• Lykilorð:

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 19. mars 2019  í máli nr. E-125/2018:

Guðmundur L Kristjánsson

(Lárus Sigurður Lárusson lögmaður)

gegn

Ægi Kára Bjarnasyni og

Lord ehf. til réttargæslu

(Sveinbjörn Claessen lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta sem var höfðað af Guðmundi L. Kristjánssyni, Skriðustekk 14, Reykjavík með stefnum birtum 21. desember 2017 á hendur Lord ehf., Lynghálsi 11, Reykjavík og 28. desember 2017 á hendur Ægi Kára Bjarnasyni, Dvergholti 6, Mosfellsbæ, var dómtekið 19. febrúar sl.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé réttur og löglegur eigandi að helmingshlut í einkahlutafélaginu Lord ehf., kt. 000000-0000, Lynghálsi 11, Reykjavík, samtals að nafnverði 250.000 krónum sem jafngildir 50 hlutum í félaginu. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu, auk greiðslu málskostnaðar.

 

II.

i)

Stefnandi og stefndi Ægir stofnuðu félagið Lord ehf. í febrúar 2004 og var eignarhlutur hvors um sig 50%. Samkvæmt samþykktum félagsins, dags. 18. febrúar 2004, var tilgangur félagsins rekstur fasteigna, eign og rekstur tækja, ráðgjöf, inn- og útflutningur og þátttaka í öðrum atvinnurekstri samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, dags. 18. febrúar 2004, voru kjörin í stjórn félagsins Sólveig Einarsdóttir, eiginkona stefnanda, en stefnandi og stefndi Ægir voru meðstjórnendur. Herdís Eyjólfsdóttir, eiginkona stefnda, var ráðin framkvæmdastjóri félagsins og með prókúru þess. Í tilkynningu til fyrirtækjaskrár sem einnig er dagsett sama dag kemur m.a. fram að stefnandi sé annar stofnenda félagsins, að hann sé meðstjórnandi og hafi prókúru fyrir félagið. Þar kemur einnig fram að hlutafé hafi verið greitt að fullu.

Í fyrsta ársreikningi Lord ehf. fyrir rekstrarárið 2004, voru málsaðilar tilgreindir stjórnarmenn félagsins og stefndi Ægir einnig skráður framkvæmdastjóri þess. Málsaðilar voru einnig tilgreindir hluthafar félagsins, með 50% eignarhlut hvor um sig. Eina eign félagsins var fasteignin að Lynghálsi 11, Reykjavík, sem félagið keypti 27. apríl 2004 af Þeir ehf.

Samkvæmt kaupsamningi um fasteignina rituðu málsaðilar undir kaupsamninginn f.h. Lord ehf. og undirgengust þeir báðir sjálfskuldarábyrgð gagnvart seljanda fasteignarinnar eins og nánar greindi í tölulið 23 í kaupsamningnum. Er þar átt við greiðslu að fjárhæð 6.600.000 krónur sem greiðast átti í tengslum við sölu á tilgreindum íbúðum að Andrésbrunni 17, Reykjavík, eigi síðar en 1. júní 2004, en íbúðirnar voru í eigu Trailer og tækja ehf. Væru íbúðirnar ekki seldar miðað við það tímamark lofaði kaupandi að greiða 1.100.000 krónur mánaðarlega, fyrst 5. júní 2004 þar til fullnaðargreiðsla hefði farið fram.

Þann 4. janúar 2005, gaf seljandi fasteignarinnar út afsal til Lord ehf. fyrir fasteigninni að Lynghálsi 11.

Báðir stjórnarmenn voru hluthafar í fyrrgreindu félagi, Trailer og tækjum ehf., á þessum tíma, sbr. ársreikning þess félags fyrir reikningsárið 2004.

Þann 5. apríl 2004 gaf Lord ehf. út veðskuldabréf að fjárhæð 9.900.000 krónur með veði í Lynghálsi 11. Undir skuldabréfið rita málsaðilar sem skuldarar f.h. Lord ehf., og einnig sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar.

Þann 15. október 2007 gaf Lord ehf. út annað veðskuldabréf að fjárhæð 13.600.000 krónur með veði í Lynghálsi 11. Undir skuldabréfið rita báðir málsaðilar sem skuldarar f.h. Lord ehf., en sjálfskuldarábyrgðaraðilar eru þar stefndi og eiginkona hans. Var lán þetta notað til endurfjármögnunar á eldra láninu frá árinu 2004 sem málsaðilar voru báðir í sjálfskuldarábyrgð fyrir eins og áður segir.

Þann 25. október 2007 var fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra tilkynnt um breytingu á stjórn Lord ehf., þar sem stefndi er tilkynntur sem formaður stjórnar og eiginkona og sonur meðstjórnendur og var tilkynningin til ríkisskattstjóra undirrituð af þeim. Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi eftir þetta enga aðkomu að Lord ehf.

 

ii)

Með bréfi, dags. 4. maí 2017 til stefnda, óskaði stefnandi eftir viðræðum við stefnda um kaup á hlutabréfum stefnanda í Lord ehf. Með bréfi stefnda, dags. 23. maí s.á., var þessari beiðni stefnanda hafnað með þeim rökum að stefnandi ætti engan hlut í Lord ehf., og að félagið væri þegar í 100% eigu stefnda.

Með bréfi stefnanda, dags. 30. maí 2017 til stefnda, fór hann fram á að stefndi legði fram gögn því til staðfestingar að hann væri eigandi að öllum eignarhlutum félagsins, svo sem kvittanir eða önnur gögn fyrir greiðslu innborgaðs hlutfjár. Þá óskað stefnandi eftir því að stefndi legði fram staðfestingu fyrir því að umrædd sala á eignarhlutum stefnanda til stefnda hefði farið fram, svo sem kaupsamning og afsal eða annars konar staðfestingu á eigendaskiptum félagsins. Bréfi þessu var svarað með bréfi stefnda, dags. 20. júní 2017, og vísað m.a. til bréfs Bókhaldsstofunnar Stemmu ehf., dags. 9. júní sama mánaðar sem fylgdi með bréfinu. Í bréfinu staðfestir starfsmaður bókhaldsstofunnar að stofan hafi skrifað upp á og fengið sannanir fyrir því á sínum tíma að innborgað hlutafé í Lord ehf. á árinu 2004, að upphæð 500.000 krónur hafi verið til staðar við stofnun félagsins og að stefndi Ægir hafi framvísað ávísun frá Renniverkstæði Ægis ehf., til staðfestingar á innborguðu hlutafé, þar sem Lord ehf. hafi ekki verið komið með bankareikning við stofnun félagsins. Þá segir í bréfinu að stefndi og eiginkona hans hafi frá upphafi stofnunar Lord ehf. verið í samskiptum við Bókhaldsstofuna Stemmu ehf. varðandi stofnpappíra, bókhaldsgögn, uppgjör, ársreikninga og framtöl fyrir félagið. Einnig hafi allar greiðslur vegna vinnu stofunnar fyrir Lord ehf. komið ýmist frá félaginu sjálfu eða Renniverkstæði Ægis ehf. Þá er einnig staðfest að stefnandi hafi aldrei verið í samskiptum við Bókhaldsstofuna Stemmu ehf. varðandi Lord ehf. og ekki lagt nokkra fjármuni til þess sem stofan viti.

Í skattframtali stefnda 2006 gerir stefndi grein fyrir eignarhlut sínum í Lord ehf. að nafnverði 250.000 krónur. Í skattframtölum hans á árunum þar á eftir, þ.e. 2007 til 2017, er einnig gerð grein fyrir eignarhlut stefnda í félaginu og nafnverðið þá hærra eða 500.000 krónur. Þá er eignarhlutur stefnda tilgreindur 100% í félaginu í ársreikningum Lord ehf. 2006-2016.

Í skattframtölum stefnanda 2006-2018 er eignarhlutur í Lord ehf. ekki á meðal framtalinna eigna stefnanda.

Samkvæmt ódagsettu eyðublaði, sótti stefnandi um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, skulu í umsókn skuldara um greiðsluaðlögum koma fram upplýsingar um eignir skuldara. Í umsókn stefnanda er ekki getið um eignarhlut hans í Lord ehf.

