• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Fangelsi
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019 í máli nr. S-85/2019:

Ákæruvaldið

(Baldvin Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru 12. febrúar 2019 á hendur ákærða; „X, kt. […], […], […], dvalarstaður […], […], fyrir hótanir og vopnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt 29. apríl 2017, við […] í Reykjavík, átt og notað gasloftbyssu af gerðinni Daisy Powerline án þess að hafa fengið til þess skotvopnaleyfi, borið hana innanklæða á almannafæri, dregið síðan upp og miðað á höfuð leigubifreiðastjórans A, kt. […] og tekið tvívegis í gikk hennar án þess að nokkuð gerðist, er var til þess fallið að vekja upp hjá A ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr., 1. og 4. mgr. 21. gr., 1., sbr. 2. mgr. 23. gr., allt sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 2. gr., 3. gr. og 25. gr., sbr. 59. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að skotvopn það, sem haldlagt var af lögreglu, verði gert upptækt skv. heimild í 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 1. tölul. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Af hálfu A er gerð krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 króna. Einnig er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 króna. Krafist er vaxta af skaðabótakröfu og kröfu um miskabætur skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. sömu laga, frá tjónsdegi 29. apríl 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags skv. 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar í samræmi við framlagða tímaskýrslu eða að mati dómsins að teknu tilliti til þess að brotaþoli er ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi. Við þingfestingu málsins féll brotaþoli frá kröfu um skaðabætur en ítrekaði kröfu um greiðslu miskabóta.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða þóknunar sér til handa. Þá viðurkennir hann bótaskyldu vegna kröfu um greiðslu miskabóta en krefst þess að hún verði verulega lækkuð.

 

II

Við þingfestingu málsins var af hálfu ákæruvalds fallið frá eftirfarandi hluta verknaðarlýsingu í ákæru: …og tekið tvívegis í gikk hennar án þess að nokkuð gerðist… Játaði ákærði þá háttsemi sem lýst er í ákærunni þannig breyttri. Farið var með mál þetta samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu en ákæranda og verjanda ákærða var gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Játning hans er í samræmi við önnur gögn málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og teljast brot hans varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 12. gr., 1. mgr. 21. gr., og 1., sbr. 2. mgr. 23. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 1. mgr. 36. gr. sömu laga.

 

III

Ákærði er er fæddur árið […]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot. Ákærði var með dómi Héraðsdóms […] 30. september 2016 dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár vegna brots gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með broti sínu rauf ákærði skilorð þess dóms. Verður skilorðið nú tekið upp og refsing dæmd í einu lagi eftir ákvæðum 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hótun og vopnalagabrot. Brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Við ákvörðun refsingar ákærða er, ákærða til málsbóta, litið til skýlausrar játningar hans og þess að hann hefur samkvæmt fyrirliggjandi vottorði frá SÁÁ lokið þar meðferð og eftirmeðferð. Þá liggur fyrir staðfesting á því að ákærði hafi leitað sér sálfræðiaðstoðar og stundi vinnu. Einnig er, til refsiþyngingar, litið til alvarleika brotsins. Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Þrátt fyrir skilorðsrof eru ekki efni til annars en að dæma ákærða á ný til skilorðsbundinnar refsingar og skal því fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til 1. mgr. 37. gr. vopnalaga og 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er gerð upptæk til ríkissjóðs gasloftbyssa af gerðinni Daisy Powerline.

Í málinu hefur verið lögð fram miskabótakrafa af hálfu brotaþola. Ákærði viðurkenndi bótaskyldu en krafðist þess að krafan yrði lækkuð. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir hótun gagnvart tjónþola og á hann í samræmi við það rétt á miskabótum, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar, með hliðsjón af atvikum og afleiðingum brotsins, 200.000 krónur. Miskabótakrafan ber vexti eins og í dómsorði greinir. Ákærða var fyrst birt bótakrafan við þingfestingu málsins 8. mars sl. Í ljósi þess þykir rétt að dæmdar miskabætur beri fyrst dráttarvexti frá 8. apríl 2019, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Einnig er ákærði dæmdur til að greiða málskostnað lögmanns brotaþola, A, sem ákveðst 200.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þá ber ákærða, með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, eins og í dómsorði greiðir og hefur þá verið tekið tilliti til virðisaukaskatts. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk er gerð til ríkissjóðs gasloftbyssa af gerðinni Daisy Powerline.

Ákærði greiði A 200.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. apríl 2017 til 8. apríl 2019 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk 200.000 króna í málskostnað.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 150.000 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir