar væru komnar fram yfir tilgreindan fjölda í ramma­­­­samningnum. Þá var miðað við að auglýsa skyldi eftir læknum ef þörf yrði talin á að fleiri læknar yrðu aðilar að samningnum. Einnig var Sjúkratryggingum Íslands falið að funda með forsvars­mönnum lækna og koma með tillögur fyrir 1. mars 2016 um hvernig skyldi bregðast við einingum um­fram ákvæði rammasamningsins enda væri það á ábyrgð beggja aðila að samningurinn væri haldinn hvað þennan þátt varð­aði. Þá var auk þess lagt fyrir Sjúkratryggingar Íslands að aðilar tækju til skoðunar og kæmu með tillögur innan sömu tímamarka um það hvernig tryggja mætti þjónustu við nýja sjúk­­­­linga.

Með almennri tilkynningu, sem birt var á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands 30. des­ember 2015, var meðal annars tekið fram að stofnunin hefði ákveðið að stöðva skrán­ingu nýrra sérgreinalækna inn á rammasamninginn og að stöðvunin tæki til erinda um aðild að samningnum sem bærust Sjúkratryggingum Íslands eftir 1. janúar 2016. Fram kom að gripið væri til framangreindrar stöðvunar þar sem umfang ramma­samnings­ins væri yfir tilgreindum viðmiðunum, en ef þörf krefði yrði auglýst eftir læknum inn á samn­inginn. Tekið var fram að þegar nýir læknar óskuðu eftir aðild að samn­ingnum yrði eftir sem áður leitað til samstarfsnefndar Sjúkratrygginga Íslands og Lækna­­­félags Reykjavíkur, sbr. samstarfssamning, og lagt mat á þjónustuþörfina við afgreiðslu umsókna. Eftir­leiðis yrði við matið haft samráð við embætti landlæknis og vel­­­ferðar­ráðuneytið. Þá var tekið fram að fulltrúar Sjúkratrygginga Íslands fyrir­huguðu að funda með forsvarsmönnum lækna í ljósi umfangs rammasamningsins og leita leiða til að færa þjónustustigið að þeim viðmiðunum sem upphaflega var gengið út frá en sam­tímis yrði lögð áhersla á að tryggja þjónustu við nýja sjúklinga og að mark­­­­miðið væri að sameiginlegar tillögur lægju fyrir í lok febrúar 2016.

Með minnisblaði 2. febrúar 2016 kynntu Sjúkratryggingar Íslands fyrir heil­brigðis­­­ráðherra niður­stöðu fundar með fulltrúum sérgreinalækna 29. janúar sama ár. Í minnisblaðinu var meðal annars lagt til að tekið yrði til athugunar hvort innleiða ætti tilvísunarkerfi vegna þjónustu sjálf­stætt starfandi sérgreinalækna. Að sögn stefnda mun heilbrigðis­ráðherra ekki hafa hugnast sú leið að innleiða tilvísanir sökum þess að ekki þótti sýnt fram á að það dygði nægjanlega til þess að lækka kostnað.

Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands til velferðarráðuneytisins 5. október 2016 var bent á mikilvægi þess að samstarf væri haft um verklag við mat á þörf fyrir sér­fræði­­­þjónustu. Tekið var fram að mikilvægt væri að verklagið væri gagnsætt og að það tryggði að jafn­ræðis væri gætt við afgreiðslu umsókna um aðild að ramma­samningnum. Í svar­bréfi ráðuneytisins 9. nóvember 2016, fyrir hönd heil­brigðis­­ráðherra, var fallist á framangreind sjónarmið sjúkra­­­­­­trygginga og tekið fram að mikil­vægt væri að stofnanir hefðu sam­starf við mat á þjónustu­þörf. Vísaði ráðu­­­neytið til hlut­verks landlæknis­embættisins við söfnun upp­lýsinga o.fl. samkvæmt k-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýð­heilsu, auk ráðgjafar­hlutverks sem embættið gegndi gagnvart ráðherra og öðrum stjórn­völd­um. Þá var með bréfi ráðu­neytisins lagt til að fram­­vegis yrði fylgt ákveðnu verk­lagi með að­komu embættis landlæknis, sem um­sagnar­­­aðila, vegna umsókna um aðild að rammasamningnum, þegar metin yrði þörf fyrir þjón­­ustu sér­greinalækna á grundvelli samnings­ins.

Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands til velferðarráðuneytisins 11. apríl 2017 var lagt til að framvegis færi mat á þörf fyrir lækna á rammasamningi fram hjá stofnuninni og að hún myndi upplýsa ráðuneytið reglulega um afgreiðslu erinda. Þá var auk þess tekið fram að ef Sjúkratryggingar Íslands myndu synja lækni um aðild að samn­­ingnum þá yrði sú ákvörðun kæranleg til ráðuneytisins til samræmis við 26. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi velferðarráðuneytisins 26. apríl 2017, fyrir hönd heil­brigðis­ráðherra, var vísað til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál varðandi ábyrgð og eftirlit ráðherra með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði og ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda væri innan þess ramma sem Alþingi hefði ákveðið. Vísað var til þess að for­stöðu­maður ríkisaðila í A-hluta, eða eftir atvikum stjórn slíkrar stofnunar, bæri ábyrgð gagnvart við­komandi ráð­herra á því að starfsemin skilaði til­ætluðum árangri og að rekstur og af­koma væri í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hefðu verið, sbr. 3. mgr. 27. gr. sömu laga. Þá var vísað til 54. gr. laga nr. 112/2008 um að árleg heildar­útgjöld sjúkra­trygginga skyldu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis sam­­kvæmt fjár­lögum og fjár­auka­lögum hvers árs, auk tak­markana sem leiddi af lög­um nr. 123/2015 varðandi fjár­aukalög. Vísað var til fyrr­greindra bréfa velferðarráðuneytis­ins 10. desember 2015 og 9. nóv­ember 2016 og jafn­framt vísað til minnisblaðs Sjúkra­trygginga Íslands frá 11. apríl 2017 um áætlaðan halla í réttindaflokknum 08-206 vegna lækniskostnaðar sem væri 1.075 milljónir króna. Greint var frá því að á fundum ráðuneytis­ins með Sjúkra­­­trygg­ing­um Íslands 24. og 25. sama mánaðar hefði komið fram að mögulega stefndi í minni halla á fjárlaga­liðnum en minnisblaðið gæfi tilefni til að áætla. Að því virtu ósk­aði ráðuneytið eftir nánara mati Sjúkratrygginga Íslands á stöð­unni og tillögum stofnunarinnar um að­gerðir til að draga úr áætluðum halla á árinu 2017. Þessu til við­bótar var þeim til­mælum beint til Sjúkratrygginga Íslands að á meðan málefni þessi væru til skoðunar hjá ráðuneytinu, þá yrðu nýir sérgreinalæknar ekki teknir inn á ramma­samning­inn. Þá færi jafn­framt fram sérstakt mat á endurnýjun allra samn­inga sem losnuðu á árinu með hliðsjón af fyrirliggjandi fjárlögum og út frá forgangs­röðun ráð­herra, auk þess sem fjár­hags­legar forsendur samninga yrðu sendar til skoð­unar til ráðu­neytisins áður en samningar yrðu endurnýjaðir.   

Stefnandi er íslenskur ríkisborgari, búsett hér á landi og sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum en hún lauk sérfræði­námi vorið 2014 að loknu fimm ára fram­halds­námi. Stefnandi starfaði á sínu sérgreinalækningasviði við lénssjúkrahús í Svíþjóð í þrjú ár uns hún flutti til Íslands af fjölskyldu­ástæðum. Með leyfi embættis landlæknis 17. mars 2017 var stefnanda veitt heimild til að kalla sig sérfræðing í fyrrgreindum sérgreina­lækningum og starfa hér á landi sem slíkur með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir að lögum. Stefnandi sótti um aðild að rammasamningnum með umsókn til Sjúkra­trygginga Íslands 14. júlí 2017. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands 8. september sama ár var stefn­­anda tilkynnt að ákveðið hefði verið að hafna umsókn hennar. Í bréf­inu var vísað til bréfs velferðar­ráðuneytisins 26. apríl 2017, sem var staðfest af ráðuneytinu 28. ágúst sama ár, þar sem því var beint til sjúkratrygginga að taka ekki nýja sérgreinalækna inn á ramma­samning­­inn, meðal annars vegna veru­legs halla á þeim fjárlagalið sem tæki til læknis­kostnaðar. Þá var í bréfinu til stefnanda einnig vísað til fundar sam­­­starfs­­nefndar Sjúkratrygginga Íslands og sér­greina­lækna 7. sept­ember 2017 þar sem fjall­að var um fyrirliggjandi umsóknir lækna um aðild að ramma­­samningnum en þar hefðu fulltrúar sjúkratryggingastofnunarinnar upplýst að vegna fyrirmæla ráðuneytisins væri stofnun­inni ekki unnt að samþykkja um­sókn­irnar.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi vísar til þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 8. september 2017 um að hafna umsókn hennar um aðild að ramma­samningnum hafi verið stjórnvalds­ákvörðun í skiln­ingi 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um ákvörðunina gildi stjórn­sýslu­lög, óskráðar grund­­vallarreglur stjórnsýslulaga og aðrar þær lagareglur sem taki til ákvörðunarinnar. Stefnandi byggir kröfu sína meðal annars á því að ákvörðunin sé ólög­mæt stjórn­­­­­­­valdsákvörðun og að stefnandi hafi samkvæmt 2. gr. samningsins átt rétt til aðildar að ramma­samningnum. Til frekari rökstuðnings vísar stefnandi meðal annars til þess að fyrrgreind ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands byggi ekki á fag­legu efnis­­­­legu mati stofnunarinnar eins og gert sé ráð fyrir í rammasamningnum og leiði jafn­framt af ákvæðum laga nr. 112/2008. Sjúkratryggingar Íslands fari eftir almenn­um fyrirmælum heilbrigðisráðherra um að nýir aðilar verði ekki teknir inn á ramma­­samninginn. Þetta komi fram í bréfi Sjúkratrygginga Íslands til stefn­­anda 8. september 2017, sbr. bréf heilbrigðisráðherra til sjúkratrygginga 28. ágúst sama ár. Stefn­­andi telur að þessi almennu fyrirmæli eða tilskipun ráðherra eigi sér hvorki stoð í lögum né í rammasamningnum. Þá bendir stefnandi einnig á að stjórnvöld heilbrigðis­mála hafi ekki farið fram á endurskoðun á rammasamningnum eða beitt fyrirvara sam­kvæmt 18. gr. samningsins. Um sé að ræða gildan og bindandi samning sem beri að efna sam­kvæmt efni sínu. Almenn tilvísun til fjárskorts geti ekki verið réttlætingar­ástæða af ríkis­valdsins hálfu fyrir því að vanefna samninginn.

Í stefnu er einnig byggt á því að með ákvörðun stefnda um að synja umsókn stefnanda hafi verið brotið gegn jafnræðisreglum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, og 11. gr. laga nr. 37/1993, auk þess sem brotið hafi verið gegn meginreglum samkeppnisréttar að þessu leyti. Þá fái ákvörðun stefnda ekki samrýmst 20. gr., sbr. 1. gr., laga nr. 74/1997 um réttindi sjúk­linga, að teknu tilliti til þess að greiðsluþátttaka ríkisins sé lögbundin, sbr. lög nr. 112/2008, og ákvörðunin samrýmist ekki heldur þeim grunnsjónarmiðum sem regluverkið grund­vallist á. Jafnframt byggir stefnandi á því að ákvörðun stefnda hafi verið ólög­mæt mismunun og í andstöðu við grundvallarreglur samkeppnisréttar, sbr. einkum 8. gr. og b-lið 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Enn fremur byggir stefn­andi á því að ákvörðun stefnda hafi verið andstæð reglum EES-réttar um frjálst flæði vinnuafls og þjónustu og fyrrgreindum reglum samkeppnisréttar. Þá byggir stefnandi auk þess á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki að öllu leyti farið eftir tilmælum heilbrigðis­ráðherra frá 26. apríl 2017 um að taka ekki nýja sérgreinalækna inn á ramma­­­­samning­inn og dæmi séu um annað í framkvæmd. Með hliðsjón af úrlausn máls­­­­ins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnanda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá tekur stefnandi fram að krafa um málskostnað að skaðlausu taki einnig til þess að hún reki ekki virðis­aukaskattsskylda starfsemi og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins sam­kvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og því þurfi að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir á því að fjárstjórnarvaldið sé hjá Alþingi, sbr. 40. og 41. gr. stjórnar­­skrárinnar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 hafi framlag úr ríkissjóði, sem ætlað var að standa straum af lækniskostnaði vegna heilbrigðisþjónustu utan sjúkra­húsa, verið 9.763.100.000 krónur, sbr. fjárlagalið 08-206-111 og auglýsingu nr. 165/2017 um skiptingu fjárheimilda fjárlaga í fjár­veit­ingar. Undir þennan lið falli meðal annars útgjöld vegna rammasamningsins. Um miðjan apríl 2017 hafi Sjúkra­trygg­­­ingar Íslands áætlað að halli á fyrrgreindum fjár­lagalið næmi allt að 1.075.000.000 krónum, sbr. bréf vel­ferðarráðuneytisins 26. apríl 2017. Í skýrslu Ríkis­endurskoðunar til Alþingis í des­ember 2017, um framkvæmd fjárlaga janúar til júní sama ár, komi fram, á bls. 15, að frávik vegna lækniskostnaðar stafi af meiri magn­aukningu en forsendur fjárlaga hafi gert ráð fyrir og að liðurinn verði um 1.200.000.000 krónur umfram fjárheimildir vegna ársins 2017. Stefndi telur að ákvæði 54. gr. laga nr. 112/2008 samrýmist 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar en þar komi fram að ár­leg heildar­útgjöld sjúkra­trygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis sam­kvæmt fjárlögum og fjár­aukalögum hvers árs. Stefndi byggir á því að hann hafi farið eftir þessum laga­fyrirmælum þegar hann fór þess á leit við Sjúkratryggingar Íslands að ekki yrðu teknir nýir læknar inn á ramma­­­samning­inn, meðal annars vegna þess að ekki hefði tekist að halda kostnaði vegna samningsins innan heimilda fjárlaga, sbr. bréf vel­ferðar­ráðuneytisins, fyrir hönd heilbrigðisráðherra, dagsett 10. des­ember 2015, 26. apríl 2017 og 28. ágúst sama ár. Stefndi telur að önnur við­brögð hefðu verið and­stæð lögum.

Stefndi byggir á því að stefnandi eigi ekki einhliða rétt til aðildar að ramma­samning­num. Stefnandi vísar til markmiðs laga nr. 112/2008 sem sé að tryggja sjúkra­tryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Með lögunum eigi jafnframt að stuðla að hagkvæmni og hámarks­gæðum, svo og að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda þjónustunnar og kostnaðar­greina hana. Lykil­­atriði til árangurs telur stefndi að felist í því að þjónustan, sem greiðsluþátttaka sjúkra­­trygginga taki til, sé á hverjum tíma eins vel skilgreind og kostur sé á, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 28. gr. laga nr. 40/2007 fari ráð­­herra með umboð ríkisins til samningsgerðar um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiðslu­­þátttöku ríkisins vegna hennar. Í 2. og 8. gr. rammasamningsins séu ákvæði sem skilgreini aðild að samningi og umfang þeirrar þjónustu sem samningurinn taki til. Þá sé sérstaklega tekið fram í 18. gr. samningsins að fjárhæðir í samningnum séu settar fram með fyrirvara um ákvörðun Alþingis um fjár­veitingu á fjárlögum og með fyrir­vara um að stjórnvöld kunni að ákveða aðrar við­miðanir við undirbúning fjárlaga vegna aðstæðna í ríkisfjármálum á hverjum tíma. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál hvíli sú skylda á ráðherra að hafa virkt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á sínu málefnasviði. Þá beri ráðherra ábyrgð á að ráðstöfun fjárheimilda sé innan þess ramma sem Alþingi ákveður. Einnig skuli ráð­herra, samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga, leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar. Þá telur stefndi að fyrirmæli heilbrigðisráðherra frá 10. desember 2016 og 26. apríl 2017, þess efnis að nýir sér­fræði­læknar verði ekki teknir inn á rammasamninginn, samrýmist að fullu yfir­stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráð­herra, sbr. 4. gr. laga nr. 112/2008 og 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2007. Enn fremur vísar stefndi til þess að þegar stefnandi hafi sótt um aðild að rammasamningi í júlí 2017 hafi hvoru tveggja legið fyrir, það er að umsaminn einingafjöldi samkvæmt 8. gr. samn­ings­ins hafi verið fullnýttur, sbr. bréf velferðarráðuneytisins 26. apríl 2017, og að fé samkvæmt fjárlögum þess árs, sem hafi verið ætlað að mæta kostnaði við ramma­samninginn, hafi verið uppurið. Efnisákvæði rammasamningsins að þessu leyti séu skýr að mati stefnda. Þá telur stefndi að orðalag lokamálsliðar 3. mgr. 2. gr. sama samnings taki af öll tví­mæli um það að til þess að nýir sérfræðilæknar, þar á meðal stefnandi, geti fengið aðild að samningnum þá þurfi samþykki stefnda að koma til. Öndverðum málsástæðum stefn­anda sé mótmælt sem röngum.

Þessu til viðbótar taka varnir stefnda mið af því að ekki hafi verið brotið gegn samkeppnisreglum og jafnræðisreglum og engir sérgreinalæknar hafi fengið aðild að rammasamningnum frá 26. apríl 2017. Jafnframt byggir stefndi á því að ekki hafi verið brotið gegn 20. gr. laga nr. 74/1997. Þá taka varnir stefnda einnig til þess að um­rædd ákvörðun hafi ekki falið í sér brot gegn reglum EES-réttarins um frjálst flæði vinn­u­­­­afls og þjónustu. Með hlið­sjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og laga­rökum stefnda að þessu leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

IV.

Niðurstöður:

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara forseti lýðveldisins og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskránni og öðrum landslögum með framkvæmdavaldið. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar greinir að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Þá skipar forseti ráðherra, ákveður tölu þeirra og skiptir með þeim störfum, sbr. 15. gr. stjórnar­­skrárinnar. Af framangreindum grundvallarreglum stjórnarskrárinnar leiðir að ráð­herrar fara með æðsta vald, hver á sínu sviði. Fjárstjórnarvaldið er hins vegar hjá Alþingi en sam­kvæmt 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar er ekkert gjald heimilt að inna af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Sérstök skylda hvílir á ráðherra sam­kvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015 til að hafa virkt eftirlit með fram­kvæmd fjárlaga á sínu sviði. Þá ber ráð­­herra samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga að leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjár­veit­ingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveit­ingar.

