• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Útivist
  • Vörslur
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. S-283/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Óttari Vignissyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. júní sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 15. maí 2018, á hendur Óttari Vignissyni, kt. 000000-0000,   Framnesvegi 23, Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðar- og fíkinefna-lagabrot: 

                                                                                                                                                                               I.               

Umferðarlagabrot, með því að hafa:

 

1. Miðvikudaginn 28. september 2016 ekið bifreiðinni [---] austur Álfhólsveg, Kópavogi, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandi 0,48‰ og amfetamín 250 ng/ml).

 

2. Fimmtudaginn 17. nóvember 2016 ekið bifreiðinni [---] vestur Reykjanesbraut við Fitjar, Reykjanesbæ, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 570 ng/ml).

 

3. Sunnudaginn 5. febrúar 2017 ekið bifreiðinni [---] um Kirkjustræti, Reykjavík, óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandi 1,09 og amfetamín 120 ng/mg).

 

Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 auk þess sem háttsemi í 1. tölul. telst einnig varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. laganna og háttsemi í 3. tl. við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. laganna, allt sbr. 100. gr. sömu laga.

 

 

                                                                                                                                                                            II.               

     Fíkniefnalagabrot, með því að hafa:

 

4. Miðvikudaginn 28. september 2016 haft í vörslum sínum 0,94 g af amfetamíni sem fundust á gólfi bifreiðarinnar [---] við leit lögreglu í kjölfar afskipta sem frá er greint í 1. tölul. ákæru. 

 

5. Mánudaginn 6. mars 2017 haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, samtals 37,13 g af amfetamíni sem ákærði geymdi í fjórum smelluláspokum og lögregla fann við leit í úlpuvasa ákærða og í bifreiðinni [---] í kjölfar afskipta við Síðumúla 25 í Reykjavík.

 

6. Miðvikudaginn 21. júní 2017, haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni 7,30 g. af ecstasy sem lögregla fann við leit í úlpuvasa ákærða í kjölfar afskipta á Hringbraut í Reykjavík.

 

Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Loks er þess krafist að gerð verði upptæk 38,07 g af amfetamíni og 7,30 g. af ecstasy, sbr. ákærulið II., samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í mars 1987. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 8. maí 2018, var honum gerð sektarrefsing með dómi 11. desember 2013 vegna fíkniefnalagabrots.

Með hliðsjón af sakarefni þessa máls og umfangi þeirra ávana- og fíkniefna sem tilgreind eru í ákæru þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í 22 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 38,07 g af amfetamíni og 7,30 g af ecstasy, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 273.826 krónur í sakarkostnað.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Óttar Vignisson, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í 22 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 38,07 g af amfetamíni og 7,30 g af ecstasy.

Ákærði greiði 273.826 krónur í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir