• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Matsgerð
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2018 í máli nr. E-3257/2017:

Sigurbjörn Freyr Bragason

(Þ. Skorri Steingrímsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir lögmaður)

 

       Mál þetta, sem var dómtekið 4. júní 2018, var höfðað 12. október 2017 af Sigurbirni Frey Bragasyni, […], gegn íslenska ríkinu, Arnarhváli í Reykjavík.

       Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða honum 16.612.887 krónur með 4,5% vöxtum af 1.289.900 krónum frá 16. september 2012 til 6. janúar 2013, en af 16.612.887 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2017 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands 14. desember 2016 sem nam 10.820.380 krónum. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

       Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

       Mál þetta verður rakið til þess að stefnandi leitaði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011 og kvartaði undan slæmum verk á milli herðablaða og ónotum í baki, auk þess sem hann fann fyrir köldum svita og var flökurt. Fram kom í sjúkraskrá að stefnandi hefði verið með stanslausan verk á milli herðablaða í nokkra daga og fyndist hann vera inni í brjóstkassanum. Stefnandi var greindur með bakflæði og voru honum ávísuð lyf. Hann leitaði á ný á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. september 2012 vegna mikilla verkja á milli herðablaða. Hann var þá greindur með kransæðastíflu og sendur með sjúkrabifreið í forgangsakstri til Reykjavíkur. Í sjúkraskrá sagði meðal annars: „Kom hingað í janúar þessa árs vegna sömu verkja. Greint sem bakflæði og fékk töflur við því.“ Stefnandi gekkst undir hjartaþræðingu í kjölfar innlagnar á Landspítalann 16. september 2012 og var önnur hjartaþræðing framkvæmd 26. sama mánaðar. Stefnandi mun hafa verið útskrifaður af hjartadeild Landspítalans 28. september 2012. Hann leitaði á ný á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 4. október 2012 vegna viðvarandi óþæginda í baki og var sendur í skoðun á Landspítalanum. Ákveðið var að framkvæma aðra hjartaþræðingu 8. október og sýndi hún eðlilegt og óbreytt ástand frá 26. september sama ár. Stefnandi sótti endurhæfingu á Reykjalundi frá 29. október til 30. nóvember 2012. Fyrir liggur að stefnandi hefur leitað sér læknisaðstoðar vegna þunglyndis og andlegrar vanlíðanar í kjölfar veikindanna.      

       Stefnandi lauk prófi frá Tollskólanum árið 2001 og hefur frá þeim tíma unnið sem tollvörður hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Hann mun hafa óskað eftir því að færast úr fíkniefnadeild tollgæslunnar í almenna deild í kjölfar veikinda sinna og hefur frá júní 2014 starfað í almennri deild í fullu starfi.

       Hinn 20. júlí 2015 tilkynnti stefnandi tjón sitt til Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Fram kom að hann hefði orðið fyrir geðrænu og líkamlegu tjóni vegna vangreiningar á sjúkdómi er hann leitaði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011. Með bréfi Sjúkratrygginga frá 14. mars 2016 var upplýst að stofnunin hefði samþykkt að taka málið til skoðunar með tilliti til varanlegra afleiðinga atburðarins. Óskað var ýmissa upplýsinga frá stefnanda og brást hann við því. Í svörum hans kom meðal annars fram að heilsufar fyrir atburðinn hefði verið eins og gerist best. Ástand hans sé nú stöðugt en langt frá því að vera gott og geti hann ekki unnið neina erfiðisvinnu, unnið við múrverk eða stundað þungar æfingar eins og hann hafi áður gert.