Ráðherrar fara með stjórnarmálefni í Stjórnar­ráði Íslands og starfa þeir í umboði Alþingis, sbr. 1. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 12. gr. þeirra laga fer ráðherra almennt með yfirstjórn stjórnvalda sem hafa á hendi fram­kvæmd stjórnar­málefna er undir hann heyra en í því felst meðal annars að ráð­­­herra getur gefið stjórn­valdi almenn og sérstök fyrir­mæli um starf­rækslu á verk­efnum þess, fjár­­reiður o.fl. Þá skal ráðherra samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna hafa eftir­lit með starf­­rækslu, fjár­reið­um og eignum á vegum stjórnvalda sem heyra undir almennar stjórnunarheimildir hans. Það leiðir af 2. og 14. gr. stjórnar­­­skrárinnar, sbr. 12. og 13. gr. laga nr. 115/2011, auk almennra reglna stjórn­sýslu­réttar, að ráðherrar fara með æðsta vald í stig­­­­skiptri stjórn­sýslu og hafa þeir heimild til að gefa almenn og sér­­stök fyrir­mæli og fara auk þess með eftirlit og bera ábyrgð á starfsemi ráðuneyta og þeirra stjórn­valda sem teljast lægra sett gagnvart við­komandi ráðherra. Við nánari af­mörkun á yfir­stjórnunar- og eftirlitsheimildum ráð­herra verður í hverju tilviki að horfa til þeirra laga­­­fyrirmæla sem gilda um það málefni sem undirstofnun er falið að sinna og sam­­spils almennra stjórnunarheimilda sem ráðherra kunna að vera fengnar sam­kvæmt slíkum fyrirmælum og þeirra stjórntækja annarra sem þau gera ráð fyrir.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar fer ráðherra með yfir­stjórn sjúkratrygginga og samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og aðra að­stoð sam­kvæmt lögunum, auk yfir­stjórnar sjúkratryggingastofnunar. Í 39. gr. laganna er meðal annars kveðið á um að sjúkra­­­trygginga­stofnun annist samningsgerð um veitingu heil­brigðisþjónustu. Í 1. mgr. 40. gr. greinir að samningar um heilbrigðisþjónustu skuli gerðir í samræmi við stefnu­mörkun samkvæmt 2. gr. laganna, meðal annars um skipu­lag heilbrigðisþjónustu, for­gangs­­röðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustunnar og aðgengi að henni og að við samningsgerð skuli hafa hagsmuni sjúkra­tryggðra að leiðarljósi. Í 2. mgr. 40. gr. laganna greinir meðal annars að samningar um veitingu heilbrigðis­þjón­ustu skuli meðal annars kveða á um magn, tegund og gæði þjón­ustu, hvar hún skuli veitt og af hverjum, endurgjald o.fl. Þar greinir einnig að í samningum skuli vera ákvæði um kröfur til veitenda þjónustu, meðal annars um hæfni þeirra o.fl. Þá skuli við samningsgerð tryggja aðgengi sjúkratryggðra að þeirri heil­brigðisþjónustu sem samið er um óháð efna­­­hag og jafnframt skuli leitast við að tryggja þjónustu við sjúkra­tryggða óháð bú­setu o.fl. Samkvæmt 3. mgr. 40. gr. téðra laga skal val á við­semjendum reist á hlutlægum og málefnalegum forsendum, og meðal annars taka mið af stefnumörkun samkvæmt 2. gr. laganna, ákvæðum laga um heil­brigðisþjónustu, hæfni, gæðum, hagkvæmni, kostn­aði, öryggi, viðhaldi nauð­synlegrar þekkingar og jafnræði. Enn fremur greinir í sömu málsgrein að sjúkra­trygginga­stofnunin skuli ákveða vægi ein­stakra þátta og við samnings­gerð um heil­brigðis­þjónustu skuli gæta þess að raska ekki þeirri þjónustu sem beri að veita samkvæmt lög­­­­um um heilbrigðisþjónustu. Þá er í 4. mgr. 40. gr. laganna tekið fram að reynist fram­­­­boð af tiltekinni heilbrigðis­þjónustu meira en þörf er á eða unnt er að semja um með hliðsjón af fjárheimildum þá sé heimilt á grundvelli hlutlægra og mál­efnalegra sjónar­­miða, meðal annars um hag­kvæmni og gæði þjónustu, að tak­marka samnings­gerð við hluta þeirra aðila sem veitt geti þjónustuna. Í 5. mgr. 40. gr. fyrr­greindra laga er kveðið á um að aðili sem hyggist hefja sjálf­stæðan rekstur heil­brigðisþjónustu þar sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði kostnað sjúklings að hluta eða öllu leyti skuli almennt hafa gert samning við sjúkratrygginga­stofnunina áður en hann hefur rekstur. Einnig er í 54. gr. laga nr. 112/2008 kveðið á um að kostn­aður við sjúkra­­­tryggingar skuli greiðast úr ríkis­sjóði, að því marki sem ákveðið er sam­kvæmt lög­unum eða sér­lögum og reglugerðum settum með stoð í þeim, og þá skuli árleg heildar­­útgjöld sjúkra­­­­­­trygg­inga vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjár­lögum og fjár­auka­lögum hvers árs.