 

iii)

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu skýrslur vitnin Sólveig Einarsdóttir, eiginkona stefnanda, Herdís Eyjólfsdóttir, eiginkona stefnda, Unnur Rán Halldórsdóttir, starfsmaður Bókhaldsstofunnar Stemmu ehf., og Eyjólfur Unnar Eyjólfsson, mágur stefnda.

            Stefnandi kvað m.a. fyrir dóminum að hann hefði greitt sinn hluta stofnfjár Lord ehf. með peningum en kvaðst ekki eiga kvittun því til staðfestingar. Varðandi fjármögnun fasteignarinnar að Lynghálsi 11, þá hafi um 6.500.000 krónur komið úr sölu á íbúðum í Andrésbrunni sem hafi runnið inn í kaupverð á Lynghálsi 11. Auk þess hafi verið tekið lán hjá Íslandsbanka, sem hann hafi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Um endurfjármögnun á því láni geti hann ekki svarað. Þá staðfesti hann að aðkoma hans að Lord ehf. hefði verið lítil. Hann hafi verið verktaki hjá Renniverkstæði Ægis ehf. og hafi hætt þar haustið 2004.

            Sólveig Einarsdóttir kvaðst ekki hafa komið fram fyrir hönd félagsins. Lord ehf. hafi verið stofnað sem eignarfélag til að kaupa fasteign og Renniverkstæði Ægis ehf. leigði hana. Engin önnur starfsemi hafi verið í félaginu og engir starfsmenn. Bókhaldsstofan Stemma ehf. hafi séð um skattskil félagsins.

            Herdís Eyjólfsdóttir tók m.a. fram að félagið hefði verið stofnað í tengslum við kaup Lord ehf. á Lynghálsi 11. Greiðslum vegna sölu á íbúðum í Andrésbrunni hafi átt að ráðstafa upp í kaupverðið. Það hafi ekki gengið eftir og þá hafi Lord ehf. verið stofnað og Renniverkstæði Ægis ehf. greitt fyrir fasteignina. Þegar afsal fyrir Lynghálsi 11, hafi verið undirritað þá hafi á sama tíma verið gengið frá afsali stefnanda vegna Lord ehf. til stefnda. Viðstaddir afsalið voru Ægir og Guðmundur, Unnar bróðir hennar og einnig sonur hennar. Hún telur að afsalið hafi verið geymt með bókhaldi félagsins og hafi glatast þegar bókhaldinu var hent.

            Unnur Rán Halldórsdóttir hjá Bókhaldsstofnunni Stemmu ehf., staðfesti það sem fram kom í bréfi hennar. Hún hafi séð um að bóka fyrir Lord ehf. frá stofnun þess. Hún staðfesti að Renniverkstæði Ægis ehf. hefði greitt allt stofnfé Lord ehf.

            Eyjólfur Unnar Eyjófsson tók fram að hann hafi verið vottur á afsali þegar Guðmundur afsalaði Lord ehf. til Ægis og að Guðmundur hafi verið hættur að vinna á renniverkstæðinu þegar þetta gerðist.

 

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur sig eiga beinan eignarrétt að helmingshlut í einkahlutafélaginu Lord ehf. Vísar stefnandi til stofnsamnings félagsins frá 18. febrúar 2004. Stefnandi byggir á því að hann hafi greitt sinn eignarhlut við stofnun félagsins eins og samið hafi verið um á milli aðila. Engar greiðslukvittanir eða haldbær gögn hafi verið lögð fram af stefnda sem sýni fram á hið gagnstæða. Telur stefnandi að greitt hafi verið fyrir hluti á stofnfundi og í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og helmingur þeirra hafi verið í eigu stefnanda. Hafi aðkoma stefnanda að rekstri og fjárfestingum félagsins verið talsverð alveg frá upphafi. Hafi heimild fyrir eignarrétti stefnanda verið staðfest í ársreikningi félagsins fyrir reikningsárið 2004, sem lagður var fram á aðalfundi félagsins 31. maí 2005. Því eigi stefnandi rétt á grundvelli stofnsamningsins til að teljast hluthafi í félaginu með því hlutafé sem þar greinir og með vísan til 19. gr. laga nr. 138/1994. Þá telur stefnandi að ef komist verði að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi ekki greitt sinn hluta stofnfjár, þá breyti það engu um eignarhald stefnanda. Hvorki verði leitt af lögum né almennum reglum fjármunaréttar, að Renniverkstæði Ægis ehf. eða stefndi sjálfur, hafi með þessu öðlast rétt til að ganga inn í réttindi stefnanda sem hluthafa í félaginu. Hvernig staðið hafi verið að greiðslu hlutafjár skipti í raun engu máli um eignarhald stefnanda. Hann skuldi Renniverkstæði Ægis í mesta lagi 250.000 krónur, sé staðhæfing hans dregin í efa. Telur stefnandi að hann hafi sýnt nægjanlega fram á að hann sé réttur og löglegur eigandi að helmingshlut í Lord ehf.