       Með matsbeiðni 23. apríl 2016 óskaði lögmaður stefnanda eftir að þau Halldóra Björnsdóttir hjartalæknir, Hannes I. Guðmundsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson geðlæknir legðu mat sitt á andlegar og líkamlegar afleiðingar rangrar læknismeðferðar stefnanda á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011 samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993. Boðað var til matsfundar með tölvuskeyti 8. júlí 2016 og var skeytið meðal annars sent embætti ríkislögmanns. Matsfundur fór fram 11. sama mánaðar og voru viðstaddir stefnandi, matsmenn og lögfræðingur Sjúkratrygginga Íslands. Meðal gagna málsins eru athugasemdir Sjúkratrygginga Íslands til matsmanna sem munu hafa verið lagðar fram á matsfundi. Þar segir meðal annars að það hafi verið álit fagteymis stofnunarinnar að stefnandi hefði ranglega verið greindur með einkenni bakflæðis og lækni yfirsést að hann væri með einkenni kransæðastíflu er hann leitaði læknisaðstoðar 1. janúar 2011. Hvað varðaði mat á varanlegri örorku var meðal annars bent á að ekki yrði séð að tekjur stefnanda hefðu dregist saman eftir atvikið þótt hann hefði skipt um starf hjá tollgæslunni. Þá væri hugsanlegt að eftirstöðvar kransæðastíflu ættu einhvern þátt í núverandi ástandi stefnanda, en ýmis önnur heilsufarsvandamál og einkenni grunnsjúkdóms hefðu þar einnig talsvert vægi. Teldist kransæðastífla stefnanda 16. september 2012 til grunnsjúkdóms en ekki afleiðing af vangreiningu 1. janúar 2011. Þrátt fyrir einhver samverkandi áhrif þá hafi heilsa og starfsþrek stefnanda versnað umtalsvert eftir seinna atvikið, en það verði ekki allt fellt undir eldra drep í framvegg hjartans. Þá liggi fyrir að ýmis félagsleg vandamál hafi átt þátt í minnkuðu starfsþreki og verði það óumflýjanlega samofið afleiðingum sjúklingatryggingaratviksins, en fyrirliggjandi gögn beri með sér að stefnandi hafi glímt við ýmis vandamál fyrir atvikið.

       Matsgerð lá fyrir 23. september 2016. Þar kom fram það álit matsmanna að sú meðferð sem stefnandi fékk á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011 hefði verið með öllu ófullnægjandi. Gera yrði ráð fyrir því að ef hjarta hans og blóðrásarkerfi hefði verið skoðað með hefðbundnum og fullnægjandi hætti hefði mögulega mátt koma í veg fyrir hjartaáfallið 16. september 2012. Talið var að stefnandi hefði verið veikur frá 16. september 2012 til 6. janúar 2013, þar af rúmliggjandi frá 16. til 28. september, 5. til 10. október og frá 29. október til 30. nóvember 2012. Þá var talið að varanlegur miski stefnanda væri 10 stig. Varanleg örorka stefnanda var talin hæfilega metin 20% vegna atburðarins. Gerð var grein fyrir aðferðafræði við mat á varanlegri örorku og rökstutt að miðað við eðli meiðsla stefnanda valdi þau skerðingu á vinnugetu hans. Talið var líklegt að hann myndi geta unnið styttri vinnudag en ella, eiga erfiðara með að vinna eftir- eða aukavinnu í sama mæli og áður og að starfsævi hans yrði styttri en ella.

       Með bréfi 4. október 2016 krafði stefnandi Sjúkratryggingar Íslands um greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 á grundvelli fyrrgreindrar matsgerðar. Fram kom í ákvörðun stofnunarinnar frá 14. desember sama ár að stefnandi hefði ekki notið bestu mögulegu meðferðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011 og var bótaskylda viðurkennd. Tímabil þjáningabóta var talið 76 dagar, en þar af taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi í 52 daga og veikur í 24 daga. Varanlegur miski var talinn 10 stig og varanleg örorka 10%. Bætur vegna varanlegrar örorku voru ákveðnar 7.805.439 krónur, en þar sem bótafjárhæð hafði náð hámarki samkvæmt lögum nr. 111/2000 komu aðeins til greiðslu 7.699.313 krónur. Heildarfjárhæð bóta var ákveðin 10.820.380 krónur að meðtöldum vöxtum og fór greiðsla fram 14. desember 2016.

       Stefnandi krafðist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda með bréfi 26. febrúar 2017 og var krafan áréttuð með tölvuskeytum 29. mars og 25. apríl sama ár. Með bréfi stefnda 31. ágúst 2017 var bótaskylda viðurkennd. Í bréfi 2. október 2017 var gerð grein fyrir þeirri afstöðu stefnda að stefnandi ætti ekki rétt til skaðabóta vegna varanlegrar örorku og hefði nú þegar fengið allt slíkt tjón bætt frá Sjúkratryggingum Íslands og væri það í raun umfram skyldu. Þá hefðu bætur vegna 10 stiga varanlegs miska verið greiddar, auk þess sem stefnandi hefði fengið þjáningabætur greiddar. Lögmaður stefnda leitaði í kjölfarið eftir afstöðu stefnda til þess hvort ætlunin væri að leita álits örorkunefndar eða dómkveðja matsmenn í því skyni að hnekkja fyrirliggjandi matsgerð. Lögmaður stefnda óskaði eftir frekari gögnum og eftir skoðun þeirra var með tölvuskeyti 10. október 2017 áréttuð sú afstaða að stefnandi hefði fengið allt tjón sitt bætt. 

        

II

Málsástæður stefnanda

       Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. janúar 2011 og hafi stefndi viðurkennt bótaskyldu vegna þess. Verði ráðið af fyrirliggjandi matsgerð að orsakatengsl séu á milli vangreiningar á stefnanda á þeim tíma og líkamstjóns hans þegar hann fékk hjartaáfall 16. september 2012. Matsgerðarinnar hafi verið aflað í samræmi við 10. gr. skaðabótalaga og hafi hún ríkt sönnunargildi. Því til stuðnings sé vísað til þess að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að skaðabótalögum sé kveðið á um að aðilar megi sjálfir standa að mati á líkamstjóni með öflun sérfræðilegs álits, en sé vilji til að hnekkja slíku mati sé unnt að leita til örorkunefndar. Jafnframt sé unnt að leita matsgerðar dómkvaddra matsmanna til að hnekkja mati sem aflað hafi verið á grundvellli 10. gr. skaðabótalaga. Lögð er áhersla á að fulltrúar stefnda hafi fengið boðun á matsfund og þannig fengið tækifæri til að láta sig málið varða en ekki gert það. Þar sem stefndi hafi ekki hnekkt viðkomandi matsgerð beri að haga uppgjöri í samræmi við niðurstöður hennar og er vísað til dómaframkvæmdar Hæstaréttar því til stuðnings.

       Vísað er til þess að stefnandi hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá 16. september 2012 til 6. janúar 2013 eða samtals í 110 daga, þar af hafi hann verið rúmliggjandi í 19 daga. Nemi krafa um þjáningabætur samkvæmt því 233.470 krónum. Þá miðist krafa um bætur fyrir 10 stiga varanlegan miska að fjárhæð 1.056.429 krónur við 4. gr. skaðabótalaga og lánskjaravísitölu í desember 2016. Krafa um bætur vegna 20% varanlegrar örorku miðist við tekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið, sbr. 5.–7. gr. skaðabótalaga. Útreikningur kröfunnar er nánar skýrður í stefnu. Gert er ráð fyrir því að fyrrgreind greiðsla frá Sjúkratryggingum Íslands 14. desember 2016 verði dregin frá. Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