Samkvæmt 6. mgr. 40. gr. fyrrgreindra laga hefur ráð­herra heimild til að ákveða nánar í reglugerð for­sendur fyrir samnings­gerð um endurgjald ríkisins fyrir heil­brigðis­þjónustu sem veitt er utan heil­brigðis­­stofnana sem ríkið rekur. Í 4. og 6. gr. reglu­­gerðar nr. 510/2010, sem sett er með stoð í fyrrgreindri lagaheimild, er meðal annars kveðið á um sömu atriði og áður greinir í 1.–5. mgr. 40. gr. laganna, meðal annars um stefnumörkun ráðherra í mál­efnum sjúkra­trygg­inga, skipulag heil­brigðis­þjónustu, forgangsröðun, hagkvæmni, gæði, að­gengi að þjónustu og að við samn­­ings­gerð skuli hafa hagsmuni sjúkratryggðra að leiðar­ljósi, auk hlutlægra og mál­efna­legra for­sendna við val á viðsemjendum. Þá er auk þess tekið fram í 2. mgr. 4. gr. reglu­gerðar­innar að forsenda samningsgerðar sé að verkefnið samrýmist áætlun í fjár­lögum og að fyrir liggi staðfesting landlæknis á því að rekstur eða fyrirhugaður rekstur upp­fylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heil­brigðislöggjöf, sbr. lög nr. 40/2007 um heil­­brigðis­þjónustu og lög nr. 41/2007 um land­­lækni og lýðheilsu.

Samkvæmt 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 40/2007 fer ráð­­herra með yfirstjórn heil­brigðismála, markar stefnu um heilbrigðisþjónustu innan ramma laganna, og er honum heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að fram­fylgja þeirri stefnu, meðal annars hvað varðar skipulag heilbrigðisþjónustu, for­gangs­­röðun verkefna innan hennar, hagkvæmni, gæði og öryggi þjónustunnar og aðgengi að henni. Sjálfstætt starf­­andi sérgreinalæknar teljast til heilbrigðisstarfsmanna og þjón­usta þeirra telst til sér­hæfðrar heilbrigðisþjónustu, sbr. 3. og 7. tölul. 4. gr. laganna. Í 7. gr. og V. kafla sömu laga er meðal annars nánar kveðið á um sérhæfða heilbrigðis­þjónustu sam­kvæmt samningum gerðum á grundvelli laga nr. 112/2008, meðal annars hvar hún er veitt, hverjir veiti hana o.fl. Þá er í VI. kafla laga nr. 40/2007 kveðið á um gæði heil­brigðisþjónustu, þar með talið sér­hæfðrar heilbrigðisþjónustu, faglegar kröfur, eftirlit og skil­yrði fyrir starf­rækslu heil­brigðisþjónustu. Samkvæmt 28. gr. laganna fer ráð­herra með um­boð ríkisins til samn­ings­­­gerðar um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiðslu­þátttöku ríkisins vegna hennar en sjúkratryggingastofnunin annast samnings­gerð um heilbrigðisþjónustu sam­kvæmt lögum nr. 112/2008.