            Stefnandi mótmælir því að gengið hafi verið frá eigendaskiptum á Lord ehf. á árinu 2005 eins og stefndi haldi fram. Engin gögn liggi fram sem staðfesti það, svo sem kaupsamningur eða afsal fyrir hlutafé stefnanda. Þá hafi stjórn félagsins ekki verið tilkynnt skriflega hin meintu eigendaskipti á árinu 2005, svo sem skylt var að gera, sbr. 1. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins. Á þeim tíma voru stefnandi og eiginkona hans enn í stjórn félagsins og allt þar til henni var breytt á ætluðum fundi 17. október 2007.

            Stefnandi vísar til 4. mgr. 19. gr. laga nr. 138/1994, og telur að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því að bindandi samningur um hlutafé stefnanda hafi stofnast með aðilum.

            Þá hafnar stefnandi að hann hafi sýnt af sér tómlæti í málinu eða að krafa hans sé niður fallin af þeim sökum. Jafnvel þó að litið verði svo á að stefndi hafi hagnýtt sér hlutafé stefnanda í nokkur ár án athugasemda frá stefnanda hafi það afskiptleysi ekki áhrif á eignarréttindi hans sem séu varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi telur að sönnunarbyrði um meinta eignarrétt hvíli á stefnanda. Það hafi honum ekki tekist.

Í fyrsta lagi sé stefnandi samkvæmt opinberum gögnum frá CreditInfo ekki eigandi hluta í neinu einkahlutafélagi, hvorki Lord né öðrum.

Í öðru lagi bendir stefndi á að ef stefnandi er eigandi 50% hluta í Lord ehf. þá hafi honum borið að upplýsa um þá eign sína í skattframtölum. Það hafi hann ekki gert.

Í þriðja lagi megi ráða af framlögðum skattframtölum stefnda að hann sé sannanlega eigandi allra hluta Lord ehf.

Í fjórða lagi vísar stefndi til þess að stefnandi leitaði eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara fyrir nokkrum árum síðan og mun umsókn hans hafa verið samþykkt. Í umsókn um greiðsluaðlögun þurfi m.a. að gefa upp tæmandi lista af eignum umsækjanda. Samkvæmt umsókn sem stefnandi hefur lagt fram sé Lord ehf. ekki tilgreint á meðal eigna hans.

Í fimmta lagi vísar stefndi til upplýsinga með ársreikningi Lord ehf. reikningsárin 2004-2015. Í fyrsta ársreikningnum, vegna rekstrarársins 2004, ársins sem félagið var stofnað, komi fram að innlendir hluthafar séu aðilar máls þessa með jafnan eignarhlut og að þeir séu báðir í stjórn félagsins. Ársreikningurinn hafi verið samþykktur á aðalfundi 31. maí 2006. Í öðrum ársreikningum sem liggi fyrir í gögnum málsins, þ.e. vegna rekstraráranna 2005-2015, sé stefndi einn tilgreindur sem eigandi félagsins og fyrir öllum hlutum þess.