Málsástæður stefnda

       Stefndi vísar til þess að bótaskylda hafi verið viðurkennd 31. ágúst 2017 með þeim fyrirvara að stefnandi ætti rétt til bóta. Beri að sýkna stefnda af kröfu um greiðslu bóta vegna þjáninga og varanlegs miska samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga þar sem stefnandi hafi fengið slíkt tjón að fullu bætt frá Sjúkratryggingum Íslands. Hafi matsmenn á vegum stefnanda metið miska hans 10 stig eins og Sjúkratryggingar Íslands. Þá sé smávægilegur munur á niðurstöðu mats á þjáningabótum milli matsgerðar þeirrar sem stefnandi aflaði og ákvörðunar stofnunarinnar, sem felist einkum í mismunandi sýn á fjölda þeirra daga sem stefnandi hafi verið rúmliggjandi og batnandi. Þessi mismunur endurspeglist í því að bótafjárhæð vegna þessa liðar sé 10.710 krónum hærri.     Vegna ágalla á fyrirliggjandi matsgerð feli hún ekki í sér nokkra sönnun umfram mat Sjúkratrygginga. Krafa stefnanda um skaðabætur úr hendi stefnda vegna tjóns á grundvelli 3. gr. og 4. gr. skaðabótalaga njóti því ekki lögverndar, enda verði skaðabótakrafa ekki gerð á hendur neinum sem sé bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000.

       Byggt er á því að mat á varanlegri örorku samkvæmt matsgerðinni sé órökstutt og beinlínis rangt. Samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns valdi tjónið varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Um sé að ræða fjárhagslegt örorkumat sem sé einstaklingsbundið. Af rökstuðningi í matsgerð um varanlega örorku stefnanda verði ráðið að matsmenn hafi ekki þekkt hlutverk sitt, enda hafi þeir litið til sjónarmiða sem sé beitt við mat á því hvort meta skuli árslaun sérstaklega samkvæmt undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Slík sjónarmið eigi alls ekki við um mat á varanlegri örorku og kasti þessi ranga aðferðafræði matsmanna mjög rýrð á sönnunargildi matsgerðar þeirra. Þá sé í matsgerðinni tekið fram að laun stefnanda hafi hækkað frá tjónsatburðinum, en samt lagt til grundvallar að hann hafi þegið lægri laun árið 2015 en hann hefði fengið með fullri vinnugetu. Vísað er til þess að stefnandi sé embættismaður og þiggi laun í samræmi við kjarasamning Tollvarðafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins. Laun tollvarða séu ekki vísitölutryggð heldur taki þau breytingum eins og laun annarra sem þiggi laun samkvæmt kjarasamningum. Standist sú forsenda matsmanna að tengja laun stefnanda við launavísitölu því ekki. Þá virðist sú forsenda matsmanna að stefnandi hafi lækkað í launum þegar hann færði sig úr fíkniefnadeild yfir í almenna deild ekki vera studd öðrum gögnum en frásögn hans sjálfs. Að teknu tilliti til framtalinna launatekna stefnanda árin 2008 til og með 2015 verði ekki séð að hann hafi lækkað í launum þegar hann fékk sig færðan yfir í almenna deild. Þá liggi ekki fyrir sönnun um að bótaskyld breyting á heilsu hafi ráðið þessari breytingu á vinnu stefnanda. Jafnframt sé sú forsenda matsmanna að stefnandi eigi erfiðara með að vinna eftir- eða aukavinnu í sama mæli og áður órökstudd, en slíkar ályktanir verði ekki dregnar af tekjum stefnanda eða öðrum gögnum málsins. Að sama skapi virðist sú forsenda að stefnandi hafi haft tekjur af múrverki samhliða embættisstörfum sínum ekki styðjast við annað en frásögn hans, en stefnandi hafi ekki talið fram tekjur vegna vinnu við múrverk frá árinu 1994. Þá þurfi hann heimild tollstjóra til að vinna launuð aukastörf samhliða embætti sínu, sbr. 20. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en hvorki liggi fyrir að stefnandi hafi óskað eftir slíkri heimild né fengið hana. Hafi því ítrekað verið slegið föstu af dómstólum að ætlað tekjutap verði ekki bætt einvörðungu á grundvelli staðhæfingar tjónþola þegar engin skrifleg gögn liggi fyrir staðhæfingunum til stuðnings.