Á þeim tíma sem um ræðir fór heil­brigðis­ráðherra, innan velferðar­ráðuneytis­ins, með málefni sjúkra­­trygg­­inga og heil­brigðis­þjónustu samkvæmt c-lið 3. tölul. og 4. tölul. 9. gr. for­seta­­úrskurðar nr. 15/2017 og 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 16/2017, sbr. 15. gr. stjórnar­­skrár­­innar og 4. gr. laga nr. 115/2011. Í máli þessu háttar svo til að með ákvörðun Sjúkra­­trygginga Íslands 8. september 2017 var um­sókn stefn­anda um aðild að um­rædd­um rammasamningi synjað. Með því var tekin ákvörðun um rétt stefnanda og var því um að ræða stjórn­valds­­ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993. Þá liggur fyrir, og er ágreiningslaust, að ákvörðunin var í raun reist á fyrir­mælum vel­­­­­ferðar­­­­­ráðu­neytisins frá 26. apríl 2017, fyrir hönd heilbrigðisráðherra, sbr. bréf ráðu­neytisins 28. ágúst sama ár. Einnig liggur fyrir að rekstur Sjúkra­­trygg­inga Íslands vegna umrædds ramma­samnings var kom­inn verulega fram úr fjár­heimildum á árinu 2017 þegar umsókn stefnanda barst og var til meðferðar hjá stofnun­inni. Í 18. gr. rammasamningsins er sérstakur fyrirvari um fjár­heimildir frá Alþingi og mögulegar ráðstafanir stjórnvalda vegna samningsins í tengslum við fjár­heimildir á hverjum tíma. Þá er ljóst að á þessum tíma hafði heilbrigðis­ráðherra beitt yfirstjórnunar- og eftir­lits­heimildum sínum með almennum hætti og girt fyrir frekari aðild sérgreinalækna að rammasamningnum til að leitast við að koma böndum á út­gjöld ríkissjóðs vegna samningsins og halda ríkisrekstri á sínu málefnasviði innan fjárheimilda og draga úr frekari útgjöld­um umfram fjárheimildir. Með vísan til 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar og þess sem að framan greinir um stjórnskipulega stöðu ráðherra, heimilda hans til yfir­stjórnar og skyldna til þess að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og fjárauka­laga á sínu sviði og grípa til nauð­synlegra ráðstafana í tengslum við það, sbr. 54. gr. laga nr. 112/2008 og 3. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 123/2015, þá verður ekki fallist á með stefnanda að hin almennu fyrirmæli heilbrigðis­ráðherra sem birtust með þeim hætti sem að framan greinir hafi hvorki átt sér stað í lög­um né í ramma­samningnum.

Til fleiri atriða þarf hins vegar að líta við mat á lögmæti umræddrar stjórn­valds­ákvörðunar sem beindist að stefnanda, sbr. fyrrgreind fyrirmæli heilbrigðisráðherra. Með rammasamningnum var verið að leggja grunn að umfangsmikilli sérhæfðri heil­brigðisstarfsemi sjálfstætt starf­­andi sér­greina­lækna hér á landi til langs tíma, meðal annars í þágu almennings í landinu og þeirra sem starfa eða hyggjast starfa sem sér­greinalæknar. Samkvæmt rammasamningnum er Sjúkra­­­­­­­tryggingum Íslands meðal annars falið að fjalla faglega um umsóknir sérgreina­lækna sem ósk­­a eftir aðild að ramma­samningnum og ákveða hvort fallist skuli á slíkar umsóknir, sbr. 2. gr. samnings­ins. Þá liggur auk þess fyrir að samkvæmt sam­starfs­­samn­ingi Sjúkra­trygginga Íslands og Lækna­félags Reykjavíkur frá 3. desember 2013 er gert ráð fyrir sam­eiginlegri samstarfsnefnd sem hafi meðal annars það hlut­verk að leggja faglegt mat á þjónustuþörf sem verði haft til hlið­sjónar við afgreiðslu um­sókna nýrra sér­­greinalækna sem óska eftir aðild að samn­ingi. Er þannig ekki um að ræða einhliða rétt stefnanda, sem umsækjanda, til aðildar að ramma­samning­num heldur er aðildin háð matskenndu ákvörðunarferli. Fyrir liggur að hvorki ramma­samningnum né samstarfs­samningnum hefur verið sagt upp og eru samning­arnir því enn í gildi og leggja gagn­kvæmar skyldur á samningsaðila. Við mat á umsókn er þannig í ramma­samningnum, sbr. sam­starfs­samninginn, gert ráð fyrir faglegu efnislegu mati Sjúkra­trygginga Íslands á um­sækjanda, þar með talið hvort hann teljist vera hæfur og hvort hann upp­fylli önnur skil­yrði til að starfa sam­kvæmt ramma­­samningnum og hvort fyrir hendi sé þörf innan heilbrigðiskerfisins fyrir sérgreinalæknis­þjónustu umsækjanda. Þá leiðir einnig af lögum nr. 112/2008, sem liggja til grundvallar rammasamn­ingnum, sbr. sam­starfssamninginn, að Sjúkra­­trygg­ingum Íslands ber við mat á um­sókn meðal annars að taka mið af mark­miðum og stefnumörkun samkvæmt 1. og 2. gr. laganna, þar með talið um aðgengi og gæði heilbrigðis­þjónustu, auk fjár­hags­legra mark­miða við rekstur ríkis­sjóðs vegna heil­­brigðis­starf­semi. Einnig ber Sjúkra­trygg­ingum Íslands í samning­um um heil­brigðis­­þjónustu að taka tillit til fleiri þátta sem greinir í 1.–5. mgr. 40. gr. laganna, meðal annars að gæta að skipulagi heil­brigðis­­­­þjónustu, forgangs­röðun verk­efna, hag­kvæmni og að nálgast matið sérstaklega með hags­muni sjúkra­tryggðra að leiðar­ljósi, auk þess að velja um­sækjanda á hlut­læg­um og mál­efna­legum forsendum og taka meðal annars mið af stefnu­mörkun, hæfni, öryggi, kostnaði o.fl. Skyldur af sama toga eru lagðar á sjúkra­tryggingastofnunina samkvæmt reglu­gerð nr. 510/2010, sbr. 6. mgr. 40. gr. laganna. Hið sama leiðir af ákvæðum laga nr. 40/2007, eins og áður greinir. Að öllu þessu virtu liggur fyrir að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um aðild sérgreinalæknis að ramma­samn­ingi er bæði samkvæmt samningnum sjálfum, sbr. fyrrgreindan samstarfs­samning, sem og samkvæmt fyrirmælum í fyrr­greind­um lög­­um, ætlað að vera mats­­kennd stjórn­valds­­ákvörðun þar sem taka á tillit til margra fag­­legra þátta, bæði er varða þann um­­sækjanda sem sótt hefur um aðild að samningi en einnig til fleiri þátta sem varða starf­­semi, rekstur og gæði heilbrigðis­kerfisins í víðum skiln­ingi, auk fjár­hags­legra þátta, og þá skal enn fremur hafa hagsmuni hinna sjúkra­tryggðu að leiðarljósi í þessu sam­­bandi.