Í sjötta lagi bendir stefndi á að stjórn og framkvæmdastjóri beri ábyrgð á gerð, skilum og birtingu ársreiknings einkahlutafélags sem þeir séu í fyrirsvari fyrir hvert reikningsár. Jafnframt skuli þeir undirrita ársreikninginn, sbr. 2. og 3. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Stefnandi hafi setið í stjórn Lord ehf. eftir eigendaskiptin árið 2005 til 17. október 2007 þegar tilkynning um skipti á stjórnarmönnum var send Fyrirtækjaskrá. Það þýði að stefnandi, sem sitjandi stjórnarmaður, hafi samþykkt reikningana athugasemdalaust og inntak þeirra, þ. á m. upplýsingar um eigendur félagsins. Með þessu hafi stefnandi viðurkennt að allir hlutir félagsins séu í eigu stefnda.

Þá liggi fyrir í gögnum málsins staðfesting Bókhaldsstofunnar Stemmu ehf., en stofan hafi verið skráð fyrir endurskoðun Lord ehf. frá upphafi. Í yfirlýsingunni sé staðfest að stofan hafi skrifað upp á og fengið sannanir fyrir því á sínum tíma að innborgað hlutafé í Lord ehf. árið 2004 að fjárhæð 500.000 krónur hafi verið til staðar við stofnun félagsins og hafi verið greitt með ávísun frá Renniverkstæði Ægis ehf. sem stefndi framvísaði. Stefnandi greiddi með öðrum orðum ekki fyrir sinn hluta í félaginu við stofnun þess.

            Að lokum bendir stefndi á að sinnuleysi stefnanda í garð félagsins hafi verið algjört, hann lagði enga fjármuni í félagið ásamt því að stefndi greiddi allan kostnað og hlutafé við stofnun félagsins. Kristallis eignaleysi stefnanda í Lord ehf. í því að hann var ekki lengur meðal sjálfskuldarábyrgðarmanna félagsins þegar lán þess voru endurfjármögnuð 15. október 2007, heldur kom eiginkona stefnda í hans stað. Samkomulag um sölu eignarhlutans hafi sannanlega verið ritað eins og staðfest hafi verið fyrir dómi. Samningurinn hafi verið efndur að fullu við undirritun enda hafði stefnandi ekki innt af hendi neina fjármuni í formi innborgaðs hlutafjár sem allt kom frá stefnda. Sú staðreynd að skriflegt eintak samningsins finnist ekki breyti ekki framangreindu. Stefnandi hafi sýnt af sér algjört tómlæti í meira en áratug og í engu aðhafst vegna hins ætlaða eignarhluta síns í Lord ehf. Hefði hann stigið fyrr fram með kröfu sína hefði stefnda verið kleift að hafa uppi á samkomulagi aðila frá árinu 2005. Allt bendi til þess að samkomulagið sé ekki til lengur af augljósum ástæðum. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald sé Lord ehf. bókhaldsskylt. Sem slíkt beri félaginu að varðveita bókhald sitt og fylgiskjöl í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs. Sá tími sé löngu liðinn og bókhaldi félagsins vegna rekstrarársins 2005 verið fargað, þ. á m. samkomulagi aðila, að öllum líkindum. Ekki er unnt að fallast á að stefnandi geti notið ávinnings af því að hafa haldið að sér höndum í allan þennan tíma.

 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi að viðurkennt verði að hann sé eigandi að helmingshlut í einkahlutafélaginu Lord. Vísar stefnandi m.a. til stofnsamnings félagsins 18. febrúar 2004 og þess að hann hafi greitt sinn eignarhlut við stofnun félagsins og sé því eigandi að helmingshlut þess. Þá hafnar hann því að hafa afsalað eignarhluta sínum til stefnda á árinu 2005 eða að hafa sýnt af sér tómlæti vegna málsins. 

Stefndi hafnar kröfu stefnanda. Stefndi reisir sýknukröfu sína m.a. á því að stefnandi hafi ekki greitt fyrir 50% eignarhlut sinn í félaginu og að stefnandi hafi á árinu 2005 afsalað eignarhlut sínum til sín. Afsalið sé glatað, en hann bendi á því til staðfestingar að stefnandi hafi í kjölfar undirritunar afsals ekki lengur verið í sjálfskuldarábyrgð vegna félagsins þegar lán þess voru endurfjármögnuð á árinu 2007. Þá hafi hann ekki getið um eignarhaldið í skattframtölum  sínum, hann sé ekki tilgreindur eigandi í ársreikningum félagsins eftir að afsalið fór fram og hafi hvorki lagt fjármuni inn í félagið né aðhafst nokkuð í tengslum við rekstur þess.