       Stefndi vísar jafnframt til þess að fram komi í matsgerðinni að hefði hjartasjúkdómur stefnanda uppgötvast við læknisskoðunina 1. janúar 2011 hefði mögulega mátt koma í veg fyrir hjartaáfallið 16. september 2012. Í matsgerðinni sé einungis horft til sjúklingatryggingaratburðarins 1. janúar 2011, en ekkert vikið að þeim hjartasjúkdómi sem hrjái stefnanda eða öðrum heilsufarsvandamálum sem séu ótengd tjónstilvikinu og afleiðingum þess. Þannig sé í matinu ekki vikið að skiptingu á milli afleiðinga grunnsjúkdómsins og annarra heilsufarsvandamála stefnanda ótengdra tjónsatburðinum. Af þessum sökum sé matið jafnframt ónothæft sem sönnunargagn um varanlega örorku stefnanda. Lögð er áhersla á að engin breyting hafi orðið á möguleikum eða getu stefnanda til að afla sér tekna sem tollvörður hjá tollgæslunni frá 1. janúar 2011. Hann sinni sama starfi og hafi engu misst af í launum, en framtalsgögn sýni að laun hans hafi hækkað frá tjónsdegi. Sé því ekki unnt að leggja matsgerðina til grundvallar kröfu stefnanda um bætur vegna varanlegrar örörku og sé engri annarri sönnun til að dreifa.

III

Niðurstaða

       Bótaskylda stefnda vegna líkamstjóns stefnanda sem verður rakið til meðferðar hans á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hinn 1. janúar 2011 er ágreiningslaus. Aðila greinir aftur á móti á um hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem ekki hafi nú þegar verið bætt. Einkum er deilt um gildi þeirrar matsgerðar sem liggur fyrir í málinu að því er varðar mat á varanlegri örorku stefnanda. Matsgerðarinnar var aflað af stefnanda á grundvelli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. laga nr. 37/1999. Matsgerðin var unnin af þremur matsmönnum og komu þeir allir fyrir dóm og staðfestu niðurstöður matsgerðarinnar. Fyrir liggur að stefndi var boðaður til matsfundar með þriggja daga fyrirvara með tölvuskeyti 8. júlí 2017, en ekki var mætt til matsfundarins af hálfu stefnda og lét hann vinnu við matsgerðina sig ekki frekar varða. Við munnlegan málflutning skýrði lögmaður stefnda svo frá að lítill fyrirvari hefði verði á boðun matsfundar og hefðu lögmenn embættisins ekki getað mætt. Mætt var af hálfu Sjúkratrygginga Íslands á matsfundinn og voru lagðar fram ítarlegar athugasemdir stofnunarinnar vegna matsmálsins.

       Stefndi byggir á því að mat á varanlegri örorku í matsgerðinni standist ekki og að matsmenn hafi lagt ranga aðferðarfræði til grundvallar. Þá standist ekki sú forsenda matsmanna að tengja laun stefnanda við launavísitölu. Ekki virðist heldur nein gögn styðja ályktanir um að laun stefnanda hafi lækkað við flutning úr fíkniefnadeild í almenna deild, að stefnandi hafi áður haft tekjur af múrverki eða að stefnandi eigi erfiðara með að vinna eftir- eða aukavinnu í sama mæli og áður. Í matsgerð er ítarlega útskýrt hvernig mati á varanlegri örorku sé háttað með því að líta til skerðingar á getu stefnanda til að afla vinnutekna vegna atburðarins, sem og þeirra kosta sem hann á til að afla tekna með vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfi við, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Tekið er fram að það geti verið svo að tekjur fyrir og eftir sjúklingatryggingaratburð gefi ekki rétta mynd af raunverulegu tjóni og beri að líta sérstaklega til ástæðna að baki því og líklegra breytinga á framtíðartekjum. Beri að taka tillit til annarra breytinga sem líkur séu til að hefðu orðið í lífi tjónþola ef tjónsatvik hefði ekki komið til. Fram kemur að það sé mat matsmanna að stefnandi muni „þurfa að slá af störfum sínum í framtíðinni, þ.e. hægari afkastageta og minnkað starfshlutfall, vegna sjúklingatryggingaratburðarins og að möguleikar hans til framgangs í starfi muni skerðast [...]“. Þá er gerð grein fyrir því að tekjur stefnanda hafi hækkað frá árinu 2009 til ársins 2015, en að matsmenn telji ekki rétt að styðja mat á varanlegri örorku við tekjur fyrir og eftir atburðinn. Ráðið verður af matsgerð að ástæða þessa hafi verið sú að matsmenn hafi talið að tekjur stefnanda á árinu 2015 hefðu verið lægri en ella að teknu tilliti til launavísitölu þar sem hann hefði fengið sig færðan frá fíkniefnadeild tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli í almenna deild. Þá var vísað til þess að stefnandi gæti ekki unnið aukavinnu við múrverk eða erfiðisvinnu. Niðurstaða matsmanna um 20% varanlega örorku stefnanda var nánar rökstudd með eftirfarandi hætti: „Miðað við eðli þeirra meiðsla sem tjónþoli varð fyrir vegna sjúklingatryggingaratburðarins er ljóst að þau valda skerðingu á vinnugetu vegna minna úthalds og þreks til vinnu. Líklegt er að vinnudagurinn muni styttast miðað við það sem telja má að hefði orðið ef sjúklingatryggingaratburðurinn hefði ekki komið til. Einnig er líklegt að hann muni eiga erfiðara með að vinna eftir- eða aukavinnu í sama mæli og áður. Ennfremur er líklegt að starfsævi hans verði styttri en ella.“

       Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að matsmenn hafi við matið ranglega litið til þeirra sjónarmiða sem búa að baki beitingu undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. laganna, líkt og stefndi heldur fram. Það liggur aftur á móti fyrir að laun stefnanda sem tollvarðar ráðast af kjarasamningum og taka ekki breytingum eftir launavísitölu. Staðfest var í skýrslu matsmannsins Hannesar I. Guðmundssonar lögfræðings fyrir dómi að þessi umfjöllun í matsgerð væri á misskilningi byggð. Hann tók jafnframt fram að þetta hefði ekki áhrif á niðurstöðu matsmanna um varanlega örorku stefnanda, enda væri fyrst og fremst litið til kosta stefnanda við tekjuöflun í framtíðinni. Teldu matsmenn líklegt að stefnandi mundi þurfa að minnka vinnu í framtíðinni, gæti ekki unnið vaktavinnu og að hann gæti jafnvel þurft að skipta um starfsvettvang og stunda léttari störf auk þess sem hætta á uppsögn væri til staðar. Í skýrslu matsmannsins Halldóru Björnsdóttur hjartalæknis var nánar skýrt að drep í hjartavöðva stefnanda væri til þess fallið að draga verulega úr starfsgetu hans og að ólíklegra væri að hann gæti stundað vinnu til lengri tíma litið en einstaklingur með heilbrigt hjarta.

       Til þess er að líta að tekjur tjónþola eftir tjónsatvik skipta að jafnaði miklu við mat á skerðingu á getu hans til að afla launatekna vegna líkamstjóns og að hækkun tekna gefur vísbendingu um að ekki sé um varanlega örorku að ræða. Aftur á móti er viðurkennt að þetta eigi ekki í öllum tilvikum við, svo sem ef sýnt er að tjónþoli muni þurfa að slá af í störfum sínum í framtíðinni vegna líkamstjóns. Þá verður ráðið af dómaframkvæmd að vaxandi tekjur tjónþola séu ekki afgerandi um það hvernig honum muni ganga að afla sér vinnutekna þegar lengra líður á starfsævina, heldur verði að líta til fleiri þátta, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 24. september 2015 í máli nr. 72/2015. Að teknu tilliti til þessa og rökstuðnings í matsgerð um skerta starfsgetu stefnanda til framtíðar litið verður ekki fallist á að umræddur annmarki á matsgerðinni sé slíkur að líta beri fram hjá niðurstöðu matsmanna um varanlega örorku stefnanda. Þá verður ekki fallist á að röksemdir stefnda um að matsmenn hafi byggt á einhliða frásögn stefnanda og að skort hafi á gagnaöflun hafi þýðingu, en í matsgerðinni er gerð grein fyrir þeim gögnum sem byggt var á og eru þar á meðal skattframtöl og útprentanir úr staðgreiðsluskrá vegna stefnanda. Þá verður að líta til þess að stefndi átti þess kost að koma athugasemdum til matsmanna vegna vinnu við matsgerðina, svo sem varðandi gagnaöflun, en nýtti ekki þann möguleika. Stefndi hefur jafnframt byggt á því að matið verði ekki lagt til grundvallar þar sem þar sé ekki vikið að skiptingu á milli afleiðinga grunnsjúkdómsins og annarra heilsufarsvandamála stefnanda ótengdra tjónsatburðinum. Áhersla var lögð á þetta sama atriði í athugasemdum Sjúkratrygginga Íslands sem voru lagðar fram á matsfundi. Matsspurningar varða afleiðingar vangreiningar á sjúkdómi stefnanda 1. janúar 2011 og niðurstöður matmanna varða að sama skapi tjón hans vegna umrædds atburðar. Það verður því ekki fallist á matsgerð sé að þessu leyti haldin annmarka, enda þótt stefndi kunni að vera ósammála forsendum matsmanna. Samkvæmt þessu hefur stefndi ekki sýnt fram á að fyrirliggjandi matsgerð sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar í málinu.

       Stefndi hefur hvorki nýtt sér heimild 10. gr. skaðabótalaga til að bera matsgerðina undir örorkunefnd né óskað eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni. Verður matsgerðin því lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 24. janúar 2013 í máli nr. 542/2012 og frá 31. maí 2018 í máli nr. 817/2017.

       Krafa stefnanda er sundurliðuð í bætur fyrir varanlega örorku, varanlegan miska og þjáningabætur. Stefndi telur að bætur vegna varanlegs miska og þjáningabætur hafi verið greiddar að fullu samkvæmt ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 14. desember 2016. Fyrir liggur að stefnda voru greiddar bætur vegna 10 stiga varanlegs miska, þjáningabætur sem námu 222.760 krónum og bætur vegna 10% varanlegrar örorku sem sættu lækkun að teknu tilliti til hámarksgreiðslu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Krafa um þjáningabætur samkvæmt stefnu tekur mið af niðurstöðu matsmanna og er 10.710 krónum hærri en sú fjárhæð sem var greidd frá Sjúkratyggingum. Niðurstaða matsgerðarinnar verður lögð til grundvallar hvað þetta varðar, en stefndi hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir öðru. Að öðru leyti hefur útreikningi stefnanda á einstökum liðum bótakröfu sinnar, þar með talið á bótum fyrir varanlega örorku, ekki verið mótmælt.

       Samkvæmt því verður fallist á að heildartjón stefnanda nemi 16.612.887 krónum, sem sundurliðast þannig að þjáningabætur nema 233.470 krónum, bætur vegna varanlegs miska 1.056.429 krónum og bætur vegna varanlegrar örorku 15.322.988 krónum. Stefnandi byggir kröfu um vexti á 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga og kröfu um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmælti ekki kröfu stefnanda um vexti eða dráttarvexti í greinargerð sinni, en hreyfði andmælum við munnlegan málflutning og var þeim mótmælt sem of seint fram komnum, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Að teknu tilliti til þessa verður fallist á að krafa stefnanda beri vexti og dráttarvexti með þeim hætti sem greinir í kröfugerð hans.

       Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 16.612.887 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, allt að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands 14. desember 2016 sem nam 10.820.380 krónum.

       Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til umfangs málsins og þess kostnaðar sem stafar af málinu, hæfilega ákveðinn 1.400.000 krónur.

Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Sigurbirni Frey Bragasyni, 16.612.887 krónur, með 4,5% vöxtum af 1.289.900 krónum frá 16. september 2012 til 6. janúar 2013, en af 16.612.887 krónum frá þeim degi til 26. febrúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands 14. desember 2016 sem nam 10.820.380 krónum.

       Stefndi greiði stefnanda 1.400.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir (sign.)