Yfirstjórnunar­heimildir heilbrigðisráðherra eru ekki án tak­mark­­­ana og verður ráð­herra meðal annars að virða efnis- og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar megin­reglur stjórnsýsluréttar og mega fyrir­mæli ráðherra ekki ganga gegn þeim grund­­vallarreglum svo halli á rétt borgaranna í lögskiptum þeirra við stjórn­­­völd. Samkvæmt lögmætisreglu íslensks réttar eru stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að ákvarðanir stjórnvalda og athafnir verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Fyrir­mæli heilbrigðisráðherra, reist á yfirstjórnunar­heimild­um, sem birtust meðal annars í bréfi velferðarráðuneytisins 26. apríl 2017, voru þess eðlis að með þeim var verulega þrengt að faglegu mati Sjúkra­trygg­inga Íslands á stefnanda sem um­sækjanda og þörf fyrir sér­­greina­­læknis­þjónustu hennar. Hið sama á við um sam­­spil umsóknarinnar við hagsmuni hinna sjúkra­tryggðu og starf­­semi, rekstur og gæði heilbrigðiskerfisins í víðum skiln­ingi. Fjárhagslegur ástæður sem vörðuðu útgjöld ríkissjóðs lágu til grundvallar fyrirmælum heilbrigðisráðherra. Fyrirmælin voru ekki í nægjanlegu samræmi við áskilnað löggjafans um faglegt mat sem átti að viðhafa við mat á um­sókn stefnanda, sbr. 1. og 2. gr. og 1.–6. mgr. 40. gr. laga nr. 112/2008, sbr. reglugerð nr. 510/2010. Þá voru fyrirmælin auk þess andstæð því sem til var ætlast sam­kvæmt rammasamningnum, sbr. samstarfs­samning, en báðir samningarnir voru í gildi þegar fjallað var um umsókn stefnanda. Leiddi þetta til þess að ekki fór fram full­nægjandi mat á umsókn hennar með tilliti til þeirra fjölmörgu faglegu þátta sem skiptu máli við úrlausn á umsókninni eins og áður greinir. Með þessu var brotið gegn lög­mætisreglunni og megin­reglu stjórn­sýslu­réttar um skyldu­bundið mat stjórn­valda. Af þessu leiðir að sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 8. september 2017, sem reist var á fyrir­mælum velferðar­ráðuneytisins, fyrir hönd heil­brigðisráðherra, 26. apríl 2017, sbr. bréf ráðuneytisins 28. ágúst sama ár, að synja stefnanda um aðild að ramma­­samningnum samkvæmt umsókn hennar 14. júlí sama ár, er haldin veru­­leg­um ann­mörkum svo leiðir til ógildingar ákvörðunarinnar. Þegar að þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að fella úr gildi um­rædda ákvörðun.

Eftir niðurstöðu málsins og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnanda flutti málið Gísli Guðni Hall lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Soffía Jónsdóttir lögmaður.

       Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Felld er úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, sem tilkynnt var um með bréfi stofnunarinnar, dagsettu 8. september 2017, um að hafna umsókn stefnanda, Ölmu Gunnars­dóttur, dagsettri 14. júlí sama ár, um aðild að rammasamningi Sjúkra­trygg­inga Íslands og sérgreinalækna.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ölmu Gunnarsdóttur, 1.800.000 krónur í málskostnað.

 

Daði Kristjánsson