            Stefnandi var annar stofnandi þess einkahlutafélags sem hér um ræðir, Lord ehf. Samkvæmt stofnsamningi 18. febrúar 2004 var hlutafé ákveðið 500.000 krónur og ritaði stefnandi sig fyrir hlutafé að fjárhæð 250.000 krónum en stefndi Ægir fyrir sömu fjárhæð. Samkvæmt stofnfundargerð dagsettri sama dag var stefnandi ásamt tveimur öðrum mönnum kjörinn í stjórn félagsins og var einnig samþykkt að hann hefði prókúru fyrir félagið ásamt Herdísi Eyjólfsdóttur. Í tilkynningu til fyrirtækjaskrár sem einnig er dagsett sama dag kemur m.a. fram að stefnandi sé annar stofnenda félagsins, að hann sé meðstjórnandi og hafi prókúru fyrir félagið. Þar kemur einnig fram að hlutafé hafi verið greitt að fullu. Þá er þess getið í upplýsingum með ársreikningi fyrir reikningsárið 2004 að hluthafar séu tveir, þ.e. stefnandi og stefndi Ægir að 50% hlutum hvor. Loks skiptir máli að málsaðilar undirrituðu veðskuldarbréf 5. apríl 2004 f.h. félagsins með veði í Lynghálsi 11 og tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð í tengslum við kaup Lord ehf. á þeirri fasteign. Af þessum sökum verður að leggja til grundvallar í málinu að stefnandi hafi orðið eigandi að 50% hlut við stofnun félagsins. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt hann hafi hvorki getið eignarhlutarins í skattframtölum sínum né í umsókn sinni um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. 

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi selt stefnda Ægi hluta sinn með samningi 2005 en að sá samningur sé nú glataður. Ljóst er samkvæmt málsgögnum að stefnandi sat í stjórn félagsins til 17. október 2007 en þá var send tilkynning til fyrirtækjaskrár sem skilja má svo að stefnandi hafi gengið úr stjórn félagsins. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi Ægir getið þess í skattskilum sínum fyrir árið 2005 að hann sé eigandi hluta í Lord ehf. fyrir 250.000 krónur. Í skattskilum árið eftir og síðar er þessi hlutur hans hins vegar talinn 500.000 krónur. Í ársreikningi Lord ehf. fyrir árið 2004 er hlutur stefnanda talinn 50% og hlutur stefnda Ægis einnig 50%. Í ársreikningi 2005 og einnig síðar er hlutur stefnda Ægis talinn 100% í félaginu. Eins og fyrr greinir var stefnandi þá enn í stjórn félagsins og bar þar með ábyrgð á réttum upplýsingum í ársreikningi.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2004 var staða eigin fjár neikvæð um 954.423 krónur og fyrir árið 2005 var staða eigin fjár neikvæð um 2.109.294 krónur. Eins og fyrr greinir gaf Lord ehf. út nýtt veðskuldabréf, þann 15. október 2007, að fjárhæð 13.600.000 krónur í tengslum við endurfjármögnun á fyrri skuldum félagsins. Undir skuldabréfið rita málsaðilar báðir sem skuldarar f.h. Lord ehf., en stefndi og eiginkona hans tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna lánsins. Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi þannig leystur undan öllum skuldbindingum vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirrar frá 5. apríl 2004 sem fyrr greinir.

Með hliðsjón af framanrituðu verður að telja fram komnar vísbendingar sem nægja til að vefengja það að stefnandi sé nú réttur og löglegur eigandi að helmingshlut í einkahlutafélaginu Lord ehf. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 900.000 krónur málskostnað.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ægir Kári Bjarnason, er sýknaður af kröfum stefnanda, Guðmundar L. Kristjánssonar, í máli þessu.

            Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Ragnheiður Snorradóttir (sign.)